Hoppa yfir valmynd
2. júlí 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 23/2009

Fimmtudaginn 2. júlí 2009

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 5. júní 2009 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 27. maí 2009.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 19. maí 2009 um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Ég var að eignast lítinn strák og var að ljúka lokaprófum vorannar 2009 og náði öllum einingum á önninni sem voru samtals 20. Barst mér svo þetta synjunarbréf um að samkvæmt framlögðum gögnum uppfyllti ég ekki skilyrðum um fullt nám og var umsókn minni um fæðingarstyrk námsmanna synjað því ég náði 11 einingum á önninni þar á undan, ástæðan fyrir þessum fáu einingum var veikindi sem höfðu gríðarleg áhrif á mætingu í skólann og lærdóm þar sem ég lá rúmliggjandi dögum saman. Samkvæmt ykkar reglum þarf faðir að hafa stundað 75-100% nám síðustu 6 til 12 mánuði áður en barnið fæddist, 75% nám er 13 einingar og 100% eru 18 einingar og þar sem ég náði fyrst 20 einingum sem eru um 115% síðustu 6 mánuðina tel ég mig eiga fullan rétt á fullu fæðingarorlofi þar sem ég er að fara að stunda sumarskóla að fullu og á sama tíma hugsa um son minn.

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs er byggð á því að ég umsækjandinn uppfyllti ekki skilyrði um fullt nám. Virðist þá byggt á því að á haustönn 2008 hafi kærandi ekki verið í a.m.k. 75% námi. Í bréfi sjóðsins kemur fram að umsækjandi eigi rétt á lægri fæðingarstyrk sem verði greiddur í 3 mánuði frá 1. ágúst með því skilyrði að umsækjandi leggi niður launuð störf á þeim tíma.

Umsækjandi getur ekki sætt sig við þessa niðurstöðu sjóðsins og telur nauðsynlegt að kæra ákvörðunina. Læknisvottorð fylgir þessari kæru.

Ég er búinn að vera í skóla síðan haustið 2004 og hef verið í námi síðan þá án þess að taka pásu. Fyrstu árin var ég í nemendaráði skólans og var í því frá haust 2006 til vor 2008.

Í byrjun 2005 byrjaði ég að fá væga lungnabólgu ég fékk lungnabólgu svo aftur nokkrum sinnum en vor- og haustönn 2008 var hún mikil og hafði áhrif á lærdóminn og mætinguna í skólann samt náði ég 11 einingum af 16 einingum á haustönninni 2008. Á haustönn 2007 náði ég 23 einingum af 23, á vorönn 2009 náði ég 20 af 20 mögulegum. Þegar um er að ræða nám við framhaldsskóla teljast 18 einingar á önn vera 100% nám og því teljast 13-18 einingar vera fullt nám samkvæmt lögum 1. mgr. 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000. Þar sem ég náði 11 einingum á haustönn 2008 og 20 einingum sem eru 115% nám ef þú skoðar það nánar þá sérðu það að ef ég hefði fengið 13 einingar haustönn 2008 og 18 einingar vor 2009 þá væri það samanlagt 31 einingar og samkvæmt mínum námsferli náði ég samanlagt 31 einingu síðust 12 mánuði.

Ég bið ykkur um að skoða þetta því síðustu 6 mánuði hef ég stundað 115% nám og tel mig eiga fullan rétt á fullu fæðingarorlofi.

Eins og segir á síðu Fæðingarorlofssjóð „Heimilt er að greiða foreldri fæðingarstyrk námsmanna þegar foreldri hefur lokið a.m.k. einnar annar námi og hefur síðan verið samfellt á innlendum vinnumarkaði. Skilyrði er að nám og starf hafi verið samfellt í sex mánuði.““

 

Með bréfi, dagsettu 9. júní 2009, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 15. júní 2009. Í greinargerðinni segir:

„Með umsókn, dags. 17. apríl 2009, sótti kærandi um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í fullu námi í 3 mánuði vegna barnsfæðingar, Y. maí 2009. Á umsókninni kemur fram að foreldrar ætli að fara sameiginlega með forsjá barns og þau muni skila samkomulagi staðfestu af sýslumanni þar um. Slíkt samkomulag hefur ekki borist og því verður ekki séð að foreldrar fari sameiginlega með forsjá barnsins, sbr. og útprentanir úr þjóðskrá Hagstofu Íslands.

Með umsókn kæranda fylgdi námsferilsáætlun frá B-framhaldsskóla, dags. 17. apríl 2009 og vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 27. febrúar 2009. Enn fremur lágu fyrir upplýsingar úr þjóðskrá Hagstofu Íslands.

Með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs, dags. 19. maí 2009, var kæranda synjað um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi. Var í bréfinu tiltekið að kærandi teldist ekki hafa uppfyllt skilyrðið um að hafa stundað fullt nám í a.m.k. 6 mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir áætlaðan fæðingardag barnsins.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), eiga foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og sýnt viðunandi námsárangur rétt á fæðingarstyrk. Foreldri skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og sýnt viðunandi námsárangur. Heimilt er að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 4. mgr. 7. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008. Þar kemur fram að fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof teljist vera 75-100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við 75 – 100% nám á háskólastigi og annað nám sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.

Í 7. mgr. 19. gr. ffl. kemur fram að réttur foreldris til fæðingarstyrks sé bundinn því að það fari sjálft með forsjá barnsins eða hafi sameiginlega forsjá ásamt hinu foreldri þess þegar greiðsla fæðingarstyrks hefst, sbr. þó 8. mgr. Í 8. mgr. kemur fram að forsjárlaust foreldri eigi rétt á fæðingarstyrk liggi fyrir samþykki þess foreldris sem fer með forsjána um að forsjárlausa foreldrið hafi umgengni við barnið þann tíma sem greiðsla fæðingarstyrks stendur yfir, sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008.

Kærandi hefur enn ekki uppfyllt skilyrði 7. eða 8. mgr. 19. gr. ffl. og þegar af þeirri ástæðu getur hann ekki átt rétt til greiðslu fæðingarstyrks. Engu að síður hefur verið skoðað hvort kærandi teljist hafa uppfyllt skilyrðið um að hafa verið í fullu námi.

Barn kæranda fæddist þann Y. maí 2009 og verður því, við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins, að horfa til tímabilsins frá Y. maí 2008 fram að fæðingardegi barnsins.

Samkvæmt námsferilsáætlun frá B-framhaldsskóla stundaði kærandi nám við skólann á vorönn og haustönn 2008 og vorönn 2009. Var kærandi skráður í 16 einingar á vorönn 2008 og lauk 9 einingum en féll í 7. Á haustönn 2008 var kærandi skráður í 16 einingar og lauk 11 einingum en féll í 5. Á vorönn 2009 lauk kærandi 20 einingum.

Þegar um er að ræða nám við framhaldsskóla teljast 18 einingar á önn vera 100% nám og því teljast 13-18 einingar vera fullt nám samkvæmt lögum nr. 95/2000. Með hliðsjón af þeim gögnum sem fyrir liggja um námsframvindu kæranda lítur Vinnumálastofnun - Fæðingarorlofssjóður svo á að kærandi uppfylli ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í a.m.k. 6 mánuði síðustu 12 mánuðina fyrir fæðingardag barns.

Með kæru lagði kærandi fram læknisvottorð, dags. 27. maí 2009 þar sem fram kemur að hann hafi átt við allnokkur veikindi að stríða haustið 2008 – 2009.

Í 13. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga 74/2008 kemur fram að heimilt sé að greiða móður fæðingarstyrk skv. 1. mgr. þó að hún uppfylli ekki skilyrði um viðunandi námsárangur og/eða ástundun enda hafi hún ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna. Þessi undanþága á einvörðungu við um mæður og getur því ekki komið til skoðunar í tilviki kæranda.

Með vísan til alls framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi hafi réttilega verið synjað með bréfi, dags. 19. maí 2009.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 16. júní 2009, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Samkvæmt 7. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. f-lið 16. gr. laga nr. 74/2008, er réttur foreldris til fæðingarstyrks námsmanna bundinn því að það fari sjálft með forsjá barnsins eða hafi sameiginlega forsjá ásamt hinu foreldrinu þegar greiðsla fæðingarstyrks hefst. Í 8. mgr. 19. gr. ffl., sbr. g-lið 16. gr. laga nr. 74/2008, er að finna undanþágu frá þessu skilyrði, en þar segir að ef samþykki þess foreldris sem fer með forsjá barnsins um að forsjárlausa foreldrið hafi umgengi við barnið þann tíma sem greiðsla fæðingarstyrks stendur yfir eigi það rétt á fæðingarstyrk.

Í umsókn kæranda um fæðingarstyrk námsmanna dagsettri 17. apríl 2009 er hakað í reit þar sem segir að foreldrar ætla að fara sameiginlega með forsjá barns og muni skila samkomulagi staðfestu af sýslumanni þar um.

Þegar af þeirri ástæðu að hvorki liggur fyrir staðfest samkomulag af sýslumanni um að foreldrar fari með sameiginlega forsjá barnsins né gögn þess efnis að forsjárforeldri barnsins hafi veitt samþykki sitt fyrir umgengni kæranda þann tíma sem greiðsla fæðingarstyrks stæði yfir er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni staðfest.

Í 1. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, segir að foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns og sýnt viðunandi námsárangur eigi rétt á fæðingarstyrk. Foreldri skuli leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og sýnt viðunandi námsárangur. Heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Í 3. mgr. 4. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008, sbr. og c- lið 2. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, kemur fram að fullt nám samkvæmt ffl. er 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.

Barn kæranda fæddist Y. maí 2009. Með hliðsjón af því er við það miðað að tólf mánaða viðmiðunartímabil skv. 1. mgr. 19. gr. ffl., sbr. og 16. gr. laga nr. 74/2008, sé frá Y. maí 2008 til Y. maí 2009.

Kærandi stundar nám í B-framhaldsskóla en fullt nám í framhaldsskóla telst vera 18 einingar á önn. Fullt nám í skilningi ffl. er því 13–18 einingar á önn, sbr. 4. mgr. 7. gr. ffl. Óumdeilt er að kærandi var skráður í 16 eininga nám á haustönn 2008 og lauk 11 einingum á önninni. Þá liggur fyrir að kærandi lauk 20 einingum á vorönn 2009.

Þar sem kærandi lauk ekki fullu námi á haustönn 2008 er óhjákvæmilegt að líta svo á að kærandi uppfylli ekki skilyrði framangreindra laga og reglugerðar um fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Hvorki lög né reglugerð heimila að vikið sé frá skilyrði um fullt nám og viðunandi námsárangur við þær aðstæður sem kærandi vísar til, þ.e. að hann hafi ekki getað stundað fullt nám vegna talsverðra veikinda. Þá eru heldur engin ákvæði í ffl. eða reglugerð nr. 1218/2008 sem heimila undanþágu þess efnis að hægt sé að leggja saman einingar tveggja anna.

Samkvæmt 13. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, er heimilt að greiða móður fæðingarstyrk sem námsmanni þrátt fyrir að hún uppfylli ekki skilyrði um viðunandi námsárangur og eða ástundun hafi hún ekki getað stundað nám vegna heilsufarsástæðna. Þar sem þessi undanþága á eingöngu við um mæður er ekki hægt að taka hana til skoðunar í máli kæranda.

Með hliðsjón af öllu framangreindu er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta