Hoppa yfir valmynd
19. september 2018 Utanríkisráðuneytið

Markmið 13: Aðgerðir í loftslagsmálum

13. Aðgerðir í loftslagsmálum - mynd

Bráðaaðgerðir gegn loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra

Loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á náttúru og samfélög eru ein helsta áskorun alþjóðasamfélagsins. Áhrifin eru margbreytileg en breytingar á hitastigi jarðar, öfgar í veðurfari, bráðnun jökla, auknir þurrkar og hækkun sjávarborðs eru til marks um þær breytingar sem eru að verða á loftslagi jarðarinnar. Styrkur gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti heldur áfram að aukast og er nú í sögulegu hámarki. Ef ekkert verður að gert gæti meðalhiti jarðar hækkað um 3°C á þessari öld. Það myndi hafa mest áhrif á fátækustu og berskjölduðustu íbúa jarðarinnar. Markmiðið um aðgerðir í loftslagsmálum tekur fyrst og fremst til þessarar ógnar og miðar að því að lönd efli viðnámsþol og aðlögunargetu til að bregðast við afleiðingum loftslagsbreytinga á sama tíma og allt kapp er lagt á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Staðan nú og alþjóðlegar skuldbindingar Íslands

Ísland er aðili að Rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (Loftslagssamningi SÞ) og þar með aðili að Kýótó-bókuninni sem og Parísarsamningnum um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Loftslagssamningur SÞ er helsti vettvangur ríkja heims til þess að ná fram samningum um hnattræn viðbrögð við loftslagsbreytingum. Markmið Parísarsamningsins er að koma í veg fyrir að hitastig jarðar hækki um meira en 2°C og helst ekki meira en um 1,5°C miðað við meðalhitastig jarðar fyrir iðnvæðingu. Ísland ætlar að taka þátt í sameiginlegu markmiði með ríkjum Evrópusambandsins og Noregi um að draga úr losun um 40% frá því sem var árið 1990. Reiknað er með því að nánara útfært markmið um samdrátt í losun fyrir Ísland liggi fyrir á árinu 2018.

Losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi er mikil miðað við mannfjölda samanborið við mörg Evrópulönd, en hún var um 15,8 tonn koltvísýringsígilda á árinu 2015. Í Evrópusambandinu var þessi tala 8,7 tonn á mann á ári,63 en meðaltal á heimsvísu er um 6,5 tonn á mann á ári.64 Losun hér á landi er mest frá iðnaði og efnanotkun en þar á eftir kemur losun frá samgöngum á landi, landbúnaði og fiskveiðum. Ljóst er að á næstu árum þarf að grípa til umfangsmikilla aðgerða hér á landi til að draga úr losun svo uppfylla megi skuldbindingar Íslands gagnvart Loftslagssamningi SÞ. Ólíkt öðrum löndum er lítil losun frá orkuframleiðslu hér á landi og því litlir möguleikar til að draga úr losun í þeim geira þar sem bæði raforkuframleiðsla og húshitun á uppruna sinn í endurnýjanlegum orkuauðlindum landsins.

Áskoranir og aðgerðir

Mestu möguleikar til samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda felast í að skipta út jarðefnaeldsneyti í samgöngum á landi og í sjávarútvegi. Jafnframt þarf að horfa til aðgerða sem leiða til samdráttar í losun frá landbúnaði. Grænum hvötum og umhverfissköttum er nú beitt til að ýta undir þróun íslensks samfélags í átt að lágkolefnishagkerfi. Til dæmis er kolefnisskattur innheimtur af jarðefnaeldsneyti og opinber gjöld af visthæfum bílum (raf-, vetnis- og metanbílum) eru felld niður. Uppbygging innviða vegna rafbíla er einnig styrkt af hinu opinbera. Losun frá stóriðju fellur undir viðskiptakerfi Evrópusambandsins um losunarheimildir (ETS). Þar er losunarheimildum fækkað á hverju ári sem leiðir til samdráttar í losun. Núverandi ríkisstjórn vinnur að aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Í íslenska skólakerfinu er nú lögð töluverð áhersla á sjálfbærnimenntun, þar á meðal menntun um loftslagsbreytingar. Samkvæmt aðalnámskrá er sjálfbærni ein af sex grunnstoðum menntunar á Íslandi. Sömuleiðis má nefna verkefni Landverndar, Skólar á grænni grein, sem miðar að umhverfis- og sjálfbærnifræðslu fyrir nemendur á öllum skólastigum. Þátttaka í þessu valkvæða verkefni er góð en það nær til um þriðjungs leikskólanema og helmings grunn- og framhaldsskólanema á landinu. Við háskóla landsins er gott framboð af námsleiðum í umhverfis- og sjálfbærnifræðum. Ísland hýsir fjórar námsleiðir undir merkjum Háskóla Sameinuðu þjóðanna og þrír þeirra koma beint inn á málefni tengd sjálfbærni og loftslagsbreytingum (þ.e. Jarðhitaskóli SÞ, Jafnréttisskóli SÞ og Landgræðsluskóli SÞ). Þá er undir merkjum sóknaráætlunar í loftslagsmálum unnið að verkefni um íslenska jökla sem lifandi kennslustofu, þar sem m.a. er lögð áhersla á líkanareikninga á hörfun jökla, fargbreytingum, landrisi o.fl. Sérstök áhersla er lögð á að gera niðurstöðurnar sýnilegar og nýta til fræðslu.

Aðlögun og aukið viðnámsþol

Ljóst er að umhverfisbreytingar af völdum loftslagsbreytinga munu fela í sér nýjar áskoranir fyrir skipulagsgerð og hið byggða umhverfi, s.s. vegna hækkunar sjávarborðs og bráðnunar jökla. Í landsskipulagsstefnu fyrir árin 2015- 2026 er fjallað um hve mikilvægt sé að horfa til þess hvernig draga megi úr losun gróðurhúsalofttegunda við gerð skipulags. Jafnframt skal í skipulagi taka tillit til mögulegra áhrifa af völdum náttúruhamfara og loftslagsbreytinga. Er þar m.a. horft til breytinga á rennsli jökuláa, hækkandi sjávarstöðu, aukinnar flóðahættu og sandfoks.

Aðlögun að loftslagsbreytingum snýst um að draga úr tjóni vegna líklegra breytinga og nýta þjóðinni til hagsbóta þær breytingar sem gefa tilefni til slíks. Á Veðurstofu Íslands er unnið að verkefni sem felst m.a. í samhæfingu á rannsóknum og eftirliti á náttúrufarsbreytingum, gerð sviðsmynda um líklega þróun loftslags á Íslandi og úttekt á aðlögunarþörf vegna afleiðinga loftslagsbreytinga hér á landi, s.s. breytinga á sjávarstöðu, gróðurfari og jöklum. Verkefnið er unnið í samráði við hagsmunaaðila. Upplýsingar um áhrif og aðlögun að loftslagsbreytingum eru m.a. birtar í skýrslu ráðuneytisins til Loftslagssamnings SÞ.

Með loftslagsbreytingum má gera ráð fyrir að fjölga muni tilfellum skriðufalla og sjávarflóða. Á Veðurstofunni hefur verið unnið kerfisbundið að hættumati ofanflóða og einnig er vinna við eldgosa-, vatnsog sjávarflóðahættumat hafin. Í Stjórnarráði Íslands er unnið að því að koma gerð hættu- og áhættumats vegna náttúruvár á Íslandi í formlegt ferli (sbr. lög 49/1997 um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum) og er stefnt að því að Hamfarasjóður myndi umgjörð um slíkt ferli.

Ísland á alþjóðlegum vettvangi

Ísland var meðal fyrstu ríkja til að fullgilda Parísarsamninginn og mun samkvæmt því leitast við að ná sameiginlegu markmiði með ríkjum ESB og Noregi um 40% minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda árið 2030. Áherslur íslenskra stjórnvalda á endurnýjanlega orku og sjálfbæra landnýtingu vinna einnig að þessu markmiði, m.a. í gegnum Háskóla SÞ og alþjóðlegar stofnanir. Ísland veitir einnig fé í Græna loftslagssjóðinn (e. Green Climate Fund) og í sjóð sem hefur að markmiði að auka hlut kvenna frá þróunarlöndum í alþjóðlegum viðræðum um loftslagsmál (e. Womens’ Delegate Fund). Framlög Íslands til Græna loftslagssjóðsins nema 200 þúsund bandaríkjadölum á ári á tímabilinu 2016-2020.

 

63 Eurostat.

64 World Resources Institute.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

13. Aðgerðir í loftslagsmálum

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta