Aðgerðaáætlun landbúnaðarstefnu gefin út
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra hefur gefið út aðgerðaáætlun landbúnaðarstefnu til fimm ára.
Til grundvallar áætluninni liggur landbúnaðarstefna til 2040 sem samþykkt var á Alþingi í júní árið 2023. Stefnan inniheldur framtíðarsýn fyrir íslenskan landbúnað sem tekur til umhverfis, samfélags og samkeppnishæfni. Meginmarkmið stefnunnar eru að efla og styðja íslenskan landbúnað og styrkja stoðir hans til framtíðar með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.
Áætluninni er ætlað að ná yfir þau verkefni landbúnaðarstefnunnar sem eru á forræði matvælaráðuneytisins og verða í forgangi á tímabilinu. Aðgerðirnar eru ekki settar fram í forgangsröðun heldur er uppröðun aðgerðanna í samræmi við uppbyggingu landbúnaðarstefnunnar sjálfrar.
Drög að aðgerðaáætluninni voru í opnu samráði á samráðsgátt stjórnvalda frá 29. febrúar
til 2. apríl 2024. Alls bárust 15 umsagnir auk breytingatillagna sem tekið var tillit til eins og kostur var og ennfremur bætt við tillögum að samstarfsaðilum í samræmi við ábendingar. Í umsögnum komu fram tillögur að mörgum nýjum aðgerðum sem varða meðal annars hringrásarhagkerfið, merkingar matvæla og líffræðilega fjölbreytni.
Við gerð aðgerðaáætlunarinnar var lögð áhersla á að setja fram afmarkaðar og tímasettar aðgerðir sem raunhæft má telja að komist í framkvæmd á því tímabili sem áætlunin nær yfir. Tillögur að nýjum aðgerðum verða teknar til frekari skoðunar við endurskoðun áætlunarinnar.
„Það er skiptir sköpum fyrir matvælaþjóð eins og Íslendinga að hafa skýra stefnu í landbúnaðarmálum“ sagði matvælaráðherra. „Við viljum sjá innlendan landbúnað vaxa og dafna, þessi aðgerðaáætlun er mikilvæg varða á þeirri leið“.