Hoppa yfir valmynd
17. mars 2023

Mál nr. 18/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 18/2023

Föstudaginn 17. mars 2023

A

gegn

Kópavogsbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 9. janúar 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Kópavogsbæjar, dags. 24. október 2022, um að synja umsókn hennar um félagslegt leiguhúsnæði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 4. maí 2022, sótti kærandi um félagslegt leiguhúsnæði hjá Kópavogsbæ. Umsókn kæranda var synjað af ráðgjafa húsnæðisnefndar 10. júní 2022 með þeim rökum að lágmarksstigafjölda væri ekki náð. Velferðarráð Kópavogsbæjar staðfesti þá ákvörðun á fundi 24. október 2022.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 9. janúar 2023. Með bréfi, dags. 11. janúar 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð sveitarfélagsins vegna kærunnar ásamt gögnum málsins. Greinargerð barst 26. janúar 2023 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. febrúar 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar eftir að hin kærða ákvörðun verði endurskoðuð og að tillit verði tekið til félagslegra aðstæðna hennar og veikinda. Kærandi hafi orðið öryrki eftir bílslys á árinu 2000 og henni dæmd 75% örorka sem hafi færst í ellilífeyri við 67 ára aldur. Árið 2010 hafi kærandi verið lögð inn á Landspítalann í Fossvogi vegna alvarlegrar hjartabilunar en í fyrstu hafi verið haldið að einungis væri um lungun að ræða þar sem hún glími einnig við lungnasjúkdóm. Lungu kæranda hafi fallið saman, hún hafi farið í hjartastopp og verið vart hugað líf. Það hafi tekist að koma hjartanu aftur í gang og í kjölfarið hafi verið græddur í hana gangráður sem aftur hafi verið skipt um sumarið 2022 en í seinustu lungnaskoðun hafi komið í ljós stækkun í hjarta. Kærandi hafi verið útskrifuð af spítala í ágúst 2010 en hafi þó þurft að fara aftur á spítala þar sem sýking hafi komið í gangráðinn og hafi hún dvalið þar í rúma viku. Eftir innlögnina á Landspítalanum hafi kærandi verið kvíðin og hræðsla hafi fylgt veikindunum sem hafi háð henni mikið og hái henni enn. Síðan þá hafi kærandi verið á þunglyndis- og kvíðalyfjum. Kærandi hafi þurft að dvelja hjá dóttur sinni og syni til skiptis vegna kvíða og hræðslu um að hún væri að deyja. Enn þann dag í dag fái kærandi mikinn kvíða yfir því hvað muni verða um hana húsnæðislega séð. Kærandi hafi fengið inni í endurhæfingu á Reykjalundi í byrjun september 2010 og hafi eftir það verið í eftirfylgni og sjúkraþjálfun hjá Styrk endurhæfingu. Einnig fari hún einu sinni á ári til bæði hjarta- og lungnalæknis sem meti ástand og lyfjagjöf. 

Kærandi tekur fram að lyfjakostnaður vegna þessara sjúkdóma sé hár og erfitt sé að halda það út að greiða lyf, leigugreiðslur, fæði og uppihald. Samtals þurfi kærandi að leysa út sex lyfseðilsskyld lyf hvern mánuð og sá lyfjakostnaður sé hár eða um það bil 15-20 þúsund hvern mánuð. Vegna lungnasjúkdómsins sé kærandi með lága súrefnismettun, eða undir viðmiðunarmörkum. Báðir þessir sjúkdómar hafi háð kæranda í daglegu lífi og hún hafi þurft að sleppa ýmsu sem hún hafi áður gert eins og göngutúrum, fjallgöngu, dansi og söng svo eitthvað sé nefnt. Í gegnum árin hafi afköst minnkað til muna og suma daga sé hún alveg orkulaus. Vegna lungnasjúkdómsins hafi kærandi þurft súrefniskút og noti hann alltaf á nóttunni. Allt þetta hafi dregið hana mikið niður og aukið á vanlíðan, þunglyndi og kvíða.  Þetta hafi valdið henni miklum erfiðleikum og haft áhrif á daglegar athafnir, bæði líkamlega og andlega. Kærandi verði mjög móð við minnstu áreynslu og það hafi verið henni erfitt vegna þess hversu gaman henni þyki að ganga og dansa. 

Í dag sé kærandi búsett í leiguíbúð í B en þar sé mikið félagsstarf og þar líði henni mjög vel. Það hafi haft mikil áhrif á andlega líðan kæranda og veitt henni frekara öryggi að vera í vernduðu umhverfi vegna veikindanna að geta stundað félagslegt starf með eldri borgurum. Kæranda þyki erfitt að hugsa til þess að hún þurfi að flytja úr þessum íbúðakjarna þar sem leigan renni út þann 1. september 2023. Enn fremur sé leigan svo há og hún hafi ekki ráð á þeim hækkunum sem fylgi verðbólgunni, en mánaðarleg leigugreiðsla sé nú 240.000 kr.

Kærandi óski eftir að fá að fara á biðlista vegna félagslegs húsnæðis á vegum Kópavogsbæjar. Með því myndi greiðslubyrði hennar lækka, hún fengi von um að lifa sómasamlegu og öruggu lífi það sem eftir sé ævinnar og gæti búið heima hjá sér sem lengst í öruggu umhverfi þar sem hún hafi eignast góða vini. Kærandi uppfylli öll skilyrði fyrir félagslegu leiguhúsnæði og meira til. Þrátt fyrir það hafi hún fengið synjun frá velferðarráði Kópavogsbæjar á þeim forsendum að hún uppfyllti ekki öll þau stig sem þurfi til að komast í félagslegt leiguhúsnæði. Samkvæmt útreikningum kæranda passi það ekki og heldur ekki samkvæmt viðmiðum sem Stjórnarráð Íslands og umboðsmaður skuldara setji um neysluviðmið einstaklinga.

Húsnæðisleigan hafi hækkað töluvert vegna verðbólgu. Matvara og nauðsynjavörur hafi hækkað mikið og því nái kærandi ekki endum saman þó að spart sé lifað. Kærandi fái samtals 371.787 kr. í laun og eigi 94.451 kr. eftir þegar hún sé búin að greiða húsaleigu og önnur mánaðarleg útgjöld. Samkvæmt reiknivél sé neysluviðmið fyrir einn fullorðinn einstakling án húsnæðiskostnaðar 198.046 kr. Samkvæmt því vanti kæranda 103.595 kr. til þess að getað lifað af. Sem einfaldlega þýði að laun hennar dugi ekki til að ná endum saman og dugi því ekki fyrir nauðsynjavörum og neyslu, bæði af eigin reynslu sem og samkvæmt Stjórnaráðinu og umboðsmanni skuldara þar sem reiknivél neysluviðmiða sé sett fram. Samkvæmt útreikningum kæranda sem fylgi reglum um félagslegt húsnæði hjá Kópavogsbæ sé hún metin með 20 stig samtals sem ætti að duga til að falla undir reglur Kópavogsbæjar.

III. Sjónarmið Kópavogsbæjar

Í greinargerð Kópavogsbæjar kemur fram að kærandi hafi sótt um félagslegt leiguhúsnæði hjá sveitarfélaginu 4. maí 2022. Samkvæmt 2. gr. reglna um útleigu á félagslegum leiguíbúðum Bæjarsjóðs Kópavogsbæjar séu félagslegar leiguíbúðir ætlaðar þeim fjölskyldum og einstaklingum sem þurfi tímabundið sérstaka aðstoð til að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra tekna, þungrar framfærslu eða annarra félagslegra erfiðleika. Réttur til að komast á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði, fá úthlutað leiguhúsnæði og til áframhaldandi leiguréttar sé bundinn skilyrðum um tekju- og eignamörk og félagslegum aðstæðum sem séu metnar út frá ákveðnum viðmiðum, sbr. meðfylgjandi matsblað.

Á umsóknareyðublaði sem kærandi hafi fyllt út komi fram að umsókn með 17 stig eða fleiri sé sett á biðlista en umsókn með færri stig teljist ekki gild og því endursend. Við vinnslu umsóknarinnar hafi verið farið yfir fylgiskjöl með umsókn og svokallað matsblað fyllt út. Þá hafi komið í ljós að umsækjandi hafi hlotið 13 stig og því hafi umsóknin ekki uppfyllt lágmarksviðmið um að komast á biðlista. Kæranda hafi verið tilkynnt með bréfi ráðgjafar- og íbúðadeildar Kópavogsbæjar, dags. 10. júní 2022, að umsókn um félagslega leiguíbúð væri synjað þar sem hún uppfyllti ekki skilyrði um stigafjölda.

Kærandi hafi áfrýjað ákvörðun um synjun til velferðarráðs Kópavogs þann 19. ágúst 2022 og sú áfrýjun hafi verið tekin fyrir á fundi ráðsins 24. október sama ár. Velferðarráð hafi staðfest ákvörðun ráðgjafar- og íbúðadeildar og umsækjanda verið tilkynnt um það með bréfi, dagsettu sama dag.

Að öllu framangreindu virtu telji velferðarsvið Kópavogsbæjar að rétt hafi verið að synja umsókn kæranda þar sem umsóknin uppfylli ekki skilyrði um lágmarksstigafjölda til að komast á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði.

IV.  Niðurstaða

Kærð er synjun Kópavogsbæjar á umsókn kæranda um félagslegt leiguhúsnæði. Umsókninni var synjað á þeirri forsendu að lágmarksstigafjölda væri ekki náð samkvæmt reglum sveitarfélagsins um félagslegt leiguhúsnæði.

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Um leið skulu við framkvæmd félagsþjónustunnar sköpuð skilyrði til að einstaklingurinn geti tekið virkan þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Félagsleg þjónusta skuli í heild sinni miða að valdeflingu og miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við húsnæðismál, sbr. 1. mgr. 2. gr.

Í XII. kafla laga nr. 40/1991 er kveðið á um húsnæðismál. Þar segir í 1. mgr. 45. gr. að sveitarstjórnir skuli, eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna. Samkvæmt 46. gr. laganna skulu félagsmálanefndir sjá til þess að veita þeim fjölskyldum og einstaklingum, sem ekki eru færir um það sjálfir, úrlausn í húsnæðismálum til að leysa úr bráðum vanda á meðan unnið er að varanlegri lausn.

Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til útfærslu á húsnæðismálum einstaklinga. Í samræmi við það og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri útfærslu að meginstefnu til lagt í hendur hverrar sveitarstjórnar. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í reglum um útleigu á félagslegum leiguíbúðum Bæjarsjóðs Kópavogsbæjar er kveðið á um útfærslu á þjónustu sem sveitarfélögum er skylt að veita, sbr. XII. kafla laga nr. 40/1991. Í 1. mgr. 1. gr. reglnanna kemur fram að félagslegar leiguíbúðir séu ætlaðar þeim fjölskyldum og einstaklingum sem þurfi tímabundið sérstaka aðstoð til að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra tekna, þungrar framfærslu eða annarra félagslegra erfiðleika. Undir reglurnar falli almennar félagslegar leiguíbúðir, íbúðir sérstaklega ætlaðar öldruðum og sértæk búsetuúrræði, sbr. 2. mgr. 1. gr. Í 2. gr. reglnanna segir að réttur til að komast á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði, fá úthlutað leiguhúsnæði og til áframhaldandi leiguréttar sé bundinn skilyrðum um tekju- og eignamörk og félagslegum aðstæðum sem séu metnar út frá ákveðnum viðmiðum, sbr. matsreglur í viðauka við reglurnar. Þá segir í 3. mgr. 6. gr. reglnanna að um tekju- og eignamörk leigjenda fari eftir ákvæði 6. gr. reglugerðar nr. 183/2020 um stofnframlög ríkis og sveitarfélaga, húsnæðissjálfseignarstofnanir og almennar íbúðir.

Kópavogsbær hefur vísað til þess að á umsóknareyðublaði sem kærandi hafi fyllt út komi fram að umsókn með 17 stig eða fleiri sé sett á biðlista en umsókn með færri stig teljist ekki gild og því endursend. Kærandi hafi hlotið 13 stig og hafi því ekki uppfyllt lágmarksviðmið um að komast á biðlista.

Í þeim þætti matsins er varðar árstekjur umsækjanda fékk kærandi réttilega metin níu stig. Fyrir húsnæðisaðstæður fékk kærandi hámarksfjölda stiga sem í boði eru, eða þrjú stig, og staða kæranda var réttilega metin til eins stigs. Kærandi fékk ekkert stig fyrir félagslegar aðstæður sem úrskurðarnefndin gerir ekki athugasemd við, enda verður að telja ljóst að aðrir liðir matsviðmiðsins sem gefa fleiri stig eigi ekki við um aðstæður hennar. Þá fékk kærandi ekkert stig fyrir aldur umsóknar þar sem um nýja umsókn var að ræða.

Samkvæmt framangreindu var umsókn kæranda metin til 13 stiga og uppfyllti hún því ekki skilyrði 2. gr. reglna Kópavogsbæjar um útleigu á félagslegum leiguíbúðum. Að því virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að staðfesta beri synjun Kópavogsbæjar á umsókn kæranda um félagslegt leiguhúsnæði.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Kópavogsbæjar, dags. 24. október 2022, um að synja umsókn A, um félagslegt leiguhúsnæði, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta