Rannsóknastofnun um lyfjamál
Ráðherra, rektor og ágætu gestir
Fyrir rúmum mánuði kynnti ég lyfjastefnu til ársins 2012. Í henni segir m.a. að til greina komi að setja á laggirnar rannsóknasetur við Háskóla Íslands þar sem aðilar á sviði lyfjamála vinni að rannsóknum og úttektum á einstökum atriðum lyfjastefnunnar í samstarfi við vísindamenn i lyfjafaraldsfræði, lyfjahagfræði og klínískri lyfjafræði.
Á ágætum og fjölmennum fundi með lyfjafræðingum síðast liðið haust ræddi ég um lyfjakostnað sem oft hefur farið úr böndum m.a. vegna þess að lyfjanotkun hefur verið með öðrum hætti hér á landi en í nágrannalöndunum. Slíkt ætti að vekja athygli fræðimanna.
Ég fagna því þarfa framtaki Háskóla Íslands að stofna til Rannsóknastofnunar um lyfjamál hér í dag sem kemur vel til móts við mínar væntingar og þær sem fram koma í lyfjastefnunni. Í drögum að starfsreglum stofnunarinnar segir að hún verði “hlutlaus og óháð rannsóknar- og fræðslustofnun starfrækt af Háskóla Íslands. Þá sé stofnuninni ætlað að verða víðtækur vettvangur rannsókna á sviði lyfjastefnu, einkum öllu því er lýtur að skynsamlegri lyfjanotkun, lyfjafaraldsfræði og lyfjahagfræði.”
Ég tel mikilvægt að stofnunin sé hlutlaus og óháð hagsmunaaðilum en stuðningsaðilar og þátttakendur í þessu framtaki Háskólans eru auk ráðuneytisins Landlæknisembættið, Lyfjastofnun, Landspítali-Háskólasjúkrahús og Lyfjafræðingafélag Íslands. Þetta eru einmitt burðarásar við gerð og framkvæmd lyfjastefnunnar og því ætti stofnunin að vera vel í stakk búin til að fylgja lyfjastefnunni eftir og styrkja stjórn lyfjamála.
Að mínu mati eru rannsóknir og úttektir nauðsynlegar til þess meðal annars
- að greina og skilja lyfjanotkun og lyfjakostnað,
- að meta gæði, skilvirkni og hagkvæmni lyfja og lyfjaþjónustu,
- að greina hættur á mistökum og benda á leiðir til að koma í veg fyrir þau.
Hvers vegna nota Íslendingar meira af Rítalíni og skyldum lyfjum en nokkur önnur þjóð? Hvernig er best að sporna við of mikilli fjöllyfjanotkun? Hverning má bæta meðferðarheldni? Spurningarnar eru að sjálfsögðu miklu fleiri.
Það er nauðsynlegt að stuðla að skynsamlegri notkun lyfja til að tryggja gæði þjónustunnar og halda kostnaði í lágmarki. Það þarf að efla þekkingu á kostum og göllum lyfja og leita allra leiða til að tryggja rétta lyfjanotkun sem eykur velferð og lífsgæði sjúklinga og kemur þjóðfélaginu til góða.
Það er von mín að Rannsóknastofnun um lyfjamál muni sinna þessu og verða heilbrigðiskerfinu og öllum landsmönnum til gagns.
Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri en vil þakka rektor Háskóla Íslands og öðrum starfsmönnum háskólans sem að þessu máli hafa komið fyrir að láta verkin tala og óska okkur öllum innilega til hamingju með daginn.
Talað orð gildir.