Sigríður Víðis Jónsdóttir aðstoðarmaður umhverfis- og auðlindaráðherra
Sigríður Víðis Jónsdóttir hefur verið ráðin aðstoðarmaður Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra.
Sigríður er fædd og uppalin á Akranesi. Hún er með BA-próf í heimspeki frá Háskóla Íslands, með mannfræði sem aukagrein, og meistarapróf í þróunar- og átakafræðum frá University of East Anglia í Bretlandi.
Sigríður hefur síðastliðin ár stýrt kynningarmálum hjá UNICEF á Íslandi en hún hóf þar störf sem upplýsingafulltrúi árið 2011.
Á árunum 2000-2011 vann Sigríður sem blaðamaður, ýmist í lausamennsku, í fullu starfi eða meðfram námi. Hún vann fréttaskýringar, viðtöl, pistla og ferðasögur víðs vegar frá í heiminum og skrifaði einnig verðlaunabókina „Ríkisfang: Ekkert“ um hóp palestínskra kvenna og barna sem flúðu Írak og enduðu á Akranesi. Bókin var meðal annars tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Fjöruverðlaunanna og hlaut verðlaun Hagþenkis.
Maki Sigríðar er Leó Alexander Guðmundsson, líffræðingur, og eiga þau tvö börn saman, Hauk 4 ára og Laufeyju 8 mánaða.
Sigríður mun hefja störf í áföngum í sumar, samhliða því að klára fæðingarorlof, og koma síðan alfarið til vinnu 1. september.