Hoppa yfir valmynd
31. maí 2024 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fjármálaráðherra opnaði fyrir viðskipti dagsins í Kauphöllinni í London

Ráðherra við opnun kauphallarinnar í morgun. Mynd/LSEG - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, opnaði í morgun fyrir viðskipti dagsins í Kauphöllinni í London, London Stock Exchange. Opnun ráðherra kemur í kjölfar farsællar skuldabréfaútgáfu ríkissjóðs í mars sl. Þá gaf ríkissjóður út grænt skuldabréf að fjárhæð 750 milljónir evra til 10 ára, sem samsvarar um 111 milljörðum króna, en þau voru gefin út undir sjálfbærum fjármögnunarramma ríkissjóðs.

Fjárfestar sýndu útgáfunni mikinn áhuga og nam eftirspurn um 7 milljörðum evra eða rúmlega nífaldri fjárhæð útgáfunnar. Fagfjárfestahópurinn samanstóð af seðlabönkum, bönkum, tryggingafélögum og öðrum fagfjárfestum, aðallega frá Norður-Evrópu. Umsjón útgáfunnar var í höndum JP Morgan, BNP Paribas, DZ bank og Nomura.

„Fyrsta græna skuldabréfaútgáfa ríkissjóðs sem gefið var út í mars markar upphaf vegferðar Íslands um sjálfbæra fjármögnun. Stjórnvöld hafa lagt mikla áherslu á sjálfbærni og hafa skýr markmið gagnvart umhverfinu. Þessi mikli áhugi fjárfesta er til marks um trúverðugleika stefnu Íslands í ríkisfjármálum og umhverfismálum sem undirstrikar þær alþjóðlegu skuldbindingar sem við höfum tekist á hendur,” segir Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, en andvirði útgáfunnar verður nýtt til að mæta kostnaði ríkissjóðs sem fellur til á næstu þremur árum vegna útgjalda sem falla undir skýrt skilgreinda flokka í sjálfbæra rammanum.

Auk ráðherra voru viðstödd athöfnina í kauphöllinni sendiherra Íslands í Bretlandi, Sturla Sigurjónsson, fulltrúar íslensks atvinnulífs með starfsemi í London og fulltrúar frá umsjónarbönkum grænu útgáfunnar.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum