Frumvarp um greiðslujöfnun samþykkt
Frumvarp Jóhönnu Sigurðardóttur, félags- og tryggingamálaráðherra, um breytingu á lögum um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga, nr. 63/1985, var samþykkt á Alþingi í gær. Viðskiptavinir allra viðurkenndra lánastofnana sem eru með verðtryggð fasteignalán geta óskað eftir greiðslujöfnun lána sinna ef þeir telja það henta aðstæðum sínum. Umsókn um slíka breytingu skal koma á framfæri við viðkomandi lánastofnun og verður hún fólki að kostnaðarlausu. Sækja þarf um greiðslujöfnun í síðasta lagi 25. nóvember 2008 til að gjalddagar í desember verði greiðslujafnaðir. Eftirleiðis þarf að sækja um greiðslujöfnun fyrir 21. hvers mánaðar.
Greiðslujöfnun felur á engan hátt í sér eftirgjöf á skuldum heldur er í raun um frestun á hluta afborgana að ræða. Greiðslubyrði verðtryggðra lána hefur vaxið ört að undanförnu vegna mikillar verðbólgu, samhliða því að kaupmáttur fólks hefur rýrnað. Greiðslujöfnun er leið fyrir lántakendur til þess að brúa þetta erfiða tímabil með því að létta greiðslubyrðina tímabundið meðan niðursveiflan gengur yfir.
Til lengri tíma litið leiðir greiðslujöfnun til aukins kostnaðar í formi vaxta og verðbóta á upphæðina sem frestast og því er ekki sjálfgefið að fólk kjósi eða hafi hag af greiðslujöfnun. Hver og einn þarf að skoða þetta í ljósi aðstæðna sinna og taka ákvörðun í samræmi við það. Lántakendur geta sagt sig frá greiðslujöfnun síðar á lánstímanum ef aðstæður þeirra breytast til betri vegar.
Ekki er unnt að segja nákvæmlega fyrir um áhrif greiðslujöfnunar til lækkunar á greiðslubyrði lána í desember þar sem útreikningarnir byggja á spám. Þó er reiknað með að afborganir af lánum í desember verði að minnsta kosti 6% lægri hjá þeim sem velja greiðslujöfnun, en ella hefði orðið. Í febrúar er reiknað með að afborganir lána hjá þeim sem nýta sér greiðslujöfnun verði um 11% lægri en hjá þeim sem ekki fara þessa leið. Miðað við efnahagsspá Seðlabankans er áætlað að í lok næsta árs verði greiðslubyrði þessara lána um 17% lægri en hún yrði án greiðslujöfnunar.
Lög um breytingu á lögum nr. 63/1985, um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga
Spurt og svarað um greiðslujöfnun fasteignaveðlána