Mál nr. 15/2023 - Úrskurður
Úrskurður kærunefndar jafnréttismála
A
gegn
B ehf.
Afturköllun.
Ákveðið var að afturkalla úrskurð í máli nr. 18/2021 með vísan til 2. tölul. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Fyrir lá að kærandi hafði ekki verið upplýst um tiltekin gögn sem kærði hafði óskað eftir trúnaði um, sbr. 4. mgr. 10. gr. laga nr. 151/2020, um stjórnsýslu jafnréttismála. Samkvæmt því hafði ekki verið gætt að andmælarétti, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, fyrir kærunefndinni og úrskurðurinn þar með ógildanlegur.
- Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 19. september 2023 er tekið fyrir mál nr. 15/2023 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
- Með úrskurði kærunefndar frá 30. desember 2022 í máli nr. 18/2021: A gegn B ehf.,var fallist á að kærði hefði brotið gegn 1. mgr. 20. gr. laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, og 1. mgr. 13. gr. laga nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, við uppsögn kæranda úr starfi framkvæmdastjóra hjá kærða. Hins vegar var hvorki fallist á að kærði hefði brotið gegn lögum nr. 150/2020 né lögum nr. 86/2018 við ákvörðun launa kæranda og annarra kjara. Var kærða gert að greiða kæranda 200.000 kr. í málskostnað.
MÁLAVEXTIR
- Kærunefnd sendi aðilum tölvubréf, dags. 27. júlí 2023, þar sem fram kom að við yfirferð málsgagna hefði komið í ljós að farist hefði fyrir að tilkynna kæranda málsins það sérstaklega að aflað hefði verið tiltekinna gagna við meðferð málsins, n.tt. skipurits og starfslýsinga hjá kærða, sem kærði lagði fram fyrir nefndina í trúnaði, sbr. 4. mgr. 10. gr. laga nr. 151/2020, um stjórnsýslu jafnréttismála. Á það var bent að með tölvubréfi, dags. 3. maí 2023, hefði kærði aflétt trúnaði af umræddum gögnum. Tekið var fram að í ljósi þess að kærandi hefði ekki verið meðvituð um tilvist þessara gagna þegar úrskurðurinn var kveðinn upp væri ekki loku fyrir það skotið að það kynni að hafa haft áhrif á andmælarétt kæranda, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og hefði kærunefnd það til skoðunar að afturkalla úrskurð sinn í fyrrnefndu máli. Var aðilum gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum varðandi afturköllun á framfæri við nefndina eigi síðar en 15. ágúst 2023. Sjónarmið kæranda bárust með bréfi, dags. 18. ágúst 2023, og kærða með bréfi, dags. 14. ágúst 2023.
SJÓNARMIÐ KÆRANDA
- Kærandi telur að umræddur úrskurður kærunefndar sé ógildanlegur. Hann sé í andstöðu við skráðar og óskráðar reglur stjórnsýsluréttarins og hin ólögmæta málsmeðferð hafi leitt til rangrar niðurstöðu málsins hvað tiltekin kæruatriði varði. Þá telur kærandi rökstuðning kærunefndar hafa verið ófullnægjandi og að niðurstaðan byggi hvorki á lögmætum né málefnalegum sjónarmiðum miðað við það hvernig málsatvikum hafi verið háttað. Telur kærandi því að kærunefndinni beri að afturkalla úrskurðinn, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 25. gr. stjórnsýslulaga.
- Að auki gerir kærandi kröfu um að úrskurðurinn verði endurupptekinn, sbr. 2. tölul. 24. gr. stjórnsýslulaga, enda hafi hann byggt á röngum upplýsingum um málsatvik.
SJÓNARMIÐ KÆRÐA
- Kærði mótmælir því að umræddur úrskurður verði afturkallaður og telur ekki heimild til staðar að lögum til slíks. Bendir kærði á að reglan í 25. gr. stjórnsýslulaga sé heimildarregla og því sé stjórnvaldi ekki skylt að afturkalla ákvörðun sína telji það málsmeðferð í fyrra stjórnsýslumáli mögulega ábótavant.
- Kærði bendir á að brot á málsmeðferðarreglum leiði almennt ekki til ógildingar þar sem leggja þurfi mat á hvort tilefni sé til ógildingar. Þá sé ekki sjálfgefið að heimilt sé að afturkalla úrskurð eða ákvörðun þó hún sé haldin verulegum annmarka. Verði kærunefndin því að meta hvort mögulegur formannmarki sé verulegur og hvort hann hafi áhrif á efnislegt inntak úrskurðarins sem um ræðir og niðurstöðuna. Telur kærði því fara fjarri að þau skilyrði séu uppfyllt. Þar sem kærunefndin vísi í tölvubréfi sínu til þess að kærandi hafi ekki verið upplýst um að skipurit og starfslýsingar hafi verið meðal gagna málsins verði að meta hvort og þá hversu mikil áhrif þessi gögn hafi haft á efnislega niðurstöðu málsins.
- Kærði bendir á að ljóst sé af úrskurði í máli nr. 18/2021 að umrædd skjöl hafi legið fyrir þegar úrskurðurinn var kveðinn upp. Það að kærandi hafi ekki sjálf krafist endurupptöku á úrskurðinum á þeim grundvelli að hún hefði ekki haft skjölin undir höndum hljóti að gefa vísbendingu um hvaða áhrif skjölin hafi haft á niðurstöðuna að mati kæranda. Hafi kærandi því verið grandsöm um gögnin en slíkt verði að telja fela í sér viðurkenningu hennar á því að hún hafi ekki talið þörf á að tjá sig um skipurit og starfslýsingar.
- Bendir kærði á að ekkert í skipuritinu geti komið kæranda á óvart en yfirlit yfir forstjóra og framkvæmdastjóra ákveðinna sviða hafi verið á heimasíðu kærða svo árum skipti. Sé því um opinber gögn að ræða. Ekki verði séð hvernig athugasemdir kæranda við þær upplýsingar geti haft áhrif á niðurstöðu málsins svo valdi ógildingu úrskurðarins. Þá bendir kærði á að það liggi í augum uppi að starfslýsingar þeirra stjórnenda sem sinni mismunandi sviðum séu ólíkar.
- Telur kærði að það hefði ekki haft áhrif á efnislegt inntak úrskurðar og niðurstöðu hans að umrædd gögn hefðu verið afhent kæranda og henni gefið tækifæri til að tjá sig um þau. Séu því ekki fullnægjandi forsendur til þess að leggja til grundvallar að umræddur annmarki á málsmeðferðinni hafi verið svo verulegur að nefndinni sé heimilt að afturkalla úrskurðinn. Mótmælir kærði því að kærunefndin afturkalli úrskurð sinn í máli nr. 18/2021.
NIÐURSTAÐA
- Í málinu liggur fyrir að kærandi hafði ekki verið upplýst um tiltekin gögn sem hafði verið aflað við meðferð málsins sem kærði hafði óskað eftir trúnaði um, sbr. 4. mgr. 10. gr. laga nr. 151/2020, um stjórnsýslu jafnréttismála. Þar sem um var að ræða gögn sem kærandi var ekki upplýst um er ekki loku fyrir það skotið að það hefði getað haft áhrif á andmælarétt kæranda. Skiptir í því sambandi ekki máli að um var að ræða opinber gögn að hluta til. Þá liggur fyrir að niðurstaðan í málinu var að einhverju leyti byggð á þessum gögnum. Samkvæmt því verður ekki hjá því komist að telja að ekki hafi verið nægilega gætt að andmælarétti kæranda, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, fyrir kærunefndinni við meðferð umrædds máls. Í samræmi við það verður að telja að úrskurðurinn sé ógildanlegur og að þar með séu uppfyllt skilyrði 2. tölul. 25. gr. stjórnsýslulaga um afturköllun hans.
- Í ljósi framangreindrar niðurstöðu er ekki nauðsynlegt að taka afstöðu til kröfu kæranda um endurupptöku málsins, enda felst í afturköllun úrskurðarins að hann er að öllu leyti felldur úr gildi.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Úrskurður í máli nr. 18/2021 frá 30. desember 2022 er afturkallaður og þar með felldur úr gildi.
Kristín Benediktsdóttir
Andri Árnason
Ari Karlsson