Hoppa yfir valmynd
7. apríl 2007 Heilbrigðisráðuneytið

Fjárfesting í heilsu skilar öruggari framtíð fyrir alla

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur efnt til alþjóðaheilbrigðisdagsins 7. apríl ár hvert í rúma hálfa öld. Deginum er ætlað vekja athygli á mikilvægum heilbrigðismálum sem snerta þjóðir heims. Í ár er hann tileinkaður alþjóðlegu heilbrigðisöryggi og er markmið hans að hvetja stjórnvöld, stofnanir og fyrirtæki til að fjárfesta í heilbrigði og stefna þannig að öruggari framtíð.

Í tilefni dagsins hefur dr. Margaret Chan, nýr framkvæmdastjóri WHO, sent frá sér orðsendingu þar sem hún tekur fram að aukin ógn við almannaheill stafi af bráðalungnabólgu, fuglainflúensu, alnæmi og óvæntum áföllum sem geta haft í för með sér alvarlegar heilsufarslegar afleiðingar.

Heilsa og öryggi

Á tímum alþjóðavæðingar með aukinni umferð og viðskiptum um veröld alla standa þjóðir heims frammi fyrir nýjum og alvarlegum ógnum sem taka ekki tillit til landamæra og hafa því áhrif á öryggi allra þjóða heims. Gamlir og nýir sjúkdómar geta hæglega borist á milli landa og ógnað öryggi okkar allra.

Alnæmi er dæmi um hversu tengd hugtök heilsa og öryggi eru orðin. Alnæmi ógnar stöðugleika heilla heimshluta og leggst á fólkið sem heldur atvinnulífinu gangandi og elur börnin. Þótt til séu lyf sem halda sjúkdómnum í skefjum þá ná þau ekki til nema lítils hluta þeirra sem á þeim þurfa að halda og þá fyrst og fremst til einstaklinga í þróuðu löndunum. Bóluefni gegn alnæmi er ennþá fjarlægur draumur. Fordómar, ólæsi og kúgun kvenna standa víða í vegi fyrir árangursríkum forvarnaraðgerðum. Enn er því margt ógert sérstaklega í þróunarlöndunum. Þess má geta að á Íslandi er ástandið mun betra. Hér hafa tæplega 200 einstaklingar greinst með HIV smit frá upphafi og undanfarin ár hefur HIV smit greinst hjá 6 - 12 einstaklingum á ári og fá þeir bestu fáanlegu meðferð.

Þjóðir heims vinni saman

Ógnir við heilsu og öryggi eru margar og ólíkar. Þar á meðal skyndileg áföll sem hafa áhrif á heilsu og efnahag þjóða, s.s. nýir sjúkdómar, loftslagsbreytingar, sýkla-, eiturefna- og geislavopn og aðrar bráðar heilbrigðisógnir. Samvinna um auknar varnir og viðbrögð við þessum atburðum er brýn.

Með öflugu samstarfi allra ríkja þar sem aukin áhersla er lögð á upplýsingamiðlun, eflingu heilbrigðiskerfa og vöktun er hægt að hindra útbreiðslu þessara sjúkdóma. Síðar á árinu, eða 15. júní 2007, mun taka gildi endurskoðuð alþjóðaheilbrigðisreglugerð sem er ætlað að efla varnir og viðbrögð bæði í aðildarríkjum WHO og á alþjóðavísu. Markmið hennar er að hindra alþjóðlega útbreiðslu smitsjúkdóma og sjúkdóma af völdum eiturefna og geislavirkra efna án þess að valda ónauðsynlegri röskun á alþjóðaumferð og viðskiptum.

Hvert land hugi að eigin viðbúnaði

Auk öflugs alþjóðlegs samstarfs þarf hvert og eitt land fyrir sig að fjárfesta í heilsu eigin þjóðar og auka getu sína til að koma í veg fyrir nýjar og áður þekktar ógnir með því að styrkja heilbrigðiskerfi sitt. Aðgerðir þurfa að taka mið af aðstæðum og brýnustu úrlausnarefnum á hverjum stað. Oft kallar þetta á mikla fjárfestingu í eftirliti sjúkdóma, forvarnarstarfi og fræðslu en stundum er einungis um einfaldar en árangursríkar aðgerðir að ræða.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hvetur til samvinnu og samstarfs

Engin ein heilbrigðisstofnun eða ekkert eitt land getur ráðið við ýmsa fyrirsjáanlega og ófyrirsjáanlega atburði sem geta haft alvarlegar heilsufarslegar afleiðingar meðal þjóða heims. Þess vegna leggur WHO mikla áherslu á samvinnu og samstarf innan og milli landa um skráningu og tilkynningaskyldu smitsjúkdóma og hættu vegna eitur- eða geislavirkra efna og myndar þannig öryggisnet um heiminn.

Breytingar á sóttvarnalögum

Að lokum langar mig að minnast á að Alþingi samþykkti á nýafstöðnu þingi breytingar á sóttvarnalögum í samræmi við nýju alþjóðaheilbrigðisreglugerðina. Gildissvið sóttvarna hefur verið rýmkað og tekur það nú til allra heilbrigðisógna sem geta haft áhrif á þjóðir heims. Lögin taka ekki einungis til hættulegra smitsjúkdóma heldur einnig til heilsufarslegra afleiðinga af völdum eiturefna og geislavirkra efna. Jafnframt taka þau til óvenjulegra og óvæntra atburða svo sem vegna náttúruhamfara sem geta haft alvarlegar heilsufarslegar afleiðingar. Með lögunum er kveðið á um að Ísland taki virkan þátt í alþjóðlegri baráttu við slíkar heilbrigðisógnir og þá ábyrgð þurfum við að axla af fullri alvöru.

Siv Friðleifsdóttur, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta