Hoppa yfir valmynd
22. maí 2021 Innviðaráðuneytið

Könnun leiðir í ljós að rúmur helmingur sveitarstjórnarfulltrúa hefur orðið fyrir áreiti

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, kynnti í gær á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga helstu niðurstöður könnunar um reynslu sveitarstjórnarfulltrúa af áreiti. Niðurstöðurnar eru hluti af stærri rannsókn, sem Dr. Eva Marín Hlynsdóttir, dósent við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, vinnur að ásamt samstarfsfólki á starfsaðstæðum og viðhorfum kjörinna sveitarstjórnarfulltrúa.

Niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna að ríflega helmingur sveitarstjórnarfulltrúa (54%) hafi orðið fyrir áreiti eða neikvæðu umtali á yfirstandandi eða síðasta kjörtímabili og var lítill sem enginn munur á milli kynja. Tölurnar sýna að algengast var að þátttakendur höfðu orðið fyrir áreiti á samfélagsmiðlum en einnig var töluvert um áreiti í opinberu rými, t.d. á skemmtunum, í búð, o.s.frv. Allt að 10% höfðu orðið fyrir slíku áreiti á heimilum sínum.

Könnunin beindist að kjörnum fulltrúum bæjar- og sveitarstjórna og var lögð fyrir dagana 16. nóvember til 4. desember 2020. Alls var könnunin send á 466 kjörna fulltrúa og var heildarfjöldi þátttakenda 236. Heildarsvarhlutfall var því um 51%.

Verkefnaáætlun í tengslum við stefnu um málefni sveitarfélaga

Ein af ellefu aðgerðum nýrrar stefnumótandi áætlunar um málefni sveitarfélaga sem Alþingi samþykkti í fyrra snýr að starfsaðstæðum kjörinna fulltrúa og kynjajafnrétti sveitarstjórnarfólks. Vegna þessa verkefnis óskaði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið eftir því við Dr. Evu Marín að taka saman niðurstöður úr nokkrum afmörkuðum spurningum úr viðamikilli rannsókn hennar og samstarfsfólks um starfsaðstæður sveitarstjórnarfólks. 

Í ávarpi sínu á landsþinginu sagði Sigurður Ingi þessa aðgerð eina þá mikilvægustu í stefnunni. „Ég sé fyrir mér að þessi vinna geti skapað grundvöll fyrir aðgerðaáætlun sem fæli í sér að bæta starfsaðstæður kjörinna fulltrúa og að hægt verði að vinna með slíka áætlun fljótlega eftir næstu sveitarstjórnarkosningar,“ sagði Sigurður Ingi.

Þegar niðurstöður og greining á rannsókninni liggja fyrir verða unnar tillögur að aðgerðum. Þá verður gerð sérstök könnun á starfsumhverfi kjörinna sveitarstjórnarmanna sem beinist eingöngu að einelti, kynbundinni áreitni, kynferðislegri áreitni sem og neikvæðu umtali, öðru áreiti og ofbeldishegðun gagnvart sveitarstjórnarfulltrúum. 

Markmiðið er að safna saman upplýsingum um vinnuaðstæður og viðhorf kjörinna sveitarstjórnarfulltrúa, m.a. í ljósi þess að við lok undanfarinna tveggja kjörtímabila hefur rúmlega helmingur þeirra ekki gefið kost á sér til endurkjörs.

Við undirbúning verkefnisins hefur ráðuneytið m.a. haft samráð við önnur ráðuneyti, Jafnréttisstofu og Samband íslenskra sveitarfélaga.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta