Hoppa yfir valmynd
3. júní 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 29/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 3. júní 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 29/2010.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að A, var tilkynnt með bréfi, dags. 11. ágúst 2009, sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að fella niður rétt hans til atvinnuleysisbóta í 40 daga frá og með 10. ágúst 2009. Ákvörðunin um niðurfellingu bótaréttar var tekin á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vill ekki una þessari ákvörðun, sbr. kæru dags. 23. febrúar 2010. Vinnumálastofnun telur að kærufrestur hafi verið liðinn, en hin kærða ákvörðun var tekin 11. ágúst 2009. Vinnumálastofnun telur því að vísa beri málinu frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

Í erindi kæranda kemur fram að bréf til hans frá Vinnumálastofnun varðandi námskeið sem hann hafi átt að sækja hafi ekki borist honum. Ástæðan kunni að vera sú að hann búi á gömlum heimavistarskóla, þar sem sé sameiginlegur póstkassi fyrir allt svæðið og kunni póstur til hans hugsanlega að hafa farið á flakk. Kærandi kveðst hafa skráð sig aftur atvinnulausan 20. desember 2009 og hafi hann þá ekki fengið að vita að hann færi á bið vegna fyrra málsins. Kærandi óskar endurskoðunar málsins í ljósi aðstæðna sinna og óskar fullra bóta frá því hann skráði sig atvinnulausan í desember 2009.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 28. apríl 2010, kemur fram að kærandi hafi verið skráður atvinnulaus hjá Vinnumálastofnun til 30. júní 2009 og hafi því ekki byrjað að taka út biðtíma þegar hann hafi verið afskráður hjá stofnuninni. Kærandi hafi sótt aftur um atvinnuleysisbætur þann 2. janúar 2010. Þar sem kærandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi verið í vinnu frá viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar hafi ekki verið unnt að fella niður biðtíma á grundvelli 3. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Í 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé mælt fyrir um málskotsrétt til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða. Í 1. mgr. 12. gr. laganna segi að stjórnsýslukæra skuli berast úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls hafi verið tilkynnt um ákvörðun. Hin kærða ákvörðun var tekin þann 11. ágúst 2009 og kæra til úrskurðarnefndar var dagsett 23. febrúar 2010. Að mati Vinnumálastofnunar var því hinn þriggja mánaða kærufrestur liðinn og því ber að vísa málinu frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 30. apríl 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 14. maí 2010. Kærandi hefur ekki nýtt sér það.

 

2.

Niðurstaða

Hin kærða ákvörðun var samkvæmt gögnum málsins tekin 10. ágúst 2009 en kæran er dagsett 23. febrúar 2010. Þegar kæran barst var hinn þriggja mánaða kærufrestur liðinn, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ekkert í gögnum málsins gefur til kynna að afsakanlegt hafi verið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti og engar veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Af þessum sökum verður að vísa máli þessu frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

 

Úrskurðarorð

Kæru A er vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.


 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta