Stefnumótun og framtíðarsýn meðal umfjöllunarefna á þingi Fjórðungssambands Vestfirðinga
Pétur G. Markan, formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga og sveitarstjóri í Súðavík, bauð fundarmenn velkomna og auk Ólafar fluttu ávörp þeir Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Auk þess fóru fram hefðbundin aðalfundarstörf.
Í upphafi ávarps síns minntist innanríkisráðherra á þær breytingar sem orðið hafa á opinberum fjármálum með nýjum lögum og sagði leiðarljósið nú annars vegar vera stefnumörkun í fjármálum til fimm ára í senn og hins vegar fjármálaáætlun. Hún sagði eitt nýmæli laganna snerta sveitarfélögin sérstaklega og fjalla um formlegt samráð samráð ríkis og sveitarfélaga á sviði fjármála, að nú skuli fjármálaráðherra tryggja formlegt og reglubundið samráð við sveitarfélögin um mótun fjármálastefnu og fjármálaáætlanir og er áskilið að leita samkomulags við Samband íslenskra sveitarfélaga í þessu verkefni. Lagði hún jafnframt áherslu á að þetta breytti engu um það samráð sem innanríkisráðuneytið og sveitarfélög hefðu komið sér saman um.
Sveitarstjórnarmál
Þá ræddi ráðherra almennt um sveitarstjórnarmál og hefði síðustu árin verið fjallað um samskipti ríkis og sveitarfélaga, hvort sameina eigi og fækka sveitarfélögum, hvernig efla megi sveitarfélög, hvort flytja beri fleiri verkefni frá ríki til sveitarfélaga, hvort tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga sé réttlát og hafi Jöfnunarsjóður sveitarfélaga verið hluti af þeirri umfjöllun. Þá hafi Samband íslenskra sveitarfélaga réttilega komið inn í umræðuna um þessi mál öll. ,,Ég er þeirrar skoðunar að sveitarfélögin eigi að fá að þróast og dafna á þeirra forsendum og forsendum byggðaþróunar í viðkomandi landsvæði. Þannig sé ég fyrir mér að sveitarfélög sameinist ef þeim sýnist svo og ef forráðamenn og íbúar telja það til framdráttar stjórnsýslu og lýðræði í héraði. Í þessu sambandi vil ég til dæmis nefna að nú hafa þrjú sveitarfélög á suðausturhorni landsins, Djúpvogur, Höfn og Skaftárhreppur ákveðið að kanna hvort sameining þeirra væri fýsileg. Ráðuneytið fylgist með málinu og styður þá athugun fjárhagslega eftir því sem reglur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga leyfa. Þetta finnst mér gott dæmi um hvernig heimamenn sýna frumkvæði og taka upp mál sem þetta án utanaðkomandi þrýstings."
Ólöf Nordal sagði að verkefnisstjórn sem hún skipaði væri farin af stað og hefði það hlutverk að fjalla um stöðu og framtíð íslenskra sveitarfélaga og styrkingu sveitarstjórnarstigsins. Hlutverk hennar væri að eiga lýðræðislegt samtal við þjóðina og skila til innanríkisráðherra leiðarvísi, umræðuskjali, næsta vor. Verkefnastjórninni væri falið að greina tækifæri og leiðir til að styrkja sveitarstjórnarstigið enn frekar, bæta úr ágöllum í samskiptum ríkis og sveitarfélaga og leiða fram úrbótatækifæri í samráði við íbúa. Hann á að setja fram drög að stefnu til tólf ára og aðgerðaráætlun til fjögurra ára sem miða skal að eflingu sveitarstjórnarstigsins.
Um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sagði ráðherra að framundan væri lokasprettur varðandi endanlegar tillögur um nýjar aðferðir við jöfnun á útgjaldaþörf og tekjumöguleikum sveitarfélaga.
Dýrafjarðargöng og Dynjandisheiði
Ráðherra sagði mörg og umfangsmikil verkefni á sviði samgöngumála framundan á Vestfjörðum. Dýrafjarðargöng verði næsta jarðgangaverkefni þegar Norðfjarðargöngum er að ljúka og sama væri að segja um Dynjandisheiði.
Þriðja verkefnið sagði hún vera leiðina um Gufudalssveit milli Bjarkalundar og Skálaness þar sem Teigsskógur kæmi við sögu. Verkið er í nýju umhverfismati með nýjum forsendum sem vonast er til að ljúki í byrjun vetrar. Gangi það eftir með jákvæðum hætti yrði næsta stig að sækja um framkvæmdaleyfi hjá sveitarfélaginu og í framhaldinu bjóða verkið út. Að lokum væri nú unnið að endurbyggingu vegarins um Bjarnarfjarðarháls sem lyki á næsta ári og í framhaldinu væri ráðgert að byggja upp veginn yfir Veiðileysuháls.
Í lokin minntist ráðherra á verkefni á sviði fjarskipta, átaksverkefnið Ísland ljóstengd sem miðaði að því að 99,9% lögheimila með heilsársbúsetu og atvinnuhúsnæðis með heilsársstarfsemi óháð staðsetningu hafi aðgang að 100Mb/s þráðbundinni nettengingu fyrir árslok 2020. Einnig sagði hún ljósleiðarahringtengingu ákveðinn landsvæða langt komna en með því væri bæði verið að auka þjónustu og bæta öryggi fjarskipta í öllum landshlutum.
Haustþing Fjórðungssambands Vestfirðinga stendur nú yfir á Hólmavík.