Hoppa yfir valmynd
8. maí 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 208/2018 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 8. maí 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 208/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18020041

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 14. febrúar 2018 kærði […], fd. […], ríkisborgari Georgíu (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 1. febrúar 2018, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun og endurkomubann, sbr. 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga, verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti upphaflega um alþjóðlega vernd hér á landi þann 2. mars 2017. Með ákvörðun þann 24. júlí 2017 synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og var sú ákvörðun staðfest með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 533/2017, dags. 28. september 2017. Í kjölfar birtingar á úrskurði kærunefndar fór kærandi til Finnlands og lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hjá finnskum stjórnvöldum. Að beiðni frá finnskum stjórnvöldum samþykktu íslensk yfirvöld að taka yfir umsókn kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Þann 30. janúar sl. var kærandi fluttur til Íslands.

Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 30. janúar 2018 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 1. febrúar 2018, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Kæranda var jafnframt brottvísað frá landinu og honum ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Að ósk kæranda var veittur frekari rökstuðningur fyrir ákvörðuninni með bréfi Útlendingastofnunar, dags. 7. febrúar 2018. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 14. febrúar 2018. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 26. febrúar 2018. Þá bárust viðbótarupplýsingar frá Útlendingastofnun með tölvupósti, dags. 7. maí 2018.

 

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að kærandi byggði umsókn sína um alþjóðlega vernd á stjórnmálaþátttöku föður síns.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði ekki réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 2. mgr. 35. gr. laga um útlendinga. Kæranda var brottvísað frá landinu með vísan til 1. og 2. tölul. b-liðar 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, sbr. b-liðar 2. mgr. 104. gr. laganna. Var kæranda ákveðið endurkomubann hingað til lands í tvö ár, sbr. 101. gr. sömu laga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi hafi upphaflega komið til Íslands þann 2. mars 2017 og sama dag hafi hann sótt um alþjóðlega vernd hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun hafi kærandi m.a. verið boðaður í viðtal hjá stofnuninni þann 28. júní 2017 þar sem hann hafi greint frá ástæðum flótta frá heimaríki. Í viðtalinu hafi kærandi greint frá því að hann hafi búið í fæðingarbæ sínum, Terjola, í Georgíu áður en hann hafi neyðst til að flýja heimaríki sitt. Faðir kæranda, […] hafi ítrekað lent í vandræðum vegna stjórnmálaafskipta sinna, en hann hafi starfað fyrir stjórnarandstöðuflokkinn Patriotta Aliansi (e. Alliance of Patriots), sem hafi barist gegn ríkisstjórnarflokknum, Georgíska drauminum (e. Georgian Dream). Hafi ofsóknir á hendur föður kæranda hafist árið 2014 þegar Georgíski draumurinn hafi sigrað þingkosningar í landinu. Hafi faðir kæranda verið handtekinn á grundvelli falskra ásakana og í kjölfarið hafi honum verið gert að greiða háar fjársektir til yfirvalda. Þá kemur fram í greinargerð að ástæðan fyrir því að kærandi beri ekki sama eftirnafn og faðir hans sé nafnabreyting sem hann sjálfur hafi gert á fullorðinsárum. Breytingin hafi verið gerð vegna erfiðleika erlendra einstaklinga við að bera nafn föður hans fram.

Þá kemur fram í greinargerð kæranda að kæranda hafi verið synjað um vernd með ákvörðun Útlendingastofnunar þann 24. júlí 2017 og hafi sú ákvörðun verið staðferst með úrskurði kærunefndar útlendingamála sem birtur hafi verið fyrir honum þann 16. október 2017. Kærandi hafi í kjölfarið lagt fram umsókn um vernd hjá finnskum stjórnvöldum. Hafi íslensk stjórnvöld samþykkt að taka yfir umsókn hans á grunvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Þann 30. janúar 2018 hafi kærandi verið fluttur til Íslands og hafi verið tekið viðtal við hann hjá Útlendingastofnun þann sama dag. Í viðtalinu hafi kærandi greint frá sömu ástæðum flótta hans frá heimaríki og hann hafi greint frá við meðferð fyrri umsóknar. Þá hafi kærandi jafnframt greint frá því að ástand í heimaríki væri verra en áður en kveikt hafi verið í húsi fjölskyldu hans í nóvember sl. Kærandi telji að þeir sem hafi staðið að ofsóknum gegn fjölskyldu hans séu fulltrúar Georgíska draumsins á sveitarstjórnarstigi. Þessir einstaklingar heiti […], […] og […]. Kærandi hafi einnig greint frá því að fjölskylda hans hafi leitað aðstoðar yfirvalda vegna ofsóknanna en án árangurs. Þá hafi kærandi greint frá því að faðir hans og bróðir séu einnig á flótta í Evrópu vegna framangreindra ástæðna. Í greinargerð er einnig tekið fram að kærandi hafi greint frá því í framangreindu viðtali að hann hafi gefið þær skýringar á breytingu á eftirnafni sínu að á árinu 2017 hafi hann ákveðið að taka upp eftirnafn móður sinnar.

Í greinargerð kæranda er að finna almenna umfjöllun um ástand mannréttindamála í Georgíu. Helstu vandamál tengd mannréttindum þar í landi séu m.a. geðþóttahandtökur, annmarkar á dómskerfinu, þrýstingur stjórnvalda á dómsvaldið í ákveðnum málum, veikleikar í opinberum stofnunum og skortur á yfirsýn þingsins yfir störf löggæslustofnana. Þá séu viðvarandi áhyggjur af spillingu af hálfu starfsmanna löggæslustofnana. Kærandi vísar, framangreindu til stuðnings, í skýrslu Amnesty International fyrir árið 2016, en í þeirri skýrslu hafi komið fram að bæði innlendir og erlendir aðilar hafi lýst yfir áhyggjum af skorti á sjálfstæði og óhlutdrægni dómstóla. Einnig er vísað í skýrslu Transparency International. Þá vísar kærandi til þess að í Georgíu séu ofbeldisverk gagnvart pólitískum andstæðingum algeng og jafnframt sé algengt að stjórnvöld reyni að knésetja andstæðinga sína með fésektum.

Til stuðnings aðalkröfu sinni um alþjóðlega vernd vísar kærandi til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og skilgreiningar á flóttamannahugtakinu, sbr. A-lið 1. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna. Þá vísar kærandi til handbókar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um hugtakið ofsóknir í skilningi 33. gr. flóttamannasamningsins og skilgreiningu á hugtakinu í ákvæðum 38. gr. laga um útlendinga. Þá er jafnframt umfjöllun í greinargerð kæranda um túlkun á hugtakinu ástæðuríkur ótti.

Kærandi byggir á því að hann sæti ofsóknum vegna stjórnmálaskoðana. Þrátt fyrir að kærandi hafi ekki tjáð þær sjálfur sé ljóst að faðir hans hafi tjáð slíkar skoðanir opinberlega með þátttöku í stjórnmálum á fyrri árum og þá séu trúnaðarstörf föður hans fyrir stjórnmálaflokkinn Patriotta Aliansi yfirvöldum einnig kunn. Kærandi vísar til þess að samkvæmt handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna geti ofsóknir sem vinir eða ættingjar verði fyrir hæglega gefið til kynna að ótti umsækjenda um alþjóðlega vernd, við að verða fyrr eða síðar fórnarlamb ofsókna, geti verið ástæðuríkur. Í ljósi þess að faðir kæranda hafi orðið fyrir ofsóknum hafi kærandi ástæðuríkan ótta við ofsóknir af hálfu yfirvalda þrátt fyrir að hann hafi ekki sjálfur orðið með beinum hætti fyrir ofsóknum.

Einnig kemur fram í greinargerð að fjölskylda kæranda hafi ekki getað leitað verndar yfirvalda í Georgíu, þar sem ógnin stafi af yfirvöldum sjálfum. Þá sé fjölskyldunni mismunað vegna stjórnmálaþátttöku og fái t.a.m. enga fjárhagsaðstoð frá yfirvöldum þrátt fyrir mikla fátækt. Vísar kærandi þessu til stuðnings í skilgreiningu 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga um það hverjir geti verið valdir að ofsóknum skv. 37. gr. sömu laga. Telji kærandi að ofsóknir gagnvart fjölskyldu hans falli undir a-lið 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga þar sem fulltrúar ríkisvaldsins standi að baki ofsóknunum.

Þá er í greinargerð bent á að við mat á möguleika á flótta innanlands beri að líta til þess hvort slíkur flutningur geti talist viðeigandi úrræði og hvort krafan sé sanngjörn. Þurfi að fara fram einstaklingsbundið mat í hverju tilviki fyrir sig og almennt séu ekki forsendur til þess að kanna möguleika á flótta innan heimaríkis ef ljóst sé að ríkið skorti vilja eða getu til að vernda einstaklinga gegn ofsóknum. Við matið þurfi að skoða leiðbeiningar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og athugasemdir við 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem fram komi að hugtakið um raunverulega vernd í öðrum hluta heimaríkis sé ekki meginregla í alþjóðlegri flóttamannalöggjöf. Þá sé þess ekki krafist að einstaklingur sem sæti ofsóknum hafi útilokað alla möguleika í heimaríki áður en hann sæki um alþjóðlega vernd.

Til stuðnings varakröfu sinni um dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga vísar kærandi einkum til lögskýringargagna að baki ákvæðinu. Ákvæðið heimili veitingu dvalarleyfis á þeim grundvelli að útlendingur geti sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. vegna erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða vegna annarra atvika sem ekki megi með réttu gera honum að bera ábyrgð á. Kærandi vísar til greinargerðar með frumvarpi til laganna en þar komi fram að taka verði mið af svipuðum sjónarmiðum og gert sé við mat á öðrum ákvæðum kaflans s.s. almennra aðstæðna í heimaríki, þ. á m. hvort grundvallarmannréttindi séu nægilega tryggð. Kærandi telji að með þátttöku í mjög smáum stjórnarandstöðuflokki tilheyri hann og fjölskylda hans jaðarsettum hópi í Georgíu en í Terjole séu einungis 15 flokksmeðlimir. Þá hafi hann og fjölskylda hans misst húsnæði sitt, fái enga vinnu og lifi við mikla fátækt. Telji kærandi, með hliðsjón af framangreindri umfjöllun um aðstæður hans og yfirvöld í heimaríki, að skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga séu uppfyllt.

Varðandi þrautavarakröfu kæranda um að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi hvað varðar brottvísun og endurkomubann kemur fram sú afstaða kæranda að stofnuninni hafi verið óheimilt að ákveða að honum skyldi ekki veittur frestur til að hverfa brott af landinu með vísan til b-liðar 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga og meta umsókn hans bersýnilega tilhæfulausa. Kærandi vísar í úrskurð kærunefndar, mál nr. KNU17090052, máli sínu til stuðnings en þar hafi komið fram að til þess að umsókn teljist bersýnilega tilhæfulaus í skilningi 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga þá þurfi tilhæfuleysi hennar að blasa við stjórnvöldum. Víða sé stuðst við þá grunnhugmynd að umsókn geti eingöngu talist bersýnilega tilhæfulaus ef umsækjandi ber fyrir sig atvik sem ekki geta kallað á vernd, s.s. efnahagslegar eða félagslegar aðstæður. Kærandi telji að aðstæður hans falli undir 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga en hann hafi ástæðuríkan ótta við að verða fyrir ofsóknum vegna stjórnmálaskoðana og því eigi ekki að leggja til grundvallar að umsókn hans sé bersýnilega tilhæfulaus. Enn fremur hafi stofnuninni verið óheimilt að ákvarða kæranda brottvísun með vísan til 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Þá hafi ákvörðun Útlendingastofnunar um endurkomubann kæranda verið í andstöðu við 1. mgr. 33. gr. Alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna. Jafnframt hafi Útlendingastofnun brotið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með því að fella niður frest kæranda til þess að yfirgefa landið sjálfviljugur, enda sé sú ráðstöfun verulega íþyngjandi úrræði.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 1. febrúar 2018, í núverandi máli kæranda kemur fram að til að sanna á sér deili hafi hann framvísað georgísku vegabréfi með gildistíma til 25. janúar 2027. Afrit af vegabréfi kæranda fylgdi með gögnum málsins til kærunefndar og telur nefndin því ljóst að kærandi hafi sannað auðkenni sitt og verður lagt til grundvallar að hann sé georgískur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Georgíu m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • Amnesty International Report 2017/2018: Georgia (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • Council of Europe – Action Plan for Georgia 2016-2019 (Council of Europe, 25. febrúar 2016);
  • Constitution of Georgia (http://www.parliament.ge/uploads/other/28/28803.pdf, sótt 17. janúar 2018);
  • Corruption prevention in respect of members of parliament, judges and prosecutors (Group of States Against Corruption, Council of Europe, 17. janúar 2017);
  • Freedom in the World 2017 - Georgia (Freedom House, 16. febrúar 2018);
  • Georgia - Country Reports on Human Rights Practices for 2016 (U.S. Department of State, 3. mars 2017);
  • Georgia – Parliamentary Elections 8 and 30 October (OSCE – Office for Democratic Institutions and Human Rights, 3. febrúar 2017);
  • Georgia 2017 Crime and Safety Report (OSAC, mars 2017);
  • Georgia: Korrupsjon i politi og rettsvesen (Landinfo, 9. mars 2017);
  • Georgia: Situasjonen for politisk opposisjonelle UNM medlemmer (Landinfo, 23. mars 2017);
  • Georgia: The Human Rights Education and Monitoring Center (EMC), including office location and source of funding; relationship with the government, including treatment of its members by the police and other authorities (Canada: Immigration and Refugee Board of Canada, 30. júní 2015);
  • Joint Staff Working Document – Association Implementation Report on Georgia (European Commission, 25. nóvember 2016);
  • National Strategy for the Protection of Human Rights in Georgia 2014-2020 (Ministry of Internal Affairs in Georgia, 17. september 2015);
  • Nations in Transit 2017 - Georgia (Freedom House, 9. maí 2017);
  • Report on Progress in the Implementation of the National Strategy for the Protection of Human Rights in Georgia 2014-2020 (United States Agency for International Development (USAID), mars 2017);
  • Second Report Submitted by Georgia Pursuant to Article 25, Paragraph 2 of the Framework Convention for the Protection of National Minorities (Council of Europe, 30. maí 2012);
  • World Report 2018 – Georgia (Human Rights Watch, 18. janúar 2018);
  • Temarapport: Georgien - Politiskt motiverade repressalier och våld mot oppositionella (version 1.0) (Lifos, 30. maí 2017);
  • Temarapport: Georgien – Rätts- och säkerhetssektorn (Lifos, 3. október 2017)
  • 10 December Report on the situation of Protection of Human Rights and Freedoms in Georgia 2016 (Public Defender of Georgia, 2016) og
  • Georgia Local Elections, 21 October and 12 November 2017, OSCE/ODIHR Election Observation Mission Final Report (OSCE/ODIHR, 23. febrúar 2018)

Georgía er lýðræðisríki með um 3,7 milljónir íbúa. Georgía gerðist aðili að Evrópuráðinu árið 1999 og fullgilti mannréttindasáttmála Evrópu það sama ár. Georgía gerðist aðili að flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna þann 9. ágúst 1999, alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi þann 3. ágúst 1994 og samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu þann 8. júlí 2005. Þann 1. júlí 2016 gekk í gildi samstarfssamningur milli Evrópusambandsins og Georgíu. Með þeim samningi hefur Georgía meðal annars skuldbundið sig til að efna víðtækar skuldbindingar á sviði lýðræðis, mannréttinda og réttarríkis. Þann 19. júlí 2017 setti Útlendingastofnun Georgíu á lista stofnunarinnar yfir örugg upprunaríki.

Í ofangreindum gögnum kemur fram að stjórnarskrá Georgíu kveði á um jafnrétti allra fyrir lögunum og mismunun á grundvelli kynþáttar, litarháttar, tungumáls, kyns, trúar- og lífsskoðana, stjórnmálaskoðana, þjóðernis, félagslegrar stöðu eða tengsla, uppruna, búsetu eða efnahagslegrar stöðu sé refsiverð skv. refsilöggjöf landsins. Umboðsmaður (e. Public Defender (Ombudsman)) hafi verið starfandi í Georgíu frá árinu 1997. Umboðsmaðurinn hafi eftirlit með mannréttindum og frelsi borgaranna í Georgíu innan lögsögu ríkisins. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. stjórnarskrár Georgíu gangi alþjóðasamningar, sem fullgiltir hafi verið af hálfu Georgíu, framar landslögum. Svo framarlega sem slíkir samningar gangi ekki gegn stjórnarskrá landsins sé hægt að beita þeim sem hluta af almennri löggjöf.

Þá kemur fram að fyrstu lýðræðislegu stjórnarskiptin í sögu sjálfstæðrar Georgíu hafi átt sér stað í október 2012. Þá hafi Georgíski draumurinn komist til valda og í kjölfarið hafi nokkrir hátt settir fulltrúar fyrrum ríkisstjórnar Mikheil Saakashvili, verið handteknir og ákærðir fyrir m.a. embættisglöp og fjárdrátt. Þeir meðlimir Þjóðarhreyfingarinnar sem hafi verið sóttir til saka fyrir georgískum dómstólum hafi allir verið hátt settir embættismenn í ríkisstjórn Saakashvili m.a. fyrrum ráðherrar, borgarstjóri og aðrir hátt settir fulltrúar innan Þjóðarhreyfingarinnar. Ekkert í þeim gögnum sem kærunefnd hefur skoðað bendir til þess að almennir borgarar verði fyrir pólitískum ofsóknum af hálfu georgískra stjórnvalda. Þá hafi síðustu þingkosningar í október 2016 og sveitastjórnarkosningar í október og nóvember 2017 að mestu leyti farið vel fram að mati kosningaeftirlitsmanna þrátt fyrir harða kosningabaráttu. Þá komi fram í ofangreindum gögnum að spilling sé þó nokkur í georgíska stjórnkerfinu. Yfirvöld hafi hins vegar gripið til ýmissa aðgerða til að sporna við spillingu og hafi miklar framfarir átt sér stað á undanförnum árum, m.a. hafi verið sett á fót sérstök landsáætlun til að sporna við skipulögðum glæpum í landinu fyrir árin 2015-2018. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2016 kemur jafnframt fram að engar tilkynningar hafi borist um refsileysi í málum er varði aðila sem fari með löggæslu á árinu en þó hafi Umboðsmanni borist nokkrar kvartanir varðandi óhóflega beitingu valds af hálfu lögreglu. Þá beri stjórnvöldum að taka allar tilkynningar um misferli lögreglu til skoðunar og aðili sem telji að brotið sé á réttindum sínum geti kært til æðra stjórnvalds eða farið með mál sitt fyrir dómstóla. Einnig komi fram að stofnun sem heyri undir innanríkisráðuneyti landsins (e. General Inspection Department) sé ábyrg fyrir því að rannsaka brot sem framin séu af lögreglumönnum og hafi sú stofnun heimild til að beita agaviðurlögum. Frjáls félagasamtök líkt og GYLA (e. Georgian Young Lawyer Association) hafi hins vegar gagnrýnt þetta fyrirkomulag og bendi m.a. á að stjórnvöld hafi ekki alltaf rannsakað málin með fullnægjandi hætti.

Í ofangreindum gögnum kemur einnig fram að félagslega kerfið í Georgíu tryggi einstaklingum sem þurfi á fjárhagsaðstoð frá ríkinu að halda slíka aðstoð. Fram komi að félagsleg aðstoð sé veitt þeim sem á þurfi að halda og eigi í miklum erfiðleikum og miði hún sérstaklega að því að styrkja efnahagslega stöðu þeirra sem séu verst settir. Ríkið hafi unnið að því á undanförnum árum að draga úr fátækt og auka hagvöxt í Georgíu og bæta þannig félagslegar aðstæður og lífskjör þjóðarinnar. Almannatryggingakerfi ríkisins feli m.a. í sér greiðslu atvinnuleysisbóta, fjölgun starfa í ríkinu, þjálfun einstaklinga fyrir atvinnulífið, greiðslu sjúkratrygginga, félagslega aðstoð og fjölgun íbúða. Þá tryggi félagslega kerfið fjárhagsaðstoð til efnaminni barnafjölskyldna, fæðingarorlof og meðlagsgreiðslur til einstæðra foreldra auk þess sem foreldrum á vinnumarkaði sé veitt aðstoð við umönnun barna. Þá sé öllum börnum tryggð endurgjaldslaus menntun í lögum ríkisins. Samhliða almannatryggingakerfi ríkisins séu einnig starfrækt frjáls mannúðar- og félagasamtök í Georgíu, rekin af innlendum og erlendum aðilum, sem útvegi einstaklingum m.a. mat, fatnað og aðrar nauðsynjar og séu þau aðgengileg öllum hópum samfélagsins.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a.   ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c.   aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi í mars 2017 sem var synjað með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 533/2017 þann 28. september 2017. Við meðferð þess máls bar kærandi fyrir sig að hann væri í hættu í heimaríki vegna ofsókna sem faðir hans hafi orðið fyrir af hálfu ríkisstjórnarflokksins vegna þátttöku í stjórnmálum. Þá bar hann fyrir sig að efnahagslegar ástæður væru fyrir flótta hans. Í úrskurði kærunefndar kom m.a. fram að efnahagslegar ástæður teldust almennt ekki til ofsókna í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Að því er varðar önnur atvik mat kærunefnd frásögn kæranda í meginatriðum ótrúverðuga.

Við meðferð málsins sem er hér til úrlausnar hefur kærandi í grundvallaratriðum borið fyrir sig sömu málsástæður og hann bar fyrir sig í framangreindu máli.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun, dags. 30. janúar 2018, greindi kærandi þó jafnframt frá því að aðstæður í heimaríki hans hefðu versnað frá því mál hans var síðast til meðferðar. Kveikt hafi verið í húsi fjölskyldunnar. Faðir kæranda hafi reynt að fara með málið fyrir dómstóla en án árangurs. Kærandi hefur við meðferð málsins lagt fram gögn sem lágu fyrir við meðferð fyrri umsóknar hans um alþjóðlega vernd auk skýringa á ákveðnum atriðum málsins. Þrátt fyrir áskoranir Útlendingastofnunar lagði kærandi ekki fram frekari gögn til stuðnings frásögn sinni.

Að mati kærunefndar breyta gögn og skýringar sem kærandi lagði fram í málinu ekki fyrra mati nefndarinnar að frásögn kæranda sé í meginatriðum ótrúverðug og verði ekki lögð til grundvallar í málinu.

Með vísan til alls ofangreinds og forsendna úrskurðar kærunefndar útlendingamála nr. 533/2017, dags. 28. september 2017, er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. og 3. gr. 38. gr. laganna. Kærandi uppfyllir því ekki skilyrði ákvæðisins fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að orðalag 1. mgr. 74. gr. kveði ekki með skýrum hætti á um veitingu dvalarleyfis má skilja af athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016, fyrirsögn greinarinnar og af 6. mgr. 37. gr. laganna að það hafi þó verið ætlunin með ákvæðinu. Kærunefnd telur því rétt að túlka ákvæðið sem heimild til veitingar dvalarleyfis þegar skilyrði þess eru uppfyllt.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 533/2017, dags. 28. september 2017, var umsókn kæranda um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða synjað. Þar var tekin afstaða til málsástæðna kæranda varðandi efnahagslegar aðstæður hans í tengslum við þá umsókn. Í því ljósi og með vísan til rökstuðnings úrskurðar nr. 533/2017 er það niðurstaða kærunefndar að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Frávísun, brottvísun og endurkomubann

Með vísan til atvika málsins tekur kærunefnd undir forsendur Útlendingastofnunar varðandi frávísun kæranda á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. til hliðsjónar 2. málsl. 3. mgr. 42. gr. reglugerðar nr. 540/2017.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var kæranda brottvísað og ákvarðað endurkomubann, sbr. 1. og 2. tölul. b-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Ástæða þess er að Útlendingastofnun mat umsókn kæranda bersýnilega tilhæfulausa í skilningi b-liðar 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga en ákvæðið veitir stjórnvöldum heimild til að fella niður frest sem að jafnaði er veittur útlendingi til að yfirgefa landið sjálfviljugur í kjölfar ákvörðunar um að yfirgefa landið í þeim tilvikum þegar umsókn útlendings um dvalarleyfi eða alþjóðlega vernd telst bersýnilega tilhæfulaus eða hann hefur vísvitandi gefið misvísandi eða rangar upplýsingar við umsókn.

Lög um útlendinga skilgreina ekki hvað felist í orðalaginu „bersýnilega tilhæfulaus“ í skilningi b-liðar 2. mgr. 104. gr. laganna. Við túlkun ákvæðisins telur kærunefnd að líta verði til þess að orðið tilhæfulaus lýsir einhverju sem byggir ekki á staðreyndum eða á ekki við rök að styðjast. Þá leiðir af orðalagi ákvæðisins að tilhæfuleysi umsóknar þarf að vera bersýnilegt, þ.e. blasa við stjórnvaldi við skoðun málsins. Með vísan til orðalags ákvæðisins og til samræmis við ákvæði tilskipunar 2008/115/EB um brottvísun útlendinga í ólögmætri dvöl telur kærunefnd að umsókn um dvalarleyfi eða alþjóðlega vernd sé bersýnilega tilhæfulaus í skilningi b-liðar 2. mgr. 104. gr. laganna ef eftirfarandi tilvik eiga einkum við þegar:

a) ljóst er, við fyrstu sýn, að málsástæður umsækjanda varða ekki þá þætti sem 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga taka til,

b) ljóst er, við fyrstu sýn, að málsástæður umsækjanda séu ekki þess eðlis eða nái ekki því alvarleikastigi að þær gætu leitt til þeirrar niðurstöðu að heimilt væri að veita umsækjenda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, og

c) frekara mat og gagnaöflun, þar með talið viðtal við umsækjanda, hafi ekki breytt ofangreindu upphaflegu mati.

Kærandi byggir umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki þar sem faðir hans hafi orðið fyrir ofsóknum vegna aðildar sinnar að stjórnarandstöðuflokknum Alliance of Patriots. Kærandi kvað fjölskyldu sína hafa leitað aðstoðar lögreglu en að hún hafi ekkert aðhafst í máli hennar. Eins og fram hefur komið hefur kærandi ekki lagt fram gögn er styðja staðhæfingu hans um að þær hótanir, ofbeldi og áreiti sem hann kveður sig og fjölskyldu sína hafa orðið fyrir sé af hálfu aðila á vegum stjórnvalda og að þeim sé því ómögulegt að fá aðstoð lögreglu. Eins og fram hefur komið sótti kærandi um alþjóðlega vernd hér á landi á síðasta ári. Synjaði Útlendingastofnun umsókn hans um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með ákvörðun 24. júlí 2017 og staðfesti kærunefnd útlendingamála niðurstöðu Útlendingastofnunar með úrskurði þann 28. september 2017. Það er mat kærunefndar, að teknu tilliti til trúverðugleika kæranda og gagna um heimaríki hans, að engin breyting hafi orðið í máli hans frá því að nefndin úrskurðaði um fyrri umsókn hans í september 2017 og að það hafi þar af leiðandi frá upphafi málsmeðferðarinnar verið bersýnilegt að málsástæður hans vörðuðu ekki þá þætti sem 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga taka til. Enn fremur hafi verið bersýnilegt að aðrar aðstæður í heimaríki kæranda séu ekki þess eðlis eða nái því alvarleikastigi að þær gætu leitt til þeirrar niðurstöðu að heimilt væri að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Í þessu sambandi lítur kærunefnd til þess að orðalag 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um að aðili þurfi að sýna fram á ríka þörf á vernd og tekur mat stjórnvalda á tilhæfuleysi slíkra umsókna mið af þeirri ábyrgð sem lögð er á aðila að þessu leyti. Þá er einnig ljóst að frekara mat og gagnaöflun hafi ekki breytt ofangreindu mati.

Að mati kærunefndar eru líkur á því að ákvörðun um niðurfellingu frests hafi varnaðaráhrif sem þjóni því markmiði að stuðla að fækkun bersýnilega tilhæfulausra umsókna frá öruggum upprunaríkjum. Fyrir liggur mat Útlendingastofnunar á því að framangreindu markmiði verði ekki náð með öðru og vægara móti. Kærunefnd telur sig ekki hafa forsendur til að draga í efa þetta mat að svo stöddu. Er það því mat kærunefndar að 12. gr. stjórnsýslulaga standi því ekki í vegi að kæranda verði ekki veittur frestur til að yfirgefa landið. Þá fær kærunefnd ekki séð að 1. mgr. 31. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna komi í veg fyrir að framangreindu úrræði verði beitt í máli kæranda.

Með vísan til framangreinds er fallist á það mat Útlendingastofnunar að umsókn kæranda um dvalarleyfi eða alþjóðlega vernd sé bersýnilega tilhæfulaus, sbr. b-lið 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga, og heimilt að veita kæranda ekki frest til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var frestur til að yfirgefa landið jafnframt felldur niður með vísan til a- liðar 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Þar kemur fram að heimilt sé að veita styttri frest eða fella hann niður ef hætta er á að útlendingur muni koma sér undan framkvæmd ákvörðunar. Í 3. mgr. 105. gr. laganna segir að við mat á því hvort ástæða sé til að ætla að útlendingur muni koma sér undan framkvæmd ákvörðunar sé heimilt að taka tillit til almennrar reynslu af undankomu. Þá segir að framkvæmt skuli heildarmat á aðstæðum í máli útlendings þar sem m.a. sé litið til þess hvort útlendingur hafi áður komið sér undan framkvæmd ákvörðunar sem fól í sér að hann skyldi yfirgefa landið, t.d. með því að virða ekki veittan frest skv. 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga, sbr. a-lið 3. mgr. 104. gr. laganna eða ef útlendingi hefur verið vísað úr landi, sbr. c-lið 3. mgr. 104. gr. laganna.

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála, dags. 28. september 2017, var kæranda vísað frá landinu og veittur 7 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur, sbr. 2. mgr. 104. gr. laganna. Samkvæmt gögnum frá Útlendingastofnun hafði kærandi ekki yfirgefið landið 24. október 2017 og var þá óskað eftir því að stoðdeild ríkislögreglustjóra framkvæmdi flutning kæranda til heimaríkis. Fyrirhugað var að flytja kæranda til heimaríkis 5. desember 2017 en ekki varð af flutningnum þar sem beiðni um endurviðtöku kæranda barst frá finnskum stjórnvöldum 24. nóvember 2017 en þá hafði kærandi sótt um alþjóðlega vernd þar í landi. Þá liggur fyrir að finnsk stjórnvöld ætluðu að flytja kæranda til Íslands 23. janúar 2018 en hann lét sig hverfa þar áður en til flutnings kom. Hann var svo fluttur hingað til lands af finnskum stjórnvöldum 30. janúar 2018.

Samkvæmt framansögðu yfirgaf kærandi ekki landið innan frest sem honum var veittur til að yfirgefa landið sjálfviljugur. Það mat kærunefndar í ljósi atvika málsins eftir að úrskurður kærunefndar nr. 533/2017 var kveðinn upp, þ.m.t. upplýsinga frá finnskum stjórnvöldum, að hætta sé á að kærandi muni koma sér undan framkvæmd ákvörðunar. Er því jafnframt heimilt í málinu að fella niður frest til að yfirgefa landið á grundvelli a-liðar 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.

Eins og að framan greinir hefur kæranda verið vísað frá landinu og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar hér á landi. Þá hefur kærunefnd komist að þeirri niðurstöðu að heimilt sé að fella niður frest til að kærandi geti yfirgefið landið sjálfviljugur. Liggur því fyrir að kærandi dvelst ólöglega í landinu, sbr. a-lið 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, og er því heimilt að brottvísa honum.

Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga skal ekki ákveða brottvísun ef hún, með hliðsjón af málsatvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Kærandi kom hingað til lands einn síns liðs og sótti um alþjóðlega vernd þann 19. janúar 2018. Í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 30. janúar 2018 kom fram að kærandi telji að það sé ósanngjarnt að beita hann endurkomubanni. Það er mat kærunefndar, í ljósi grundvallar brottvísunar kæranda og með vísan til umfjöllunar kærunefndar um aðstæður í heimaríki kæranda, að ótti kæranda við stjórnvöld í heimaríki vegi ekki nægilega þungt til að talið verði að brottvísun feli í sér ósanngjarna ráðstöfun í máli hans. Kærandi mótmælti hugsanlegri brottvísun og endurkomubanni. Þá var kærandi spurður út í sérstök tengsl við Ísland eða önnur Schengen-ríki og greindi kærandi frá því að bróðir hans sé á Schengen-svæðinu. Af þeim svörum sem kærandi gaf um tengsl sín við Ísland og önnur Schengen-ríki verður ekki séð að brottvísun hans og endurkomubann verði talin ósanngjörn ráðstöfun í garð kæranda eða nánustu aðstandendur hans, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga.

Er ákvörðun Útlendingastofnunar er varðar brottvísun og endurkomubann því staðfest.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

 

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

Anna Tryggvadóttir

 

 

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                                              Ívar Örn Ívarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta