Hoppa yfir valmynd
8. október 2003 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Úrskurður nr.. 216/2003 - slysatrygging við heimilisstörf

 

A

 

gegn

 

Tryggingastofnun ríkisins

 

 

 

Ú r s k u r ð u r.

 

Mál þetta úrskurðuðu Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir   og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.

 

Með ódags. kæru til Úrskurðarnefndar almannatrygginga, móttekinni 26. ágúst 2003 kærir X, hrl. f.h. A synjun Tryggingastofnunar ríkisins á greiðslu slysabóta.

 

Þess er krafist að slysabætur verði greiddar.

 

Málavextir eru þeir samkvæmt tilkynningu um slys til Tryggingastofnunar dags. 28. apríl 2003 að kærandi varð fyrir því þann 29. mars 2003 að detta um stól í eldhúsinu heima hjá sér og bera fyrir sig hendina.  Samkvæmt læknisvottorði dags. 28. apríl 2004 hlaut kærandi úlnliðsbrot.  Með bréfi Tryggingastofnunar dags. 6. maí 2003 var óskað nánari upplýsinga á tildrögum og orsökum slyss.  Svar er dags. 12. maí 2003.  Þar segir:

 

  „ Þann 29 mars sl. Var A að sýsla í eldhúsinu eins og hún gerir vanalega. Hún segir að síminn hafi hringt og hafi hún þá snúið sér frekar snökkt við og verið í svolitlum flýti að svara símanum þar sem hún hafi átt von á símtali.

Vildi svo illa til að fyrir aftan hana var stólkollur sem hún hnaut um þegar hún snéri sér við og bar hún fyrir sig hendinni til að reyna grípa í borðbrún til að verjast falli. Ekki vildi betur til en að hún datt á gólfið með hendina undir sig. Eldri dóttir hennar ók henni á slysadeild og kom í ljós þá á rönken mynd að 23 ára gamalt brot hafði brotnað upp. Árið 1980 hafði hún dottið í Sundlaug Vesturbæjar og handleggsbrotnað, og var hún nú brotin á sama stað.”

 

Umsókn var synjað 23. maí 2003.

 

Í rökstuðningi kæranda segir:

 

„ Kæru sína byggir umbj.m. á því, að skv. reglum um slysatryggingu við heimilisstörf nr. 527/1995, 3. gr. eru talin upp þau störf sem teljast til heimilisstarfa, enda séu þau ekki liður í atvinnustarfsemi. Í 1. tl. eru verk eins og matseld og þrif m.a. talin falla undir hugtakið hefðbundin heimilisstörf. Umbj.m. var í eldhúsi sínu að sísla er hún hnaut um stólkoll, hrasaði og féll með þeim afleiðingum að gamalt brot hrökk í sundur. Það að umbj.m. var á leið að svara í síma þegar þetta á sér stað, getur á engann hátt breytt þeirri staðreynd, að hún var við hefðbundin heimilsstörf þegar slysið á sér stað.

 

Í öðru lagi bendir umbj.m á að símar eru í dag taldir til nauðsynlegra heimilistækja og oft á tíðum eru fleiri en einn skráður á hvert heimili. Umbj.m hafnar þeirri röksemd TR, að það að svara í síma, teljist ekki til hefðbundinna heimilisstarfa. Sú túlkun fær enga stoð í framangreindum reglum. Hafa verður í huga að undantekningar þær sem taldar eru upp í 4. gr. reglna 527/1995 eru íþyngjandi fyrir þá sem tryggðir eru og verða að túlkast þröngt. Þá bendir umbj.m á að hún er 81 árs gömul og að sími er talinn vera einn af þeim öryggisþáttum sem fullorðnum og öldruðum er talinn nauðsynlegur til að geta búið í eigin húsnæði.

Þá bendir umbj.m. jafnframt á, að jafnvel þó að svo ólíklega verði talið að símsvörun falli utan við gildissvið tryggingarinnar, þá hljóti það eðli málsins samkvæmt að verða að túlkast þröngt og að undantekningin eigi eingöngu við verknaðinn sjálfan, þ.e að lyfta símtólinu og að svara síma eða etv að tala í síma.

 

Að öllu framansögðu virtu telur umbj. m. niðurstöðu Tryggingarstofnunar ríkisins ranga og að hann eigi skýlausan rétt tilbóta skv. ákvæðum reglna 527/1995.”

 

Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi dags. 26. ágúst 2003 eftir greinargerð Trygginga­stofnunar.  Greinargerðin er dags. 5. september 2003.  Þar segir m.a.:

 

    „ Slysatrygging við heimilisstörf tekur ekki til allra slysa sem verða á heimili hins tryggða heldur aðeins til þeirra slysa sem verða við þau heimilisstörf sem talin eru upp skv. reglum nr. 527/1995. Í 2. tl. 4. gr. reglnanna segir að undanskilin slysatryggingu við heimilisstörf séu m.a. slys sem hinn tryggði verður fyrir við ýmsar daglegar athafnir sem ekki teljast til hefðbundinna heimilisstarfa, svo sem klæða sig og borða.

   Samkvæmt gögnum málsins var A að sýsla í eldhúsinu er síminn hringir. Hún hafi átt von á símtali og því hafi hún því flýtt sér af stað til að svara og þá hnotið um koll sem var fyrir aftan hana og bar hún fyrir sig höndina til að verjast falli. Ekki vildi betur til en svo að hún datt og braut úlnliðinn. Af atvikalýsingu er ljóst að A slasast við það að svara í símann. Símsvörun hefur ekki verið talin falla undir skilgreiningu ofangreindra reglna um hvað teljist heimilisstörf og heldur telst símsvörun til daglegra athafna sem fellur utan tryggingarinnar. Sú túlkun hefur verið til margra ára hjá Tryggingastofnun.

 

Lögmaður kæranda vísar til þess að sími sé öryggistæki og skal tekið undir það. Það styður enn frekar þá túlkun Tryggingastofnunar að símsvörun teljist til daglegra athafna en jafnist ekki á við matseld og umönnun barna.”

 

Greinargerðin var send lögmanni kæranda með bréfi dags. 10. september 2003 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða frekari gögnum.  Lögmaðurinn  hafði samband símleiðis við starfsmann nefndarinnar og kvaðst ekki hafa neinu við framkominn rökstuðning sinn að bæta.

 

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

 

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn um slysabætur vegna meints slyss við heimilisstörf.

 

Í rökstuðningi fyrir kæru segir að kærandi hafi verið að sýsla í eldhúsi  við hefðbundin heimilisstörf þegar hún hnaut um koll, datt og brotnaði á leið sinni til að svara í síma en sími sé í dag eitt af nauðsynlegum heimilistækjum.  Það að svara í síma teljist til hefðbundinna heimilisstarfa.  

 

Tryggingastofnun segir að slysatrygging við heimilisstörf taki ekki til allra slysa sem verða á heimili hins tryggða. Símsvörun teljist ekki til heimilisstarfa heldur daglegra athafna sem falli utan tryggingarinnar.

 

Samkvæmt 25. gr. almannatryggingalaga nr. 117/1993 geta þeir sem heimilis­störf stunda tryggt sér rétt til slysabóta við þau störf með því að skrá í skattframtal í byrjun hvers árs ósk þar að lútandi.  Óumdeilt er að kærandi var slysatryggð við heimilisstörf.

 

Á grundvelli 2. mgr. 25. gr. ( sem reyndar var felld úr gildi með 11. gr. laga 74/2002) voru settar reglur um slysatryggingar við heimilisstörf nr. 527/1995. Að mati úrskurðarnefndar eru reglurnar enn í fullu gildi þó svo að lagaheimildin um setningu þeirra hafi verð felld á brott enda er efnisákvæði 25. gr. um slysatryggingu við heimilisstörf óbreytt.

 

Um slysatryggingar við heimilisstörf gilda reglur nr. 527/1995.  Þar segir í 3. gr.:

 

„ Til heimilisstarfa í reglugerð þessari teljast eftirtalin störf, séu þau ekki liður í atvinnustarfsemi hins tryggða:

 

1.       Hefðbundin heimilisstörf, svo sem matseld og þrif.

                    2.       Umönnun sjúkra, aldraðra og barna.

3.       Almenn viðhaldsverkefni, svo sem málning og minni háttar viðgerðir.

4.       Garðyrkjustörf.”

 

Í 2. gr. reglnanna er nánar skilgreint hvar menn eru tryggðir. Þar segir: „Slysatrygging nær til heimilisstarfa...... 1. Á heimili hins tryggða. 2. Í bílskúr eða geymslu við heimili hins tryggða. 3. Í garði umhverfis heimili hins tryggða. 4. Í sumarbústað þar sem hinn tryggði dvelur.”

 

Kærandi lýsir atvikum þannig í tilkynningu um slys að hún hafi dottið um stól/koll og borið fyrir sig hendina.  Í eldhúsinu.  Nánar aðspurð kveðst kærandi hafa verið að

 

sýsla í eldhúsinu.  Síminn hafi hringt og hún hafi snúið sér frekar snöggt við í flýti til að svara þegar hún hnaut um stól.  Hún hafi dottið á gólfið með hendina undir sig.

 

Þykir mega leggja þessa atvikalýsingu kæranda til grundvallar málsatvikum enda er hún ekki ósennileg og hefur ekki verið mótmælt af Tryggingastofnun.

 

Trygging við heimilisstörf tekur ekki til allra athafna á heimili eins og 2. gr. skilgreinir það, heldur aðeins til nánar tiltekinna starfa sem talin eru upp í 3. gr. reglnanna í fjórum liðum. Ljóst er að athafnir kæranda geta ekki fallið undir aðra liði en 1. tl. þar sem segir: „Hefðbundin heimilisstörf svo sem matseld og þrif.”

 

Tryggingastofnun telur að sú athöfn kæranda að svara í síma falli ekki undir hefðbundin heimilisstörf í þessum skilningi.

 

Ekki er skilgreint í reglunum með tæmandi talningu hvað telst til hefðbundinna heimilisstarfa. Hins vegar eru nefnd í dæma skyni matseld og þrif. Það verður því að meta í hverju tilviki hvort athafnir falli undir skilgreininguna.

 

Í 4. gr. eru undanskilin nánar tiltekin störf svo sem daglegar athafnir þ.e. að klæða sig og borða.

 

Að mati nefndarinnar má af umræddri upptalningu og undantekningardæmum ráða, að aðeins þau störf sem fela í sér þjónustu við heimilið en varða ekki aðeins viðkomandi persónulega njóta tryggingaverndar. Þannig er aðili tryggður við þrif í húsinu en ekki við að klæða sig.

 

Kærandi hafði verið  að sýsla í eldhúsi þegar hún féll um eldhúskoll í eldhúsinu á leið sinni til að svara í símann.  Mikil breyting hefur orðið á símaeign landsmanna á undanförnum árum þar sem fjöldi landsmanna á sinn eiginn síma.  Það er álit úrskurðarnefndar að í þessu breytta umhverfi sé venjulegur heimilissími eitt af tækjum heimilisins og það að svara í slíkan síma sé eitt af venjubundnum störfum á heimili.  Með vísan til þess að kærandi var við störf í eldhúsi og á leið að svara í heimilissímann er það álit úrskurðarnefndar að atvikið falli undir slysatryggingu við heimilisstörf.  

 

Bótaskylda er viðurkennd.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

Bótaskylda vegna  slyss er A varð fyrir þann 29. mars 2003 er viðurkennd.

 

F.h. Úrskurðarnefndar almannatrygginga

 

 

___________________________________­_____­

Friðjón Örn Friðjónsson

formaður

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta