Hoppa yfir valmynd
2. maí 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 62/2012

Fimmtudaginn 2. maí 2013

 

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Jóna Björk Helgadóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 22. maí 2012 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 21. maí 2012. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður), dags. 24. apríl 2012, þar sem hann var krafinn um endurgreiðslu útborgaðrar fjárhæðar frá Fæðingarorlofssjóði vegna mánaðarins júní 2011 ásamt viðbættu álagi.

Með bréfi, dags. 23. maí 2012, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 3. júní 2012.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 7. júní 2012, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust 12. júní 2012 með bréfi dags, 11. júní 2012.

I. Sjónarmið kæranda.

Í kæru greinir að kærandi hafi útskrifast frá C-háskóla vorið 2010 en hafði fyrir þann tíma verið í fullu námi við skólann til nokkurra ára. Í maí 2010 hafi kærandi hafið störf á lögmannstofu og þann Y. ágúst eignast barn. Kærandi hafði fyrr um sumarið sótt um greiðslu í fæðingarorlofi í samræmi við 15. gr. laga nr. 95/2000. Þar sem kærandi hafi einungis sinnt hlutastörfum með hléum á meðan námi stóð hafi verið sótt um fæðingarstyrk í samræmi við 19. gr. laganna. Þar sem kærandi hafi ekki tilgreint hvenær hann hygðist nýta styrkinn hafi afgreiðslu umsóknarinnar verið frestað.

Þann 1. desember 2010 hafi kærandi hafið störf hjá B og í maí 2011 hafi Fæðingarorlofssjóði verið send tilkynning um að kærandi myndi vera í fæðingarorlofi frá 1. júní 2011 til 31. ágúst 2011. Tilkynningin hafi verið undirrituð af skrifstofustjóra B fyrir hönd vinnuveitanda kæranda. Með tilkynningunni hafi þess verið óskað að framangreindur fæðingarstyrkur yrði greiddur út á umræddu tímabili. Fallist hafi verið á beiðni kæranda og hann fengið greiddar um X kr., að frádregnum tekjuskatti, á mánuði á tímabilinu. Höfuðstóll þeirrar kröfu sem kæranda hafi verið gert að greiða með ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs 24. mars 2012 sé öll sú greiðsla sem kærandi hafi fengið úr sjóðnum vegna júnímánaðar 2011.

Þann 1. júlí 2011 hafi kærandi fengið greidd laun. Á launaseðli hafi komið fram að kærandi hafði verið í fæðingarorlofi frá 1. júní til 30. júní 2011. Mánaðarlaun kæranda hafi því verið tiltekin sem 0 einingar og fæðingarorlof sem 100 einingar. Kærandi hafi fengið greidda fasta yfirvinnu í hverjum mánuði en eins og tíðkist sé yfirvinnan greidd fyrir tímabilið frá 11. hvers mánaðar til 10. næsta mánaðar á eftir. Af þeim  sökum hafi kærandi fengið greidda yfirvinnu vegna daganna 10. til 31. maí þann 1. júlí. Á launaseðli hafi því komið fram að fyrir tímabilið 11. maí 2011 til 10. júní 2011 fengi kærandi greiddar X kr. Þá hafi kærandi fengið greidda X kr. eingreiðslu í samræmi við samkomulag ríkissjóðs og Stéttarfélags lögfræðinga frá 10. júní 2011. Samtals hafi kærandi því fengið greiddar X kr. þann 1. júlí. 

Fæðingarorlofssjóður hafi sent kæranda bréf, dags. 20. desember 2011, þar sem hann hafi verið krafinn skýringa á framangreindri greiðslu frá vinnuveitanda kæranda. Kærandi hafi leitað eftir nánari útskýringum á ákvörðun sjóðsins. Kærandi sé í grundvallaratriðum ósammála túlkun sjóðsins á 11. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000. Þá hafi kærandi bent á að nú þegar liggi fyrir afstaða vinnuveitanda hans um að hann hafi verið í fæðingarorlofi í júní sem og að engin sérstök ástæða sé til að álykta sem svo af launaseðli vegna greiðslu 1. júlí 2012 að sú yfirlýsing hafi verið röng.

Kærandi geri þá kröfu að ákvörðun sú er tekin hafi verið gagnvart kæranda 24. apríl 2012 verði felld úr gildi. Kærandi byggir á því að þó talið yrði að hann hefði fengið umrædda launagreiðslu vegna vinnu í júní 2011, á meðan kærandi hafi verið í fæðingarorlofi, teljist sú greiðsla ekki ofgreiðsla á grundvelli 11. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000. Verði ekki fallist á þann skilning kæranda sé á því byggt að nú þegar liggi fyrir fullnægjandi gögn sem sýni að greiðslan hafi ekki verið til komin vegna vinnu í júní 2011.

Kærandi kveðst efast um þýðingu 11. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 í þessu máli þar sem hann hafi notið fæðingarstyrks á grundvelli 12. mgr. 19. gr. sömu laga. Kærandi hafi óskað eftir skýringum á því hvaða fjárhæð sjóðurinn leggi til grundvallar sem meðaltal heildarlauna í skilningi 11. mgr. 13. gr. og því hefði verið svarað á þá leið að meðaltals laun kæranda væru X. Kærandi hafi óskað skýringa frá Fæðingarorlofssjóði hvernig á því gæti staðist að rúmar X krónur gætu talist ofgreiðsla í ljósi þessarar viðmiðunar og þeirrar staðreyndar að fæðingarstyrkur hafi einungis verið um X kr. Af svörum starfsmanna Fæðingarorlofssjóðs hafi mátt ráða að í raun hafi aldrei verið litið til meðaltals heildarlauna kæranda við mat á því hvort kærandi hefði fengið ofgreitt úr sjóðnum. Sá skilningur Fæðingarorlofssjóðs að vegna þess að kærandi hafi verið í 100% fæðingarorlofi hafi hann ekki mátt vinna fyrir neinum launum á sama tímabili hafi ekki komið fram í greiðsluáskorun, dags. 24. apríl 2012.

Í kærunni kemur fram að kærandinn telji að álykta megi um tvennt af samskiptum hans við sjóðinn. Í fyrsta lagi að foreldri sem njóti fæðingarstyrks skv. 19. gr. laganna megi ekki stunda nokkra atvinnu á meðan fæðingarorlofi stendur. Í öðru lagi að 11. mgr. 13. gr. eigi einvörðungu við þegar foreldri hljóti styrki frá öðrum en fæðingarorlofssjóði.

Þá telji kærandi eftirfarandi atriði mæla gegn skilningi Fæðingarorlofssjóðs á lögum nr. 95/2000 og þá 11. mgr. 13. gr. sérstaklega. Í fyrsta lagi verði ekki ráðið af orðalagi 11. mgr. 13. gr. að foreldri sem njóti fæðingarstyrks skv. 19. gr. sé óheimilt að vinna og þiggja fyrir þá vinnu laun meðan á fæðingarorlofi stendur. Í öðru lagi sé ekki að sjá að í lögum nr. 95/2000 sé að finna slíka bannreglu. Sá skilningur Fæðingarorlofssjóðs að það sé eins konar meginregla laganna að foreldrum í fæðingarorlofi beri skylda til að sinna ekki störfum á meðan fæðingarorlofi stendur fái enga stoð í lögunum en fæðingarorlof í skilningi 1. mgr. 7. gr. sé fyrst og fremst réttur foreldra á vinnumarkaði gagnvart vinnuveitendum sínum til að fá leyfi frá störfum. Tilgangur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði sé síðan að bæta foreldrum hluta þess launataps sem verði vegna þessa. Í þriðja lagi verði að telja að þó slíka bannreglu væri að finna verði ekki á henni byggt enda reisi Fæðingarorlofssjóður málið einvörðungu á 11. mgr. 13. gr. laganna. Í fjórða lagi sé því hafnað að 11. mgr. 13. gr. eigi skv. orðlagi ákvæðisins einungis við um greiðslur frá vinnuveitendum styrkþegar skv. 19. gr. sem ekki séu til komnar vegna vinnuframlags, orðalagið undanskilji ekki greiðslur fyrir vinnuframlag, þ.e.a.s. laun. Í fimmta lagi verði að hafa hér í huga að langnærtækast sé að greiðslur frá vinnuveitanda séu laun. Í sjötta lagi vísi kærandi til þess að af athugasemdum við 4. gr. frumvarps er varð að lögum nr. 90/2004 megi draga þá ályktun að löggjafinn hafi ekki álitið að orðið greiðslur í skilningi ákvæðisins tæki einvörðungu til styrkgreiðslna frá vinnuveitanda heldur hafi beinlínis verið gert ráð fyrir að í 11. mgr. 13. gr. fælist regla sem takmarkaði heimildir styrkþega til að þiggja laun í fæðingarorlofi. Í sjöunda lagi sé vísað til sambærilegrar skerðingarreglu og þeirrar í 11. mgr. 13. gr. sem finna má í 10. mgr. 13. gr. laganna. Kærandi telji að af samanburði á orðalagi 10. mgr. og 11. mgr. 13. gr. og lögskýringargögnum með ákvæðunum báðum leiði að sami skilningur verði lagður í ákvæðin tvö að því leyti að hvorugt þeirra banni foreldrum að þiggja laun fyrir vinnu á meðan fæðingarorlofi standi en bæði ákvæðin geti leitt til skerðingar á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði ef launatekjur fari umfram þær viðmiðanir sem tilgreindar séu í lagaákvæðinu. Í áttunda lagi vísi kærandi til þess að lögskýring Fæðingarorlofssjóðs takmarki rétt styrkþega skv. 19. gr. mun meira en markmið laganna standi til. Kærandi vísi í því samhengi til athugasemda með 4. gr. áðurnefndra breytingalaga nr. 90/2004, en þar sé lögð áhersla á að markmið skerðingarreglnanna sé að sporna við því að foreldrar hagnist á því að fara í fæðingarorlof.

Afstaða fæðingarorlofssjóðs hafi virst vera reist á því viðhorfi að kæranda hefði borið að hætta alfarið launuðum störfum á meðan fæðingarorlofi stóð á þeirri forsendu að kærandi hefði átt rétt á tiltölulega lágri fjárhæð úr sjóðnum enda hefði hann að öðrum kosti hagnast á fæðingarorlofinu. Kærandi mótmæli þessu. Kærandi hafi átt rétt á því, gagnvart sínum vinnuveitanda, að fara í fæðingarorlof. Hann hafi svo notið takmarkaðs réttar gagnvart Fæðingarorlofssjóði til að fá tekjutap sitt bætt. Að öðru leyti hafi kæranda verið heimilt að vinna sér inn tekjur til að vinna upp á móti því tekjutapi sem hlaust af orlofinu. Kæranda hafi einfaldlega verið óheimilt að þiggja fæðingarstyrk umfram þau viðmiðunarlaun sem kveðið sé á um í lögunum. Kærandi telji því að eina takmörkunin sem hafi gilt um greiðslur til kæranda vegna vinnu í fæðingarorlofi sé að finna í 11. mgr. 13. gr. og að jafnvel þó kærandi hefði unnið í júní 2011 fyrir þeim greiðslum sem tilgreindar séu á launaseðli fyrir 1. júlí 2011 vegna tímabilsins frá 11. maí til 10. júní 2011 hefðu þær greiðslur rúmast innan ákvæðisins. Kærandi áréttar að fæðingarorlofssjóður hafi staðfest að viðmiðunartekjur hans hafi verið X kr. og að fæðingarstyrkur sá er kærandi hafi fengið greiddan hafi numið um X kr. Ekki hafi því verið tilefni fyrir Fæðingarorlofssjóð til að hefja mál þetta nema gögn hefðu legið fyrir um að kærandi hefði fengið hærri greiðslu í laun en nemi mismun þessara fjárhæða.

Tilefni málsins hafi verið að fram hafi komið í staðgreiðsluskrá RSK að kærandi hefði fengið tiltekna fjárhæð greidda í laun frá vinnuveitanda sínum. Kærandi hafi afhent Fæðingarorlofssjóði afrit af launaseðli þar sem fram kom að greiðslan hafi verið vegna tímabils sem hófst 10. maí. Kærandi telji að með launaseðlinum hafi hann skýrt á fullnægjandi hátt að launagreiðslan hafi ekki komið til vegna vinnu í júní heldur í maí.

 

II. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að sjóðurinn hafi með bréfi, dags. 20. desember 2011, vakið athygli kæranda á því að stofnunin væri með til meðferðar mál hans vegna hugsanlegrar ofgreiðslu fyrir júní 2011. Samkvæmt staðgreiðsluskrá RSK hafi hann verið að fá laun frá vinnuveitanda sínum á sama tíma og hann þáði greiðslu fæðingarstyrks námsmanna. Með bréfinu hafi verið óskað eftir launaseðlum, tímaskýrslum, útskýringum vinnuveitanda og útskýringum og andmælum kæranda ásamt öðru því sem skýrt gæti málið. Í bréfinu hafi orðið þau mistök að ranglega hafi verið vísað til 10. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) nr. 95/2000 sem lagagrundvallar í málinu þegar vísa hafi átt til 11. mgr. 13. gr. ffl. Það hafi verið leiðrétt með bréfi til kæranda þann 24. janúar 2012. Á því bréfi hafi komið fram röng dagsetning eða 20. febrúar 2012 þegar dagsetningin átti að vera 24. janúar 2012.

Bréf hafi borist frá kæranda, dags. 3. janúar 2012, ásamt umbeðnum launaseðli fyrir tímabilið. Í framhaldinu hafi kæranda verið sent bréf, dags. 6. janúar 2012, þar sem óskað hafi verið eftir tímaskýrslum fyrir tímabilið maí – júní 2011 þar sem yfirvinnutímar á launaseðli hafi verið skráðir á tímabilið 11. maí – 10. júní 2011.

Í kjölfarið hafi borist bréf frá kæranda, dags. 20. janúar 2012, þar sem m.a. eru gerðar athugasemdir við lagalegan grundvöll málsins. Í samræmi við það telji hann sig ekki geta nýtt sér andmælarétt sinn og að frekari rannsókn málsins geti vart farið fram án þess að Vinnumálastofnun taki afstöðu til athugasemda hans. Í bréfi kæranda hafi verið að engu vikið að beiðni Fæðingarorlofssjóðs um að kærandi legði fram umbeðnar tímaskýrslur vegna rannsóknar málsins.

Kæranda hafi verið sent bréf að nýju þann 24. janúar 2012 (á bréfinu kemur fram röng dagsetning eða 20. febrúar 2012). Þar sé lagagrundvöllur málsins leiðréttur en þau mistök hafa orðið við útsendingu bréfs til kæranda þann 20. desember 2011 að vísað hafi verið til 10. mgr. 13. gr. ffl. í stað 11. mgr. 13. gr. ffl. Jafnframt sé áréttað að launaseðill kæranda fyrir júní 2011 sýni yfirvinnu fyrir tímabilið 11. maí – 10. júní 2011 og í júní 2011 sé hann skráður í 100% fæðingarorlof og þiggi 100% fæðingarstyrk námsmanna. Því hafi þurft að berast tímaskýrsla fyrir maí og júní 2011 frá hans vinnuveitanda til að staðfesta að um vinnu í maí hafi verið að ræða.

Bréf hafi borist frá kæranda, dags. 7. febrúar 2012, en engar tímaskýrslur eða aðrar staðfestingar frá vinnuveitanda sem sýndu hvenær yfirvinnan hafi verið unnin.

Kæranda hafi því verið sent enn eitt bréfið, dags. 14. mars 2012, þar sem fram hafi komið að meðaltalslaun kæranda sem miðað sé við við mat á hugsanlegri ofgreiðslu skv. 11. mgr. 13. gr. ffl. sé X kr. og að laun skv. staðgreiðsluskrá RSK frá hans vinnuveitanda í júní 2011 séu X kr. Enn á ný hafi verið skorað á kæranda að leggja fram tímaskýrslur fyrir tímabilið vegna rannsóknar málsins. Í bréfinu hafi einnig verið tekið fram að tilkynning um tilhögun fæðingarorlofs segi ekkert til um það hvort yfirvinnan hafi verið unnin í maí eða júní 2011.

Bréf hafi borist frá kæranda með tölvupósti, dags. 29. mars 2012, þar sem m.a. komi fram að hann telji að þar sem mismunur á fæðingarstyrk námsmanna og meðaltali heildarlauna sé hærri en greiðslan sem hann hafi fengið frá vinnuveitanda, verði ekki séð hvert tilefni málsins sé. Síðan komi fram af hálfu kæranda ítrekun á því að sú yfirvinna sem hann hafi fengið greitt hafi verið unnin í maí í samræmi við yfirlýsingu yfirmanns kæranda um að kærandi yrði í fæðingarorlofi frá 1. júní – 31. ágúst 2011. Einnig hafi komið fram að á vinnustað kæranda séu ekki gerðar sérstakar tímaskýrslur heldur sé gert ráð fyrir að tiltekin dagvinna og yfirvinna sé innt af hendi í hverjum mánuði. Því verði ekki hægt að verða við kröfu Fæðingarorlofssjóðs um að leggja fram tímaskýrslu.

Kæranda hafi verið sendur tölvupóstur, dags. 30. mars 2012, þar sem fram hafi komið að stofnunin hafi ekki enn tekið ákvörðun hvort um ofgreiðslu sé að ræða eða hver sú fjárhæð þá sé þar sem hann hafi ekki enn skilað fullnægjandi gögnum vegna rannsóknar málsins. Í tölvupóstinum hafi komið fram að kærandi sé með X kr. frá sínum vinnuveitanda í júní skv. staðgreiðsluskrá RSK. Samkvæmt launaseðli sé verið að greiða orlofsuppbót og eingreiðslu samtals að fjárhæð X kr. sem ekki sé gerð athugasemd við. Eftir standi X kr. vegna X yfirvinnutíma og ekki liggi fyrir hvort þeir hafi verið unnir í maí eða júní 2011. Í tölvupóstinum sé síðan skorað á kæranda að leggja fram staðfestingu frá sínum vinnuveitanda hvenær þessir yfirvinnutímar hafi verið unnir ef ekki sé til tímaskýrsla vegna þeirra. Hafi umbeðin gögn ekki verið lögð fram innan sjö daga verði litið svo á að tímarnir hafi verið unnir í júní 2011 og að stofnunin muni þá taka stjórnvaldsákvörðun í málinu í samræmi við 11. mgr. 13. gr. ffl.

Svar hafi borist frá kæranda með tölvupósti samdægurs en að engu sé vikið að beiðni Fæðingarorlofssjóðs um að lögð verði fram staðfesting frá vinnuveitanda kæranda um hvenær yfirvinnutímarnir hafi verið unnir. Tölvupósti kæranda hafi verið svarað þann 11. apríl 2012 þar sem skilningur stofnunarinnar á aðstæðum í máli kæranda sé skýrður og veittur lengri frestur til að skila umbeðnum gögnum og skýringum. Í kjölfarið hafi borist tölvupóstur frá kæranda sama dag en að engu vikið að áskorun Fæðingarorlofssjóðs um framlagningu gagna og skýringa frá vinnuveitanda.

Þar sem engin frekari gögn eða skýringar hafi verið lögð fram af hálfu kæranda eða vinnuveitanda hans þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir Fæðingarorlofssjóðs, sbr. framagreint og að litið yrði svo á að tímarnir hafi verið unnir í júní enda koma launin fram í þeim mánuði, hafi kæranda verið send greiðsluáskorun, dags. 24. apríl 2012 ásamt sundurliðun ofgreiðslu þar sem hann hafi verið krafinn um endurgreiðslu útborgaðrar fjárhæðar fæðingarstyrks námsmanna fyrir júní 2011 ásamt 15% álagi. Miðað hafi verið við að meðaltalslaun kæranda síðustu tvo mánuði fyrir fæðingardag barns hans þann Y. ágúst 2010 hefðu verið X kr. á mánuði og að greiðsla sem hann hafi fengið frá sínum vinnuveitanda hafi verið X kr. vegna yfirvinnu sem unnin hafi verið í júní 2011 en engar athugasemdir hafi verið gerðar við orlofsuppbót og eingreiðslu, sbr. 11. mgr. 13. gr. ffl., sbr. og 2. mgr. 15. gr. a. ffl.

Í kjölfarið hafi borist tölvupóstur frá kæranda, dags. 30. apríl 2012, sem ekki hafi þótt gefa tilefni til að breyta fyrri ákvörðun stofnunarinnar í málinu, sbr. svar samdægurs í tölvupósti til kæranda.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) sé fæðingarorlof samkvæmt lögunum leyfi frá launuðum störfum sem stofnist til við fæðingu, frumættleiðingu barns yngra en átta ára eða töku barns yngra en átta ára í varanlegt fóstur. Í 8. gr. sé fjallað um rétt foreldra á vinnumarkaði til fæðingarorlofs og í 10. gr. sé fjallað um tilhögun fæðingarorlofs.

Í 11. mgr. 13. gr. ffl. komi fram að foreldri á innlendum vinnumarkaði sem eigi rétt til fæðingarorlofs skv. 8. gr. en uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. eigi rétt á fæðingarstyrk skv. 18. gr., sbr. þó 12. mgr. 19. gr. Greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem séu hærri en nemi mismun fjárhæðar fæðingarstyrks og meðaltals heildarlauna foreldris skuli koma til frádráttar styrknum. Við útreikning á meðaltali heildarlauna samkvæmt þessari málsgrein skuli miða við tvo mánuði fyrir fæðingardag barns eða þann tíma þegar barn komi inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur.

Í athugasemdum við ákvæðið sem komið hafi inn með breytingalögum nr. 90/2004 segi orðrétt: „Þá er lagt til að kveðið verði á um heimildir til að greiða fæðingarstyrk skv. 18. gr. laganna, sbr. d-lið 9. gr. frumvarps þessa, til foreldra sem eru á vinnumarkaði við fæðingu barns, ættleiðingu barns eða töku í varanlegt fóstur og uppfylla þar með skilyrði 8. gr. laganna til fæðingarorlofs en hafa ekki áunnið sér rétt til greiðslna, sbr. 1. mgr. 13. gr. laganna. Gert er ráð fyrir að það verði einungis heimilt í þeim tilvikum er foreldri nýtir sér rétt sinn skv. 8. gr. Falli launagreiðslur frá vinnuveitanda ekki niður á því tímabili skal sá hluti þeirra er nemur hærri fjárhæð en mismun fjárhæðar styrks og meðaltals heildarlauna foreldris koma til frádráttar styrkfjárhæðinni. Ástæðan fyrir því skilyrði að tekjur frá vinnuveitanda á sama tíma komi til frádráttar svo að foreldri njóti fæðingarstyrksins er að ekki verður talið sanngjarnt að foreldri hagnist á fæðingarstyrknum enda er tilgangur hans fyrst og fremst að styðja við foreldra er ekki njóta tekna fyrir vinnu utan heimilis. Hefur það viljað brenna við í framkvæmd að foreldrar á vinnumarkaði sem hafa ekki átt rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði hafi sótt um fæðingarstyrk án þess þó að hafa í hyggju að leggja niður störf. Er lagt til að við útreikninga á meðaltali heildarlauna samkvæmt þessari málsgrein sé miðað við tvo mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns eða þann tíma er barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur. Er með þessu gert ráð fyrir að foreldri hafi starfað í mjög skamman tíma á vinnumarkaði, í það minnsta skemmri tíma en sex mánuði.“

Með 8. gr. breytingalaga nr. 74/2008 hafi verið gerð sú breyting að í stað þess að miða ætti við áætlaðan fæðingardag barns við útreikning á meðaltali heildarlauna hafi verið miðað við tvo mánuði fyrir fæðingardag barns.

Í 15. gr. a. ffl., sbr. 6. gr. laga 90/2004, sé fjallað um leiðréttingar á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Í 2. mgr. komi fram að hafi foreldri fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en því bar samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri foreldri að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni hafi foreldri fært rök fyrir því að því verði eigi kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Ekki hafi komið fram nein rök sem gefi tilefni til að fella niður 15% álag á kæranda.

Með umsókn kæranda, dags. 22. júlí 2010, hafi kærandi sótt um greiðslur fæðingarstyrks sem námsmaður úr Fæðingarorlofssjóði í þrjá mánuði vegna barns hans sem fæddist Y. ágúst 2010. Ein tilkynning hafi borist frá kæranda um tilhögun fæðingarorlofs og hafi hann verið afgreiddur í fæðingarorlof í samræmi við hana, sbr. greiðsluáætlun til hans dags. 31. maí 2011, en kærandi hafi uppfyllt skilyrði 11. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 8. gr. ffl. þar sem hann hafi talist vera á vinnumarkaði við fæðingardag barns og notið þannig réttar til fæðingarorlofs hjá sínum vinnuveitanda en hafi hins vegar ekki uppfyllt skilyrði 1. mgr. 13. gr. og hafi því einungis átt rétt á fæðingarstyrk námsmanna. Hefði kærandi þannig getað ákveðið að skipta fæðingarorlofi sínu upp í samræmi við 2. mgr. 10. gr. ffl. og/eða tekið það samhliða minnkuðu starfshlutfalli og fengið þannig greitt frá sínum vinnuveitanda fyrir vinnu innan mánaðarins í samræmi við ákvæði 11. mgr. 13. gr. ffl. Það hafi kærandi hins vegar ekki gert.

Á viðmiðunartímabili kæranda, skv. 11. mgr. 13. gr. ffl., hafi viðmiðunarlaun hans verið X kr. á mánuði. Í júní 2011 hafi kærandi þegið X kr. í laun frá sínum vinnuveitanda. Að teknu tilliti til eingreiðslu og orlofsuppbótar sem kærandi hafi fengið í mánuðinum sem ekki séu gerðar athugasemdir við (laun skv. staðgreiðsluskrá eru X kr.). Greiðsla fæðingarstyrks námsmanna fyrir júní 2011 hafi verið X kr. fyrir 100% fæðingarorlof í mánuðinum, sbr. tilkynning frá vinnuveitanda um tilhögun fæðingarorlofs, dags. 30. maí 2011, greiðsluáætlun, dags. 31. maí 2011 og staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra.

Óumdeilt sé að kærandi hafi verið skráður í 100% fæðingarorlof í júní 2011 og þegið 100% fæðingarstyrk námsmanna á meðan. Samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra hafi hann fengið greiddar X kr. frá sínum vinnuveitanda í júní 2011 en af þeirri fjárhæð séu ekki gerðar neinar athugasemdir við X kr. en eftir standi X kr. sem gerðar séu athugasemdir við og séu tilkomnar vegna greiðslu fyrir 30 yfirvinnutíma. Á launaseðli fyrir júní komi fram að yfirvinnutímabil kæranda sé frá 11. maí til 10. júní 2011 og séu honum greiddir X yfirvinnutímar á því tímabili samtals að fjárhæð X kr. Eins og rakið hafi verið hafi ítrekað verið skorað á kæranda að leggja fram staðfestingu og gögn frá sínum vinnuveitanda um að yfirvinnutímarnir hafi verið unnir í maí en ekki júní 2011. Það hafi kæranda hins vegar ekki gert.

Undirritun yfirmanns kæranda á tilkynningu um tilhögun fæðingarorlofs, dags. 30. maí 2011, eða áður en kærandi átti að hefja fæðingarorlof sitt í júní 2011, geti ekki talist vera yfirlýsing eða staðfesting á því að kærandi hafi síðan ekki unnið neitt á ókomnu tímabili eins og kærandi hafi viljað halda fram bæði við rannsókn málsins og á kærustigi. Í því samhengi sé rétt að benda á að í öllum ofgreiðslumálum hjá Fæðingarorlofssjóði liggi fyrir undirritaðar tilkynningar um tilhögun fæðingarorlofs bæði af hálfu vinnuveitanda og foreldris sem síðan hafi ekki gengið eftir. Ljóst megi vera að hefði kærandi lagt fram gögn frá sínum vinnuveitanda sem hefðu staðfest að yfirvinnan hefði verið unnin í maí en ekki júní 2011 hefði málið verið látið niður falla enda lægju þá fyrir skýringar og gögn sem upplýstu það með fullnægjandi hætti. Þar sem það hafi ekki verið gert og þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir sé óhjákvæmilegt annað en líta svo á að tímarnir hafi verið unnir í júní 2011 enda sé líka greitt fyrir þá í þeim mánuði, sbr. staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra og launaseðill sem sýni að yfirvinnutímabilið nái til 10. júní. Hafa beri einnig í huga að kærandi vinni hjá íslenska ríkinu og því verði að teljast harla ólíklegt sem fram komi í bréfi kæranda frá, 29. mars 2012, að á vinnustað kæranda séu ekki gerðar tímaskýrslur heldur sé gert ráð fyrir að tiltekin dagvinna og yfirvinna sé innt af hendi í hverjum mánuði, svona í ljósi þess að mánaðarlega þurfa allar ríkisstofnanir að skila til Fjársýslu ríkisins uppgjöri vegna komandi launauppgjörs fyrir sína starfsmenn, enda hafi ekki verið staðfest af vinnuveitanda kæranda að svo sé.

Eftir standi þá að bæði við rannsókn málsins og með kæru kæranda komi fram sá skilningur hans að honum sé heimilt að fá greiddan mismun á meðaltali heildarlauna skv. 11. mgr. 13. gr. ffl. og fjárhæðar fæðingarstyrks námsmanna úr Fæðingarorlofssjóði og skipti þá ekki máli hvort það sé fyrir vinnu eða ekki. Því sé harðlega mótmælt, sbr. allt framangreint, enda ráðist slíkt af tilhögun fæðingarorlofs foreldris hverju sinni, sbr. 2. mgr. 10. gr. og viðeigandi ákvæða í 13. gr. ffl. Þar sem kærandi hafi sjálfur tekið þá ákvörðun að vera í 100% fæðingarorlofi og fá 100% greiðslu fæðingarstyrks námsmanna í júní 2011 hefði hann ekkert mátt vinna innan mánaðarins ekki frekar en aðrir foreldrar sem skráðir séu í 100% fæðingarorlof og fái 100% greiðslu frá Fæðingarorlofssjóði í samræmi við viðeigandi ákvæði 13. gr. ffl. Hann hefði hins vegar getið fengið mismuninn á meðaltali heildarlauna sinna og fjárhæðar fæðingarstyrks námsmanna greiddan sem styrk án vinnuframlags. Hann hefði einnig getað tekið fæðingarorlof sitt samhliða minnkuðu starfshlutfalli í samræmi við 2. mgr. 10. gr. ffl. og unnið á móti og fengið þannig greidd laun frá sínum vinnuveitanda í samræmi við 11. mgr. 13. gr. ffl. Það hafi kærandi hins vegar ekki gert. Í samræmi við það sé ekki réttur sá skilningur kæranda sem birtist m.a. í kæru að Fæðingarorlofssjóður telji að með öllu sé óheimilt að vinna samhliða því sem foreldri fái greiddan fæðingarstyrks námsmanna á grundvelli 11. mgr. 13. gr. ffl., slíkt sé af og frá.

Samkvæmt öllu framangreindu hafi Fæðingarorlofssjóður því ofgreitt kæranda X kr. útborgað að viðbættu 15% álagi X kr. Alls sé því gerð krafa um að kærandi endurgreiði Fæðingarorlofssjóði X kr., sbr. greiðsluáskorun til hans ásamt sundurliðun á ofgreiðslu, dags. 24. apríl 2012.

 

III. Athugasemdir kæranda.

Í athugasemdum kæranda kemur fram að í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs hafi samskipti kæranda og stofnunarinnar verið rakin. Kærandi gerir athugasemdir við þá lýsingu sjóðsins sem fram komi í greinargerð og bendir á að hann hafi ekki á nokkurn hátt gert athugasemdir við málshraða sjóðsins og telji því sjóðinn einungis vera að kvarta til úrskurðarnefndarinnar yfir kæranda sjálfum og hafa þannig með ómálefnalegum hætti áhrif á niðurstöðu málsins.

Kærandi telji fleira benda til þess að nokkuð hafi skort á hlutlægni við gerð málavaxtalýsingar Fæðingarorlofssjóðs og bendir á að svo virðist sem sjóðnum hafi fundist það sérstakt að kærandi hafi ekki lagst í gagnaöflun gagnvart vinnuveitanda sínum þótt augljóst hafi verið að þær lagaheimildir sem vísað hafi verið til hafi ekki tekið til kæranda.

Kærandi telji að sú reikniregla sem mælt er fyrir um í 11. mgr. 13. gr. ffl. eigi við um þau tilvik þar sem foreldri þiggi fullan fæðingarstyrk úr Fæðingarorlofssjóði. Því hefði borið að beita ákvæðinu samkvæmt orðanna hljóðan varðandi þá launagreiðslu sem kærandi hafi fengið greidda 1. júlí 2011. Greiðsla vinnuveitanda kæranda til hans hafi einfaldlega verið lægri en nam mismun viðmiðunartekna og útgreidds fæðingarstyrks. Þá skilji kærandi lögin þannig að kjósi foreldri að haga orlofi sínu á þann veg að starfshlutfall sé lækkað, kunni útgreiddur fæðingarstyrkur að lækka í hlutfalli við lækkun starfshlutfalls en vinni foreldri umfram hið lækkaða starfshlutfall reyni á hvort greiðsla vegna þeirrar aukalegu vinnu sé svo há að hún teljist vera ofgreiðsla í skilningi 11. mgr. 13. gr. ffl.

Kærandi telur skýringar Fæðingarorlofssjóðs á réttaráhrifum þess að foreldri vinni lækkað starfshlutfall samhliða því að dreifa fæðingarstyrk á lengra tímabil vera óskýrar. Ekki er ástæða til að rekja athugasemdir kæranda varðandi það frekar.

Kærandi kveðst eiga erfitt með að átta sig á framkvæmd Fæðingarorlofssjóðs á beitingu 11. mgr. 13. gr. ffl. en ætla megi að sjóðurinn fylgi svipuðum viðmiðunum og við beitingu 10. gr. sömu greinar. Túlkun sjóðsins, eins og hún birtist í skýringum hans, virðist í engu snúa að lagaákvæðinu sjálfu. Einföld lögfræðileg greining á texta 2. málsl. 11. mgr. 13. gr. leiði í ljós að tvö skilyrði séu fyrir því að hægt sé að innheimta ofgreiðslu útgreidds fæðingarstyrks, þ.e. í fyrsta lagi að foreldri hafi fengið greiðslu frá vinnuveitanda í fæðingarorlofi og í öðru lagi að greiðslan hafi verið hærri en mismunur fjárhæðar fæðingarstyrks og meðaltals heildarlauna.

Kærandi hafi neitað að framvísa gögnum sem myndu sýna fram á að fyrra skilyrðið sé ekki uppfyllt og hafi vísað til þess að þar sem hin umdeilda greiðsla fullnægi ekki öðru skilyrðinu hafi aldrei átt að hefja málið. Kærandi fái ekki betur séð af skýringum Fæðingarorlofssjóðs en að þær tölur sem komi til skoðunar við mat á öðru skilyrði reglunnar séu óumdeildar. Ljóst sé að kærandi fékk X kr. greiddar í laun 1. júlí 2011, X kr. í fæðingarstyrk og meðaltal heildarlauna hafi verið X kr. Mismunur fjárhæðar fæðingarstyrks og meðaltals heildarlauna hafi því verið X kr. Síðastnefnda fjárhæðin sé langtum hærri en sú greiðsla sem kærandi hafi fengið 1. júlí 2011 og því sé klárt að síðara skilyrði reglunnar sé ekki fullnægt. Kærandi fái ekki séð hvernig röksemd eins og að kærandi hafi sjálfur ákveðið að vera í 100% fæðingarorlofi í júní 2011 hafi eitthvað með skilyrði 11. mgr. 13. gr. að gera. Kærandi ítreki að það sé Fæðingarorlofssjóður sem hafi reist málið á umræddu lagaákvæði og það hljóti því að vera sjóðsins að sýna fram á að skilyrðum þess sé fullnægt í máli kæranda.

Kærandi ítrekar það sem fram kom í stjórnsýslukæru kæranda frá 21. maí 2012.

 

IV. Niðurstaða.

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að endurkrefja kæranda um ofgreiddan fæðingarstyrk námsmanna fyrir júnímánuð 2011 úr Fæðingarorlofssjóði vegna fæðingar barns hinn Y. ágúst 2010.

Í hinni kærðu ákvörðun er á því byggt að kærandi hafi þegið of há laun frá vinnuveitanda sínum í júní 2011 á sama tíma og hann þáði greiðslu fæðingarstyrks frá Fæðingarorlofssjóði.

Af hálfu kæranda er annars vegar á því byggt að umrædd greiðsla hafi ekki verið vegna þess almanaksmánaðar sem hann hafi verið í fæðingarorlofi og hins vegar að umrædd fjárhæð sem hann hafi fengið frá vinnuveitanda sínum 1. júlí 2011 hafi ekki farið umfram mismun viðmiðunartekna og fjárhæðar fæðingarstyrks og því hafi ekki verið tilefni til að hefja mál þetta. Vegna þess síðarnefnda hafi kærandi neitað að leggja fram gögn sem staðfesti að vinna vegna þeirra launa sem hann hafi fengið greidd 1. júlí 2011 hafi ekki verið innt af hendi í júní 2011 heldur í maí 2011.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. ffl. er fæðingarorlof leyfi frá launuðum störfum sem stofnast til við fæðingu, frumættleiðingu barns yngra en átta ára eða töku barns yngra en átta ára í varanlegt fóstur. Í 2. mgr. 10. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008, segir meðal annars að með samkomulagi við vinnuveitanda sé starfsmanni heimilt að haga fæðingarorlofi á þann veg að það skiptist niður á fleiri tímabil og/eða það verði tekið samhliða minnkuðu starfshlutfalli, sbr. þó 3. mgr. 8. gr.

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi hafi átt rétt á fæðingarorlofi skv. 8. gr. ffl. en hafi ekki uppfyllt skilyrði 1. mgr. 13. gr. til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Hann hafi því átt rétt á fæðingarstyrk námsmanna skv. 18. gr. ffl., sbr. 11. mgr. 13. gr. ffl. Barn kæranda er eins og fyrr greinir fætt Y. ágúst 2010. Í greiðsluáætlun, dags. 31. maí 2011, kemur fram að greiðsla fæðingarstyrks úr Fæðingarorlofssjóði miðað við 100% fæðingarorlof væri X kr.

Viðmiðunartímabil útreiknings meðaltals heildarlauna kæranda skv. 11. mgr. 13. gr. ffl. er tímabilið júní og júlí 2010 og viðmiðunarlaun kæranda voru X kr. á mánuði. Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi greiddan fæðingarstyrk úr Fæðingarorlofssjóði í samræmi við 100% fæðingarorlof í júní 2011, alls X kr., og samkvæmt launaseðli fyrir júnímánuð fékk kærandi greidd laun frá vinnuveitanda sínum í júní 2011 að fjárhæð X kr. fyrir tímabilið 11. maí til 10. júní 2011. Hefur þá verið tekið tillit til eingreiðslu og orlofsuppbótar.

Fæðingarorlofssjóður byggir á því að öll sú fjárhæð sem vinnuveitandi hafi greitt kæranda í júnímánuði 2011, hafi verið vegna vinnu sem innt hafi verið af hendi í þeim mánuði, þrátt fyrir að fram komi á launaseðli að yfirvinna sé greidd fyrir tímabilið 11. maí – 10. júní 2011. Kærandi byggir hins vegar á því að vinnuveitandi hans hafi með undirritun tilkynningar um tilhögun fæðingarorlofs látið í ljós þá afstöðu sína að kærandi myndi leggja niður launuð störf í júní 2011 og því séu frekari skýringar vinnuveitanda á því hvaða laun hafi verið vegna júnímánaðar og hvaða laun hafi verið vegna maímánaðar óþarfar. Við meðferð málsins óskaði nefndin eftir staðfestingu vinnuveitanda á því fyrir hvaða tímabil umrædd yfirvinnugreiðsla hafi verið. Staðfesting frá vinnuveitanda, dags. 17. apríl 2013, barst úrskurðarnefnd sama dag. Þar staðfestir vinnuveitandi kæranda að umrædd greiðsla hafi verið vegna vinnu sem kærandi hafi unnið frá 11. maí til 31. maí 2011. Að mati úrskurðarnefndar hefur kærandi því sýnt fram á að sú greiðsla sem hann fékk fyrir yfirvinnu með launaseðli fyrir júnímánuð 2011, þegar hann var í fæðingarorlofi, hafi ekki verið fyrir það tímabil sem kærandi var í fæðingarorlofi. Því komi umrædd greiðsla ekki til frádráttar greiðslum úr Fæðingaroflofssjóði fyrir júnímánuð 2011.

Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að endurkrefja A um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði að viðbættu 15% álagi er felld úr gildi.

 

Jóna Björk Helgadóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta