Hoppa yfir valmynd
11. desember 2007 Forsætisráðuneytið

A 268/2007 Úrskurður frá 30. nóvember 2007

ÚRSKURÐUR

Hinn 30. nóvember 2007 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-268/2007.


Kæruefni

Með kæru, dags. 1. október 2007, kærði [...], framkvæmdastjóri [Y], synjun Heilbrigðisstofnunar Austurlands á beiðni hans um aðgang að skriflegum samningi stofnunarinnar við [X] um aðstöðu til sölu gleraugna á Fjórðungssjúkrahúsinu á Neskaupsstað.

Með bréfi, dags. 15. október 2007, var kæran kynnt Heilbrigðisstofnun Austurlands og henni veittur frestur til 26. október 2007 til að gera athugasemdir við hana og koma að frekari  rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Jafnframt var þess óskað að stofnunin léti nefndinni í té afrit þeirra gagna sem kæran laut að.

Umsögn Heilbrigðisstofnunar Austurlands barst nefndinni með bréfi, dags. 26. október 2007. Kæranda var  gefinn kostur á að tjá sig um umsögn stofnunarinnar með bréfi, dags. 5. nóvember 2007. Athugasemdir hans bárust nefndinni með bréfi, dags. 12. nóvember sl. Ljóst er af þeim gögnum sem nefndin fékk frá heilbrigðisstofnuninni að um er að ræða ódagsettan samning um afnot af rými í heilsugæslustöðvum HSA með gildistíma frá 28. febrúar 2007 til 28. febrúar 2010.

 

Málsatvik

Samkvæmt framlögðum gögnum eru málavextir í stuttu máli þeir að með símtali 27. september 2007 hafnaði forstöðumaður Heilbrigðisstofnunar Austurlands beiðni kæranda, framkvæmdastjóra [Y] um aðgang að skriflegum samningi stofnunarinnar við [X]. um aðstöðu til sölu gleraugna á Fjórðungssjúkrahúsi Neskaupsstaðar.

 

Niðurstaða

1.
Kærandi hefur afmarkað beiðni sína við samning Heilbrigðisstofnunar Austurlands við fyrirtækið [X] um aðstöðu til sölu gleraugna á Fjórðungssjúkrahúsinu á Neskaupsstað.
Í umsögn Heilbrigðisstofnunar Austurlands til nefndarinnar, dags. 26. október 2007, kemur fram að stofnunin hafi ekki talið sér skylt að afhenda kæranda afrit samningsins, en það sé lagt í hendur úrskurðarnefndarinnar að skera úr um hvort stofnuninni beri að verða við ósk hans, auk þess sem óskað er leiðbeininga nefndarinnar um það hvort stofnuninni beri að afhenda viðskiptasamninga sem hún gerir hverjum þeim sem um þá biður.
Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir röksemdum aðila máls þessa í úrskurðinum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

 


2.
Úrskurðarnefndin hefur í úrskurðum sínum, þar sem fjallað hefur verið um aðgang að samningum um kaup opinberra aðila á þjónustu eða vöru hjá einkaaðilum, vísað til þess að skýra beri takmarkanir á upplýsingarétti almennings þröngt, sbr. t.d. úrskurði nefndarinnar í málum A- 232/2006 og A-133/2001.
Samkvæmt 5. gr. upplýsingalaga er óheimilt að veita almenningi aðgang „... að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.“ Í athugasemdum, er fylgdu frumvarpi til upplýsingalaga, er m.a. tekið fram, til skýringar á niðurlagsákvæði greinarinnar, að óheimilt sé „... að veita almenningi upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni.“
Í ákvæðum upplýsingalaga er gert ráð fyrir að það sé metið í hverju og einu tilviki hvort um sé að ræða upplýsingar um svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækis, að ætla megi að þær séu til þess fallnar að valda því tjóni verði aðgangur veittur að þeim. Við matið verður einnig að líta til þess hversu mikið tjónið geti orðið og hversu líklegt sé að það muni verða, séu upplýsingarnar veittar. Við það mat verður enn fremur að líta til eðlis upplýsinganna, framsetningar þeirra og aldurs, svo og hvaða þýðingu þær hafi fyrir rekstur fyrirtækisins á þeim tíma er matið fer fram, þ. á m. hvort um sé að ræða nýjar eða óþekktar framleiðsluaðferðir eða upplýsingar sem skert geti samkeppnishæfni þess á annan hátt. Þegar allt þetta hefur verið virt verður að því búnu að meta hvort vegi þyngra hagsmunir fyrirtækisins eða þeir hagsmunir sem meginreglu 3. gr. upplýsingalaga um aðgang almennings að gögnum er ætlað að tryggja, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 23. mars 2000 í máli nr. 455/1999 (H 2000:1344). Koma þessi sjónarmið m.a. fram í úrskurðum nefndarinnar í málum A-234/2006, A-233/2006 og A-206/2005.
Úrskurðarnefndin hefur lagt til grundvallar í úrskurðum sínum, sbr. t.d. A-234/2006, A-224/2005, að almenningur eigi almennt ríkari rétt til aðgangs að upplýsingum um ráðstöfun opinberra fjármuna og gæða heldur en upplýsinga um viðskipti milli einkaaðila. Varði upplýsingar á hinn bóginn innri málefni aðila sem starfa á einkaréttarlegum grundvelli þ. á m. upplýsingar um fjárhagslega afkomu þeirra eða rekstur verður almennt að líta svo á að óheimilt sé að veita aðgang að þeim samkvæmt síðari málslið 5. gr. upplýsingalaga.
Samningurinn sem hér um ræðir er um leigugjald einkafyrirtækis fyrir tiltekna aðstöðu í Fjórðungssjúkrahúsinu á Neskaupsstað.

 

3.
Í máli þessu liggur ekki fyrir afstaða fyrirtækisins [X] til þess hvort umræddur samningur innihaldi upplýsingar sem skaðað geti fjárhags- og samkeppnisstöðu fyrirtækisins ef þær upplýsingar sem þar koma fram verði gerðar opinberar.
Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér samninginn. Í honum eru aðeins upplýsingar um hver hin leigða aðstaða er og gjaldið sem fyrirtækið greiðir fyrir hana. Enda þótt í samningnum sé tilgreint leigugjald fyrirtækis verður ekki séð að í þessu tilviki sé um að ræða fjárhagsmálefni sem sanngjarnt og eðlilegt sé að leynt eigi að fara samkvæmt ákvæðum 5. gr. upplýsingalaga. Verður jafnframt að hafa í huga að hér er um að ræða ráðstöfun opinberra eigna þótt í litlu sé. Með tilvísun til þess og þeirra sjónarmiða sem meginreglan um upplýsingarétt almennings byggist á er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að veita beri kæranda aðgang að umræddum samningi Heilbrigðisstofnunar Austurlands  við fyrirtækið [X].
Niðurstaða þessi á eðli máls samkvæmt aðeins við um þann samning sem beiðni kæranda lýtur beinlínis að. Heilbrigðisstofnun Austurlands ber hverju sinni að taka afstöðu til beiðna um aðgang að viðskiptasamningum á grundvelli framangreindra sjónarmiða.

 

Úrskurðarorð

Heilbrigðisstofnun Austurlands er skylt að veita kæranda, [...], framkvæmdastjóra, aðgang að ódagsettum samningi stofnunarinnar við [X]. um afnot af rými í heilsugæslustöðvum HSA með gildistíma frá 28. febrúar 2007 til 28. febrúar 2010.

 


                                                                       Friðgeir Björnsson formaður

 


                                             Sigurveig Jónsdóttir                                            Trausti Fannar Valsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta