Hoppa yfir valmynd
2. september 2020

Staða staðarráðins viðskiptafulltrúa við sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn laus til umsóknar

Staðarráðinn viðskiptafulltrúi við sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn

Staða staðarráðins viðskiptafulltrúa við sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn er laus til umsóknar. Um fullt starfshlutfall er að ræða. Gert er ráð fyrir að upphaf ráðningar verði 1. desember nk.

Helstu verkefni

Viðskiptafulltrúi leiðir viðskiptaþjónustu sendiráðsins. Í því felst m.a. að hann:

  • mótar viðskiptaáætlun sendiráðsins og sinnir reglulegri skýrslugjöf um viðskiptamál,
  • hefur umsjón með viðskiptaviðburðum sendiráðsins,
  • veitir ráðgjöf og aðstoð við myndun viðskiptasambanda í Danmörku og umdæmislöndum sendiráðsins, Búlgaríu, Rúmeníu og Tyrklandi,
  • svarar fyrirspurnum og miðlar upplýsingum um viðskiptaumhverfi og stefnumótun stjórnvalda á því sviði,
  • annast samskipti við ýmsa aðila um viðskiptamál og viðskiptaþjónustu, s.s. Íslandsstofu, Dansk-íslenska viðskiptaráðið og viðskiptafulltrúa annarra sendiráða í Kaupmannahöfn,
  • sinnir verkefnum tengdum tvíhliðasjóðum Uppbyggingarsjóðs EES í Rúmeníu og Búlgaríu,
  • önnur verkefni samkvæmt ákvörðun sendiherra.

Menntunar- og hæfniskröfur

  • Háskólapróf á bakkalárstigi í viðskiptafræði, markaðsfræði eða annarri grein sem nýtist í starfi.
  • Góð þekking á íslensku og dönsku viðskiptalífi og viðskiptaumhverfi, opinberri stjórnsýslu, menningu og samfélagi beggja landa.
  • Frumkvæði, greiningarhæfni, samskiptalipurð og rík þjónustulund.
  • Þekking á starfi alþjóðalegra stofnana.
  • Þekking á áætlanagerð.
  • Gott vald á íslensku, dönsku og ensku og færni til að tjá sig í ræðu og riti.
  • Góð tölvukunnátta og ritvinnsla s.s. Word og Excel.

 

Starf viðskiptafulltrúa er fjölbreytt og viðfangsefnin spennandi í lifandi og alþjóðlegu starfsumhverfi. Danmörk er í níunda sæti yfir mikilvægustu útflutningslönd Íslands og nam heildarútflutningur þangað um 38 milljörðum króna á árinu 2019. Sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn vinnur með Íslandsstofu að því að efla viðskiptatengsl á milli Íslands og Danmerkur, auka íslenskan útflutning inn á danskan markað og laða danska ferðamenn og fjárfestingu til Íslands. Sendiráðið er jafnframt sendiráð gagnvart Rúmeníu, Búlgaríu og Tyrklandi.

Staðarráðinn viðskiptafulltrúi starfar á dönskum vinnumarkaði og um starfskjör hans fer því samkvæmt dönskum reglum.

Umsóknarfrestur er til og með 16. september nk. Umsóknir skulu berast á netfangið [email protected], merkt „Staðarráðinn viðskiptafulltrúi“. Umsóknir skulu ritaðar á íslensku eða dönsku og þeim skal fylgja stutt kynningarbréf og ferilskrá umsækjanda.

Sendiráðið hvetur einstaklinga af báðum kynjum til að sækja um starfið. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin.

Nánari upplýsingar eru veittar í sendiráðinu í gegnum netfangið [email protected].

Upplýsingar um sendiráðið eru á heimasíðu þess. Þar er einnig að finna viðskiptaáætlun sendiráðsins og greiningu á danska markaðnum og sóknarfærum fyrir íslenskan útflutning.

Á heimasíðu utanríkisráðuneytisins má finna skýrslu utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra um stuðning utanríkisþjónustunnar við útflutningsgreinar, Saman á útivelli – Framkvæmd utanríkisstefnu Íslands í kjölfar COVID-19.

Framtíðarstefnu  stjórnvalda og atvinnulífs fyrir íslenskan útflutning, sem Íslandsstofa kynnti síðastliðið haust, má nálgast hér.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta