Hoppa yfir valmynd
11. júlí 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 342/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 11. júlí 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 342/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19050001

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 30. apríl 2019 kærði […], fd. 1. […], ríkisborgari Íraks (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. apríl 2019, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt alþjóðleg vernd með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að honum verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.         Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 19. febrúar 2018. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 1. febrúar 2019 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 8. apríl 2019, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 30. apríl 2019. Kærunefnd barst greinargerð kæranda ásamt fylgigögnum þann 24. maí 2019. Þá bárust viðbótarathugasemdir og frekari fylgigögn þann 27. maí 2019. Þá mætti kærandi í viðtal hjá kærunefnd útlendingamála þann 4. júlí 2019.

III.        Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann verði fyrir mismunun í heimaríki vegna aðildar að tilteknum þjóðfélagshóp og að hann fái ekki viðeigandi læknisaðstoð vegna efnahagslegra aðstæðna sinna sem megi rekja til fötlunar hans.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.        Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi sé frá sjálfstjórnarhéraði Kúrda (Kurdistan Region of Iraq, KRI), sé fatlaður og glími við margskonar heilsufarsbresti vegna fötlunar sinnar. Kærandi hafi fæðst fatlaður og sé með bæklun á útlimum og glími við mikla verki í baki, fótum og líkamanum öllum sökum fötlunar. Kærandi hafi verið greindur með klumbufót, slitgigt, áfallastreituröskun og bakverk. Þá hafi kærandi farið í aðgerð hér á landi þann 16. október 2018 vegna kviðslits í nára. Samkvæmt komunótum frá Göngudeild sóttvarna sé kærandi með slitgigt í fjölmörgum liðum líkamans og þurfi af þeim sökum að fá spelkur fyrir hné, hækjur til þess að jafna þann þunga sem hvíli á fótunum og stuðningsbelti fyrir bak. Þá komi fram að allar daglegar athafnir valdi kæranda verkjum, þ.m.t seta. Vegna fötlunar sinnar teljist kærandi því einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi mætt reglulega til sálfræðings og sjúkraþjálfara meðan hann hafi dvalið hér á landi og hafi að auki aðgang að sundlaug á Grensási til endurhæfingar. Útlendingastofnun hafi við meðferð málsins hafnað því að heildstætt læknisfræði- og sálfræðimat yrði framkvæmt á kæranda án rökstuðnings. Heildstætt mat liggi því ekki fyrir á ástandi kæranda en sjúkraþjálfari hafi lagt ákveðið mat á veikindi hans, það sé þó háð takmörkunum þar sem það sé fyrst og fremst miðað út frá kviðslitsaðgerð sem kærandi hafi undirgengist.

Þá kemur fram að kærandi hafi í viðtali hjá Útlendingastofnun greint frá ástæðum þess að hann hafi þurft að flýja heimaríki sitt. Kærandi sé fæddur og uppalinn í Sulaymaniyah í KRI og tilheyri hann þjóðarbroti Kúrda. Kærandi sé í minnihlutahóp þar í landi vegna fötlunar sinnar. Kærandi hafi greint frá því að læknir í Kúrdistan hafi sagt honum að hann þyrfti aðgerð sem fyrst, annars eigi hann á hættu að missa annan fótinn þar sem svo mikill þungi hafi hvílt á honum vegna fötlunar hans. Kærandi hafi ekkert bakland né stuðning í heimaríki auk þess sem hann hafi átt erfiða æsku. Kærandi hafi átt bróður sem hafi búið á Englandi sem hafi stutt hann mikið en hann hafi látist þann […]. Þá hafi kærandi misst móður sína þegar hann var fjögurra ára gamall og stjúpmóðir hans hafi verið vond við hann. Hún hafi ekki viljað hafa kæranda á heimilinu og sent hann út til að betla og verða sér úti um pening með öðrum hætti. Kærandi hafi fengið lítið að borða á heimilinu og aldrei fengið ný föt. Þá hafi kærandi stundum verið látin sofa úti í kofa eða í ísköldu herbergi og stundum verið úti á götu. Kærandi hafi jafnframt orðið fyrir alvarlegu andlegu ofbeldi af hálfu föður síns og stjúpmóður en hann kveður föður sinn ekki hafa viljað eiga hann þegar hann fæddist og hent honum í ruslatunnu. Móðir hans hafi hins vegar bjargað honum en eftir að hún hafi látist hafi faðir hans ekkert gert til þess að aðstoða hann. Kærandi greindi frá því að hann hafi fengið styrk frá írakska ríkinu til þess að kaupa lyf og aðrar nauðsynjar en styrkurinn hafi borist mjög óreglulega, stundum aðeins einu sinni á ári og stundum á hálfsárs fresti. Kærandi kveður að styrkurinn hafi ekki dugað fyrir lyfjakaupum og þá hafi hann ekki fengið styrkinn síðastliðin tvö ár. Þegar kærandi hafi farið á spítala í KRI hafi honum verið sagt að hann gæti misst báða fætur og þá hafi hann ekki fengið aðstoð vegna nýrnavandamála sinna. Læknirinn hafi sagt að þau væru ónýt hvort sem er og hafi ekki viljað aðstoða hann. Þegar kærandi hafi komið hingað til lands hafi hann farið í aðgerð og kveðst kærandi ekki eiga í vandræðum með þvaglát líkt og áður. Kærandi hafi jafnframt greint frá því að það sé ekkert kerfi eða aðstoð fyrir fatlað fólk í Írak og því væri gert að bjarga sér sjálf. Kæranda hafi fundist hann einskis virði í heimaríki, enginn hafi sýnt honum virðingu og hann hafi orðið fyrir miklu einelti þar í landi sökum fötlunar sinnar.

Í greinargerð kæranda er að finna umfjöllun um réttindi fatlaðra í Írak og almenna umfjöllun um ástand mannréttindamála og vísar kærandi í alþjóðlegar mannréttindaskýrslur máli sínu til stuðnings. Kærandi bendir á að Írak hafi samþykkt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks en ekki undirritað hann en íslensk stjórnvöld hafi bæði undirritað og fullgilt hann. Samningurinn feli í sér jákvæðar skyldur aðildarríkja til þess að tryggja réttindi fatlaðra einstaklinga og beri heimildir með sér að mikið vanti upp á svo að samningnum sé framfylgt í Írak og að framkvæmdin þar í landi sé ekki í samræmi við lög. Kærandi bendir á ýmis réttindi fatlaðra sem felist í samningnum sem ljóst sé að kærandi njóti ekki. Kærandi hafi fæðst með fötlun og hafi ekki fengið viðeigandi aðstoð og endurhæfingu í heimaríki en læknir á Göngudeild sóttvarna hafi m.a. greint frá því að hefði kærandi fengið viðeigandi aðstoð sem barn væri ástand hans annað í dag.

Kærandi bendir jafnframt á að Írakar hafi búið við afar sérstakar og erfiðar aðstæður sem einkennist af átökum og áföllum sem þeim fylgi. Þessar aðstæður hafi haft áhrif á nokkrar kynslóðir íbúa sem geri það að verkum að erfitt sé að greina aðstæður þeirra sem glíma við fötlun. Kærandi bendir á að í skýrslum Sameinuðu þjóðanna séu engin haldbær gögn eða tölfræði um fjölda þeirra einstaklinga sem glími við fatlanir í Írak sem komi í veg fyrir að unnt sé að meta stöðu þeirra og þarfir af nokkurri nákvæmni. Heimildir beri með sér að einstaklingar með fötlun geti í ákveðnum tilvikum fengið örorkubætur, en skilyrði fyrir slíku séu ekki samræmd innan landsins, þ.e. varðandi alvarleika fötlunar, fjárhæð bótanna og aðgengi að bótunum. Þá komi fram að fatlaðir einstaklingar í Írak verði fyrir margs konar mismunun, sem hindri eða komi jafnvel í veg fyrir að þeir geti notið mannréttinda sem þeim séu tryggð í lögum eða geti tekið fullan þátt í samfélaginu. Þá bendi heimildir til þess að heilbrigðiskerfið í Írak sé komið út fyrir þanþol sitt, styrkja þurfi alla innviði heilbrigðiskerfisins og aðgangur að heilbrigðisþjónustu sé afar takmarkaður þrátt fyrir að hann eigi að vera tryggður samkvæmt stjórnarskrá ríkisins. Þá hafi úrræðum sem sérsniðin séu að fötluðum einstaklingum fækkað, t.a.m. stöðvum fyrir slitgigt líkt og kærandi þjáist af. Kærandi bendir jafnframt á að þrátt fyrir að ákvæði írakskra laga mæli fyrir um að óheimilt sé að mismuna fólki á grundvelli fötlunar sé það ekki raunin í framkvæmd. Starfstækifæri fatlaðra einstaklinga séu af skornum skammti og séu atvinnumöguleikar afar takmarkaðir. Mikill meirihluti, eða um 90 % fatlaðra einstaklinga í Írak búi við mikla fátækt og oft sé fjölskylda viðkomandi eini stuðningurinn. Þá komi fram í skýrslum að auk þess að skorta viðeigandi tækifæri og vernd standi fatlaðir einstaklingar í Írak frammi fyrir margþættri samfélagslegri mismunun, en almenningur líti ekki á fatlaða einstaklingar sem fullgilda þjóðfélagsþegna sem ýti undir frekara þunglyndi, kvíða og önnur neikvæð áhrif á þennan hóp samfélagsins.

Byggt er á því í greinargerð að kærandi sé flóttamaður samkvæmt skilgreiningu 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og eigi samkvæmt því rétt á að hljóta alþjóðlega vernd hér á landi á grundvelli 1. mgr. 40. gr. sömu laga. Byggt er á því í greinargerð að kærandi hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir þar sem hann tilheyri tilteknum þjóðfélagshópi, skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga sem fatlaður einstaklingur í KRI. Kærandi hafi orðið fyrir ofbeldi af hálfu fjölskyldu sinnar og samferðarfólks allt sitt líf ásamt því að hafa orðið fyrir mismunun og sé ljóst að hann geti ekki lifað mannsæmandi lífi þar í landi.

Til vara kveðst kærandi uppfylla skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið taki mið af tilskipun Evrópusambandsins nr. 2004/83/EB um lágmarksskilyrði til að ríkisborgarar þriðju landa eða ríkisfangslausir einstaklingar teljist flóttamenn eða menn sem að öðru leyti þarfnist alþjóðlegrar verndar og um inntak slíkrar verndar. Með vísan til framangreinds telji kærandi ljóst að raunhæf ástæða sé til að ætla að hann eigi á hættu pyndingar eða ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis. Einnig hafi Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna lagst gegn endursendingum til Íraks vegna vopnaðra átaka sem hafi átt sér stað þar. Með tilliti til þess hversu óstöðugt ástandið sé telji kærandi ótímabært að líta svo á að stríðsástandi í landinu sé lokið.

Til þrautavara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Þeirri kröfu til stuðnings vísar kærandi til framangreindrar umfjöllunar um aðstæður í Írak og aðstæðna hans sem fatlaður einstaklingur þar í landi. Ljóst sé að kærandi þurfi á aðstoð að halda til að geta sinnt daglegum þörfum og lifað mannsæmandi lífi, aðstoð sem hann fái ekki í heimaríki og sé ljóst að skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga séu uppfyllt í málinu.

Kærandi telur jafnfamt að með endursendingu hans til Íraks yrði brotið gegn meginreglunni um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki muni slík ákvörðun brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna. Kærandi gerir athugasemd við ákvörðun Útlendingastofnunar varðandi mat stofnunarinnar að kæranda standi til boða aðstoð og stuðningur yfirvalda í heimaríki vegna fötlunar sinnar. Kærandi vísar m.a. til framangreindra heimilda og mótmælir þeirri mynd sem dregin sé upp af stöðu fatlaðra einstaklinga í Írak í hinni kærðu ákvörðun. Þann 27. maí 2019 skilaði kærandi jafnframt inn viðbótarathugasemdum til kærunefndar útlendingamála þar sem framangreindar kröfur voru áréttaðar. 

V.         Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki lagt fram gögn til að sanna á sér deili. Var það mat Útlendingastofnunar að kærandi hefði ekki sannað með fullnægjandi hætti hver hann væri og því yrði leyst úr auðkenni hans á grundvelli trúverðugleikamats. Verður ekki annað séð af ákvörðun Útlendingastofnunar en að stofnunin hafi lagt til grundvallar að kærandi sé ríkisborgari Íraks. Við meðferð málsins hjá kærunefnd útlendingamála lagði kærandi jafnframt fram afrit af íröksku vegabréfi sínu og kennivottorði. Telur kærunefnd því ljóst að kærandi sé írakskur ríkisborgari. 

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Írak m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

·         Country Policy and Information Note Iraq: Internal relocation, civil documentation and returns (UK Home Office, 1. september 2018);

·         Country Policy and Information Note Iraq: Security and humanitarian situation (UK Home Office, 14. mars 2017);

·         Country Information and Guidance Iraq: Return/Internal relocation (UK Home Office, ágúst 2016);

·         Country Policy and Information Note – Iraq: Medical and healthcare issues;

·         Country Report on Human Rights Practices 2018 - Iraq (U.S. Department of State, 13. mars 2019);

·         EASO – Country of Origin Information Report – Iraq – Actors of Protection (European Asylum Support Office, nóvember 2018);             

·         Freedom in the World 2019 - Iraq (Freedom House, 4. febrúar 2019);

·         International Protection Considerations with Regard to People Fleeing the Republic of Iraq (UNCHR, maí 2019);

·         Iraq - Security situation. EASO Country of Origin Information report (EASO, 1. mars 2019);

·         Iraq - Targeting of Individuals (EASO, 7. mars 2019);

·         Irak: Basisinfo (Landinfo, 6. janúar 2016).

·         Irak: Politi og rettsvesen i de tre kurdiskstyrte provinsene (KRI) (Landinfo, 27. október 2016);

·         Iraq 2017 Human Rights Report (U.S. Department of State, 25. apríl 2018);

·         Iraq: Relevant COI for Assessments on the Availability of an Internal Flight or Relocation Alternative (IFA/IRA) (UNHCR, 12. apríl 2017);

·         Kurdistan Region of Iraq (KRI) - Report on issuance of the new Iraqi ID card (Udlændingestyrelsen, 5. nóvember 2018);

·         Northern Iraq - Security situation and the situation for internally displaced persons (IDPs) in the disputed areas, incl. possibility to enter and access the Kurdistan Region of Iraq (KRI) (Udlændingestyrelsen, 5. nóvember 2018);

·         Information on access and residency restriction for Iraqis originally from areas formerly held by ISIS or affected by conflict, (UNCHR, 25. apríl 2019);

·         Rättsligt ställningstagande angående situationen i Irak (Migrationsverket, 19. janúar 2018);

·         Thematic report: The Security Situation in Iraq -July 2016-November 2017 (version 4.0) (Migrationsverket, 18. desember 2017);

·         Rättsligt ställningstagande angående situationen i Irak (Migrationsverket, 19. janúar 2018);

·         Report on the Rights of Persons with Disablilites in Iraq (United Nations Assistance Mission for Iraq & United Nations of Human Rights, Office of the High Commissioner for Human Rights, desember 2016);

·         Iraq - Rehabililtion & Disabilities, (World Health Organization, http://www.emro.who.int/irq/programmes/rehabilitation-disabilities.html, skoðað 6. júní 2019);

·         Report on Human Rights in Iraq July to December 2017 (UNAMI & OHCHR, 8. júlí 2018);

·         Values of Access to Justice and Persons with Disabilities in Iraq (USAID, mars 2014);

·         The future of health care in the Kurdistan Region – Iraq – Toward and Effective, High Quality system with an emphasis on Primary Care, (Rand Health Quarterly, 2014);

·         The Kurdistan Region of Iraq (KRI) Access, Possibility of Protection, Security and Humanitarian Situation (Udlændingestyrelsen, 1. apríl 2016) og

·         UNHCR position on returns to Iraq (UNHCR, 14. nóvember 2016).

Samkvæmt ofangreindum gögnum er Írak lýðræðisríki með rúmlega 40 milljónir íbúa. Írak varð til sem ríki eftir fyrri heimsstyrjöldina, þegar Þjóðabandalagið ákvarðaði núverandi landamæri Íraks. Ríkið var breskt yfirráðasvæði fram til ársins 1932, þá tók við tímabil sem einkenndist af pólitískum óstöðugleika sem lauk árið 1958 þegar komið var á fót lýðveldi í Írak. Árið 1945 gerðist Írak aðili að Sameinuðu þjóðunum og fullgilti ríkið bæði alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi ásamt alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1971. Ríkið fullgilti samning um afnám allrar mismununar gagnvart konum árið 1986, alþjóðasamning um vernd allra gegn mannshvörfum árið 2010 og samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 2011.

Í framangreindum gögnum kemur fram að frá árinu 1968 til 2003 hafi Írak verið alræðisríki sem hafi lotið stjórn Ba‘ath-flokksins. Stjórn flokksins hafi verið steypt af stóli í kjölfar innrásar bandaríska hersins og bandamanna þeirra í Írak árið 2003. Frá innrásinni hafi ástandið á mörgum svæðum í Írak verið óstöðugt. Hafi samtök sem kenna sig við íslamskt ríki (Daesh) hafið uppreisn árið 2014 og náð undir sig stórum landsvæðum. Frá þeim tíma hafi íröksk stjórnvöld, með aðstoð alþjóðasamfélagsins, náð miklum árangri í að ná aftur fullri stjórn yfir ríkinu þótt enn séu lítil svæði í vesturhluta landsins sem uppreisnarmenn hafi á valdi sínu. Þá hafi íröksk yfirvöld ekki fulla stjórn yfir hersveitum sínum og dæmi séu um að hersveitir á vegum yfirvalda fremji mannréttindabrot gegn almennum borgurum, þ. á m. ólögmætar aftökur og pyndingar í varðhaldi. Alvarleg mannréttindabrot og brot á mannúðarlögum hafi haft mikil áhrif á almenna borgara á þeim svæðum í Írak sem átökin hafi náð til. Af þeim sökum hafi Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna lagst gegn endursendingum Íraka frá þeim svæðum þar sem átök geisi og þar sem ástandið sé óöruggt eftir að hafa verið undir stjórn Daesh. Þá sé það mat stofnunarinnar að vegna almenns ástands í Írak, þ.m.t. vegna fjölda þeirra sem hafi þurft að flýja innanlands, sé í miklum meirihluta mála ekki grundvöllur til að líta svo á að Írakar frá þessum svæðum geti notið verndar í öðrum hlutum landsins.

Ráða má af framangreindum gögnum að spilling sé mikið vandamál í Írak, þar á meðal í stjórnmálum, löggæslu- og réttarkerfinu. Á undanförnum árum hafi talsvert verið unnið að því að uppræta spillingu af hálfu embættismanna í landinu og eitthvað hafi miðað áfram í þeim málum. Á tímabilinu 2005 til 2014 hafi íröksk stjórnvöld unnið í samstarfi við Evrópusambandið að umbótum á stofnunum ríkisins svo sem lögreglu, dómstólum og fangelsum landsins. Áætlunin nefnist The European Union Integrated Rule of Law Mission for Iraq (EUJUST-LEX-Iraq) og hafi m.a. 1800 lögreglumenn og 900 dómarar undirgengist þjálfun í því skyni að koma á skilvirkri laga- og mannréttindavernd.

Í framangreindum gögnum kemur fram að flestir Kúrdar í Írak búi í norðurhluta landsins. Áður en ráðist hafi verið inn í Írak árið 2003 hafi héruð í norðurhluta landsins lotið stjórn pólitískra yfirvalda Kúrda. Árið 2005 hafi Kúrdum verið tryggð svæðisbundin sjálfstjórn í stjórnarskrá Íraks og sé norðausturhluti landsins skilgreindur sem sjálfsstjórnarhérað Kúrda (e. Kurdish Region of Iraq (KRI)). Löggæsla sé mun markvissari í KRI, sé það landsvæði borið saman við suður- og mið-Írak. Stofnanir eins og lögregla, saksóknari, dómstólar og fangelsi séu til staðar á svæðinu og heyri þær undir svæðisstjórn Kúrda en ekki ríkisstjórn Íraks. Fyrir utan hefðbundna lögreglu sé KRI einnig með öryggissveitir sem nefnist Asayish. Hersveitir kúrdíska hersins, Peshmerga, tryggi að sjálfsstjórnarhéruð Kúrda séu tiltölulega örugg miðað við önnur svæði í Írak. Her Kúrda og öryggissveitir þeirra hafi unnið hörðum höndum við að verja svæðið gegn uppreisnarmönnum Daesh og annarra tengdra samtaka.

Af framangreindum gögnum má ráða að á undanförnum árum og áratugum hafi verið spenna milli Kúrda og stjórnvalda í Írak. Meðal annars hafi verið deilt um stærð þess svæðis sem lúti sjálfsstjórn Kúrda. Þann 25. september 2017 hafi farið fram atkvæðagreiðsla meðal íbúa KRI að tilstuðlan forseta KRI þar sem kosið hafi verið um stofnun sjálfstæðs ríkis KRI. Íröksk stjórnvöld hafi mótmælt atkvæðagreiðslunni og hafi ekki viðurkennt niðurstöður kosninganna. Tæplega 93 % kjósenda hafi kosið með sjálfstæði en fréttir hafi borist af því að minnihlutahópar á deilusvæðum hafi verið beittir miklum þrýstingi til að kjósa annaðhvort með eða á móti. Í kjölfar kosninganna hafi írakski stjórnarherinn tekið aftur stjórn yfir ytri landamærum Írak innan KRI og landssvæðum sem hafi verið undir stjórn kúrdískra yfirvalda frá árinu 2014, þ. á m. borgina Kirkuk. Þá hafi forseti KRI sagt af sér í nóvember 2017. Áratugum saman hafi tveir stjórnmálaflokkar verið ráðandi í KRIen það séu PUK flokkurinn (e. The Patriotic Union of Kurdistan) og KDP flokkurinn (e. The Kurdistan Democratic Party). Í september 2013 hafi orðið talsverðar breytingar þegar PUK flokkurinn hafi misst stöðu sína sem næststærsti flokkurinn til klofningsframboðsins Gorran (e. The Movement for Change). Í nýafstöðnum kosningum sem fram fóru þann 30. september 2018 hafi PUK flokkurinn endurheimt stöðu sína sem annar stærsti flokkurinn og KDP flokkurinn haldið stöðu sinni sem stærsti flokkurinn í KRI. Samband PUK flokksins og KDP hafi jafnan verið stirt og einkennst af vantrausti sem og vopnuðum átökum.

Í skýrslu utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna fyrir árið 2018 kemur fram að íröksk stjórnvöld hafi samþykkt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2013 en hafi ekki undirritað hann. Stjórnarskrá Íraks kveði á um jafnrétti allra fyrir lögum og kveður að auki á um að með lögum eða reglugerðum skuli stjórnvöld tryggja fötluðum einstaklingum þjónustu á sviði félags- og heilbrigðisþjónustu, vernd gegn mismunun, húsnæðisúrræði og aðgengi að umönnun og endurhæfingu. Í framangreindum skýrslum kemur jafnframt fram að félagsmálaráðherra Íraks leiði sjálfstæða nefnd sem fari með málefni fatlaðra í landinu og að sambærileg nefnd sé í KRI sem stýrt sé af sérstökum forstöðumanni innan ráðuneytisins. Þá kemur fram að einstaklingar með fötlun sem búi í KRI eigi rétt á fjárhagsstoð og almennri heilbrigðis – og endurhæfingarþjónustu uppfylli þeir ákveðin skilyrði örorku. Í KRI miðist veiting þjónustu við 40% örorku en á öðrum landssvæðum Íraks séu gerð skilyrði um allt að 75% örorku. Yfirvöld í Írak hafi í samstarfi við Alþjóðaheilbrigðismálastofnun unnið að ýmsum umbótum sem snúi að því að styrkja heilbrigðiskerfið, m.a. með því að bæta skráningarkerfi fyrir einstaklinga með fötlun og tryggja að kerfið mæti betur þörfum þeirra sem þurfi á henni að halda. Þrátt fyrir ákvæði stjórnarskrár og þessa viðleitni stjórnvalda þá kemur fram að skortur á upplýsingum um fjölda fatlaðra einstaklinga í Írak hafi hindrað heildstæða greiningu á þörfum þessa hóps í samfélaginu. Af þessum sökum standi fatlaðir einstaklingar frammi fyrir margvíslegum vandamálum við það að fá greiningu og skráningu á stöðu sinni, einstaklingar með geðræn vandamál séu sérstaklega í viðkvæmri stöðu. Einnig mæti fatlað fólk margvíslegum hindrunum hvað varðar aðgengi þeirra að námi, atvinnu, heilbrigðisþjónustu, réttarkerfinu, byggingum og annars konar opinberri þjónustu.

Í framangreindum gögnum kemur fram að styrkja þurfi innviði heilbrigðiskerfisins í Íraks, þar sem m.a. sé skortur á tækjabúnaði, menntuðu heilbrigðisstarfsfólki og rýmum fyrir sjúklinga. Heilbrigðiskerfið samanstandi af ríkisrekinni og einkarekinni heilbrigðisþjónustu. Opinber heilbrigðisþjónusta sé öllum aðgengileg gegn vægu gjaldi en hins vegar sé ekki öll þjónusta þar fyrir hendi. Heilbrigðiskerfið í KRI sé jafnframt aðgengilegt öllum, þ. á m. geðheilbrigðisþjónusta og beri heimildir með sér að hún sé almennt betri en á öðrum landsvæðum Íraks. Þá veiti heilsugæslustöðvar í Írak stuðning við einstaklinga með mikla fötlun, einkum líkamlega og útvegi þeim þá hjálpartæki, m.a. hjólastóla, hækjur, gervilimi og sjúkraþjálfun. Þó hafi verið gagnrýnt að skortur sé á hjálpartækjum og að þau tæki sem í boði séu uppfylli ekki gæðakröfur og valdi frekar ama en bæti lífsgæði fólks. Í skýrslum UNAMI og OHCHR frá árinu 2016 kemur fram að frjáls félagasamtök hafi frá árinu 2003 staðið að vitundarvakningu um málefni fatlaðra í Írak og þá einkum veitt fötluðum einstaklingum upplýsingar um réttarstöðu þeirra gagnvart stjórnvöldum. Viðhorf samfélagsins til fólks með fötlun hafi batnað á undanförnum árum í takt við aukna vitundarvakningu þó sé staðan að einhverju leyti önnur þegar komi að viðhorfi opinberra starfsmanna sem að komi oft fram af vanvirðingu. Þá ýti hin hefðbundnu karllægu gildi í samfélaginu undir það viðhorf að litið sé á fólk með fötlun sem veikburða og sem veikan hlekk í fjölskyldunni. Þá sé fjölskyldan, sem aðal umönnunaraðili fatlaðs einstaklings, jafnframt það afl sem styrkir hinn fatlaða einstakling, s.s. með því að aðstoða hann í daglegu lífi og við það að sækja sér þá nauðsynlegu þjónustu, sem og veikir hann með því að meðhöndla einstaklinginn líkt og hann sé ósjálfbjarga í stað þess að hvetja og efla til sjálfshjálpar og sjálfstæðis.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a.   ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c.   aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi hefur borið fyrir sig erfiðar aðstæður í heimaríki vegna aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi þar sem hann sé fatlaður einstaklingur. Kærandi verði fyrir mismunun af hálfu samfélagsins og stjórnvalda sem birtist m.a. í því að hann fái ekki þjónustu við hæfi. Kærandi telji þá mismunun sem hann standi fyrir vegna fötlunar sinnar jafngilda ofsóknum af hálfu stjórnvalda

Við meðferð málsins lagði kærandi fram heilsufarsgögn frá Göngudeild sóttvarna, bréf sambands fatlaðra í Kúrdistan, yfirlýsingu frá Þroskahjálp, bréf frá félagsráðgjafa Reykjavíkurborgar auk vottorða sálfræðings og sjúkraþjálfara. Þau gögn sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar gefa til kynna að einstaklingar með fötlun standi höllum fæti í samfélaginu að einhverju leyti. Hins vegar bera framangreind gögn jafnframt með sér að fötluðum standi margvísleg heilbrigðisþjónusta til boða í heimaríki kæranda og sé þjónustan í Kúrdistan jafnan betri en á öðrum landssvæðum ríkisins. Samkvæmt framlögðum læknisfræðilegum gögnum er kærandi metinn með 70% örorku en einstaklingar eigi rétt á fjárhagsstoð og almennri heilbrigðis– og endurhæfingarþjónustu í Kúrdistan séu þeir með hærri örorku en 40%. Ljóst er því að kærandi er innan viðmiðunarmarka auk þess sem hann greindi frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hann hafi fengið læknisþjónustu og styrki í heimaríki. Þá bera framangreind gögn með sér að stjórnvöld í Kúrdistan hafi sýnt viðleitni til umbóta í málefnum fatlaðra, m.a. með skipun sérstakrar nefndar um málefni fatlaðra og samþykkt samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í þeim gögnum sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar er ekkert sem gefur til kynna að íröksk stjórnvöld né stjórnvöld í Kúrdistan beiti fatlað fólk mismunun sem jafna megi til ofsókna. Það er því mat kærunefndar að þrátt fyrir að fatlaðir einstaklingar standi frammi fyrir ákveðnum hindrunum í Írak nái sú mismunun ekki því marki að teljast ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Þá benda önnur gögn málsins ekki til þess að slíkar ofsóknir hafi átt sér stað eða að kærandi eigi þær á hættu. Verði kærandi fyrir ofbeldi, áreiti eða hótunum í heimaríki sínu bera skýrslur um aðstæður í heimaríki kæranda sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar það með sér að hann eigi þess kost að leita aðstoðar og verndar yfirvalda. Þó að fallast megi á að skilvirkni lögregluyfirvalda og dómstóla í heimaríki kæranda sé að einhverju leyti ábótavant er það því mat kærunefndar kærandi hafi ekki sýnt fram á að stjórnvöld þar í landi vilji ekki veita honum aðstoð gegn ofbeldi eða öðru áreiti, m.a. með því að ákæra og refsa fyrir þær athafnir sem feli í sér ofsóknir, sbr. c-lið 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Eins og rakið er í greinargerð kærenda hefur Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna lagst gegn endursendingum einstaklinga til Íraks sem koma frá þeim svæðum þar sem átök geisa; þar sem ástandið er óöruggt eftir að hafa verið undir stjórn Daesh-samtakanna eða þeim svæðum þar sem Daesh sé enn við völd. Þá telur Flóttamannastofnun óráðlegt að senda einstaklinga frá slíkum svæðum til annarra svæða innan Íraks. Samkvæmt þeim gögnum og skýrslum sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar er ljóst að heimabær kæranda, Sulaymaniyah, sé á öruggu svæði í KRI. Verður því ekki talið að viðvörun Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna eigi við um einstaklinga sem séu í sambærilegri stöðu og kærandi.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 4. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Eins og að framan greinir benda skýrslur og gögn sem kærunefnd hefur farið yfir eindregið til þess að svæði Kúrdistan sé talið öruggt og að lögregla og öryggissveitir Kúrda séu öflugar og vel búnar. Þá sé heimabær kæranda, Sulaymaniyah, langt inni í landi Kúrdistan þar sem lögregla og öryggissveitir hafi stjórn á aðstæðum. Að teknu tilliti til gagna málsins og heimilda bendir ekkert til þess að raunhæf ástæða sé til að ætla að kærandi eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, eða að hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka, verði hann sendur aftur til Kúrdistan. Jafnframt er það mat kærunefndar, með vísan til gagna málsins, að kæranda standi til boða viðeigandi vernd og aðstoð lögreglu í Kúrdistan telji hann sig þurfa á slíkri aðstoð að halda.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga nr. 80/2016 kemur fram að erfiðar almennar aðstæður geta tekið til óvenjulegra aðstæðna á borð við náttúruhamfarir eða langvarandi stríðsástand í heimaríki. Langvarandi stríðstástand hafi ríkt í heimaríki kæranda og heldur kærandi því fram að yfirvöld í Írak geti ekki veitt honum þá vernd sem hann þarfnist. Af þeim gögnum og skýrslum sem kærunefnd hefur farið yfir má draga þá ályktun að þrátt fyrir að ótryggt ástand ríki á ákveðnum landsvæðum í heimaríki kæranda þá teljist svæðið þar sem kærandi hafði búsetu öruggt svæði. Kúrdistan sé jafnframt með virkt refsivörslukerfi sem geti veitt kæranda viðeigandi vernd.

Þá kemur fram í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga að með ríkri þörf um vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimalandi viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimalandinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.

Í athugasemdum er jafnframt fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli.

Líkt og að framan greinir er kærandi fatlaður einstaklingur sem greindur hefur verið með klumbufót, slitgigt og áfallastreituröskun. Kærandi hefur við meðferð málsins lagt fram ýmis heilsufarsgögn. Í vottorði sjúkraþjálfara dags. 12. maí 2019 kemur fram að kærandi sé í meðferð vegna verkja í kjölfar kviðslitsaðgerðar sem framkvæmd var í október 2018. Þar kemur m.a. fram að kærandi sé í verkja- og bólgueyðandi meðferð, hafi mætt í fjögur skipti og að sjúkraþjálfun skili sér tímabundið betur en verkir leiti í sama horf nokkrum dögum síðar. Erfitt sé að meta framtíðarhorfur hans en fimm mánuði vanti upp á að stöðugleikapunkti sé náð eftir aðgerðina. Í gögnum málsins má jafnframt finna vottorð sálfræðings þar sem kemur m.a. fram að kærandi hafi mætt í 14 viðtöl og að hann sé með mikil einkenni áfallastreitu, þunglyndis og kvíða auk þess sem hann sé með mjög lítið sjálfstraust vegna reynslu sinnar í heimaríki. Þá líkt og að framan greinir hefur kærandi lagt fram staðfestingu frá félagi fatlaðra í Kúrdistan að hann sé meðlimur samtakanna og sé metinn með 70% örorku. Kærandi hefur jafnframt greint frá því í viðtölum hjá Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála að hann hafi upplifað margvíslegt áreiti og útskúfun vegna fötlunar sinnar í heimaríki, m.a. í skólakerfinu. Kærandi hafi þá greint frá því að hann njóti ekki stuðnings fjölskyldu sinnar heldur þvert á móti hafi faðir hans snúið við honum baki og aðrir ættingjar séu óviljugir eða ófærir um að aðstoða hann. Hann hafi því ekkert bakland til að leita til í heimaríki. Einnig hafi kærandi greint frá því að hann hafi fengið greiddan styrk frá írakska ríkinu til að kaupa lyf og aðrar nauðsynjar. Greiðslur þessar hafi þó verið afar óreglulegar auk þess sem hann hafi ekki fengin neinar greiðslur síðastliðin tvö ár áður en hann hafi komið hingað til lands. Kærandi kvaðst því hafa reynt að vinna fyrir sér í heimaríki. Það hafi þó ekki verið auðhlaupið að því að fá vinnu og honum hafi gengið illa að sinna þeirri litlu vinnu sem hafi boðist vegna fötlunar sinnar.

Þær skýrslur og gögn sem að kærunefnd hefur yfirfarið um heimaríki kæranda benda til þess að þrátt fyrir að fatlaðir einstaklingar sæti ekki kerfisbundinni mismunun og að stjórnvöld hafi sýnt vilja til þess að bæta aðstæður og heilbrigðisþjónustu þessa hóps þá sé á brattann að sækja og mikilvægt að einstaklingar njóti stuðnings fjölskyldu sinnar til að lifa mannsæmandi lífi. Í ljósi framangreinds og þess að kærandi hefur ekkert bakland í heimaríki sínu og skortir alfarið stuðning fjölskyldu sinnar er það mat kærunefndar að kærandi hafi sýnt fram á að hann muni búa við afar bágar og erfiðar félagslegar aðstæður fari hann aftur til heimaríkis. Þessar sérstöku aðstæður kæranda auk þeirra erfiðleika sem hefur verið sýnt fram á að fatlaðir einstaklingar búi almennt við í heimaríki kæranda eru að mati kærunefndar, eins og hér stendur sérstaklega á, þess eðlis að kærandi telst hafa sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Niðurstaða kærunefndar er byggð á heildstæðu mati á þeim aðstæðum sem bíða kæranda í heimaríki.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndarinnar að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til þess sem að framan er rakið þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar hvað varðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda dvalarleyfi skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

 

 

 

Úrskurðarorð

Lagt er fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga. Ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda varðandi umsókn hans um alþjóðlega vernd er staðfest.

 

The Directorate of Immigration is instructed to issue residence permit for the appellant based on Article 74 of the Act on Foreigners. The decision of the Directorate of Immigration in the case of the appellant related to his application for international protection is affirmed.

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

Árni Helgason                                                                                    Þorbjörg Inga Jónsdóttir

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta