Greining á banaslysum í umferðinni frá upphafi bílaaldar á Íslandi
Óli H. Þórðarson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Umferðarráðs, hefur undanfarin ár unnið að greiningu á banaslysum frá 1915 til 2014 eða allt frá upphafi bílaaldar á Íslandi. Á þessum tíma hafa alls 1.502 látist í 1.374 slysum.
Óli kynnti greiningu sína á fundi hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa í dag og við það tækifæri lauk Ágúst Mogensen, rannsóknarstjóri lofsorði á þetta viðamikla verk. Sagði hann slíkan gagnabanka einstæðan í heiminum og að efniviðurinn myndi nýtast í margs konar frekari rannsóknir á banaslysum í umferðinni.
Fram kemur í greiningunni að 1977 var mannskæðasta ár í þessari sögu þegar 37 manns létust í 33 slysum. Á síðasta ári létust fjórir í þremur slysum og hafa svo fáir ekki látist í umferðarslysum síðan fyrir stríð eða árið 1939. Þegar breytt var í hægri umferð árið 1968 létust 7 manns.
Fyrsta banaslysið í umferð á Íslandi varð 25. ágúst árið 1915 þegar 9 ára drengur varð fyrir reiðhjóli í Austurstræti í Reykjavík og lést að kvöldi þess dags. Fyrsta banaslysið af völdum bíls varð 29. júní árið 1919 þegar 66 ára kona varð fyrir bíl á gatnamótum Ingólfsstrætis og Bankastrætis í Reykjavík og lést af völdum slyssins daginn eftir. Tvö banaslys af völdum járnbrautar urðu þegar tvö börn urðu fyrir eimreiðinni sem flutti efni frá Öskjuhlíð í hafnarmannvirkin í Reykjavíkurhöfn, annað árið 1916 og hitt 1919. Banaslys sem tengjast hernámsárunum og varnarliðinu voru nokkur á þessum tíma. Alls létust 29 Íslendingar þegar þeir urðu fyrir herbílum eða varnarliðsbílum og 27 hermenn og varnarliðsmenn létust í umferðarslysum.
Í greiningunni kemur fram hvort banaslysin urðu í þéttbýli eða dreifbýli og sé allt tímabilið skoðað urðu 55% þeirra í þéttbýli en 45% í dreibýli. Sé dreifing slysanna brotin niður á 10 ára tímabil sést að árin 1915 til 1924 urðu yfir 80% slysanna í þéttbýli en innan við 20% í dreifbýli en dæmið snýst síðan við og urðu rúmlega 70% slysanna í dreifbýli árin 2005 til 2014 en innan við 30% í þéttbýli.
Þá kemur fram að aldurssamsetning barna og ungmenna sem látist hafa í banaslysum á tímabilinu hefur breyst mjög. Árin 1945 til 1974 var meirihluti þeirra sem létust börn á aldrinum 0-9 ára en árin 2005 til 2014 voru það unglingar á aldrinum 15 til 19 ára.