Íslenskt samfélag verði endurvinnslusamfélag
Úrgangsmálin eru meðal stærstu áskorana í umhverfismálum. Þetta kom fram í ávarpi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á kynningarfundi Sambands íslenskra sveitarfélaga í gær.
Yfirskrift fundarins var ,,Borgað þegar hent er - greining á útfærslum í innheimtu sveitarfélaga fyrir úrgangsmeðhöndlun“ og var þar fjallað um greiningu á innleiðingu breytinga á innheimtu sveitarfélaga fyrir úrgangsmeðhöndlun. Verkefnið var unnið með styrk frá Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og er hluti af stefnu ráðherra um meðhöndlun úrgangs, Í átt að hringrásarhagkerfi.
Guðlaugur Þór benti á að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sé fjallað um samvinnu ríkis og sveitarfélaga og nauðsyn þess að stuðla að nýsköpun og notkun helstu tækninýjunga við endurvinnslu og flokkun úrgangs. Jafnframt eigi að byggja undir endurvinnslu og hringrásarhagkerfi með jákvæðum hvötum.
„Til þess að ná þeim árangri að til verði virkt hringrásarhagkerfi þarf að draga úr myndun úrgangs og íslenskt samfélag þarf að verða endurvinnslusamfélag,“ sagði Guðlaugur Þór. Tryggja þurfi að það sé fjárhagslega hagkvæmt fyrir heimili og fyrirtæki að minnka það úrgangsmagn sem frá þeim fer og að það verði ódýrara að skila úrgangi flokkuðum til endurvinnslu en að skila honum með blönduðum úrgangi sem síðan endar í brennslu eða urðun. Í því felist jákvæður hvati til framfara.
Þann 1. janúar 2023 koma til framkvæmda breytingar á lögum um meðhöndlun úrgangs um að innheimta fyrir meðhöndlun úrgangs skuli vera sem næst raunkostnaði niður á hvern aðila. Slík aðgerð við innheimtu byggist á mengunarbótareglunni þar sem hver og einn borgar fyrir það sem hann hendir (e. Pay as you throw).