Hoppa yfir valmynd
3. október 2007 Forsætisráðuneytið

A 266/2007 Úrskurður frá 20. september 2007

ÚRSKURÐUR

Hinn 20. september 2007 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-266/2007

 

Kæruefni

Hinn 13. september sl. kærði [...], synjun embættis forseta Íslands, dags. 12. september sl., um upplýsingar um nýafstaðna ferð forseta Íslands til Englands.
Þá óskaði kærandi eftir því að úrskurðarnefndin tæki jafnframt afstöðu til þess hvort upplýsingar um gististað og gistikostnað forsetans, svo og dagpeninga úr ríkissjóði væru undanþegnar upplýsingarétti, þótt ekki hefði verið óskað eftir þeim upplýsingum hjá forsetaembættinu.

 

Málsatvik

Samkvæmt framlögðum gögnum kæranda eru atvik málsins í stuttu máli þau að með tölvubréfi, dags. 12. september sl., óskaði hann eftir upplýsingum embættis forseta Íslands um ferð forsetans til Englands á dögunum. Jafnframt óskaði kærandi upplýsinga um ferðatilhögun, þ. á m. með hvaða flugvél var flogið, hvort um áætlunarflug eða einkaflug hafi verið að ræað og um fylgdarlið forseta Íslands í ferðinni. Loks var óskað upplýsinga um eiganda flugvélarinnar, fjölda farþega á vegum embættisins og nöfn þeirra og einnig kostnað forsetaembættisins við ferðina.
Erindi kæranda var svarað með tölvubréfi forsetaritara, dags. 12. september sl. Í svarinu er rakið með almennum hætti hvernig ferðum forseta til útlanda sé hagað. Tekið er fram að skrifstofa forseta Íslands geti ekki veitt nánari upplýsingar um tiltekin flug eða ferðir forseta umfram það sem fram komi á heimasíðu embættisins og fylgi skrifstofan í því efni reglum um öryggi þjóðhöfðingja.

 

Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga, sbr. 1. gr. laga nr. 161/2006, tekur upplýsingaréttur almennings til þess að fá aðgang að fyrirliggjandi gögnum hjá stjórnvöldum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr. Í 2. mgr. 3. gr. eru tilgreind þau gögn sem þessi réttur nær til. Þá kemur fram í 1. mgr. 10. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 161/2006, að sá sem fer fram á aðgang að gögnum skuli annaðhvort afmarka beiðni sína við tiltekin gögn máls eða við öll gögn tiltekins máls án þess að tilgreina einstök gögn þess. Í skýringum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum, og ennfremur í lögum nr. 161/2006, kemur fram að í beiðni verði „... að tilgreina gögnin eða málið með það glöggum hætti að stjórnvöldum sé fært að hafa uppi á gögnunum eða málinu.“
Í 1. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1996 er kveðið á um það að heimilt sé að bera synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem úrskurði um ágreininginn. Hið sama gildir um synjun stjórnvalds um að afhenda ljósrit af skjölum eða afrit af öðrum gögnum. Í skýringum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum er tekið fram að kæruheimildin sé bundin því skilyrði að ágreiningur sé uppi um annað tveggja, skyldu stjórnvalds til þess að veita aðgang að gögnum eða skyldu þess til að veita aðgang í formi ljósrits af skjölum eða afrits af öðrum gögnum.
Af fyrirliggjandi gögnum verður ekki séð að forsetaembættið hafi synjað kæranda um aðgang að gögnum í skilningi upplýsingalaga heldur hafi það ekki veitt þær upplýsingar sem beðið var um, sem er synjun annars eðlis og á ekki undir lög nr. 50/1996. Þegar til þessa er litið þykir úrskurðarnefndinni ekki ástæða til að leita eftir athugasemdum forsetaembættisins við kæruna áður en hún tekur afstöðu til hennar. Með vísan til þess sem að framan segir um 1. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1996 og skýringar við ákvæðið ber að vísa kærunni frá nefndinni.
Það er utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1996, að verða við þeirri ósk kæranda að  nefndin taki afstöðu til þess hvort upplýsingar um gististað og gistikostnað forsetans, svo og dagpeninga úr ríkissjóði séu undanþegnar upplýsingarétti. Þeirri ósk er því hafnað.

 

Úrskurðarorð:

Kæru [...] er vísað frá.
Hafnað er þeirri ósk kæranda að úrskurðarnefnd um upplýsingamál taki afstöðu til þess hvort upplýsingar um gististað og gistikostnað forsetans, svo og dagpeninga úr ríkissjóði séu undanþegnar upplýsingarétti.


Friðgeir Björnsson
varaformaður

 

                                           Sigurveig Jónsdóttir                                          Þorgeir Ingi Njálsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta