Skrifað undir verksamning um Djúpveg
Vegagerðin og verktakafyrirtækin KNH ehf. og Vestfirskir verktakar skrifuðu í dag undir verksamning um vegagerð á Djúpvegi í framhaldi af útboði sem fram fór í lok síðasta árs. Verksamningurinn tekur til 14,5 km kafla Djúpvegar milli Reykjaness og Hörtnár utarlega við vestanverðan Mjóafjörð. Verkinu á að ljúka fyrir 1. nóvember á næsta ári.
Fulltrúar verktaka og Vegagerðarinnar undirrituðu verksamninginn og var Sturla Böðvarsson samgönguráðherra viðstaddur. Samningurinn er með þeim stærri sem Vegagerðin hefur undirritað á síðustu misserum og er samningsupphæðin liðlega einn milljarður króna.
Auk vegagerðarinnar er innifalið í verkinu að smíða þrjár brýr, þá stærstu á Mjóafirði sem yrði 130 metra löng stálbogabrú en hinar eru 60 metra brú á Reykjarfirði og 10 m brú við Vatnsfjarðarós. Brúin á Mjóafirði liggur milli lands og Hrúteyjar að austanverðu en að vestanverðu er gert ráð fyrir vegfyllingu.
Níu verktakafyrirtæki buðu í verkið. Tilboð frá fjórum voru hærri en kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar sem var liðlega 1,2 milljarðar króna. Fimm buðu lægra en kostnaðaráætlun, KNH ehf. og Vestfirskir verktakar lægst, 1.017 milljónir króna. Næst lægsta tilboðið átti Ístak, 1.050 milljónir króna. Hæstu tilboðin voru á bilinu frá 1.280 milljónir króna og uppí 1.710 milljónir.
Þegar þessum framkvæmdum lýkur seint á næsta ári ásamt lagningu bundins slitlags á kafla í vestanverðum Ísafirði verður Djúpvegur lagður bundnu slitlagi allt milli Hólmavíkur og Bolungarvíkur. Leiðin er álíka löng og núverandi leið yfir Eyrarfjall. Sú leið hefur yfirleitt verið lokuð vegna snjóþyngsla og þungatakmarkana kringum fjóra mánuði á ári. Þá hafa vegfarendur þurft að taka á sig 35 km krók út fyrir Vatnsfjarðarnes eftir mjóum og seinförnum vegi. Reykjanesleiðin liggur hins vegar meira og minna með ströndum fram og er því snjóléttari og er það ástæða þess að sú leið er valin. Á Vatnsfjarðarhálsi, milli Mjóafjarðar og Vatnsfjarðar, fer vegurinn mest í 90 m hæð yfir sjó. Vegalengdin milli Ísafjarðar og Reykjavíkur um Steingrímsfjarðarheiði verður 496 km.
Þá má benda á að þegar lokið verður fyrirhuguðum framkvæmdum við veg um Tröllatunguheiði og Arnkötludal, milli Reykhólasveitar og Steingrímsfjarðar, árið 2008 verður þessi leið allt milli Reykjavíkur og Ísafjarðar lögð bundnu slitlagi. Er það í samræmi við gildandi samgönguáætlun en ráðgert er að bjóða út á næstunni veginn um Tröllatunguheiði. Sé þessi leið farin milli Ísafjarðar og Reykjavíkur verður vegalengdin 454 km eða 42 km styttri en leiðin um Strandir og Holtavörðuheiði.