Hoppa yfir valmynd
5. maí 2014 Utanríkisráðuneytið

Framkvæmdastjóri ÖSE þakkar stuðning Íslands við verkefni í Úkraínu

Gunnar Bragi og Lamberto Zannier.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra fundaði í dag með Lamberto Zannier, framkvæmdastjóra Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) í Vín. Þeir ræddu starf stofnunarinnar í aðildarríkjunum og verkefni hennar í Úkraínu. Zannier þakkaði Íslandi sérstaklega fyrir þátttökuna í verkefnum ÖSE í Úkraínu og fyrir sýnilegt hlutverk í eftirlitssveit stofnunarinnar þar. Gott orð fari af vinnu Íslands.

"ÖSE er í einstakri aðstöðu til þess að vinna friðsamlegri lausn á átökunum sem nú eiga sér stað í Úkraínu. Ég tel afar mikilvægt að við, sem aðildarríki, leggjum okkar af mörkum til þess að stofnunin geti sinnt þessu hlutverki sínu," segir Gunnar Bragi.

Ísland hefur tekið virkan þátt í verkefnum ÖSE í Úkraínu. Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra fer fyrir einu af 10 eftirlitsteymum stofnunarinnar í landinu, en nú er unnið að því að fjölga eftirlitsmönnum hennar úr eitt hundrað í fimm hundruð. Þá átti Ísland fulltrúa í alþjóðlegu eftirliti í mars sl. byggt á svokölluðu Vínarskjali sem veitir þátttökuríkjum heimild til að bjóða ríkjum sem lýst hafa yfir áhyggjum af hernaðarumsvifum að kynna sér frá fyrstu hendi aðstæður á staðnum.

Að tillögu utanríkisráðherra ákvað ríkisstjórnin fyrir helgi að auka stuðning við eftirlitsverkefni ÖSE í Úkraínu. Íslensk stjórnvöld munu leggja sex milljón króna fjárframlag til verkefnisins auk þess sem ráðuneytið sendir annan starfsmann til starfa.
Gunnar Bragi er staddur í Vín, Austurríki þar sem hann situr ráðherrafund Evrópuráðsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta