Hoppa yfir valmynd
12. febrúar 2016 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Hagkvæm innkaup leiðarljós í útboði Stjórnarráðsins á farmiðum

Útboð vegna sameiginlegra farmiðakaupa Stjórnarráðsins verður auglýst um helgina og er markmiðið að ná sem hagkvæmustum innkaupum að teknu tilliti til heildarkostnaðar og ferðatíma.

Ítarleg undirbúningsvinna fór fram í aðdraganda útboðsins hjá Stjórnarráðinu, Fjársýslu ríkisins og Ríkiskaupum. Meðal annars var unnin greining á ferðatilhögun starfsmanna Stjórnarráðsins til að meta þær þarfir sem útboðið þyrfti að uppfylla.Greiningin leiddi í ljós að flestar ferðir eru til Kaupmannahafnar, Parísar og Brussel. Algengast er að ferðast sé til útlanda að morgni og heimför að kvöldi.

Niðurstöður greiningarinnar voru nýttar í útboðsvinnunni og er útboðið sem nú er auglýst tvíþætt. Annars vegar er boðinn út tiltekinn fjöldi miða til og frá Íslandi á algengustu áfangastaði. Hins vegar er óskað eftir föstum afslætti á alla áfangastaði til og frá Íslandi, þ.e. afslætti á heildarviðskipti, sem nær einnig til tilboðsmiða.

Meðal krafna sem gerðar eru í útboðinu eru að miðar verði á almennu farrými og að þeir skuli vera án vildarpunkta eða annarra fríðindakerfa. Gerð er krafa vegna neyðarsímaþjónustu, sem snýr bæði að bókun ferða og breytingum á flugi. Þá áskilur Stjórnarráðið sér rétt til að kaupa allt að 20% ferða utan samnings ef heildarkostnaður á verði annars flugfélags er meira en 10% lægri en verð bjóðanda.

Í tengslum við undirbúning útboðsins var ákveðið að endurskipuleggja verklag vegna innkaupa á flugmiðum hjá Stjórnarráðinu sem ætti að leiða til frekari hagkvæmni.

Stefnt er að því að sameiginleg innkaup samkvæmt útboðinu hefjist í vor. Útboðið gildir til eins árs og við lok samningstímans verður lagt mat á hvernig til hefur tekist. Áformað er að þegar búið er að bjóða út flugfarmiðakaup fyrir Stjórnarráðið vinni verkefnisstjórn um nýjar áherslur í opinberum innkaupum að útfærslu fyrir stofnanir ríkisins í ljósi reynslunnar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta