Hoppa yfir valmynd
20. febrúar 2007 Heilbrigðisráðuneytið

Upphaf framkvæmda við BUGL – ávarp ráðherra

Ágætu gestir.

Mörg orð hafa fallið og mikið vatn til sjávar runnið. En nú er tími framkvæmda runninn upp og komið að því að munda stærri skóflur en ég gerði hér áðan við byggingu nýs húsnæðis fyrir göngudeild Barna- og unglingageðdeildar Landspítala-háskólasjúkrahúss.

Að mörgu þurfti að huga þegar ákvörðun var tekin um framtíðaruppbyggingu BUGL. Margir kostir voru skoðaðir og sterklega kom til greina að flytja starfsemina í annan stað. Niðurstaðan varð hins vegar sú að nýta og endurbæta húsnæðið hér við Dalbraut þannig að hýsa megi starfsemina á þessum stað um nokkurt skeið. Nú liggja fyrir áform um stækkun og endurbætur í fjórum áföngum. Vinna við fyrsta áfangann hefst nú, það er nýbygging göngudeildar. Næstu áfangar fela í sér nýbyggingu iðjuþjálfunar og skóla, - viðbyggingu og endurinnréttingar innlagnadeilda og loks endurinnréttingu sameiginlegs hluta göngu- og innlagnadeilda.

Húsakostur starfsemi BUGL hefur verið þröngur og brýnt að laga aðstæður. Nú sjáum við fram á betri tíma þegar nýtt og glæsilegt tólfhundruð fjörutíu og fjögurra fermetra húsnæði verður tekið í notkun í maí á næsta ári. Unnt verður að fjölga viðtals- og meðferðarherbergjum og öll aðstaða færist í annað og betra horf.

Það ræðst af áherslum í starfsemi BUGL og stefnu Landspítala-háskólasjúkrahúss að fyrsti áfangi uppbyggingarinnar er bygging húsnæðis fyrir göngudeildarþjónustu. Þegar þess er kostur er æskilegast að veita þjónustu án innlagnar og raska þannig sem minnst daglegu lífi þeirra sem þjónustunnar þurfa með. Göngudeildarþjónusta hefur verið ört vaxandi þáttur í starfsemi BUGL en á síðasta ári voru komur á göngudeildina nærri fimm þúsund.

Ég er sannfærð um að arkítektum þessa húss og öðrum sem unnu að undirbúningi þess hafi tekist vel til við að hanna hér rými sem mun búa vel að sjúklingum og starfsfólki BUGL og enginn þarf að efast um að aðstæður allar munu stórbatna. Ég er líka viss um að Framkvæmd efh. mun vinna sitt verk með sóma og hlakka til að sjá húsnæðið fullbúið í maí á næsta ári.

Barna- og unglingageðdeild BUGL nýtur mikillar velvildar í samfélaginu og á sér marga velunnara. Það hafa sýnt þeir fjölmörgu sem stutt hafa starfsemina í orði og verki og þau fjölmörgu félagasamtök sem styrkt hafa áform um uppbygginguna með myndarlegum gjöfum. Þau hafa sýnt vilja og dug sem er ómetanlegur og ég vil þakka þeim sérstaklega fyrir. Af þeim sem helst má nefna eru Kvenfélagið Hringurinn, Barnaheill, Thorvaldsenkonur, Kiwanismenn, Fjörgynsmenn-Lionsmenn og kvenfélagasamtök auk margra annarra).

Í fjárlagagerðinni á síðasta ári lagði ég mikla áherslu á að ljúka fjármögnun göngudeildarbyggingarinnar og það tókst.

Að lokum við ég þakka starfsfólki BUGL fyrir mikið og gott starf. Starfsemin hér er viðkvæm og vandasöm, en að sama skapi afar mikilvæg fyrir fjölskyldurnar í landinu.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri en óska okkur öllum innilega til hamingju með daginn.

 Talað orð gildir.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta