Hoppa yfir valmynd
13. september 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 333/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 333/2023

Miðvikudaginn 13. september 2023

A

gegn

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Ú R S K U R Ð U R 

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 5. júlí 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 29. júní 2023, um innheimtu ofgreiddra húsnæðisbóta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi þáði húsnæðisbætur á tímabilinu janúar til júlí 2022. Með bréfi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 29. júní 2023, var kæranda birt lokauppgjör vegna ársins 2022 þar sem fram kom að hann hefði fengið ofgreiddar húsnæðisbætur, að fjárhæð 150.859 kr.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 5. júlí 2023. Með bréfi, dags. 11. júlí 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð barst 24. ágúst 2023 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 25. ágúst 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann sé að kæra útreikning Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar en þar sé ekki vilji til að hlusta á útskýringar hans eða rök, hvorki í síma né tölvupóstum. Upphaflega hafi kærandi gert eins árs leigusamning við B sem hafi verið þinglýst og svo hafi leigusamningurinn verið framlengdur um ár en leigusali virðist ekki hafa þinglýst framlengingunni. Af þeim sökum hafi kærandi fengið endurkröfu sem hann hafi svo greitt. Kæran snúi hins vegar að endurkröfu upp á 150.000 kr. eða allar húsnæðisbætur sem kærandi hafi fengið frá janúar til júní árið 2022. Staðreynd málsins sé sú að kærandi hafi vissulega leigt íbúðina og greitt leigu fyrir þessa sex mánuði. Kærandi hafi hins vegar einungis fengið laun fyrstu fjóra mánuði ársins 2022 þar sem vinnustað hans hafi verið lokað í maí og öllum sagt upp. Kærandi hafi ekki fengið nein laun í maí og júní 2022. Því sé meðaltal útborgaðra launa á því tímabili sem hann hafi þegið húsnæðisbætur rétt rúmlega 300.000 kr.

Eftir að hafa verið launalaus í tvo mánuði hafi kærandi neyðst til að flytja úr íbúðinni og segja leigunni upp þar sem hann hafi ekki getað greitt leigu. Verandi húsnæðis- og atvinnulaus hafi kærandi flutt í verbúð og unnið 16 tíma á dag, alla daga í tvo mánuði. Þessa tvo mánuði hafi kærandi fengið mjög góðar tekjur sem hafi að miklu leyti farið í að greiða uppsafnaðar skuldir. Nú hafi kærandi fengið endurkröfu vegna húsnæðisbóta á tímabilinu janúar til júní vegna tekna sem hann hafi aflað í júlí og ágúst, byggt á launaseðlum fyrir maí og júní en hann hafi verið svikinn um laun og ekki fengið neitt greitt. Kærandi óski eftir útskýringu á útreikningi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, hvort rétt sé að telja með tekjur sem hafi verið aflað eftir að leigusamningi hafi verið sagt upp. Á tímabilinu janúar til júní 2022 hafi kærandi átt fullan rétt á húsnæðisbótum og frá júnímánuði hafi hann ekki verið að þiggja bætur, enda hafi hann búið í einhverjum kofa út á landi að vinna. Tekjur sem kærandi hafi aflað þar verði til þess að hann þurfi að endurgreiða bætur sem hann hafi sannarlega átt rétt á og þurft nauðsynlega á að halda.

III.  Sjónarmið Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar

Í greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar kemur fram að kærandi hafi skilað inn umsókn um húsnæðisbætur þann 13. apríl 2021 vegna leigu á húsnæðinu C. Umsókn kæranda hafi verið samþykkt þann 26. apríl 2021.

Bréf vegna endurreiknings húsnæðisbóta hafi verið send kæranda þrisvar árið 2022, þann 25. janúar, 21. apríl og 8. júní. Endurreikningsbréf geymi uppfærða tekju- og eignaáætlun sem sé byggð á nýjustu fyrirliggjandi upplýsingum frá Skattinum og taki mið af heildartekjum, þar með talið fjármagnstekjum, heildareignum, ásamt orlofs- og desemberuppbótum. Kæranda hafi verið veitt færi á því í framangreindum bréfum að koma að athugasemdum ef hann teldi þær upplýsingar sem notaðar væru við útreikning húsnæðisbóta ekki endurspegla væntanlegar tekjur og eignir ársins 2022. Engar athugasemdir hafi borist stofnuninni frá kæranda í kjölfar áætlana.

Kærandi hafi ekki sagt upp umsókn sinni þegar hann hafi flutt úr leiguhúsnæði og því séu upplýsingar frá sýslumanni þess efnis að leigusamningi kæranda hafi verið aflýst/hann yfirstrikaður úr þinglýsingabók þann 1. ágúst 2022 einu upplýsingarnar sem stofnunin hafi. Í kjölfarið hafi umsókn verið frestað og svo synjað í kjölfar frestunar eða þann 7. september 2022.

Þann 29. júní 2023 hafi kæranda verið birt lokauppgjör húsnæðisbóta vegna ársins 2022. Í bréfinu komi fram að eftir endurreikning húsnæðisbóta hafi komið í ljós að kærandi hefði á tímabilinu fengið ofgreiddar húsnæðisbætur sem næmu 150.859 kr. Í kjölfarið hafi kærandi haft samband við stofnunina þar sem hann hafi haldið að um mistök væri að ræða. Kærandi hafi verið upplýstur um að hann hefði verið með virka umsókn um húsnæðisbætur frá janúar til júlí 2022 og fengið greiddar húsnæðisbætur fyrir þá mánuði. Útskýrt hafi verið fyrir kæranda að þegar lokauppgjör sé gert sé meðaltal tekið af tekjum þá mánuði sem hann hafi þegið bætur.

Ítrekað hafi verið óskað eftir gögnum/staðfestingu á því að kærandi hefði ekki verið að leigja húsnæðið í júlí til að athuga hvort grundvöllur væri fyrir endurreikningi lokauppgjörs. Kærandi hafi staðfest með tölvupósti að hann hefði verið að leigja húsnæðið út júlí.

Í máli þessu sé deilt um lokauppgjör húsnæðisbóta vegna ársins 2022. Samkvæmt niðurstöðu lokauppgjörs hafi kærandi fengið ofgreiddar húsnæðisbætur árið 2022 vegna tekna. Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur megi endurskoða rétt til húsnæðisbóta hvenær sem er og endurreikna fjárhæð þeirra þannig að húsnæðisbætur verði í samræmi við þær breytingar sem hafi orðið á aðstæðum umsækjanda eða annarra heimilismanna. Í 2. mgr. 25. gr. komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur og eignir næstliðins almanaksárs samkvæmt 17. og 18. gr. laga um húsnæðisbætur liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skuli framkvæmdaraðili endurreikna fjárhæðir húsnæðisbóta vegna þess almanaksárs á grundvelli þeirra upplýsinga.

Í athugasemdum við 25. gr. frumvarpsins segi einnig að gert sé ráð fyrir að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun jafni áætluðum heildargreiðslum ársins á alla mánuði almanaksársins, eða eftir atvikum þá mánuði sem veiti rétt til húsnæðisbóta. Leiði endurreikningur samkvæmt 1. og 2. mgr. til breytinga á fjárhæð húsnæðisbóta skuli leiðrétta húsnæðisbætur samkvæmt 26. gr. en þar komi fram að hafi umsækjandi fengið hærri húsnæðisbætur en honum hafi borið á umræddu tímabili beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem hafi verið ofgreidd.

Í 17. gr. laga um húsnæðisbætur sé fjallað um áhrif tekna á grunnfjárhæðir húsnæðisbóta og frítekjumörk bóta miðað við árstekjur. Frítekjumörk miðað við einn heimilismann hafi verið 4.895.292 kr. fyrir árið 2022, sbr. 14. gr. reglugerðar nr. 1200/2016 um húsnæðisbætur, með síðari breytingum. Í máli þessu liggi fyrir miðað við upplýsingar frá Skattinum að heildartekjur kæranda hafi verið samtals 10.115.725 kr. fyrir árið 2022.

Í endurreikningsbréfum sé athygli vakin á því að það sé á ábyrgð umsækjanda að upplýsa stofnunina um allar þær breytingar sem verði á aðstæðum viðkomandi sem kunni að hafa áhrif á rétt til húsnæðisbóta, sbr. 3. mgr. 14. gr. laga um húsnæðisbætur. Í endurreikningsbréfum sé einnig vakin athygli á því að ef í ljós komi að umsækjandi hafi fengið ofgreiddar húsnæðisbætur beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið og gera tilhögun um endurgreiðslu, sbr. 26. gr. laganna og 22. gr. reglugerðarinnar.

Kærandi hafi ekki upplýst stofnunina um breytingar sem hafi orðið á tekjum á tímabilinu né sagt upp umsókn sinni um húsnæðisbætur og í ljósi þess þurfi kærandi að bera hallann af því að hafa ekki sinnt upplýsingaskyldu sinni í samræmi við fyrrnefnda 3. mgr. 14. gr. laganna.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun krefjist þess að hin kærða ákvörðun stofnunarinnar í málinu verði staðfest.

 

 

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 29. júní 2023, um innheimtu ofgreiddra húsnæðisbóta vegna tímabilsins janúar til júlí 2022, að fjárhæð 150.859 kr.

Í 8. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur kemur fram að húsnæðisbætur séu mánaðarlegar greiðslur sem greiðast til umsækjanda, sbr. þó 4. mgr. 21. gr., og skuli ákvarðaðar og reiknaðar út miðað við grunnfjárhæðir sem miðast við fjölda heimilismanna, sbr. 3. tölul. 3. gr., að teknu tilliti til tekna, sbr. 17. gr., eigna, sbr. 18. gr., og greiðsluþátttöku í húsnæðiskostnaði, sbr. 19. gr. Samkvæmt 14. gr. laga nr. 75/2016 er umsækjanda skylt að veita framkvæmdaraðila allar þær upplýsingar og gögn þeim til staðfestingar sem óskað er eftir og nauðsynlegar eru til að staðreyna rétt hans til húsnæðisbóta. Enn fremur er skylt að upplýsa um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans eða heimilismanna eða öðrum þeim atriðum sem kunna að hafa áhrif á rétt viðkomandi til húsnæðisbóta samkvæmt lögunum á þeim tíma sem hann fær greiddar húsnæðisbætur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Húsnæðis- og mannvirkjastofnun um meðal annars tekjubreytingar á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Í 25. gr. laganna er kveðið á um endurreikning á húsnæðisbótum. Þar segir í 1. mgr. að rétt til húsnæðisbóta megi endurskoða hvenær sem er og endurreikna fjárhæð húsnæðisbóta þannig að húsnæðisbætur verði í samræmi við þær breytingar sem orðið hafa á aðstæðum umsækjanda eða annarra heimilismanna. Í 2. mgr. kemur fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur og eignir næstliðins almanaksárs samkvæmt 17. og 18. gr. liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skuli framkvæmdaraðili endurreikna fjárhæðir húsnæðisbóta vegna þess almanaksárs á grundvelli þeirra upplýsinga. Í 3. mgr. kemur fram að leiði endurreikningur samkvæmt 1. og 2. mgr. til breytinga á fjárhæð húsnæðisbóta skuli leiðrétta húsnæðisbæturnar samkvæmt 26. gr. laganna. Þar segir í 1. mgr. að hafi umsækjandi fengið hærri húsnæðisbætur en honum bar á umræddu tímabili beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var.

Kærandi þáði húsnæðisbætur á tímabilinu janúar til júlí 2022. Samkvæmt tekjuáætlunum, sem lagðar voru til grundvallar við útreikning húsnæðisbóta, voru heildartekjur kæranda áætlaðar ýmist 475.155 kr., 536.819 kr. og 551.904 kr. þessa mánuði. Við lokauppgjör ársins 2022 reyndust tekjur kæranda á tímabilinu, þ.e. janúar til júlí 2022, vera hærri en framangreindar tekjuáætlanir gerðu ráð fyrir, eða 729.585 kr. á mánuði, og yfir frítekjumörkum 14. gr. reglugerðar nr. 1200/2016 um húsnæðisbætur sem leiddi til ofgreiðslu að fjárhæð 150.859 kr. Kæranda ber í samræmi við ákvæði 26. gr. laga nr. 75/2016 að endurgreiða þá fjárhæð.

Með vísan til framangreinds er ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um innheimtu ofgreiddra húsnæðisbóta til handa kæranda staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 29. júní 2023, um innheimtu ofgreiddra húsnæðisbóta A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta