OCHA: Kallað eftir fjárstuðningi vegna neyðar í Pakistan
Úrhelli og flóð hafa leitt til fordæmalausra hamfara í Pakistan frá því í sumar og valdið miklu manntjóni og eignatjóni. Samhæfingarskrifstofa aðgeðra Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum, OCHA, kallaði í morgun eftir 120 milljörðum íslenskra króna til að aðstoða 20,6 milljónir Pakistana í neyð.
Bráðabirgðamat Alþjóðabankans bendir til þess að í beinu framhaldi af flóðunum gæti hlutfall fátæktar í landinu hugsanlega aukist um 4,5 til 7,0 prósentustig og hrakið á bilinu 9,9 til 15,4 milljónum manna út í sárafátækt. Konur eru sérstaklega viðkvæmar fyrir fátækt, þar sem aðeins 22,6 prósent kvenna í Pakistan eru virkar á vinnumarkaði og tekjur kvenna að meðaltali um 16 prósent af tekjum karla.
Um 33 milljónir manna hafa orðið fyrir barðinu á þessum miklu rigningum og flóðum, þar af að minnsta kosti 7,9 milljónir manna sem hafa lent á vergangi. Af þeim hafast um 598 þúsund við í hjálparbúðum. Talið er að nærri 800 þúsund flóttamenn séu hýstir í meira en 40 umdæmum.
Samkvæmt yfirvöldum landsins í slysavörnum (National Disaster Management Authority, NDMA) létu yfir 1.600 manns lífið á tímabilinu 14. júní til 28. september og yfir 12.800 manns slösuðust í kjölfar náttúruhamfaranna. Börn eru þriðjungur í skráðum dauðsföllum og meiðslum.
OCHA gegnir lykilhlutverki í mannúðaraðstoð og neyðarviðbrögðum í heiminum. Hún er ein af fjórum áherslustofnunum Íslands í mannúðaraðstoð samkvæmt stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019-2023.