Hoppa yfir valmynd
13. desember 2023 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 740/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 13. desember 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 740/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23090065

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 14. september 2023 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari Marokkó ( hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 23. ágúst 2023, um að afturkalla dvalarleyfi hans á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar hjá stofnuninni.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk fyrst útgefið dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara 22. júlí 2019 með gildistíma til 14. apríl 2020, en leyfið hefur verið endurnýjað þrisvar sinnum, síðast með gildistíma til 4. nóvember 2024. Hinn [...] var skráð í þjóðskrá að kærandi og maki hans hefðu skilið að lögum. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 23. ágúst 2023, var dvalarleyfi kæranda afturkallað. Ákvörðun Útlendingastofnunar var birt kæranda 1. september 2023. Hinn 14. september 2023 kærði lögmaður kæranda ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála. Hinn 5. október 2023, var skipunarbréf gefið út til handa lögmanns kæranda.

Samkvæmt 1. mgr. 103. gr. laga um útlendinga frestaði kæra réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð byggir kærandi á því að Útlendingastofnun hafi við meðferð málsins brotið gegn leiðbeiningarskyldu sinni, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga um útlendinga og 7. gr. stjórnsýslulaga, en stofnunin hafi t.a.m. ekki leiðbeint kæranda um að leggja fram gögn áður en hin kærða ákvörðun hafi verið tekin. Þá byggir kærandi á því að mál hans hafi ekki fengið sambærilega meðferð og önnur sambærileg mál, en þá sé aðilum að jafnaði leiðbeint um að leggja fram frekari gögn. Kærandi byggir á því að með þessu hafi Útlendingastofnun brotið gegn jafnræðisreglunni, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga.

Kærandi byggir einnig á því að ákvörðun Útlendingastofnunar hafi brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga enda sé hún bæði röng og íþyngjandi. Telur kærandi það verða honum verulega þungbært ef dvalarleyfi hans yrði afturkallað og honum gert að yfirgefa landið. Í því sambandi bendir kærandi á að hann hafi verið búsettur hér á landi frá árinu 2018 og hafi myndað sterk tengsl við land og þjóð, m.a. með atvinnuþátttöku og íslenskunámi sem hann hyggist ljúka um næstu áramót. Loks bendir kærandi á að Útlendingastofnun hafi brotið gegn andmælarétti sínum, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, enda hafi honum ekki verið veitt færi á að koma á framfæri andmælum fyrir töku stjórnvaldsákvörðunar.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 59. gr. laga um útlendinga er Útlendingastofnun m.a. heimilt að afturkalla dvalarleyfi útlendings ef ekki eru lengur uppfyllt skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis.

Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi hér á landi hyggist hann flytjast hingað til lands til að búa með maka sínum eða sambúðarmaka. Skilyrði þess er að makinn hafi rétt til fjölskyldusameiningar samkvæmt VIII. kafla laga um útlendinga og að hann sé annað hvort í hjúskap eða sambúð, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 70. gr. laganna. Í 7. mgr. 70. gr. kemur fram að makar og sambúðarmakar skuli hafa fasta búsetu á sama stað í samræmi við ákvæði laga um lögheimili og aðsetur. Heimilt er að víkja frá þessu ákvæði ef sérstakar tímabundnar ástæður eru fyrir hendi.

Kærandi var með útgefið dvalarleyfi frá 22. júlí 2019 á grundvelli hjúskapar en [...] var skráð í þjóðskrá að kærandi og fyrrverandi maki hans hefðu skilið að lögum, sbr. einnig 5. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar, sbr. 70. gr. laga um útlendinga, er bundið við tiltekinn hjúskap. Samkvæmt framangreindu uppfyllir kærandi því ekki lengur skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis á grundvelli hjúskapar og var því heimilt að afturkalla leyfið, sbr. 1. mgr. 59. gr. laga um útlendinga.

Kærandi gerir athugasemd við að honum hafi ekki verið gefið færi á að leggja fram gögn í málinu áður en hin kærða ákvörðun var tekin. Í 1. mgr. 12. gr. laga um útlendinga segir að áður en tekin er ákvörðun í máli útlendings skuli hann eiga þess kost að tjá sig um efni máls skriflega eða munnlega enda komi ekki fram í gögnum málsins afstaða hans eða rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft að mati viðkomandi stjórnvalds. Sambærilega reglu er að finna í 13. gr. stjórnsýslulaga. Ákvörðun um afturköllun dvalarleyfis hefst að frumkvæði Útlendingastofnunar, sbr. 59. gr. laga um útlendinga. Af gögnum málsins er ljóst að kæranda var ekki gefið tækifæri á að tjá sig um hinar framkomnu upplýsingar í þjóðskrá við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun og var meðferð málsins að þessu leyti ekki í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um útlendinga. Á hinn bóginn lítur kærunefnd til þess að hjúskapur sé óumdeild forsenda fyrir útgáfu dvalarleyfis kæranda. Skráning lögskilnaðar í þjóðskrá markar endalok hjúskaparins, sbr. 5. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Kæranda gafst kostur á því að tjá sig um efni málsins við meðferð þess hjá kærunefnd og leggja fram gögn eftir því sem kæranda þótti nauðsynlegt. Eftir mat á gögnum málsins hefur kærunefnd komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun. Telur kærunefnd ekki slíka annmarka á málsmeðferð Útlendingastofnunar, með hliðsjón af 7., 11., og 13. gr. stjórnsýslulaga sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um útlendinga að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi. Að öllu framangreindu virtu verður ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.

Hinn 15. desember 2022 voru samþykkt lög um landamæri nr. 136/2022 á Alþingi þar sem m.a. voru gerðar breytingar á 98. gr. laga um útlendinga. Var a-liður 1. mgr. 98. gr. felldur brott og orðalagi 2. mgr. ákvæðisins breytt á þann veg að svo framarlega sem 102. gr. laga um útlendinga eigi ekki við skuli vísa útlendingi úr landi sem dveljist ólöglega í landinu eða þegar tekin hafi verið ákvörðun sem bindi enda á heimild útlendings til dvalar í landinu. Í frumvarpi því er síðar varð að lögum um landamæri kemur fram að lagt sé til í 2. tölul. e-liðar 25. gr. laga um landamæri að 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga verði breytt þannig að lögin verði í samræmi við brottvísunartilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2008/115/EB og kveði skýrt á um að stjórnvöld skuli vísa brott útlendingum sem dveljist hér á landi án heimildar. Þannig skuli útlendingum sem dveljast hér á landi án heimildar vísað brott og í kjölfarið veittur frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugir. Þannig verði breyting á ákvörðunum er lúta að ákvörðun um umsóknir um dvalarleyfi og alþjóðlega vernd hér á landi.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar er dvalarleyfi kæranda afturkallað og honum veittur frestur til þess að sækja um dvalarleyfi að nýju en ellegar yfirgefa landið. Afleiðingar ákvörðunar Útlendingastofnunar eru þær að kærandi dvelst á Íslandi án dvalarleyfis og hefði stofnunin með réttu átt að taka ákvörðun um brottvísun og endurkomubann kæranda í samræmi við áðurnefndar lagabreytingar nr. 136/2022. Í greinagerð kæranda er vísað til meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins og má af því ráða að kærandi hafi hug á áframhaldandi dvöl á landinu. Í ljósi framangreinds er kæranda veittur 30 daga frestur frá móttöku úrskurðarins til þess að leggja fram umsókn um dvalarleyfi og óska eftir heimild til dvalar á meðan umsókn er til meðferðar, sbr. 5. mgr. 57. gr. laga um útlendinga og eftir atvikum niðurlag 6. mgr. 57. gr. sömu laga, eða yfirgefa landið og leggja fram sönnun á því til Útlendingastofnunar. Að öðrum kosti skal Útlendingastofnun taka ákvörðun um brottvísun hans frá landinu og ákveða honum endurkomubann til Íslands og Schengen-svæðisins.

Loks beinir kærunefnd því til Útlendingastofnunar að gæta framvegis að þeim sjónarmiðum sem rakin hafa verið í úrskurði þessum.

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

 

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Valgerður María Sigurðardóttir

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta