Hoppa yfir valmynd
7. júlí 2021 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ný skýrsla OECD um íslenskt efnahagslíf: Ísland réttir úr kútnum eftir mikinn samdrátt í kjölfar heimsfaraldursins

Íslenskt efnahagsumhverfi varð fyrir miklu áfalli í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveirunnar en reiknað er með viðsnúningi með kröftugum vexti útflutnings einkum ferðaþjónustu. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um Ísland, sem birt var í dag. Skýrslur af þessu tagi eru gefnar út á tveggja ára fresti. Alvaro S Pereira, forstöðumaður skrifstofu efnahagsmála aðildarlanda OECD, kynnti helstu niðurstöður skýrslunnar á blaðamannafundi ásamt Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra. Að þessu sinni var auk venjubundinnar umfjöllunar um íslensk efnahagsmál sérstaklega fjallað um stuðning hins opinbera við nýsköpun og aðgerðir í loftlagsmálum.

Í megindráttum telur OECD að vel hafi gengið í baráttunni við faraldurinn og viðsnúningur sé fram undan í efnahagslífinu. Hagkerfið hafi sýnt viðnámsþrótt með öflugri einkaneyslu og vexti í öðrum útflutningi en ferðaþjónustu á tímum heimsfaraldurs. Peninga- og fjármálastefna hafi stutt vel við hagkerfið og rétt sé að viðhalda þeim stuðningi enn um sinn, en auka þurfi aðhaldið um leið og aðstæður leyfa með það að markmiði að stöðva skuldasöfnun líkt og stefnt er að í gildandi fjármálaáætlun.

Samantekt á áherslum og tilmælum OECD í skýrslunni

Stuðningur við efnahagsbatann eftir þörfum 

  • Laust taumhald peningastefnu en vera þó tilbúin að auka aðhald ef langtíma verðbólguvæntingar hækka.
  • Stjórnvöld haldi vöku sinni varðandi viðnámsþrótt fjármálakerfisins og heilbrigði.
  • Innleiða þær breytingar sem hvatt var til í samkeppnisskýrslu OECD um ferðaþjónustu og byggingariðnaðinn. 
  • Auðvelda aðgengi að störfum með því að fækka leyfisskyldum störfum.
  • Draga úr misvægi í hæfni vinnuafls og eftirspurn eftir þekkingu með því að hvetja fólk til náms í greinum þar sem framboð vinnuafls hefur verið takmarkað.
  • Styrkja starfsnám með því að tryggja aðgengi að starfsþjálfun og auðvelda aðgengi fólks með starfsnám á framhaldsskólastigi að háskólum.
  • Styrkja tengsl náms á háskólastigi og vinnumarkaðar með því að tengja hluta fjármögnunar háskólanáms við þarfir vinnumarkaðarins.

Nýsköpun er lykillinn að hagvexti 

  • Laga skattastyrkjakerfið betur að minni nýsköpunarfyrirtækjum. Kerfið sem hefur verið innleitt virðist gagnast stærri og rótgrónari fyrirtækjum betur. Minni fyrirtæki ná ekki að auka nýsköpun í takt við umfangið í stuðningi til þeirra.
  • Beina opinberum sjóðum sem sitja á áhættufjármagni í auknum mæli í samstarf við einkasjóði með meiri getu til að styðja við sprota og nýsköpunarfyrirtæki.
  • Auka framboð starfsnáms á háskólastigi og stuðla að auknu framboði frumkvöðlaáætlana.
  • Stuðla að samstarfi rannsóknarstofnana og atvinnulífsins og stuðla að þekkingarmiðlun ekki síst til sprota og smærri fyrirtækja.

Aðgerðir gegn lofslagsbreytingum 

  • Þróa samræmda umgjörð um loftlagsaðgerðir með skýrri forgangsröðun og aðgerðaáætlun og draga úr vægi tæknilegra ráðstafana.
  • Framkvæma kostnaðar- og ábatagreiningu fyrir loftlagsaðgerðir
  • Leggja kolefnisskatta eða aðra loftlagsskatta á allar greinar út frá losun þ.á.m. jarðhita, sorphirðu og landbúnað. Taka þarf þó tillit til samspils skattlagningar og viðskiptakerfis Evrópusambandsins.
  • Auka fjárfestingu í lágkolefna samgönguinnviðum, orkuskiptum og stafrænum innviðum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta