Hoppa yfir valmynd
26. apríl 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Nr. 44/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 44/2018

Fimmtudaginn 26. apríl 2018

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með kæru, dags. 7. febrúar 2018, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 6. okóber 2017, um að synja beiðni hennar um endurupptöku máls.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 26. febrúar 2015 og var umsóknin samþykkt. Með bréfi, dags. 9. júní 2015, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að stofnunin hefði ákveðið að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar á grundvelli 60. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar vegna ótilkynntrar vinnu og að hún skyldi ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hefði starfað að minnsta kosti 12 mánuði á innlendum vinnumarkaði. Kærandi var einnig krafin um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 fyrir tímabilið 26. febrúar til 31. maí 2015.

Kærandi bar ákvörðun Vinnumálastofnunar undir úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í september 2015. Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 11. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Með úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála 28. apríl 2016 var hin kærða ákvörðun felld úr gildi og málinu vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar. Með bréfi, dags. 9. júní 2016, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að stofnunin hefði fellt úr gildi fyrri ákvörðun um viðurlög samkvæmt 60. gr. laga nr. 54/2006. Vinnumálastofnun taldi að endurgreiðsluskylda kæranda samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 væri óbreytt þar sem hún hafi þegið greiðslur atvinnuleysisbóta þann tíma sem hún uppfyllti ekki skilyrði laganna. Kærandi kærði þá ákvörðun til úrskurðarnefndar velferðarmála 29. ágúst 2017 sem vísaði kærunni frá þar sem kærufrestur var liðinn, sbr. úrskurður nefndarinnar í máli nr. 302/2017 frá 8. september 2017.

Með erindi, dags. 14. september 2017, óskaði kærandi eftir endurupptöku ákvörðunar frá 9. júní 2016. Endurupptökubeiðni kæranda var tekin fyrir á fundi Vinnumálastofnunar og með bréfi, dags. 6. október 2017, var þeirri beiðni hafnað. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun og var hann veittur með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 9. nóvember 2017. Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála vegna synjunar á endurupptöku þann 7. febrúar 2018. Með bréfi, dags. 12. febrúar 2018, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 20. febrúar 2018. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. febrúar 2018, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi ekki þegið laun hjá B sem sé nytjamarkaður en ekki verslun. Kærandi fer fram á niðurfellingu á kröfu Vinnumálastofnunar um endurgreiðslu atvinnuleysisbóta.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að ljóst sé af rökstuðningi og kröfum kæranda að það kæruefni sem nú sæti kæru sé það sama og nefndin hafi fjallað um í máli nr. 302/2017. Vinnumálastofnun telji því að frestur til að kæra efnislega ákvörðun í máli kæranda sé liðinn, enda hafi úrskurðarnefndin þegar komist að þeirri niðurstöðu. Eftir sitji ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 6. október 2017, um að hafna beiðni kæranda um endurupptöku á máli hennar. Vinnumálastofnun vísar til þess að beiðni kæranda um endurupptöku hafi borist stofnuninni rúmlega ári eftir að ákvörðun hafi verið birt. Í beiðni kæranda sé hvorki að finna nýjar upplýsingar né gögn sem bendi til þess að ákvörðun Vinnumálastofnunar um endurgreiðslu á ofgreiddum atvinnuleysisbótum sé byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik í máli kæranda hafi breyst verulega frá því að ákvörðun hafi verið tekin. Í kæru til úrskurðarnefndarinnar sé heldur ekki að finna upplýsingar sem áhrif hafa á niðurstöðu í máli hennar eða bendi til þess að ákvörðun sé byggð á ófullnægjandi upplýsingum. Þá hafi kærandi ekki bent á hvaða veigamiklu ástæður mæli með því að Vinnumálastofnun taki beiðni hennar um endurupptöku máls til greina.

Vinnumálastofnun tekur fram að af athugasemdum kæranda verði ráðið að hún telji að í ákvörðun stofnunarinnar felist fullyrðing um að kærandi hafi þegið laun frá B á árinu 2015. Í ákvörðun stofnunarinnar felist engar slíkar staðhæfingar. Þá hafi kærandi gert athugasemdir við að hugtakið verslun sé notað um nytjamarkaðinn B. Ekki verði séð að notkun stofnunarinnar á þekktu samheiti yfir markaði eða búðir sem stunda verslun með vörur hafi áhrif á niðurstöðu í máli hennar. Vinnumálastofnun bendir á að kærandi hafi frá upphafi ítrekað haldið því fram að hún hafi ekki fengið greidd laun vegna starfa hennar hjá B. Ekki verði séð að sú fullyrðing geti haft áhrif á niðurstöðu í málinu. Launagreiðslur til kæranda séu ekki grundvöllur fyrir endurgreiðslukröfu, enda sé kærandi krafin um ofgreiddar atvinnuleysisbætur þann tíma sem hún hafi ekki verið í virkri atvinnuleit og ekki uppfyllt skilyrði laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Á grundvelli þeirra gagna sem kærandi hafi fært fram í málinu verði ekki fallist á að hún eigi rétt samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á því að mál hennar verði tekið til meðferðar á ný. 

IV.  Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að afgreiðslu Vinnumálastofnunar sem fram kemur í bréfi, dags. 6. október 2017, þar sem synjað var um endurupptöku ákvörðunar stofnunarinnar í máli kæranda, sbr. bréf dags. 9. júní 2016, um endurgreiðsluskyldu hennar vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta.

Í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um skilyrði fyrir endurupptöku mála. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef atvik máls eru á þann veg að eitt af eftirfarandi skilyrðum sem fram koma í 1. og 2. tölul. geti átt við:

1.      ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða

2.      íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa      verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun samkvæmt 1. tölulið 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum sem ákvörðun samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. var byggð á, verði beiðni um endurupptöku máls ekki tekin til greina nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verði þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.

Þegar 24. gr. stjórnsýslulaga sleppir kann stjórnvöldum að vera skylt að endurupptaka mál á grundvelli ólögfestra reglna, til dæmis þegar fyrirliggjandi eru rökstuddar vísbendingar um verulegan annmarka á málsmeðferð stjórnvalds.

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 29. mars 2017 í máli E-4205/2015 var leyst úr ágreiningi sem varðaði ákvörðun Vinnumálastofnunar um endurgreiðslu atvinnuleysisbóta í kjölfar þess að viðurlög samkvæmt 60. gr. laga nr. 54/2006 voru felld niður. Í niðurstöðunni segir meðal annars svo:

„Að mati dómsins leiðir, að öðru jöfnu, af framangreindu að fella bæri úrskurð úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða nr. 13/2012 frá 19. febrúar 2013 úr gildi í heild sinni, en þar með teldist einnig sjálfkrafa ógild sú ákvörðun Vinnumálastofnunar sem úrskurðurinn laut að. Er þá horft til þess að fyrrgreindir annmarkar á málsmeðferð og ákvörðunum Vinnumálastofnunar og úrskurðarnefndarinnar lutu að máli stefnanda í heild sinni og var krafa um endurgreiðslu samkvæmt 39. gr. laga nr. 54/2006 einn þáttur í hvorri úrlausn. Svo sem fólst í áðurgreindu áliti umboðsmanns Alþingis og dómi héraðsdóms 15. mars 2006 væri ekki með slíkri niðurstöðu tekin afstaða til þess hvort Vinnumálastofnun gæti, að svo komnu máli, tekið mál stefnanda upp og tekið nýja rökstudda ákvörðun, að undangenginni lögmætri málsmeðferð, um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta samkvæmt 39. gr. laga nr. 54/2006. Undir meðferð málsins fyrir dómi hefur stefndi hins vegar tekið af öll tvímæli um að ekki sé á því byggt að mál stefnanda hafi verið endurupptekið og ný ákvörðun tekin um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta. Er um þetta atriði vísað til fyrrgreinds bréfs Vinnumálastofnunar 11. ágúst 2016 til stefnanda þar sem tekið var fram að niðurfelling ákvörðunar stofnunarinnar á fyrri ákvörðun sinni samkvæmt 60. gr. laga nr. 24/2006 hefði ekki áhrif á endurgreiðslukröfu stofnunarinnar.

Að mati dómsins er í umræddu bréfi Vinnumálastofnunar ekki að finna neinn haldbæran rökstuðning fyrir því hvernig upphafleg ákvörðun stofnunarinnar geti haldið gildi sínu um endurgreiðslu ofgreiddra bóta þrátt fyrir þá annmarka á meðferð málsins og rökstuðningi sem áður greinir. Verður því að fallast á það með stefnanda að téðar stjórnvaldsákvarðanir séu haldnar annmörkum sem leiði til þess að þær teljist ógildar frá upphafi, sbr. til hliðsjónar forsendur fyrrgreinds héraðsdóms 15. mars 2016. Leiðir af þessu að engin gild stjórnvaldsákvörðun lá fyrir um skyldu stefnanda til endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta þegar Vinnumálastofnun tilkynnti stefnanda um áðurlýsta afstöðu sína 11. ágúst 2016. Eins og málið liggur fyrir kemur ekki til skoðunar hvort Vinnumálastofnun hafi verið heimilt að taka mál stefnanda upp að nýju og kveða á um endurgreiðslu ofgreiddra bóta við þær aðstæður að ákveðið var að fallast á forsendur í umræddum dómi héraðsdóms. Með sama hætti kemur ekki til úrlausnar hvort hugsanleg endurgreiðslukrafa samkvæmt 39. gr. laga nr. 54/2006 myndi teljast fyrnd ef kæmi til slíkrar endurupptöku málsins af hálfu Vinnumálastofnunar eða hvort skilyrðum 2. mgr. greinarinnar fyrir 15% álagi á ofgreiddar bætur teldist fullnægt. Verður samkvæmt þessu fallist á fyrri kröfu stefnanda eins og hún er fram sett og nánar greinir í dómsorði.”

Úrskurðarnefndin telur ljóst að mál kæranda sé sambærilegt því máli er leyst var úr í framangreindum dómi héraðsdóms. Samkvæmt mati dómsins var ekki talið að sá hluti ákvörðunar sem laut að endurgreiðslu atvinnuleysisbóta gæti haldið gildi sínu vegna annmarka á meðferð málsins.

Með hliðsjón af því er það mat úrskurðarnefndarinnar að ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 9. júní 2016 um endurgreiðslukröfu sé haldin slíkum annmörkum að skilyrði til endurupptöku sé uppfyllt. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og málinu vísað aftur til Vinnumálastofnunar til nýrrar meðferðar.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 6. október 2017, um að synja beiðni A, um endurupptöku máls er felld úr gildi og vísað til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta