Ekkert bendir til óeðlilegrar fjölgunar dauðsfalla
Vegna fjölmiðlaumræðu um síðustu helgi bendir landlæknir á að nýjustu upplýsingar um fjölda dauðsfalla á þessu ári sýna engar óeðlilegar breytingar miðað við fyrri ár, heldur er um hefðbundnar sveiflur að ræða.
Í frétt á vef landlæknis er birt línurit sem sýnir sjö daga dánartölur fyrstu sex mánuði áranna 2008–2011 og bent á að tímabundin fjölgun sem þar sést og var hugsanlega undirrót umræðunnar sé ekki einstæður atburður þegar horft er yfir lengra tímabil. Auk þessa hefur landlæknir aflað upplýsinga um að heildarfjöldi dauðsfalla á Landspítala jókst ekki árið 2010 í samanburði við árin þar á undan. Sama á við um hjúkrunarheimilin en samkvæmt vistunarmatsskrá er ekki unnt að merkja aukna dánartíðni. Þær upplýsingar sem landlæknir hefur um fjölda dauðsfalla benda því ekki til þess að þau séu fleiri nú en á nokkrum síðastliðnum árum.
Landlæknir hvetur alla þá heilbrigðisstarfsmenn sem vita af misbresti í starfi heilbrigðisstofnana að tilkynna slíkt til næsta yfirmanns eða hafa samband við embættið ef þeir óttast um stöðu sína. Allar ábendingar um það sem betur mætti fara verða teknar til skoðunar hjá starfsmönnum embættisins.