Hoppa yfir valmynd
21. desember 2011 Innviðaráðuneytið

Uppgjör framlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga 2011

Innanríkisráðherra hefur samþykkt tillögur ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga frá 14. desember síðastliðinn um endurskoðun og uppgjör framlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga árið 2011. Útgjaldajöfnunarframlög sjóðsins eru 1.000 milljónum króna hærri en áætluð úthlutun var.

Tekjujöfnunarframlög 2011

Farið hefur fram endurskoðun á útreikningi og úthlutun tekjujöfnunarframlaga fyrir árið 2011, sbr. 12. gr. reglugerðar nr. 960/2010. Við endurskoðunina var tekið mið af endanlegum útsvarsstofni sveitarfélaga vegna tekna ársins 2010.

Heildarúthlutun tekjujöfnunarframlaga í ár nemur rúmlega 1.256 m.kr. Til greiðslu í nóvember komu rúmlega 936 m.kr. Eftirstöðvar framlaganna að fjárhæð 320 m.kr. koma til greiðslu á morgun, 22. desember.

Útgjaldajöfnunarframlög 2011

Farið hefur fram endurskoðun á útreikningi og úthlutun útgjaldajöfnunarframlaga fyrir árið 2011, skv. 13. gr. reglugerðar nr. 960/2010. Við endurskoðunina var tekið mið af leiðréttum hámarkstekjum á íbúa í hverju sveitarfélagi og íbúafjölda í sveitarfélögum 1. desember 2010.

Heildarúthlutun útgjaldajöfnunarframlaga í ár nemur 5.200 m. kr. Þar af eru 750 m.kr. vegna skólaaksturs úr dreifbýli. Um er að ræða 1.000 m.kr. hækkun á framlögunum frá áætlaðri úthlutun þeirra. Til greiðslu á árinu hafa komið 3.309 m. kr. Eftirstöðvar framlaganna að fjárhæð 1.891 m.kr. koma til greiðslu sem hér segir. Á morgun, 22. desember, 1.716 m.kr. og í janúar 2012 allt að 175 m.kr. vegna íþyngjandi kostnaðar sveitarfélaga af skólaakstri úr dreifbýli á árinu 2011 umfram tekjur.

Aukaframlag 2011

Farið hefur fram endurskoðun á útreikningi og úthlutun 800 m.kr.  aukaframlags úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á árinu 2011. Við endurskoðunina var tekið mið af leiðréttum hámarkstekjum á íbúa í hverju sveitarfélagi á grundvelli ákvæða í 1. og 2. mgr. 12. gr. reglugerðar um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, nr. 960/2010.

Úthlutun framlagsins byggir á reglum, nr. 1118/2011, sem settar voru af innanríkisráðherra að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Aukaframlaginu er ætlað að koma til móts við sveitarfélög sem eiga í miklum fjárhagslegum erfiðleikum á árinu 2011

Aukaframlagið er greitt sveitarfélögum í tvennu lagi. Í byrjun desember komu 600 m.kr. til greiðslu, sbr. frétt þar að lútandi 9. desember. Uppgjörsgreiðsla framlagsins að fjárhæð 200 m.kr. fer fram fyrir áramót að fenginni greinargerð frá sveitarfélögum um ráðstöfun þess.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta