Hoppa yfir valmynd
13. september 2022 Utanríkisráðuneytið

Tógólísa besta myndin á kvikmyndahátíð kvenna

Tógólísa, heimildamynd Öldu Lóu Leifsdóttur, um rokkbúðir stúlkna í Tógó, var á dögunum valin besta myndin á kvikmyndahátíð kvenna í Los Angeles. Myndin fjallar um rokkbúðir í Tógó í Vestur-Afríku, verkefni samtakanna Stelpur rokka! í samstarfi við félagið Sól í Tógó og Association Mirlinda. Verkefnið hefur notið stuðnings utanríkisráðuneytisins allt frá árinu 2016. Í fyrra fékk verkefnið áframhaldandi styrk til næstu ára en jafnframt er stutt við rekstur tónlistarmiðstöðvar í Tógó.

Kvikmynd Öldu Lóu var valin besta myndin í flokki heimildamynda á kvikmyndahátíðinni City of Angels Women´s Film Festival. Í rokkbúðunum í Tógó hittast að jafnaði um fimmtíu stúlkur að sumri og hausti til að spila og syngja gospeltónlist sem þær þekkja úr kirkjunni og dansa við vestur-afrískt rapp og popp. Í myndinni kynnast áhorfendur stúlkunum sem taka þátt og kennurunum sem stýra búðunum, jafnframt er dregin upp mynd af samfélagi sem hefur gengið í gegnum mikil umskipti og fjallað um breytt viðhorf kvennanna til þeirra sjálfra og samfélagsins.

Rokkbúðirnar hafa meðal annars þann tilgang að því að gera ungum tógóskum stúlkum kleift að hafa rými til tónlistarsköpunar og skapa þar jákvætt, styðjandi og hvetjandi andrúmsloft en slíkt rými er oftar en ekki ætlað drengjum. Stúlkur á aldrinum 9-19 ára koma víða að í Tógó til að sækja rokkbúðirnar og tógóskar tónlistarkonur taka þátt í að kenna eða heimsækja búðirnar.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna
4. Menntun fyrir öll
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta