Hoppa yfir valmynd
28. mars 2007 Heilbrigðisráðuneytið

Samstarf um aukið framboð á hollum matvörum

Ágætu fundargestir,

Mig langar til að byrja á að bjóða ykkur velkomin hér í dag. Ég fagna því hversu margir hafa séð sér fært að mæta, því það undirstrikar hversu mikilvæg umræðan um aukið framboð á hollum matvörum er. Sérstaklega vil ég þakka Samtökum iðnaðarins og fyrirlesurum fyrir að koma og taka þátt í þessum morgunverðarfundi og þann áhuga sem þeir hafa sýnt málefninu.

Í starfi mínu sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hef ég lagt mig fram um að vinna markvisst og skipulega að forvörnum og heilsueflingu. Fyrr á árinu lagði ég fram megináherslur mínar á þessu sviði þar sem ákveðið var að kanna grundvöll fyrir samvinnu heilbrigðisyfirvalda, matvælaframleiðenda og framreiðenda til að auka framboð af hollum matvörum og hóflegum skammtastærðum. Í framhaldi af því var ákveðið að koma saman hér í dag og ræða markaðssetningu, vöruþróun og skammtastærðir matvara.

Hollt matarræði er einn af undirstöðuþáttum góðara heilsu. Rannsóknir víða um heim sýna að ofeldi, óhollt matarræði og hreyfingarleysi eru alvarleg ógn við heilsu og lífsgæði. Samkvæmt Evrópuskýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar frá árinu 2005 raða þættir, sem varða næringu, holdarfar og hreyfingarleysi, sér í sex af tíu efstu sætum yfir þá þætti sem helst lækka lífaldur og minnka lífsgæði.

Niðurstöður rannsóknar sem fór fram hér á landi og birt var í Læknablaðinu á árinu 2004 benda til þess að helmingur fullorðinna Reykvíkinga sé of þungur. Rannsóknir hafa einnig leitt í ljós að börn hafa þyngst á undanförnum árum og aukning hefur orðið á tíðni tannskemmda og glerungseyðingur hjá börnum. Fleiri börn eru með líkamsþyngdarstuðul hærri en æskilegt er talið og þeim börnum sem glíma við offitu hefur líka fjölgað. Þetta er áhyggjuefni því takist ekki að snúa þessari þróun við mun það þýða mikið aukið álag á heilbrigðiskerfið eftir nokkur ár og áratugi.

Í heilbrigðisáætlun til ársins 2010 sem samþykkt var á Alþingi árið 2001 er lögð megináhersla á langtíma markmið og miðast þau við að bæta heilsufar þjóðarinnar. Ljóst er að ýmislegt hefur áunnist síðan heilbrigðisáætlunin var lögð fram en víða eru sóknarfæri til að ná markmiðum hennar. Á undanförnum misserum hefur farið fram endurskoðun á meginmarkmiðum áætlunarinnar og í gæt kynnti heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið skýrslu þess efnis á heimasíðu sinni. Þar hafa nú verið sett fram ný markmið er miða að því að draga úr offitu og ofþyngd t.d. að lækka hlutfall 9 ára barna, sem eru yfir kjörþyngd, niður fyrir 15% og þeirra, sem eru of feit, niður fyrir 3%. Jafnframt að dregið verði úr frekari aukningu í hlutfall fólks 20 ára og eldra sem er yfir kjörþyngd eða of feitt.

Öllum er ljóst að fólk þyngist aðallega vegna þess að það innbyrðir meiri orku en það nær að nýta. Aðgengi og vöruúrval skiptir miklu máli um það sem valið er hverju sinni. Meiri líkur eru á því að hollar vörur séu valdar ef þær eru áberandi, í miklu úrvali og á viðráðanlegu verði.

Markaðurinn hefur sífellt meiri áhrif á matarvenjur fólks og á undanförnum árum hefur framboð af orkuríkum mat og tilbúnum matvælum aukist mikið. Sem dæmi um góð áhrif má nefna Ávaxtabílinn og stefnu Leikskólans Urðarhóls í Kópavogi. Þá gegna fjölmiðlar veigamiklu hlutverki í að móta afstöðu fólks til næringar. Foreldrar eru einnig mikilvæg fyrirmynd og hafa áhrif á það hvað börn þeirra borða. En ekki má gleyma mikilvægi þess að hver og einn taki ábyrgð á eigin heilsu og velferð.

Vekja þarf samfélagið til umhugsunar um mikilvægi góðrar heilsu bæði fyrir einstaklinginn sjálfan og þó ekki síður samfélagið í heild. Það er trú mín að með samstarfi og samábyrgð stjórnvalda, félagasamtaka, atvinnulífs, verslunar og fólksins í landinu megi efla heilbrigða lífshætti landsmanna.

Ég á mér þann draum að hér á landi eigi sér stað alger viðhorfsbreyting um bætt mataræði á næstu árum og áratugum. Ég skora á okkur öll að vinna saman til að auðvelda fólki að velja holla matvöru. Samstarf um aukið framboð á hollum matvörum þarf að vera víðtækt. Stjórnvöld þurfa með lögum og reglugerðarumhverfi að koma að, iðnaðurinn með vöruþróun og markaðssetningu og framleiðendur með framboði og skammtastærðum. Ef allir leggjast á eitt hljótum við að ná þeim árangri sem stefnt er að.

Ég er þess fullviss að við munum eiga hér upplýsandi og gagnlegan fund og árangursríkt samstarf í framtíðinni.

Takk fyrir.

Talað orð gildir.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta