Hoppa yfir valmynd
22. ágúst 2018 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 57/2018 Úrskurður 22. ágúst 2018

Mál nr. 57/2018                    Eiginnafn:     Franzisca (kvk.)

 

 

 

 

Hinn 22. ágúst 2018 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 57/2018 en erindið barst nefndinni 26. júní.

Til þess að heimilt sé að samþykkja nýtt eiginnafn þurfa öll skilyrði 5. gr. laga, nr. 45/1996, um mannanöfn að vera uppfyllt. Skilyrðin eru:

  • Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli.
  • Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi.
  • Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.
  • Stúlku skal gefa kvenmannsnafn og dreng skal gefa karlmannsnafn.
  • Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

 

Ritháttur nafnsins Franzisca getur ekki talist í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls þar sem bókstafirnir z og c teljast ekki til íslenska stafrófsins þótt þeir komi fyrir í nokkrum mannanöfnum sem hafa unnið sér hefð. Þess vegna er einungis hægt að fallast á ritháttinn Franzisca ef hann telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli.

Við túlkun mannanafnanefndar á hugtakinu hefð í 5. og 6. gr. laga um mannanöfn er stuðst við eftirfarandi vinnulagsreglur sem nefndin setti sér á fundi 15. janúar 2015 og eru byggðar á greinargerð með frumvarpi að mannanafnalögum og eldri vinnulagsreglum:

1.   Ungt tökunafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það fullnægir einhverju eftirfarandi skilyrða:

 

a.      Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum;

b.      Það er nú borið af 10–14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;

c.       Það er nú borið af 5–9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;

d.       Það er nú borið af 1–4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1910 eða 1920;

e.       Það er ekki borið af neinum Íslendingi nú en kemur a.m.k. fyrir í tveimur manntölum frá 1703–1920.

 

2.  Með Íslendingum er átt við þá sem öðlast hafa íslenskan ríkisborgararétt án umsóknar og eiga eða hafa átt lögheimili á Íslandi.

 

3.  Tökunafn getur verið hefðað, þó að það komi ekki fyrir í manntölum, ef það hefur unnið sér menningarhelgi. Nafn telst hafa unnið sér menningarhelgi komi það fyrir í alkunnum ritum, frumsömdum og þýddum, í nafnmynd sem ekki brýtur í bág við íslenskt málkerfi.

Tekið skal fram að vinnulagsreglurnar eru mannafnanefnd til stuðnings við mat sitt, en ekki ráðandi um niðurstöðuna bendi önnur atriði engu að síður til þess að ritháttur nafns hafi hefðast.

Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá ber engin núlifandi íslensk kona, sem uppfyllir skilyrði vinnulagsreglnanna, eiginnafnið Franzisca. Nafnið kemur auk þess ekki fyrir í neinu manntali frá 1703–1920.

Í rökstuðningi úrskurðarbeiðanda kemur hins vegar fram að ein íslensk kona, sem var fædd árið 1942 og lést árið 2004, bar nafnið Franzisca í þjóðskrá. Hún var móðir úrskurðarbeiðanda og amma nafnbera. Einnig hefur nefndin upplýsingar um að erlend kona, sem bar nafnið Franzisca, giftist íslenskum manni árið 1912. Hún flutti til Íslands ásamt manni sínum á 4. áratug 20. aldar og var nafnið Franzisca skráð í íslenskt vegabréf hennar. Hún var langamma úrskurðarbeiðanda og langalangamma nafnbera.

Eins og fyrr segir eru ofangreindar vinnulagsreglur mannanafnanefndar ætlaðar til viðmiðunar við mat hennar á því hvort nafn geti talist hafa unnið sér hefð í íslensku. Af reglunum má ráða að nafn getur talist hafa unnið sér hefð þótt það hafi einungis tíðkast í tiltölulega skamman tíma ef nægilega margir bera það, sbr. skilyrði 1a og 1b. Ef tiltölulega fáir bera tiltekið nafn er gerð krafa um að það eigi sér lengri sögu, sbr. skilyrði 1d. Þá verður nefndin við túlkun ákvæða laga um mannanöfn að hafa hliðsjón af grundvallarreglum um friðhelgi einkalífs, sbr. 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, sbr. lög nr. 97/1995, og 8. gr. mannréttindasáttamála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Má leiða þessa túlkunarreglu af óáfrýjuðum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 24. apríl 2015 í máli nr. E-3607/2014, sem fjallaði um millinafnið Gests.

Verður þannig við túlkun þess hvort ritháttur nafnsins teljist hefðaður að líta til þess að hefð er fyrir nafninu í fjölskyldu úrskurðarbeiðanda og þess að tilviljun ræður því í raun að skilyrði d liðar 1. gr. vinnulagsreglna er ekki uppfyllt, þ.e. langamma úrskurðarbeiðanda, sem giftist íslenskum manni 1912 og átti með honum börn, flutti ekki nógu snemma til landsins til að vera með í manntali 1920 og móðir úrskurðarbeiðanda lést aðeins 62 ára gömul svo ekki er uppfyllt skilyrðið um að nafnið sé borið af einum núlifandi Íslendingi.

Nafnið Franzisca kom fyrir í þjóðskrá samfleytt frá því á 4. áratug 20. aldar og þar til árið 2004. Þótt rof hafi orðið á hefðinni síðan þá verður að horfa til þess að nafnberi í þessu máli er fædd árið 2007 og að forráðamenn hennar hafa síðan þá endurtekið sóst eftir því að fá ritháttinn Franzisca samþykktan, en án árangurs. Mannanafnanefnd telur þess vegna að rithátturinn Franzisca hafi öðlast hefð í íslensku þrátt fyrir að skilyrði vinnulagsreglna um hefð séu strangt til tekið ekki uppfyllt í þessu máli, sbr. það sem framar greinir.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Franzisca (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta