Hoppa yfir valmynd
20. nóvember 2024 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 851/2024 Úrskurður

Hinn 20. nóvember 2024 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 851/2024

í stjórnsýslumáli nr. KNU24020164

 

Kæra [...]

á ákvörðun Útlendingastofnunar

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 20. febrúar 2024 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari Svíþjóðar ( hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. febrúar 2024, um brottvísun og endurkomubann til Íslands í tíu ár.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi. Til vara krefst kærandi þess að felld verði úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar um að kærandi skuli sæta endurkomubanni.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ákvæði laga um landamæri nr. 136/2022, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, EES-samningurinn, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/38 um rétt borgara Sambandsins og aðstandenda þeirra til frjálsrar farar og dvalar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna, auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Hinn 26. júní 2023 skráði kærandi fyrst dvöl sína hér á landi. Með bréfi Útlendingastofnunar, dags. 15. desember 2023, var kæranda tilkynnt að til skoðunar væri að brottvísa honum og ákvarða endurkomubann með vísan til 1. sbr. 2. mgr. 95. gr. laga um útlendinga vegna áhættumats lögreglu og afbrotahegðunar kæranda. Í bréfi Útlendingastofnunar var m.a. vísað til áhættumats lögreglu vegna kæranda og tengsla hans við skipulögð glæpasamtök í heimaríkinu, ásamt afbrotaferli kæranda þar í landi. Þá kom einnig fram í bréfinu að kærandi hefði ekki stundað atvinnu hér á landi en tvívegis verið skráður í staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra vegna greiðslna frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Tilkynningin var birt fyrir kæranda 18. janúar 2024 en kærandi lagði fram andmæli vegna málsins með greinargerð, dags. 22. janúar 2024. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. febrúar 2024, var kæranda vísað brott frá Íslandi á grundvelli 1. og 2. mgr. 95. gr. laga um útlendinga og honum ákveðið endurkomubann til landsins í tíu ár. Ekki liggur fyrir staðfesting á því hvenær ákvörðunin var birt fyrir kæranda. Með tölvubréfi, dags. 20. febrúar 2024, var ákvörðunin kærð til kærunefndar útlendingamála. Með tölvubréfi, dags. 5. mars 2024, lagði kærandi fram greinargerð ásamt frekari fylgiskjölum.

Kærandi er ríkisborgari Svíþjóðar og nýtur dvalarréttar hér á landi eftir ákvæðum XI. kafla laga um útlendinga. Með hliðsjón af framangreindu frestaði stjórnsýslukæra réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar á meðan málið er til meðferðar hjá kærunefnd, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 103. gr. laga um útlendinga.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Í röksemdum kæranda er vísað til æsku hans og flutnings frá Sómalíu til Svíþjóðar og síðan aftur til Sómalíu þar sem kærandi kveðst hafa verið í fangelsi í tvö ár, vegna mútugreiðslna föður kæranda til sómalskra lögregluyfirvalda. Að fangavist lokinni hafi kærandi farið til Svíþjóðar að nýju en hann taldi sér ekki fært að búa þar í landi og flutti því til Íslands. Fram kemur að kæranda hafi verið ókleift að fá atvinnu hér á landi þar sem hann var í gæsluvarðhaldi þegar ráðningarviðtal átti að eiga sér stað. Umrætt sakamál hafi síðar verið fellt niður og starfar kærandi á veitingastaðnum [...] á [...]. Kærandi kveður upphaf dvalar sinnar hér á landi ekki hafa gengið snurðulaust fyrir sig, og kveðst hann hafa verið sakaðan um aðild að hinum og þessum sakamálum sem brottvísunarákvörðun Útlendingastofnunar byggist á.

Kærandi vísar til beiðni lögreglu um athugun á skilyrðum brottvísunar gagnvart kæranda og að Útlendingastofnun hafi sent honum tilkynningu um hugsanlega brottvísun og endurkomubann. Stofnunin hafi í kjölfarið tekið ákvörðun gegn kæranda, með vísan til 1. sbr. 2. mgr. 95. gr., sbr. og 1. mgr. 96. gr. laga um útlendinga. Niðurstaða í máli kæranda byggi á því að kærandi sé hluti af samtökum í Svíþjóð sem nefnist [...], sem stundi skipulagða glæpastarfsemi og taki að sér verkefni gegn greiðslu á borð við fjársvik og ofbeldisbrot. Enn fremur hafi kærandi verið til rannsóknar hjá lögreglu í fimm málum, þar sem hann sé grunaður um tólf refsiverð afbrot. Niðurstaða Útlendingastofnunar mæli fyrir um að hagsmunir sem íslenska ríkinu beri að vernda séu slíkir að mikilvægt sé að sporna við því að samtök sem kærandi sé talinn hluti af skjóti rótum sínum hér á landi. Þar að auki hafi kærandi gerst sekur um brot sem eru með þeim hætti að vera hans ógni lífi og heilsu annarra borgara. Hvað endurkomubannið varðar taldi Útlendingastofnun að með hliðsjón af alvarleika brota kæranda og hættueiginleika meðlima alþjóðlegra glæpasamtaka þyki endurkomubannið hæfilega ákveðið til tíu ára. Kærandi telur staðhæfingar Útlendingastofnunar haldlausar og að þær eigi sér enga stoð í raunveruleikanum, verði því niðurstaða ekki byggð á þeim.

Kærandi vísar til takmarkana á brottvísun, með hliðsjón af 97. gr. og 2. mgr. 102. gr. laga um útlendinga enda sé hann norrænn ríkisborgari. Kærandi telur að skilyrði til brottvísunar eftir ákvæðum 95. gr. laga um útlendinga séu ekki uppfyllt. Í fyrsta lagi vísar hann til þess að framferði hans hafi ekki verið með þeim hætti að það feli í sér raunverulega, yfirvofandi og nægilega alvarlega ógn gagnvart grundvallarhagsmunum samfélagsins. Þar að auki telji kærandi brottvísun fela í sér verulega ósanngjarna ráðstöfun í skilningi 2. mgr. 97. gr. laga um útlendinga. Þá leiði sú staðreynd að kærandi hafi aldrei hlotið refsidóm til þess að skilyrði 2. mgr. 102. gr. laga um útlendinga séu ekki uppfyllt.

Kærandi hafnar því að vera hluti af glæpasamtökum þeim sem Útlendingastofnun vísar til í ákvörðun sinni og kveðst aldrei hafa heyrt um þau. Ekkert í málinu staðfesti staðhæfingar lögreglunnar þess efnis. Kærandi vísar til þess að hafa ekki fengið afhent áhættumat lögreglunnar og eigi erfitt með að taka til varna vegna þess. Enn fremur sé ekkert í háttsemi kæranda sem gefi lögreglu ástæðu til að ætla að hann tilheyri skipulögðum glæpasamtökum. Þar að auki bendi ekkert til þess að kærandi sé staddur hér á landi með það að markmiði að stunda skipulagða glæpastarfsemi sem feli í sér m.a. alvarleg ofbeldisbrot, líkt og Útlendingastofnun heldur fram. Kærandi telur áhættumat lögreglu sé eingöngu byggt á matskenndum fyrirframgefnum hugmyndum lögreglu um kæranda sem settar séu fram í þeim tilgangi einum að brottvísa kæranda og geti sem slíkt ekki haft þýðingu í málinu.

Þá vísar kærandi til þess að rangfærslur séu í ákvörðun Útlendingastofnunar varðandi opin mál hjá lögreglu. Fram kemur að lögregla hafi tilkynnt kæranda um niðurfellingu tveggja mála og í því þriðja ætti hann frekar að hafa réttarstöðu vitnis en sakbornings. Í fjórða málinu hafi kærandi upplýst að hann hafi hvergi verið nærri vettvangi og kærandi kveður það óskiljanlegt að hann hafi stöðu sakbornings í fimmta málinu, sem varðar m.a. húsleit og upptöku muna og fíkniefna á stað sem hafi ekki verið heimili eða dvalarstaður kæranda.

Framangreindu til viðbótar telur kærandi að tíu ára endurkomubann stríði gegn meðalhófsreglunni og telur ekkert í gögnum málsins staðfesta með haldbærum hætti að viðvera kæranda ógni heilsu og lífi annarra borgara. Kærandi kveður íslenska ríkið hafa brugðist skyldum sínum gagnvart sér með tilbúningi ósannaðra málsatvika og matað Útlendingastofnun á ranghugmyndum um kæranda sem eigi sér enga stoð í raunveruleikanum.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í samræmi við 7. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, hefur tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/38 um rétt borgara Sambandsins og aðstandenda þeirra til frjálsar farar og dvalar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna verið tekin upp í íslenskan rétt, sbr. m.a. XI. kafla laga um útlendinga sem felur í sér sérreglur um útlendinga sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

Í 95. gr. laga um útlendinga er fjallað um brottvísun EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans. Samkvæmt 1. mgr. greinarinnar er heimilt að vísa EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans úr landi ef það er nauðsynlegt með skírskotun til allsherjarreglu, almannaöryggis eða almannaheilbrigðis. Í 2. mgr. 95. gr. laga um útlendinga segir að brottvísun samkvæmt 1. mgr. 95. gr. sé heimil ef framferði viðkomandi feli í sér raunverulega, yfirvofandi og nægilega alvarlega ógn gagnvart grundvallarhagsmunum samfélagsins. Ákvörðun um brottvísun skuli ekki eingöngu byggjast á almennum forvarnaforsendum. Ef viðkomandi hafi verið dæmdur til refsingar eða sérstakar ráðstafanir ákvarðaðar sé brottvísun af þessari ástæðu því aðeins heimil að um sé að ræða háttsemi sem geti gefið til kynna að viðkomandi muni fremja refsivert brot á ný. Fyrri refsilagabrot nægi ekki ein og sér til þess að brottvísun sé beitt.

Við túlkun á framangreindum lagaákvæðum ber að líta til dóma Evrópudómstólsins á þessu sviði, sbr. 6. gr. EES-samningsins og 2. mgr. 3. gr. samnings milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls. Í dómi Evrópudómstólsins í máli nr. C-41/74 (Van Duyn), frá 4. desember 1974, var staðfest að heimilt geti verið að takmarka landgöngu og dvöl, og vísa einstaklingi frá landi ef hann er meðlimur í félagi eða samtökum sem ógna allsherjarreglu eða almannaöryggi. Ekki er nauðsynlegt að félagið eða samtökin séu bönnuð í viðkomandi landi. Þessi skilningur hefur verið staðfestur í orðsendingu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins til Evrópuþingsins og ráðherraráðs Evrópusambandsins frá 2. júlí 2009 en þar er að finna leiðbeiningar um túlkun tilskipunar nr. 38/2004/EB. Samkvæmt dómafordæmum Evrópudómstólsins og framangreindri orðsendingu er ljóst að við túlkun og beitingu framangreindra ákvæða um allsherjarreglu eða almannaöryggi er stjórnvöldum falið svigrúm til að skilgreina nánar eigin þarfir og hvenær aðstæður eru slíkar að nauðsynlegt sé að takmarka frjálsa för til verndar allsherjarreglu eða almannaöryggi. Slíkt mat verði þó ávallt að hvíla á málefnalegum grundvelli og taka mið af inntaki skuldbindinga íslenska ríkisins.

Í dómi Hæstaréttar Íslands nr. 191/2012, dags. 17. október 2013, var íslenska ríkið sýknað af kröfu norsks ríkisborgara og meðlims í vélhjólasamtökunum Vítisenglar um skaða- og miskabætur vegna frávísunar frá landinu. Við meðferð málsins hjá Hæstarétti aflaði rétturinn ráðgefandi álits frá EFTA-dómstólnum varðandi túlkun á 27. gr. tilskipunar nr. 2004/38/EB, sbr. mál réttarins nr. E-15/12, dags. 22. júlí 2013. Í áliti EFTA dómstólsins kom m.a. fram að samkvæmt 27. gr. tilskipunarinnar hafi EES-ríki heimild til að synja ríkisborgara annars EES-ríkis um landgöngu með skírskotun til allsherjarreglu og/eða almannaöryggis á grundvelli hættumats eins og sér. Hættumatið verði að hafa að geyma mat á því hvert hlutverk viðkomandi einstaklings er í þeim samtökum sem hann er aðili að, ályktað sé í matinu að þau samtök hafi tengsl við skipulagða glæpastarfsemi og að sýnt sé fram á að þar sem slík samtök hafi skotið rótum hafi aukin og skipulögð glæpastarfsemi fylgt í kjölfarið. Slíkt hættumat verði einungis reist á framferði hlutaðeigandi einstaklings, sem verði þá að fela í sér raunverulega, yfirvofandi og nægilega alvarlega ógn við einhverja af grundvallarhagsmunum samfélagsins en þannig að gætt sé meðalhófs við takmarkanir á rétti til frjálsrar farar. Almennar forvarnarforsendur og ástæður óháðar efnisatriðum máls séu ekki tækar sem grundvöllur frávísunar og að fyrri sakfellingar vegna refsiverðrar háttsemi gefi einar og sér ekki tilefni til ráðstafana á grundvelli allsherjarreglu og almannaöryggis. Á hinn bóginn leiði af dómaframkvæmd Evrópudómstólsins að háttsemi, sem felist í þátttöku og starfsemi skipulagðra glæpasamtaka og endurspegli að auki samsömun við markmið þeirra og fyrirætlanir, kunni að vera álitin frjáls athöfn þess einstaklings sem um ræði og þar með þáttur í framferði hans í merkingu 2. mgr. 27. gr. tilskipunarinnar.

Fyrirliggjandi í gögnum málsins er áhættumat vegna aðildar kæranda að hópi sem stundi skipulagða glæpastarfsemi í nafngreindum úthverfum í [...] í Svíþjóð en í áhættumatinu er hópurinn nefndur eftir hverfunum [...], [...] og [...] [...]. Áhættumatið, sem dagsett er 31. október 2023, var unnið af greiningardeild ríkislögreglustjóra og embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, í samráði við héraðssaksóknara. Þar kemur m.a. fram að kærandi hafi verið handtekinn, ásamt fimm öðrum erlendum ríkisborgurum, í tengslum við íkveikju á bifreið lögreglumanns fyrir utan heimili lögreglumannsins. Vegna rannsóknar á verknaðinum hafi lögregla leitað til sænsku lögreglunnar með atbeina Interpol í Svíþjóð og upplýsingar sænsku lögreglunnar leitt í ljós að fjórir þeirra sem handteknir höfðu verið væru meðlimir áðurnefnds glæpagengis í Svíþjóð. Í Svíþjóð hafi þeir hlotið dóma, m.a. fyrir hótanir, rán, hnífaburð, fíkniefnabrot, skjalafals, hótanir gegn opinberum starfsmönnum, ofbeldi gegn lögreglumanni, líkamsárásir, mannrán, og fjárkúgun. Samkvæmt skýrslu sænsku lögreglunnar falli starfsemi samtakanna undir skilgreiningu Evrópusambandsins og Europol á skipulagðri brotastarfsemi en hópurinn samanstandi af 154 einstaklingum og hafi tekjur af afbrotum og kemur m.a. fram að hópurinn sinni verktöku við ofbeldisbrot o.fl.

Um kæranda sjálfan kemur fram í áhættumatinu að hann sé talinn þjóna hlutverki hægri handar leiðtoga hópsins á Íslandi en hann hafi engin fjölskyldutengsl við landið. Fram kemur að kærandi virðist ekki hafa ásetning um að aðlagast hér, stunda vinnu eða koma sér upp heimili. Þá kemur fram að kærandi hafi tvívegis verið sakfelldur í Svíþjóð fyrir þjófnað, og að hann eigi opin mál í refsivörslukerfinu þar í landi sem varði þjófnað á ökutækjum og stórfelldan þjófnað. Frá 20. júlí 2023 séu fjögur mál, sem varða 11 brot, til meðferðar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Nokkur afskipti hafi verið höfð af kæranda sem hafi reglulega verið í slagtogi með öðrum einstaklingum sem séu taldir tengjast skipulagðri brotastarfsemi. Niðurstaða áhættumats sé sú að flokka kæranda sem rauðan og sé ógn af honum talin trúverðug og líkleg. Að mati lögreglu sé vera erlendra meðlima glæpagengisins [...] talin ógna almannaöryggi og valda almannahættu á Íslandi. Þá álítur lögregla að sambærilegri mótspyrnu skuli beitt og gert hefur verið gegn meðlimum mótorhjólagengja, til þess að sporna við miklum vanda sem skipulögð glæpasamtök hafi valdið á hinum Norðurlöndunum.

Í áhættumatinu er fjallað um skipulagða glæpastarfsemi á Íslandi, með hliðsjón af skýrslu ríkislögreglustjóra, sem gefin var út árið 2021 en samkvæmt skýrslunni er áhætta vegna slíkrar starfsemi talin mjög mikil. Einkum er vísað til umsvifa á fíkniefnamörkuðum víða um heim, ásamt smygli á fólki, mansali, og umfangsmiklu peningaþvætti. Þá kemur fram í skýrslunni að líklegt sé að íslenskir, erlendir, og fjölþjóðlegir glæpahópar muni leitast við að auka umsvif sín á Íslandi á komandi árum, og væri sú þróun í takt við þróun á hinum Norðurlöndunum. Um samfélagsógn vísar áhættumatið til þess að skipulögð glæpagengi á borð við [...] hafi náð að skjóta rótum í Svíþjóð sem hafi haft í för með sér margvíslegan samfélagslegan vanda á borð við aukinn vopnaburð, fjölgun líkamsárása og manndrápa, og ógn gegn öryggi lögreglumanna. Í viðauka við áhættumat lögreglu koma fram öll opin mál hjá lögreglu er varða kæranda, miðað við stöðu 25. október 2023, en um er að ræða 14 afbrot, í fimm mismunandi málum. Viðaukinn tilgreinir einnig tvö lokin mál.

Samkvæmt áhættumati lögreglu á kærandi afbrotasögu á Íslandi og í Svíþjóð. Hann tilheyrir hópi sem grunaður er um skipulagða brotastarfsemi hér á landi og hefur verið viðriðinn skipulagða brotastarfsemi í Svíþjóð. Það er því mat lögreglu að dvöl kæranda á Íslandi sé ógn við allsherjarreglu og almannaöryggi og beri að brottvísa honum á grundvelli 95. gr. laga um útlendinga.

Skipulögð brotastarfsemi beinist gegn samfélaginu og öryggi almennings, og grefur undan öryggi borgaranna þar sem hún sniðgengur og vanvirðir þau grundvallarsjónarmið lýðræðissamfélags að halda uppi lögum og reglu. Hafa lögregluyfirvöld hér á landi þannig metið það svo með vísan til glæpagengisins og tengsla þeirra við skipulagða brotastarfsemi hér á landi og í Svíþjóð að nauðsynlegt sé að sporna við því að samtökin skjóti rótum hér á landi vegna þeirra samfélagslegu hagsmuna sem felist í vernd allsherjarreglu og almannaöryggis. Er í þessu sambandi einnig til þess að líta að löggjafinn hefur mótað skýra afstöðu gegn skipulagðri brotastarfsemi með setningu laga nr. nr. 149/2009, um breytingu á almennum hegningarlögum. Taka framangreind breytingalög m.a. mið af þjóðréttarlegum skuldbindingum íslenska ríkisins, sbr. Palermó-samning Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi, sem Ísland undirritaði árið 2000 og fullgilti árið 2010.

Af fyrirliggjandi gögnum málsins, þ.e. áhættumati ríkislögreglustjóra, og gagna sem aflað var við gerð matsins, liggur fyrir að kærandi tilheyri hópi sem hafi tengsl við skipulagða glæpastarfsemi. Á þeim tiltölulega skamma tíma frá því kærandi skráði fyrst dvöl sína hér á landi 23. júní 2023 hafi lögregla þurft að hafa ítrekuð afskipti af kæranda. Samkvæmt viðauka áhættumatsins á kærandi mikið af óloknum málum í refsivörslukerfinu með hækkandi alvarleikastigi. Þá verður einnig lagt til grundvallar að kærandi hafi reglulega verið í slagtogi við einstaklinga í hópi sem hafi verið í skipulagðri brotastarfsemi hér á landi og í Svíþjóð. Í áðurnefndum dómi Hæstaréttar nr. 191/2012, með hliðsjón af ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins nr. E-15/12, og úrskurðaframkvæmd kærunefndar, sbr. einkum úrskurði nefndarinnar nr. 631/2021, 632/2021, og 633/2021, sem kveðnir voru upp 15. desember 2021, hefur verið lagt til grundvallar að þátttaka í skipulagðri glæpastarfsemi, sem m.a. sækist í að skjóta rótum hér á landi, feli í sér raunverulega og alvarlega ógn við þá grundvallarhagsmuni samfélagsins að vernda allsherjarreglu og almannaöryggi. Þá grefur skipulögð glæpastarfsemi undan undirstöðuatriðum samfélaga á borð við virðingu fyrir lögum og reglu, viðmiðum um lögmæta framfærslu, og trausti gagnvart stofnunum samfélagsins. Með hliðsjón af framangreindu áhættumati, háttsemi kæranda hér á landi og í Svíþjóð og endurtekinna afskipta lögreglu sökum þess er það niðurstaða kærunefndar að skilyrðum fyrir brottvísun samkvæmt 1. og 2. mgr. 95. gr. laga um útlendinga sé fullnægt.

Kemur þá til skoðunar hvort takmarkanir séu á heimild til brottvísunar kæranda. Í 2. mgr. 97. gr. laga um útlendinga koma fram takmarkanir á heimild til brottvísunar samkvæmt 95. gr. laganna. Í ákvæðinu segir að brottvísun skuli ekki ákveða ef það með hliðsjón af málsatvikum og tengslum EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans við landið mundi fela í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart viðkomandi eða nánustu aðstandendum hans. Við matið skuli m.a. taka mið af lengd dvalar á landinu, aldri, heilsufari, félagslegri og menningarlegri aðlögun, fjölskyldu og fjárhagsaðstæðum og tengslum viðkomandi við heimaland sitt, sbr. 2. mgr. 97. gr. laga um útlendinga.

Röksemdir og málatilbúnaður kæranda fjallar einkum og sér í lagi um málsástæður Útlendingastofnunar og meðferð lögreglu á sakamálum á hendur honum. Þá liggja fyrir gögn sem sýna fram á atvinnuþátttöku kæranda hér á landi árið 2024. Enn fremur ber kærandi fyrir sig að fjölskylduaðstæður hans í heimaríki séu slæmar með tilliti til sambands við föður. Af málsatvikum má á hinn bóginn ráða að dvalartími kæranda hafi verið stuttur, og félagsleg og menningarleg aðlögun takmörkuð. Kærandi hefur ekki sýnt mikinn ásetning um virka þátttöku í íslensku samfélagi og fyrstu mánuði dvalar sinnar framfleytti hann sér með félagslegri aðstoð af hálfu Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Auk þess hafi kærandi ekki stundað atvinnu fyrr en eftir birtingu tilkynningar um hugsanlega brottvísun, en kærandi var fyrst skráður í staðgreiðslu vegna atvinnu í sama mánuði og Útlendingastofnun tók ákvörðun um brottvísun og endurkomubann kæranda. Þá er ekkert í gögnum málsins um fjölskylduhagsmuni hér á landi eða heilsufar sem bendir til þess að brottvísun væri ósanngjörn ráðstöfun gagnvart kæranda. Þar að auki er kærandi sjálfráða og þarf ekki að eiga í samskiptum við föður sinn frekar en hann kýs. Að framangreindu virtu telur kærunefnd að 2. mgr. 97. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir brottvísun kæranda frá landinu.

Fram kemur í 2. mgr. 102. gr. laga um útlendinga að norrænum ríkisborgara sem hefur verið búsettur hér á landi lengur en þrjá mánuði má því aðeins vísa frá eða úr landi ef refsiverð háttsemi hans geti varðað eins árs fangelsi eða meira. Í hinni kærðu ákvörðun vísaði Útlendingastofnun til þess að kærandi hafi réttarstöðu sakbornings í sakamálum sem varði eins árs fangelsi eða meira og taldi stofnunin áskilnaði lagaákvæðisins fullnægt þegar af þeirri ástæðu. Í málatilbúnaði sínum byggir kærandi hins vegar á því að hann hafi aldrei hlotið refsidóm og því séu skilyrði 2. mgr. 102. gr. laga um útlendinga ekki uppfyllt.

Ákvæði 2. mgr. 102. gr. laga um útlendinga kom fyrst í íslenska útlendingalöggjöf með setningu laga nr. 96/2002 og var þá í 2. málsl. 2. mgr. 20. gr. laganna en 20. gr. laganna fjallaði um brottvísun, þar sem mælt var fyrir um heimildir til brottvísunar í stafliðum a. til d. í 1. mgr. ákvæðisins. Ákvæði 1. málsl. 2. mgr. 20. gr. laganna laut að tengslum útlendings við landið með hliðsjón af ósanngjörnum ráðstöfunum gagnvart útlendingnum sjálfum eða nánustu ættingjum hans þegar ákvarða á brottvísun á grundvelli a-, b- eða c-liðar 1. mgr. laga um útlendinga nr. 96/2002. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga kom fram að við ákvörðun um brottvísun skv. a-, b- og c-lið 1. mgr. skuli horft til málsatvika og tengsla útlendingsins við landið. Skyldi ekki ákveða brottvísun ef hún myndi af þessum ástæðum fela í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum eða nánustu ættingjum hans. Þá gæti verið eðlilegt og sanngjarnt að meira þyrfti til að vísa útlendingi sem dveldist hefði í landinu um lengri tíma úr landi en þeim sem haft hefði stutta viðdvöl. Fjölskyldutengsl kæmu hér og til álita. Þannig væri ákveðið í 2. málsl. 2. mgr. 20. gr. að útlendingur sem hefði dvalarleyfi og norrænum ríkisborgara sem hefur átt heimili hér á landi lengur en þrjá mánuði mætti því aðeins vísa úr landi að hin refsiverða háttsemi gæti varðað eins árs fangelsi eða meira.

Samkvæmt framangreindu vildi löggjafinn gera sérstakar verndarráðstafanir í tilvikum sem varða brottvísun vegna brotaferils, hérlendis eða erlendis, svo og vegna alvarlegra eða margra brota gegn ákvæðum laga um útlendinga eða þegar útlendingar kæmu sér hjá því að hlíta ákvörðun sem fæli í sér skyldu til að yfirgefa landið. Sams konar heimildir til brottvísunar má nú finna í b-, c-, og d-lið 1. mgr. 98. gr. og a-, b-, og c-liðum 99. gr. núgildandi laga um útlendinga, en beiting ákvæðanna ræðst af því hvort viðkomandi útlendingur hafi dvalarleyfi í gildi eða ekki.

Af þessu verður dregin sú ályktun að ákvæði 2. mgr. 102. gr. sé ætlað að eiga við í þeim tilvikum þar sem beitt er heimildum laganna til að vísa útlendingi úr landi sem eiga við þegar fyrir liggur að útlendingur hafi framið refsivert brot. Verður þar af leiðandi að túlka orðalag ákvæðisins um að aðeins skuli vísa úr landi norrænum ríkisborgara því aðeins að „refsiverð háttsemi hans geti varðað eins árs fangelsi eða meira“ á þann veg að það eigi aðeins við þegar grundvöllur brottvísunar er reistur á refsiverðri háttsemi. Hefur löggjafinn ekki mælt fyrir um sömu verndarsjónarmið vegna ákvarðana um brottvísun þegar það er nauðsynlegt vegna öryggis ríkisins eða almannahagsmuna, sbr. þágildandi d-lið 1. mgr. 20. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002, sbr. til hliðsjónar f-lið 1. mgr. 98. gr. og d-lið 1. mgr. 99. gr. núgildandi laga um útlendinga. Ekkert í framþróun laga um útlendinga, sbr. einkum breytingalög nr. 64/2014, og gildistaka núgildandi laga um útlendinga nr. 80/2016 bendir til þess að löggjafinn hafi ætlað sér að breyta inntaki og efni ákvæðisins en það var fært undir 102. gr. núgildandi laga um útlendinga sem fjallar með heildstæðum hætti um vernd gegn frávísun og brottvísun.

Ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun og endurkomubann kæranda grundvallast ekki á brotaferli, sbr. til hliðsjónar c-, og d-lið 1. mgr. 98. gr. og b-, og c-lið 1. mgr. 99. gr. núgildandi laga um útlendinga. Þvert á móti byggist ákvörðunin á allsherjarreglu og almannaöryggi. Að teknu tilliti til framangreindrar umfjöllunar verður ekki lagt til grundvallar að ætlun löggjafans með lögfestingu 2. mgr. 102. gr. laga um útlendinga væri sá að brottvísun vegna almannaöryggis eða allsherjarreglu kæmi ekki til greina gagnvart norrænum ríkisborgurum.

Með hliðsjón af framansögðu er ljóst að brottvísun kæranda byggist ekki á refsidómum og því kemur áskilnaður 2. mgr. 102. gr. um lágmarksdvöl og lágmarksrefsingu samkvæmt lögum ekki til skoðunar. Það er því niðurstaða kærunefndar að lagaákvæðið standi ekki í vegi fyrir brottvísun kæranda.

Samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga um útlendinga felur brottvísun samkvæmt 1. mgr. 95. gr. í sér bann við komu til landsins síðar. Í sama ákvæði er kveðið á um að endurkomubann geti verið varanlegt eða tímabundið en þó ekki styttra en tvö ár. Við mat á því skuli sérstaklega litið til atriða sem talin eru upp í 1. og 2. mgr. 95. gr. laga um útlendinga. Með hinni kærðu ákvörðun var kæranda bönnuð endurkoma til Íslands í 10 ár. Að virtum málsatvikum og áhættumati lögreglu verður endurkomubann kæranda jafnframt staðfest. Athygli er vakin á því að samkvæmt 2. mgr. 96. gr. laga um útlendinga er heimilt að fella endurkomubann úr gildi ef nýjar aðstæður mæla með því og rökstutt er að orðið hafi verulegar breytingar á þeim aðstæðum sem réttlættu ákvörðun um endurkomubann. Þá er athygli kæranda jafnframt vakin á því að tímabilið sem kæranda er bönnuð endurkoma til landsins hefst við framkvæmd brottvísunar.

Vegna athugasemda kæranda um að hann hafi ekki fengið afrit af áhættumati lögreglu vill kærunefnd árétta að í tilkynningu um hugsanlega brottvísun, sem birt var fyrir kæranda 18. janúar 2024, voru helstu atriði áhættumatsins er varða kæranda og hugsanlega brottvísun hans rakin. Önnur atriði er fram koma í áhættumatinu eru almenns eðlis, auk upplýsinga sem ljóst er að kærandi hefur vitneskju um eða hagsmunir hans verða taldir eiga að víkja fyrir mun ríkari almanna- eða einkahagsmunum, sbr. 17. gr. stjórnsýslulaga. Með hliðsjón af framangreindu hefur andmælaréttur kæranda ekki verið skertur og hefur hann haft tilhlýðilegt ráðrúm til þess að koma á framfæri andmælum og athugasemdum.

Samantekt 

Að öllu framangreindu virtu verður ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun og endurkomubann kæranda staðfest. 

Athygli kæranda er vakin á því að samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin. 

Athugasemdir við málsmeðferð Útlendingastofnunar

Staðfest vottorð um birtingu ákvörðunar liggur ekki fyrir í gögnum Útlendingastofnunar og beinir kærunefnd því til stofnunarinnar að gæta betur að skjalavörslu og afhendingu gagna til kærunefndar vegna meðferðar kærumála. Framangreindur annmarki hefur þó ekki áhrif á niðurstöðu málsins, enda er ljóst að ákvörðunin er komin til vitundar kæranda, og naut hann aðstoðar lögmanns við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun og kærunefnd. Þá hefur kærandi ekki gert athugasemdir við birtingu ákvörðunar í röksemdum sínum.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

 

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta