Hoppa yfir valmynd
22. janúar 2018 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Greinargerð um starfsemi Lindarhvols

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur sent Alþingi greinargerð með upplýsingum starfsemi Lindarhvols ehf. og framvindu vinnu við úrvinnslu þeirra stöðugleikaeigna sem ríkissjóður fékk í sinn hlut í tengslum við nauðasamninga slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja.

I. Samantekt

Í greinargerð þessari, sem rituð er með vísan til 6. málsl. 4. mgr. ákvæðis III til bráðabirgða við lög nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands, er gerð grein fyrir framvindu við úrvinnslu stöðugleikaeigna sem ríkissjóður fékk í sinn hlut í tengslum við nauðasamninga slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja og hafa verið til umsýslu hjá Lindarhvoli ehf., auk upplýsinga um ráðstöfun stöðugleikaframlags. Skýrsla þessi gerir grein fyrir stöðu, framgangi og áætlunum um úrvinnslu eignanna frá síðustu samantekt en sú samantekt náði frá stofnun Lindarhvols ehf. 15. apríl 2016 fram til 25. ágúst 2017.

II. Inngangur

Með setningu laga nr. 60/2015 um stöðugleikaskatt og breytingum á bráðabirgðaákvæði III laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands, sem var hluti af áætlun um losun fjármagnshafta, var heimilað að slitabú fallinna fjármálafyrirtækja gætu greitt stöðugleikaframlag í stað greiðslu stöðugleikaskatts.

Seðlabanki Íslands veitti stöðugleikaeignunum viðtöku en verðmætin runnu í ríkissjóð. 

Stöðugleikaeignir má í megin atriðum flokka í laust fé, framseldar eignir, skilyrtar fjársópseignir og framlög vegna viðskiptabanka.

Stöðugleikaeignir framseldar af slitabúum á grundvelli stöðugleikaframlags þeirra við samþykki nauðasamnings þeirra skiptust með eftirfarandi hætti samkvæmt mati á virði þeirra í janúar 2016:


III. Varðveisla og sala stöðugleikaeigna í umsýslu Lindarhvols ehf.

Laust fé

 Allt laust fé sem borist hefur á tímabilinu hefur verið ráðstafað inn á sérstakan stöðugleikareikning í eigu ríkissjóðs í Seðlabanka Íslands lögum samkvæmt, sjá nánar umfjöllun um greiðsluflæði hér síðar í samantekt þessari.

Framseldar eignir

Öll skráð hlutabréf í umsýslu Lindarhvols ehf. hafa verið seld í opnu söluferli í samræmi við reglur félagsins um sölu stöðugleikaeigna með vísan til samnings þess við fjármála- og efnahagsráðuneytið.

Í samræmi við reglur Lindarhvols ehf. var allt hlutafé í Lyfju hf., sem fellur undir flokkinn óskráð hlutabréf í ofangreindri greiningu, selt Högum hf. haustið 2016 sem áttu hæsta kauptilboðið í opnu söluferli. Kaupsamningur var undirritaður með fyrirvara um áreiðanleika­könnun og samþykki Samkeppniseftirlitisins. Með vísan til fyrri samantekta Fjármála- og efnahagsráðuneytisins þá var stefnt að því að ljúka sölunni með greiðslu kaupverðs á fyrri hluta ársins 2017 að uppfylltum fyrrgreindum fyrirvörum. Á sumarmánuðum kom hins vegar í ljós að Samkeppniseftirlitið hafnaði samruna félaganna og varð því ekki af sölu á Lyfju hf. til Haga hf. Á haustmánuðum var því ákveðið að auglýsa allt hlutafé í Lyfju hf. til sölu í opnu söluferli með auglýsingu 9. nóvember s.l. Óskuldbindandi tilboðum var skilað 15.desember s.l. og söluferlinu lýkur með skilum á skuldbindandi tilboðum þann 29. janúar 2018.

Hluti af öðrum óskráðum hlutabréfum í umsýslu Lindarhvols ehf., hefur verið seldur í opnu söluferli og við söluna var í samræmi við fyrrgreindar reglur lögð áhersla á gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni, sbr. nánar fyrri samantektir ráðuneytisins.

Langstærstur hluti skráðra skuldabréfa í umsýslu Lindarhvols hefur verið seldur í opnu söluferli og hefur öllum fjármunum vegna þeirra verið ráðstafað inn á stöðugleikareikning Ríkissjóðs Íslands í Seðlabanka Íslands. Töluvert hefur verið um uppgreiðslur á óskráðum skuldabréfum og lánaeignum í umsýslu Lindarhvols ehf. á tímabilinu.

Umtalsverðar greiðslur hafa verið af eignum sem falla undir aðrar eignir í flokknum framseldar eignir, sem getið er hér að ofan, og jafnframt voru nauðasamningskröfur á félög sem voru í slitameðferð seldar í opnu söluferli, sbr. nánar samantekt ráðuneytisins til Alþingis í nóvember 2016. Hafa greiðslur vegna þeirrar sölu þegar borist og verið ráðstafað inn á stöðugleikareikning Ríkissjóðs Íslands.

Skilyrtar fjársópseignir

Greiðslur vegna skilyrtra fjársópseigna hafa áfram borist og hefur þeim verið ráðstafað jafnóðum inn á stöðugleikareikning ríkissjóðs í Seðlabanka Íslands.

Framlag vegna viðskiptabanka

Á vormánuðum seldi Kaupþing 29% hlut í Arion banka og var söluandvirðinu ráðstafað til greiðslu inn á skuldabréf Kaupþings til ríkissjóðs, alls 49 ma.kr. Áfram er fylgst grannt með framvindu sölu Arion banka hf. af hálfu Kaupþings ehf. og að samningsskyldum viðkomandi sé fullnægt, í gegnum eftirlitsaðila (,,observer“) samkvæmt ákvæðum afkomuskiptasamningsins við Kaupþing ehf. Í fjárlögum 2017 var gert ráð fyrir að frekari sala á hlutum í Arion banka ætti sér stað fyrir árslok 2017, samhliða skráningu bankans á markað. Í septembermánuði 2017 tilkynnti Kaupþing ehf. að engin ákvörðun yrði tekin um hugsanlega skráningu bankans á markað að sinni og tekið fram að mjög ólíklegt væri að slík ákvörðun yrði tekin á árinu 2017. Fjármála- og efnahagsráðuneytið gerir ráð fyrir að skuldabréfið verði að fullu greitt upp á árinu 2018 og andvirðinu ráðstafað til frekari niðurgreiðslu skulda. Áætlun um sölu á hlutum í Íslandsbanka hf. er í höndum Bankasýslu ríkisins.

Greiðsluflæði

Samandregið frá því að framsal stöðugleikaeignanna átti sér stað í upphafi árs 2016 og til og með 29. desember 2017 hafa greiðslur inn á stöðugleikareikninginn ásamt greiðslum inn á reikninga dótturfélaga numið samtals ríflega kr. 150 ma.kr. Þar af var 34 ma.kr. ráðstafað til ríkissjóðs til að mæta töpuðum bankaskatti og um 116 ma.kr. hefur verið ráðstafað til niðurgreiðslu skulda.

IV. Staða núverandi stöðugleikaeigna í umsýslu Lindarhvols ehf.

Með vísan til framangreinds og fyrri samantekta ráðuneytisins liggur fyrir að Lindarhvoll ehf. hefur komið langstærstum hluta þeirra stöðugleikaeigna sem félaginu var falin umsýsla á í laust fé og hefur greiðsluflæði vegna þeirra eigna verið ráðstafað inn á stöðugleikareikning í eigu ríkissjóðs í Seðlabanka Íslands.

Framseldum stöðugleikaeignum sem voru enn í umsýslu Lindarhvols í lok árs og hefur ekki verið ráðstafað eða um þær þegar samið nú þegar, má skipta upp í lánaeignir, óskráð hlutabréf og aðrar eignir. Heildarverðmæti þeirra liggur að stærstum hluta í verðmæti lánaeigna. Sökum þess að ofantaldar eignir voru ekki taldar söluhæfar, eins og fjallað var um í síðustu samantekt, var á grundvelli heimildar í fjáraukalögum fyrir árið 2017 stærstum hluta þeirra ráðstafað til niðurgreiðslu lífeyrisskuldbindinga ríkissjóðs gagnvart B deild LSR, alls 19 ma.kr. Með þeirri ráðstöfun næst það markmið að hámarka virði þeirra fyrir ríkissjóð. 

Aðrar stöðugleikaeignir sem falla undir flokkinn aðrar eignir eru að mati félagsins þess eðlis að því markmiði að hámarka verðmæti þeirra eigna til hagsbóta fyrir Ríkissjóð Íslands sé best náð með því að bíða eftir að greiðslur vegna þeirra berist beint inn á reikning ríkissjóðs í Seðlabanka Íslands.

Skilyrtar fjársópseignir eru því marki brenndar að ekki er hægt að setja þær í sölu af hálfu Lindarhvols ehf. og því verður að bíða eftir að slitabúin ljúki þeim aðgerðum sem nauðsynlegar eru til að skilyrðum verði aflétt.

Með vísan til fyrri samantekta ráðuneytisins var stefnt að því að draga verulega úr starfsemi Lindarhvols ehf. strax á fyrri hluta árs 2017. Vegna niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins varðandi Lyfju og til þess að klára ráðstafanir á öðrum eignum var starfsemi félagsins haldið áfram en áætlanir gera ráð fyrir að félagið muni ljúka störfum snemma á árinu, enda verði þá öll meginverkefni þess til lykta leidd.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta