50 ára afmæli Skurðlæknafélags Íslands - Ávarp ráðherra
Kæru meðlimir Skurðlæknafélags Íslands, aðrir góðir gestir, kæru afmælisbörn.
Ég vil byrja á því að þakka kærlega þann heiður að fá að ávarpa ykkur hérna í dag á þessum merka degi.
Á stórafmælum sem þessum vill hugurinn reika aftur í tímann en einnig fram á veg. 50 ár í sögu skurðlækninga eru í raun ekki langur tími, þegar hafðar eru í huga sögur og sagnir af hinum ýmsu inngripum sem til töldust skurðlækninga á sínum tíma.
Allt frá landnámstíð má lesa um menn sem þóttu liðtækir í þessum efnum, voru lagnir “að skera til meins” eins og það var orðað.
Án þess að fara mörgum orðum út í söguna, held ég að öllum megi vera ljósar þær feykilegu framfarir sem hafa orðið á þessu sviði á undanförnum árum og áratugum.
Mér er nær að halda, að nánast allt sem stofnendur þessa félags gerðu af bestu þekkingu og getu fyrir 50 árum, myndi vart teljast boðlegt í dag.
Fyrir nokkrum misserum fletti ég lækningabók Jónassen landlæknis, sem er nú rúmlega 100 ára gömul en þar er að finna ráðleggingar og fræðslu til almennings við hinum ýmsu kvillum og aðgerðum. Í fljótu bragði sýndist mér að það eina sem hefði staðist tímanns tönn, væru ráðleggingar hans um að meðhöndla bruna með köldu vatni. Annað í hans merku bók held ég að muni teljast úrelt túlkun á líffærakerfum og löngu úreltar ráðleggingar til lækninga.
Framfarir í skurðlækningum á þeim tíma sem ég hef tengst heilbrigðismálum hafa orðið óhemjulegar. Mér dettur sjálfri fyrst í hug að nefna breytingarnar, sem urðu þegar speglunaraðgerðir af ýmsum toga hófust. Ekki var lengur nauðsynlegt að opna kviðarholið eða aðra líkamshluta til að skurðlæknarnir kæmust að meininu en við það gjörbreyttist öll nálgun skurðaðgerðanna.
Ég veit að ég er á hálum ís þegar ég fer að nefna eina aðgerð öðrum fremur, en ég nefni þetta sem dæmi til að sýna fram á stórstígar framfarir.
Mér er að sama skapi ljóst að það eru ekki eingöngu tækniframfarir, sem ég nefndi áðan, sem hafa gjörbreytt umhverfinu í skurðlækningum, heldur einnig framfarir í myndgreiningu, svæfingum, deyfingum sem allt eru óhjákvæmilegur hluti þessa þáttar læknisfræðinnar. Þá vil ég að sjálfsögðu nefna framfarir í hjúkrun, endurhæfingu og annarri umönnum. Allir þessir þættir hafa einnig tekið miklum framförum.
Þá hefur aukið samstarf stétta einnig stuðlað að breyttu viðhorfi til hópstarfs innan skurðlækninga. Nú gerir enginn neitt án aðstoðar og aðkomu annarra. Sá tími er liðinn að presturinn svæfði sjúklinginn á eldhúshurðinni á meðan læknirinn skar og er það vel. Nú er ekki skorið nema með flóknu samspili margra aðila.
Í þessum hugrenningum um liðna tíð er okkur skylt og hollt að horfa til framtíðar. Mér er ljóst að tækniframfarir munu halda áfram með svipuðum hraða hér eftir sem hingað til og þegar félag ykkar heldur aldarafmælið verður umhverfið orðið gjörbreytt. Framfarir bæði á sviði skurðlækninganna sjálfra sem og annarrar tækni sem þeim fylgir munu sjá til þess.
Öll þessi fræði krefjast mikillar þjálfunar og viðhaldsmenntunar. Mér þótti afar forvitnilegt þegar ég las í blöðum fyrir skömmu um það sem mætti kalla skurðaðgerðaherma, þar sem ungir verðandi skurðlæknar og eldri og reyndari líka, geta æft sig í hermi við að gera flóknar aðgerðir aftur og aftur.
Allt þetta minnir á þær miklu gæðakröfur sem við teljum eðlilegt að gera til flugmanna, flugvéla og tengdrar þjónustu. Mér er líka ofarlega í huga nýleg heimsókn breska landlæknisins Sir Liam Donaldsson, á málþing sem haldið var hér á landi um öryggis- og gæðamál. Ég átti mjög gagnlegar viðræður við hann í tengslum við ráðstefnuna. Ég tel að þegar kemur að öryggi sjúklinga sé enn talsvert verk óunnið og veit að skurðlæknar munu eins og aðrir beita sér af alefli til að styrkja þennan þátt í takt við kröfur tímans.
Þær tækniframfarir sem orðið hafa á undanförum áratugum hafa átt sér stað bæði innan og utan sjúkrahúsanna. Möguleikar á að framkvæma aðgerðir utan spítala hafa aukist umtalsvert og er það fagnaðarefni. Samhliða þessu hafa margvíslegar og misstórar aðgerðir flust út af hefðbundnum spítalaskurðstofum og á skurðstofur utan sjúkrahúsa, sem flestar eru reknar af læknunum sjálfum.
Ég tel að þessi þróun hafi verið í takt við tímann og að í flestum dráttum hafi þetta gengið vel.
Samhliða þessari breytingu tel ég mikilvægt, eins og ég nefndi áðan, að fylgja vel eftir gæðamálunum utan spítalanna, þannig að sjúklingar geti verið fullvissir um að þeim bjóðist góð og vönduð meðferð utan spítala sem innan, hvort sem um er að ræða greiningu, meðferð og eftirmeðferð.
Samhliða ber okkur að hugleiða þær breytingar sem þetta hefur á möguleika sjúkrahúsanna til kennslu. Ég tel eðlilegt, að samstarf milli kennslustofnanna, þ.e. Landspítala, læknadeildar Háskóla Íslands og læknastofa verði eflt þannig að verðandi læknar, hjúkrunarfræðingar og aðrir sem þurfa þjálfun í námi, njóti þeirrar kennslu og leiðsagnar sem í dag verður eingöngu sótt á stofur utan sjúkrahúsanna.
Kæru gestir.
Ég vil að lokum endurtaka hamingjuóskir mínar til félagsins og óska því alls góðs í framtíðinni. Ég vonast til þess að ég og eftirmenn mínir í embætti getum áfram átt farsælt samstarf við félagið og félagsmenn þess, jafnt á sviði fræða sem annarra þátta sem tengja okkur saman.
Takk fyrir.
Talað orð gildir.