Hoppa yfir valmynd
30. júní 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 32/2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 30. júní 2009 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 32/2009.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 18. mars 2009, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hafi á fundi sínum þann 18. mars 2009 ákveðið að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda, með vísan til c-liðar 3. gr. og 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem hann væri í námi. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi dags. 24. mars 2009. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Í kæru kæranda kemur fram að greiðslur atvinnuleysisbóta til hans hafi verið stöðvaðar vegna þátttöku hans í fjarnámi. Kærandi telur ákvörðun Vinnumálastofnunar vera ósanngjarna. Hann kveðst hafa ákveðið að hefja nám við Háskólann á Bifröst en hann þurfi að ljúka frumgreinadeildinni til að uppfylla inntökuskilyrðin sem skólinn setji þar sem hann hafi ekki lokið stúdentsprófi. Eftir að hann ljúki frumgreinadeildinni ætli hann í laganám við sama skóla. Hugmyndin hafi verið að stunda þetta nám með vinnu þar sem um sé að ræða fjarnám á framhaldsskólastigi og bitni ekki á vinnu. Kæranda hafi verið sagt upp störfum eins og mörgum öðrum vegna samdráttar í fyrirtækinu þar sem hann vann. Kærandi kveðst hafa leitað sér að vinnu undanfarið þar sem honum þyki fátt verra en iðjuleysi, en eins og staðan sé í þjóðfélaginu í dag þá standi ekkert til boða. Kærandi telur nám sitt vera lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna en þar sem hann hafi litið á sig sem atvinnulausan mann en ekki sem námsmann þá hafi hann ekki óskað eftir láni. Kærandi kveðst telja það ósanngjarnt að einstæður einstaklingur sem þurfi að reka íbúð og sé í atvinnuleit þurfi að sökkva sér í frekari skuldir til þess eins að komast af í örfáa mánuði áður en hann hefji fullt nám í september næstkomandi þar sem hann muni reiða sig á námslánin. Ef hann fái ekki vinnu eða verði tekinn af atvinnuleysisskrá sjái hann engan annan kost en að fresta náminu. Kærandi fer fram á endurskoðun hinnar kærðu ákvörðunar.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 15. apríl 2009, kemur fram að kæranda hafi verið tilkynnt með bréfi Vinnumálastofnunar dags. 18. mars 2009, að greiðslur atvinnuleysisbóta til hans hefðu verið stöðvaðar með vísan til c-liðar 3. gr. og 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysisbætur þar sem kærandi var í námi. Hafi Vinnumálastofnun áður borist upplýsingar um að töluverður fjöldi námsmanna stundaði nám jafnhliða því að vera á atvinnuleysisbótum en slíkt sé ekki heimilt nema í undantekningartilfellum. Vinnumálastofnun hafi óskað eftir upplýsingum frá nemendaskrám skóla um nemendur. Þær upplýsingar hafi síðan verið samkeyrðar við gagnagrunn stofnunarinnar. Hafi nafn kæranda komið fram með slíkri samkeyrslu og jafnframt að hann væri í fullu námi. Samkvæmt 52. gr. og c-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé ljóst að það sé ekki tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar að tryggja námsmönnum framfærslu meðan þeir stundi nám. Í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé því haldið fram í umfjöllun um 52. gr. frumvarpsins að það sé meginregla að námsfólk eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum hvort sem um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám. Af lýsingum kæranda í gögnum málsins megi ráða að hann stundi fjarnám á svonefndri frumgreinabraut til öflunar réttinda til að sækja um háskólanám. Stundi hann námið í 100% námshlutfalli samkvæmt þeim gögnum sem Vinnumálastofnun hafi aflað sér frá Háskólanum að Bifröst. Tilvitnað ákvæði 52. gr. laganna sé mjög skýrt og taki með berum orðum fram að sá sem stundi nám, sbr. c-lið 3. gr., sé ekki tryggður. Þá beri þess og að geta að umrætt nám sé lánshæft og geti því undanþáguregla 2. mgr. 52. gr. ekki átt við um tilfelli kæranda. Undanþáguregla 3. mgr. 52. gr. laganna geti ekki heldur átt við kæranda þar sem hann stundi nám í 100% námshlutfalli. Verði þá að álykta sem svo að meginregla 52. gr. sem komi fram í 1. mgr. eigi við tilvik kæranda. Þegar af þeirri ástæðu sé ljóst að kærandi geti ekki átt rétt til atvinnuleysisbóta jafnhliða námi.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 17. apríl 2009, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 4. maí 2009. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Í 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segir að hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr. laganna, teljist ekki tryggður á sama tímabili enda sé námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar. Í athugasemdum við 52. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að ekki séu lagðar til breytingar á þeirri meginreglu að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Miðað sé við að það skipti ekki máli hvort um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám. Kærandi stundar fjarnám á svonefndri frumgreinabraut til öflunar réttinda til að sækja um háskólanám. Samkvæmt gögnum málsins er hann í 100% námshlutfalli. Samkvæmt skýru ákvæði 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar telst kærandi ekki tryggður og á því ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda er því staðfest.

Samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, skal aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Vinnumálastofnun gaf kæranda ekki kost á andmælum áður en hin kærða ákvörðun var tekin samkvæmt tilvitnaðri 13. gr. stjórnsýslulaga. Í samræmi við markmið andmælareglu stjórnsýsluréttar ber að skýra undantekningar frá henni þröngt, en í ljósi þess að atvik máls þess sem hér er til meðferðar liggja ljósar fyrir og enginn ágreiningur er um þau telur úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða að í þessu tilviki sé ekki um svo verulegan annmarka á málsmeðferðinni að ræða að valdi ógildingu ákvörðunarinnar af þeim sökum.

 

Úr­skurðar­orð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A frá 18. mars 2009 er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta