Samgöngubætur oft ráðandi í búsetuvali
Rætt var um ferðir, búsetur og samgöngukerfi á fundi í dag, þeim fyrsta í fundaröð sem samgönguráð og samgönguráðuneyti standa fyrir næstu mánuði. Flutt voru þrjú erindi og í framhaldinu voru umræður og fyrirspurnir.
Áhrifasvið höfuðborgarsvæðisins og helstu þéttbýlisstaða, kynning á niðurstöðum rannsókna, var heiti erindis Bjarna Reynarssonar, landfræðings hjá Land-ráði sf. Í niðurstöðum könnunar hans um innanlandsflug kemur meðal annars fram að 81% aðspurðra kváðust myndu fljúga minna innanlands ef miðstöð þess yrði flutt til Keflavíkurflugvallar og 39% nefndu sem ábendingu sem þeir vildu koma á framfæri að ekki ætti að flytja starfsemi Reykjavíkurflugvallar til Keflavíkur.
Bjarni benti í lokin á eftirfarandi atriði til að hafa í huga varðandi notagildi og frekari rannsóknarvinnu:
? Safnað hefur verið saman miklu magni upplýsinga um ferðavenjur landsmanna og þær greindar og túlkaðar.
? Þessi gögn eru aðgengileg öllum þeim sem vinna að stefnumótun í samgöngu-, ferða- og skipulagsmálum.
? Þau eru sérstaklega ætluð sem bakgrunnsgögn varðandi endurskoðun samgönguáætlunar.
? Mikilvægt er að að fylgja þessari vinnu eftir með reglubundnum könnunum sem mæla ákveðna þætti í ferðavenjum landsmanna.
? Í því sambandi er mikilvægt að fylgjast með þróun áhrifasviðs höfuðborgarsvæðisins og að einnig verði fylgst með ferðum fólks innan höfuðborgarsvæðisins þar sem meirihluti íbúa landsins býr.
Glærur Bjarna Reynarssonar má skoða hér.
Áhrif umbóta á samgöngukerfið á byggð var umræðuefni Vífils Karlssonar, dósents við Háskólann á Bifröst. Vífill dró fram hvaða skilyrði geta ráðið búsetuvali og benti á kosti og galla dreifbýlis og þéttbýlis. Hann sagði að samgöngubætur hefðu meðal annars í för með sér bætt aðgengi og styttri ferðatíma, sagði margs konar rekstrarskilyrði batna og hagvöxt geta aukist. Fram kom í könnun á viðhorfum íbúa á Vesturlandi að tilkoma Hvalfjarðarganga hefði að áliti margra leitt til aukinna atvinnutækifæra og væru einkum íbúar á Akranesi sammála þeirri fullyrðingu en í minna mæli þeir sem byggju lengra frá göngunum. Hátt hlutfall íbúa á öllu Vesturlandi töldu aðgengi að framhalds- eða háskólamenntun hafa batnað nokkuð eða mikið og margir töldu tilkomu ganganna hafa gert búsetu í byggðarlaginu traustari.
Glærur Vífils Karlssonar má skoða hér.
Breyting á umferð og búsetu 2000 til 2005 var yfirskrift erindis Hreins Haraldssonar, framkvæmdastjóra þróunarsviðs Vegagerðarinnar. Sýndi hann meðal annars tölur um aukningu mannfjölda á Íslandi sem hann sagði hafa verið 1,3% að meðaltali árin 1996 til 2006 eða 3.593 á ári. Meðaltalsaukninguna á höfuðborgarsvæðinu sagði hann hafa verið 1,7% á sama tíma. Hreinn dró fram hversu ólík væri þróun íbúafjöld og þróun í aukningu umferðar og sýndi tölur fyrir árin 2000 til 2005 eftir landsvæðum. Hann sagði árlega aukningu umferðar hafa verið 4,2% síðustu 10 árin og fjölgun bíla væri í svipuðu hlutfalli eða 4,7%. Einnig sýndi hann tölur um aukna umferð á ýmsum köflum Hringvegarins og kom fram að á sumum köflum nálægt þéttbýli væri hún mun meiri en meðalaukning umferðarinnar.
Glærur Hreins Haraldssonar má skoða hér.