Hoppa yfir valmynd
30. apríl 2007 Heilbrigðisráðuneytið

Opnun nýrrar heimasíðu Lyfjastofnunar

Ágætu starfsmenn Lyfjastofnunar og aðrir gestir,

Það er mér sönn ánægja að opna hér í dag nýja heimasíðu Lyfjastofnunar.

Lyfjastofnun er, eins og þið vitið, sjálfstæð stofnun undir yfirstjórn heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins sem sinnir mikilvægum störfum við faglegt eftirlit með framleiðslu, innflutningi og dreifingu lyfja.

Helsta hlutverk stofnunarinnar er að gefa út markaðsleyfi fyrir lyf á Íslandi í samvinnu við lyfjayfirvöld á Evrópska efnahagssvæðinu, hafa eftirlit með lyfjaiðnaðinum á Íslandi og tryggja faglega og hlutlausa upplýsingagjöf til heilbrigðisstarfsfólks og neytenda. Auk þess að sjá um veitingu markaðsleyfa og eftirlit með framleiðslu, dreifingu og sölu lyfja, heldur Lyfjastofnun m.a. utan um tilkynningar um aukaverkanir sem berast vegna lyfjanotkunar á Íslandi. Lyfjastofnun veitir einnig leyfi til klínískra lyfjarannsókna, hefur eftirlit með lyfjaauglýsingum og gefur út Sérlyfjaskrá o.fl.

Á þeim stutta tíma sem ég hef verið ráðherra hef ég átt mjög gott samstarf við forstjóra og annað starfsfólk Lyfjastofnunar. Ég heimsótti stofnunina þann 6. október s.l. og fékk góðar upplýsingar um starfsemina og sannfærðist um að þar er unnið faglegt og gott starf. Starfsmenn ráðuneytisins hafa hrósað stofnuninni í mín eyru og hælt henni fyrir góð samskipti við ráðuneytið og faglega og skjóta umfjöllun um erindi sem stofnuninni séu send til afgreiðslu eða umsagnar.

Ég verð þó einnig að segja frá því að einstaka hagmunaaðlar sem komið hafa á minn fund hafa kvartað undan Lyfjastofnun. Ég er þeirrar skoðunar að í flestum tilfellum hafi slíkar umkvartanir verið á misskilningi byggðar og hef ég því tekið upp hanskann fyrir stofnunina þegar slíkar umkvartanir hafa borið á góma ekki síst eftir að ég kynnti mér sjálf starfsemina.

Ég velti því hins vegar fyrir mér hvort hagsmunaaðilar og allur almenningur hafi verið nægilega upplýstur um starfsemi Lyfjastofnunar og það góða starf sem þar er unnið?

Nokkuð hefur skort á að upplýsingar um lyf og lyfjamál séu settar fram með aðgengilegum og skýrum hætti. Til marks um þetta má nefna að í Lyfjastefnunni fram til 2012 segir m.a. að

skýra þurfi verkaskiptingu Landlæknisembættis, Lyfjastofnunar og Trygginga­stofnunar og tryggja samstarf þessara stofnana hvað varðar upplýsingar um lyf og lyfjanotkun og gæði, öryggi og virkni lyfja.”

Þá segir einnig að

ákveða þurfi hvaða upplýsingar eiga að liggja fyrir hjá stjórnvöldum mánaðarlega, ársfjórðungslega og árlega. Mikilvægt er að reglubundið, öflugt aðhald og eftirlit sé haft með þeim aðilum sem koma að lyfjamálum. Landlæknisembættið, Lyfjastofnun og Tryggingastofnun þurfa að nýta gagnagrunna sína til að veita almenningi og fagfólki hlutlausar og faglegar upplýsingar. Nauðsynlegt er að þessar stofnanir myndi með sér samstarf um upplýsingamál þannig að upplýsingar megi finna á einum stað á heimasíðu Lyfjastofnunar með beina tengingu við aðrar heilbrigðis- og stjórnsýslustofnanir.”

Þá segir í Lyfjastefnunni að m.a. til a bæta meðferðarheldni þurfi

“Lyfjastofnun, Tryggingastofnun ríkisins og Landlæknisembættið veita óháðar upplýsingar til heilbrigðisstarfsfólks og almennings um lyf og lyfjanotkun.”

Með opnun nýrrar heimasíðu Lyfjastofnunar hér í dag er stofnunin að bregðast við og bæta upplýsingagjöf sína til almennings í anda Lyfjastefnunnar.

Ég fagna þessu framtaki og óska starfsfólki Lyfjastofnunar til hamingju með þennan áfanga.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta