Mikilvægi vísindasamstarfs aldrei meira en nú
Markmið fundaraðar AOS er að leiða saman fólk sem kemur að rannsóknum og stefnumótum í málefnum norðurslóða í þeirri viðleitni að samhæfa viðbrögð og aðgerðir á alþjóðavísu og auka skilning á breytingum á norðurslóðum. Að þessu sinni tóku rúmlega 350 þátttakendur frá 28 löndum þátt í fundinum, þar á meðal fjölmargir sérfræðingar í málefnum frumbyggja og fulltrúar íbúa á norðurslóðum.
Fundurinn var liður í Vísindaviku norðurslóða sem staðið hefur yfir undanfarna daga. Háskólinn á Akureyri, Alþjóðlega Norðurskautsvísindanefndin (e. IASC) og Rannís stóðu að skipulagi Vísindavikunnar sem er jafnframt hluti af formennskuáætlun Íslands í Norðurskautsráðinu. Viðburðir hennar fóru fram með öðru sniði en stefnt var að þar sem þeim var eingöngu streymt á netinu þar sem reynsla og þekking Háskólans á Akureyri á því sviði komu sér vel.
Skýrsla fundarins verður mikilvægt innlegg á alþjóðlegum fundi vísindamálaráðherra um rannsóknasamstarf á norðurslóðum sem Ísland og Japan standa sameiginlega að í nóvember nk. Í aðdraganda þess fundar, sem fara mun fram í Tókýó, er lögð áhersla á að virkja vísindasamfélagið og íbúa á norðurslóðum til að fá fram þeirra sýn og sjónarmið sem geta nýst við mótun stefnu og aðgerða stjórnvalda.
Finna má upptökur frá viðburðum Vísindaviku norðurslóða á YouTube rás Alþjóðlegu Norðurskautsvísindanefndarinnar.