Stríðsátök, hungur og öfgaveður einkenndu árið sem er að kveðja
Árið sem er að kveðja var viðburðarríkt þegar horft er til mannúðarmála og þróunarsamvinnu og litið yfir fréttir úr Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þessa tvo stóru málaflokka. Mannúðarmálin voru fyrirferðarmest í 282 fréttum Heimsljóss á árinu, hörmungar í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu báru þar hæst en einnig kom Horn Afríku oft við sögu vegna matvælaskorts, þurrka, dýrtíðar og stríðsátaka. Sá heimshluti hefur verið á barmi hungursneyðar í marga mánuði.
Hundrað milljónir manna neyddust til að flýja heimili sín á árinu, fleiri en nokkru sinni fyrr. Innrásin í Úkraínu á stóran þátt í þeirri fjölgun en 7,8 milljónir manna hafa flúið átökin í landinu. Stríðsátök í Eþíópíu, Sýrlandi, Mjanmar, Jemen og Búrkínó Fasó leiddu til upplausnar samfélaga, auk þeirra þúsunda sem lentu á vergangi vegna loftslagsbreytinga, meðal annars í gífurlegum flóðum í Pakistan. Þá létust 15 þúsund íbúar Evrópu vegna hitabylgju síðastliðið sumar.
Í uppgjöri Sameinuðu þjóðanna um heilbrigðismál á árinu er varað við því að COVID-19 heimsfaraldurinn sé enn áhyggjuefni á heimsvísu. Dauðsföll af völdum COVID-19 voru komin í eina milljón í ágúst. Á árinu hafi einnig komið upp alvarleg tilvik kóleru, ebólu og apabólu – sem nú er nefnd mpox. Heilbrigðisstarfsfólki og fulltrúum hjálparsamtaka hafi tekist að hemja þessa lífshættulegu sjúkdóma. Einnig benda Sameinuðu þjóðirnar á að markmiðinu um að útrýma HIV/alnæmi fyrir árið 2030 sé ógnað en hins vegar hafi nýtt bóuefni gegn malaríu vakið vonir um að hægt sé að vinna bug á þeim banvæna sjúkdómi.
Á árinu var tilkynnt um þriðja samstarfsríki Íslands í tvíhliða þróunarsamvinunu, Síerra Leóne. Sendiráð verður opnað í Freetown á næsta ári en samstarf þjóðanna hófst árið 2018. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra fór í vinnuferð til Malaví fyrstu daga desembermánaðar, endurnýjaði þar samstarfssamning milli landanna og ýtti úr vör nýju þróunarverkefni í héraðinu Nkhotakota.
Í upphafi árs lét António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í ljós væntingar um að árið 2022 yrði ár batans. Það gekk ekki eftir.