Hoppa yfir valmynd
10. júní 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 16/2010

Fimmtudaginn 10. júní 2010

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Jóna Björk Helgadóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 14. apríl 2010 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 12. apríl 2010. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi, dags. 25. mars 2010, um að synja kæranda um fæðingarstyrk til foreldris í fullu námi.

Með bréfi, dags. 15. apríl 2010, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 20. apríl 2010.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 23. apríl 2010, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

 

I.

Sjónarmið kæranda.

Kærandi greinir frá því að hún stundi nám í framhaldsskóla og hafi átt sitt fyrsta barn hinn Y. desember 2009. Hún hafi sótt um fæðingarstyrk sem námsmaður en fengið synjun á grundvelli þess að hún hafi ekki uppfyllt skilyrði um að hafa stundað fullt nám í lágmark sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins. Hún hafi því einungis fengið lágmarksfæðingarstyrk sem sé ætlaður þeim sem eru utan vinnumarkaðar og skóla.

Kærandi greinir jafnframt frá því að hún hafi lokið þrettán einingum á framhaldsskólastigi í desember 2009 og því verið í fullu námi. Af þessum þrettán einingum hafi hún lokið tólf einingum í Fjölbrautarskólanum í Breiðholti og einni einingu í Fjölbrautarskólanum við Ármúla. Hins vegar hafi hún einungis lokið fimm einingum á vorönn 2009 og því ekki verið í fullu námi þá önn. Þá hafi hún einnig verið að vinna allt árið 2009 með skóla. Hún nái ekki 25% starfshlutfalli í mars 2009 en hlutfallið hafi verið hærra í öðrum mánuðum. Því uppfylli hún heldur ekki skilyrði til þess að eiga rétt á greiðslum í fæðingarorlofi sem launþegi.

Ennfremur greinir kærandi frá því að hún hafi verið í um það bil 90% starfshlutfalli síðasta sumar en hún hafi unnið meira um sumarið þar sem hún sé ekki í skóla yfir sumarmánuðina.

Kærandi kveðst hafa hringt í Fæðingarorlofssjóð síðastliðið haust til þess að spyrja hvort að vorönn 2009 myndi útiloka það að hún ætti rétt á fæðingarstyrk sem námsmaður og þá hafi henni verið sagt að svo væri ekki svo lengi sem hún myndi standast haustönn 2009 sem hún hafi síðan ekki gert. Þá greinir kærandi frá því að í lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sé kveðið á um undantekningar frá því skilyrði að námsmaður þurfi að hafa lokið í það minnsta sex mánaða samfelldu námi á síðustu tólf mánuðum fyrir áætlaðan fæðingardag barns. Annars vegar þegar foreldri hefur verið í samfelldu starfi í a.m.k. sex mánuði áður en námið hefst og hins vegar þegar foreldri hefur lokið a.m.k. einnar annar námi og hefur síðan verið samfellt á vinnumarkaði, að nám og starf hafi verið samfellt í minnst sex mánuði. Það sé seinni undantekningin, eða 12. mgr. 19 gr. laganna, sem kærandi telur að unnt sé að beita í sínu tilviki. Hún nái sex mánaða samfelldu tímabili fyrir fæðingardag barnsins, þar sem hún sé fyrst í vinnu og svo skóla, þ.e. nám og starf hafi varað samfellt í meira en sex mánuði.

Að lokum spyr kærandi hvort undantekningin eigi eingöngu við foreldra sem séu fyrst í námi og fari svo í vinnu og jafnframt spyr kærandi hvort eðlilegt geti talist að viðmiðunartímabil sé lengra hjá námsmönnum en hjá launafólki.

 

II.

Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærandi hafi með umsókn, dags. 26. nóvember 2009, sótt um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í fullu námi í sex mánuði vegna væntanlegrar barnsfæðingar, 28. desember 2009.

Með umsókn kæranda hafi fylgt staðfesting á skólavist frá Fjölbrautarskólanum í Breiðholti, dags. 25. september 2009, námsferilsáætlun frá sama skóla, dags. 8. mars 2010, staðfesting á skólavist frá Fjölbrautarskólanum við Ármúla, dags. 25. september 2009, námsferill frá sama skóla, dags. 25. september 2009, launaseðlar frá C ehf. fyrir mars–nóvember 2009, vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 9. október 2009. Enn fremur hafi legið fyrir upplýsingar úr skrám ríkisskattstjóra og Þjóðskrá.

Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 28. desember 2009, hafi kæranda verið synjað um greiðslu fæðingarstyrks til foreldris í fullu námi. Í bréfinu hafi verið tiltekið að kærandi teldist ekki hafa uppfyllt almenna skilyrðið um að hafa stundað fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir áætlaðan fæðingardag barnsins þar sem hún hafi einungis verið með fimm einingar á vorönn 2009. Kæranda hafi í kjölfarið verið sent annað bréf, dags. 25. mars 2010, þar sem fram kemur að hún uppfylli ekki skilyrði um að hafa verið í samfelldu starfi í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst.

Fæðingarorlofssjóður vísar til þess að skv. 1. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, (ffl.), eigi foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og sýnt viðunandi námsárangur rétt á fæðingarstyrk. Foreldri skuli leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og sýnt viðunandi námsárangur. Heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Fæðingarorlofssjóður bendir á að skilgreiningu á fullu námi sé að finna í 4. mgr. 7. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008. Þar komi fram að fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof teljist vera 75-100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem standi yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.

Fæðingarorlofssjóður greinir frá því að barn kæranda hafi fæðst þann Y. desember 2009 og því hafi verið, við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins, horft til tímabilsins frá 23. desember 2008 fram að fæðingardegi barnsins.

Þá greinir sjóðurinn frá því að samkvæmt staðfestingu á skólavist frá Fjölbrautarskólanum við Ármúla, dags. 25. september 2009, hafi kærandi stundað nám á vorönn 2009 frá 7. janúar-25. maí og verið í fjarnámi haustið 2009 frá 18. ágúst-20. desember. Á yfirliti frá sama skóla, dags. 25. september 2009, komi fram að kærandi hafi verið skráð í 20 einingar á vorönn 2009 en lokið 5 einingum. Á haustönn 2009 hafi kærandi verið í 1 einingu. Á staðfestingu á skólavist frá Fjölbrautarskólanum í Breiðholti, dags. 25. september 2009, komi fram að kærandi hafi stundað nám á haustönn 2009 frá 20. ágúst–18. desember 2009 og á yfirliti frá sama skóla, dags. 8. mars 2010, komi fram að kærandi hafi verið skráð í 15 einingar á haustönn 2009 og lokið 12 einingum. Samkvæmt framansögðu hafi kærandi lokið 5 einingum á vorönn 2009 og 13 einingum á haustönn 2009.

Fæðingarorlofssjóður greinir frá því að þegar um sé að ræða nám við framhaldsskóla teljist 18 einingar á önn vera 100% nám og því teljist 13-18 einingar vera fullt nám samkvæmt ffl. Með hliðsjón af þeim gögnum sem fyrir liggi um námsframvindu kæranda líti Fæðingarorlofssjóður svo á að kærandi uppfylli ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í a.m.k. sex mánuði síðustu tólf mánuðina fyrir fæðingardag barns.

Í ffl. og reglugerð nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, sé að finna nokkrar undanþágur frá framangreindu skilyrði um fullt nám. Í 11. mgr. 19. gr. ffl. sé að finna undanþágu til að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þegar foreldri hefur verið í samfelldu starfi í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst. Í d–lið 2. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, sé að finna skilgreiningu á samfelldu starfi, sbr. og 1. mgr. 13. gr. a. ffl. Með samfelldu starfi sé átt við a.m.k. 25% starf í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði yfir tiltekið tímabil. Enn fremur teljist til samfellds starfs þau tilvik sem talin séu upp í a-d liðum 2. mgr. 13. gr. a. ffl. Í 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, komi fram að foreldri sem hefur unnið 86-172 vinnustundir á mánuði teljist vera í 50-100% starfi en foreldri sem hefur unnið 43-85 stundir á mánuði teljist vera í 25-49% starfi og í 2. mgr. komi fram að þó megi foreldri aldrei vera í minna en 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði, sbr. d-lið 2. gr.

Þá greinir Fæðingarorlofssjóður frá því að síðustu sex mánuðir áður en kærandi hóf nám á haustönn 2009 þann 18. ágúst sé tímabilið frá 18. febrúar til 18. ágúst 2009. Samkvæmt launaseðli C ehf. fyrir mars 2009 hafi kærandi unnið 40,5 tíma í þeim mánuði og nái þar með ekki að vera í a.m.k. 25% starfshlutfalli í þeim mánuði. Samkvæmt því verði ekki séð að undanþága 11. mgr. 19. gr. ffl. geti átt við í tilviki kæranda.

Í 12. mgr. 19. gr. ffl. sé að finna undanþágu til að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þegar foreldri hefur lokið a.m.k. einnar annar námi skv. 1. mgr. og hefur síðan verið samfellt á vinnumarkaði. Skilyrði sé að nám og starf hafi verið samfellt í a.m.k. sex mánuði. Kærandi hafi stundað nám frá 18. ágúst til 20. desember á haustönn 2009 en barn kæranda hafi fæðst Y. desember 2009. Ekki verði því séð að undanþágan geti átt við í tilviki kæranda né heldur að nein önnur undanþága í ffl. eða reglugerð nr. 1218/2008 geti átt við hjá kæranda sem geti veitt henni rétt til greiðslu fæðingarstyrks námsmanna.

Í 13. gr. ffl., sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008, sé kveðið á um rétt foreldra til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, sbr. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1218/2008. Þar segi í 1. mgr. að foreldri, sbr. 1. mgr. 1. gr., öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi foreldris skuli miðað við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi fyrir sama tímabil. Þegar foreldri hefji töku fæðingarorlofs fyrir fæðingardag barns skuli þó miðað við þann dag er foreldrið hefur fæðingarorlof að því er það foreldri varðar.

Fæðingardagur barns kæranda sé eins og fyrr greinir Y. desember 2009. Sex mánaða ávinnslutímabil samkvæmt framangreindu ákvæði 1. mgr. 13. gr. ffl. sé því frá 23. júní 2009 fram að fæðingu barns. Til að öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði hafi kærandi þurft, samkvæmt framangreindu, að hafa verið í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði á tímabilinu sbr. og 1. og 2. mgr. 13. gr. a. ffl., sbr. 9. gr. laga nr. 74/2008 og 4. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 1218/2008.

Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá RSK og launaseðlum frá C ehf. fyrir október til desember 2009 uppfylli kærandi heldur ekki skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 1. og 2. mgr. 13. gr. a. ffl. um að hafa verið samfellt á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. 25% starfshlutfalli síðustu sex mánuði fyrir fæðingardag barns.

Með vísan til alls framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi hafi réttilega verið synjað með bréfi, dags. 28. desember 2009, og að kærandi geti heldur ekki átt rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Að lokum greinir Fæðingarorlofssjóður frá því að kærandi hafi verið afgreidd með fæðingarstyrk sem foreldri utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi frá janúar til júní 2010, sbr. greiðsluáætlun til kæranda, dags. 9. febrúar 2010.

 

III.

Niðurstaða.

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni með bréfi, dags. 25. mars 2010.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, eiga foreldrar sem verið hafa í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og sýnt viðunandi námsárangur rétt til fæðingarstyrks. Foreldri skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og sýnt viðunandi námsárangur. Heimilt er að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Í 4. mgr. 7. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008, segir að fullt nám samkvæmt lögunum sé 75–100% nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.

Barn kæranda fæddist Y. desember 2009. Tólf mánaða viðmiðunartímabil skv. 1. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, er því frá 23. desember 2008 fram að fæðingu barnsins.

Kærandi stundaði nám í Fjölbrautarskólanum í Breiðholti og Fjölbrautarskólanum við Ármúla. Samkvæmt yfirliti frá Fjölbrautarskólanum við Ármúla, dags. 25. september 2009, var kærandi skráð í alls 20 einingar á vorönn 2009 en lauk fimm einingum. Á yfirlitinu kemur einnig fram að kærandi var skráð í eina einingu á haustönn 2009 en samkvæmt upplýsingum frá skólanum til úrskurðarnefndarinnar lauk kærandi þeirri einingu á haustönn 2009. Samkvæmt vottorði um staðfestingu á skólavist frá sama skóla dagsettu sama dag spannar vorönn 2009 yfir tímabilið frá 7. janúar til 25. maí 2009 og haustönn 2009 yfir tímabilið frá 18. ágúst til 20. desember 2009. Samkvæmt vottorði um staðfestingu á skólavist frá Fjölbrautarskólanum í Breiðholti, dags. 25. september 2009, var kærandi skráð þar í nám á haustönn 2009 en sú önn spannar tímabilið frá 20. ágúst til 18. desember 2009. Samkvæmt námsferilsáætlun frá sama skóla, dags. 8. mars 2010, lauk kærandi 12 einingum á haustönn 2009. Alls lauk kærandi því 5 einingum á vorönn 2009 og 13 einingum á haustönn 2009.

Fullt nám í framhaldsskóla telst vera 18 einingar á önn. Fullt nám í skilningi ffl. er því 13–18 einingar á hvorri önn, sbr. 4. mgr. 7. gr. ffl. Kærandi lauk 13 einingum á haustönn 2009, en önnin spannar tímabilið frá 20. ágúst til 18. desember 2009. Telst kærandi því hafa verið í fullu námi á þeirri önn. Þar sem kærandi lauk einungis 5 einingum á vorönn 2009 er óhjákvæmilegt að líta svo á að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 19. gr. ffl. um fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns.

Í 11. mgr. 19. gr. ffl. er kveðið á um undanþágu þess efnis að heimilt sé að greiða foreldri fæðingarstyrk skv. 1. mgr. þrátt fyrir að skilyrði um samfellt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, ættleiðingu eða varanlegt fóstur sé ekki uppfyllt hafi foreldri verið í samfelldu starfi í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst.

Í d-lið 2. gr. reglugerðar nr. 1218/2009, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, er að finna skilgreiningu á því hvað átt sé við með samfelldu starfi en þar segir að með samfelldu starfi sé átt við a.m.k. 25% starf í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði yfir tiltekið tímabil. Enn fremur teljist til samfellds starfs þau tilvik sem talin eru upp í a-d-lið 2. mgr. 13. gr. a. ffl.

Í 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, kemur meðal annars fram að þegar meta eigi starfshlutfall foreldris skv. 6. mgr. 13. gr. ffl., skuli fara eftir fjölda vinnustunda foreldris á mánuði á ávinnslutímabili skv. 1. mgr. 3. gr. og að foreldri sem hefur unnið 86-172 vinnustundir á mánuði teljist vera í 50-100% starfi en foreldri sem hefur unnið 43-85 stundir á mánuði teljist vera í 25-49% starfi. Þó skuli jafnan taka tillit til fjölda vinnustunda sem teljist fullt starf samkvæmt kjarasamningi.

Í 13. gr. a. ffl., sbr. 9. gr. laga nr. 74/2008, er skilgreint hvað felist í því að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi ffl. Þar segir í 1. mgr. að þátttaka á innlendum vinnumarkaði feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.

Samkvæmt gögnum málsins hófst haustönn 2009 í námi kæranda hinn 18. ágúst 2009 og teljast því sex mánuðir áður en nám kæranda hófst á haustönninni frá 18. febrúar 2009. Samkvæmt launaseðli frá C fyrir marsmánuð 2009 vann kærandi einungis 40,5 tíma í þeim mánuði. Samkvæmt d-lið 2. gr. og 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 1218/2008 getur kærandi því ekki talist hafa verið samfelldu starfi í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst um haustið 2009, sbr. undanþáguákvæði 11. mgr. 19. gr. ffl. Þá verður heldur ekki séð af gögnum málsins að tilvik kæranda falli undir liði a-d í 2. mgr. 13. gr. a. ffl.

Í 12. mgr. 19. gr. ffl. er kveðið á um undanþágu þess efnis að heimilt sé að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þegar foreldri hefur lokið a.m.k. einnar annar námi skv. 1. mgr. og hefur síðan verið samfellt á vinnumarkaði. Skilyrði er að nám og starf hafi verið samfellt í a.m.k. sex mánuði. Kærandi stundaði nám sem fyrr greinir frá 18. ágúst til 20. desember 2009 en barn kæranda fæddist síðan þann Y. desember 2009. Í tilviki kæranda eru því ekki uppi þær aðstæður að ákvæði 12. mgr. 19. gr. eigi við.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest.

  

Jóna Björk Helgadóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta