Hoppa yfir valmynd
18. júlí 2018 Utanríkisráðuneytið

Áhersla á jafnrétti og landgræðslu á ráðherrafundi um Heimsmarkmiðin

María Erla Marelsdóttir, sendiherra, á jafnréttisviðburði OECD - mynd

Ísland tekur virkan þátt í ráðherrafundi um Heimsmarkmiðin sem fer fram í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York dagana 16.-18. júlí. María Erla Marelsdóttir, sendiherra Heimsmarkmiðanna og skrifstofustjóri þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins, fer fyrir sendinefnd Íslands á fundinum.

Ísland hefur um árabil lagt áherslu á að jafnrétti og sjálfbær nýting auðlinda séu lykilþættir í að tryggja efnahagslegar framfarir og sjálfbæra þróun. Á hliðarviðburði Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD) um langtímaáætlanir til að ná Heimsmarkmiðunum lagði María Erla áherslu á valdeflingu kvenna og mikilvægi kynjajafnréttis í þessu samhengi.

Ísland stóð fyrir hliðarviðburði um landeyðingu og þurrka ásamt Kanada, Namibíu og Þýskalandi. Á fundinum var rætt um leiðir til að auka viðnámsþrótt samfélaga sem glíma við áskoranir sem tengar þurrkum. Frá 2013 hefur Ísland, ásamt Namibíu, leitt vinahóp ríkja sem fylkja sér um mikilvægi þess að vinna bug á þurrkum, eyðimerkurmyndun og landeyðingu. María Erla greindi frá starfi Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna sem starfræktur er á Íslandi og mikilvægi þess að þjálfa konur og menn til að takast á við þessar áskoranir.

María Erla mun einnig taka þátt í pallborðsumræðum á vegum Kanada um jafnréttismál. Markmið viðburðarins er að styrkja tenginguna milli valdefldra kvenna og stúlkna og friðsælla og viðnámsþolinna samfélaga í samhengi Heimsmarkmiðanna.

Fleiri Íslendingar hafa tekið þátt í viðburðum sem haldnir hafa verið í tengslum við ráðherrafundinn. Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar, og Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, tóku þátt í viðburðum tengdum orkumálum þar sem Bjarni ræddi stöðu jafnréttismála í orkugeiranum. Þá hélt Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, kynningu á nálgun sveitarfélagsins á innleiðingu Heimsmarkmiðanna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta