Hoppa yfir valmynd
3. febrúar 2020 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 5/2018

Hinn 27. nóvember 2019 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 5/2018:

Beiðni um endurupptöku

héraðsdómsmálsins nr. S-261/2014:

Ákæruvaldið

gegn

Sævari Erni Hilmarssyni

 

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

  1. Beiðni um endurupptöku
    1. Með erindi, dags. 10. júlí 2018, fer Sævar Örn Hilmarsson þess á leit að héraðsdómsmálið nr. S-261/2014, sem dæmt var í Héraðsdómi Reykjavíkur 23. maí 2014, verði endurupptekið að því er ákvæði dómsins um upptöku á bifreiðinni RV-J86 varðar. Endurupptökubeiðandi krefst þess að endurupptökunefnd fresti réttaráhrifum dómsins á meðan meðferð málsins stendur. Þá óskar hann eftir því að Snorri Sturluson lögmaður verði skipaður talsmaður hans og að kostnaður vegna endurupptökumálsins verði greiddur úr ríkissjóði.
    2. Með vísan til 54. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla fjallar endurupptökunefnd um beiðnina. Nefndina skipa Haukur Örn Birgisson, Gizur Bergsteinsson og Hrefna Friðriksdóttir.
  2. Málsatvik
    1. Með ákæru útgefinni 25. febrúar 2014, framhaldsákæru 3. apríl sama ár og að lokum ákæru sama dag var endurupptökubeiðanda gefið að sök að hafa framið margvísleg hegningar-, fíkniefna-, umferðar-, vopna- og tollalagabrot og var þess meðal annars krafist að ákærða yrði gert að sæta upptöku bifreiðarinnar RV-J86.
    2. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 23. maí 2014 var endurupptökubeiðandi sakfelldur fyrir margvísleg hegningar-, fíkniefna-, umferðar-, vopna- og tollalagabrot og honum gert að sæta fangelsi í eitt ár og fjóra mánuði og sviptur ökurétti ævilangt. Með dóminum voru gerð upptæk vopn og skotfæri, anabólískir sterar og fíkniefni. Jafnframt var gerð upptæk bifreiðin RV-J86.

     

     

  3. Grundvöllur beiðni
    1. Endurupptökubeiðandi byggir endurupptökubeiðni sína á því að þau sönnunargögn, sem hafi verið færð fram í málinu, hafi verið rangt metin þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess, sbr. c-lið 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
    2. Endurupptökubeiðandi áréttar að hann telji sig ekki hafa verið ranglega sakfelldan heldur óski hann aðeins eftir endurupptöku á þeim þætti málsins sem varði upptöku bifreiðarinnar. Endurupptökubeiðandi byggir á því að það sé fortakslaust skilyrði fyrir upptöku ökutækis samkvæmt 2. mgr. 107. gr. a. umferðarlaga nr. 50/1987 að sá sem sæti upptöku ökutækis sé eigandi þess. Endurupptökubeiðandi kveðst ekki hafa verið eigandi bifreiðarinnar RV-J86, sem hafi verið gerð upptæk, en um upptökuna segir í dómi héraðsdóms:

      „Að því er bifreiðina RV-J86 varðar var ákærði skráður eigandi bifreiðarinnar er brot skv. 7. til 10. tl. ákæru 25. febrúar 2014 voru framin. Er því fullnægt skilyrðum 2. mgr. 107. gr. a laga nr. 50/1987 til að upptakan nái fram.“

    3. Í þessu sambandi vísar endurupptökubeiðandi til þess að í þeim gögnum sem hafi verið lögð fram í málinu komi hvergi fram að hann hafi verið eigandi bifreiðarinnar á þeim tíma þegar þau brot sem um ræðir í 7. - 10. tl. ákæru voru framin. Kveðst endurupptökubeiðandi aðeins hafa verið sameigandi að bifreiðinni á tímabilinu frá 27. september 2013 til 15. nóvember sama ár.
    4. Endurupptökubeiðandi vísar til þess að við aðalmeðferð málsins hafi verið lagt fram skjal sem sýni eigendasögu bifreiðarinnar, en þar sé nafn hans hvergi að finna. Þá vísar hann til eigin framburðar og framburðar vitna um að hann hafi ekki verið eigandi bifreiðarinnar.
  4. IV.Viðhorf gagnaðila
    1. Með bréfi, dags. 19. október 2018, óskaði endurupptökunefnd eftir því að ríkissaksóknari léti nefndinni í té viðhorf sitt til beiðninnar. Í bréfinu var óskað eftir afstöðu ríkissaksóknara til þess hvort skilyrði 228. gr. laga um meðferð sakamála væru uppfyllt, einkum með tilliti til þess hvort um væri að ræða beiðni manns sem teldi sig ranglega sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefði framið.
    2. Í umsögn ríkissaksóknara til endurupptökunefndar, dags. 14. nóvember 2018, er bent á að 107. gr. a. umferðarlaga hafi komið inn í lögin með 9. gr. laga nr. 69/2007 og vakin athygli á að í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laganna segi meðal annars að það aðhald sem ökumönnum sé veitt með því að beita refsingu og sviptingu ökuréttar vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim dugi alls kostar ekki gagnvart tilteknum hópi ökumanna. Þar sýnist meira þurfa að koma til, einkum og sér í lagi með tilliti til þeirrar viðleitni að koma í veg fyrir ítrekuð brot. Aukin heimild til að gera ökutæki upptæk sé til þess fallin að hafa fyrirbyggjandi áhrif, ekki eingöngu vegna fjárhagslegra sjónarmiða heldur einnig að upptakan hafi bein áhrif á möguleika til þess að nota upptökuandlagið.
    3. Í umsögn ríkissaksóknara kemur fram að endurupptökubeiðandi eigi langan sakaferil að baki og að hann hafi ítrekað gerst sekur um fíkniefnaakstur og önnur umferðarlagabrot. Í þessu sambandi er bent á að með dómi héraðsdóms hafi endurupptökubeiðandi verið dæmdur fyrir sex fíkniefnaakstursbrot á tímabilinu frá 29. september 2013 til 24. desember sama ár. Að mati ríkissaksóknara hefur endurupptökubeiðandi því gerst sekur um síbrot í umferðinni.
    4. Í umsögninni er bent á að í héraðsdómi sé lagt til grundvallar að endurupptökubeiðandi hafi verið skráður eigandi bifreiðarinnar er brot samkvæmt 7. til 10. tl. ákærunnar voru framin og því séu uppfyllt skilyrði fyrir upptöku samkvæmt 2. mgr. 107. gr. a umferðarlaga, en brotin hafi verið framin 21.-28. október 2013. Samkvæmt yfirliti úr ökutækjaskrá Umferðarstofu hafi endurupptökubeiðandi verið skráður eigandi að bifreiðinni ásamt Brynjari Kristenssyni á tímabilinu frá 27. september 2013 til 21. nóvember sama ár. Í yfirliti úr upplýsingaveitunni Bjöllunni komi fram að endurupptökubeiðandi hafi verið skráður meðeigandi á því tímabili. Endurupptökubeiðandi hafi því verið skráður eigandi/meðeigandi þegar brotin voru framin, þótt hann hafi ekki verið skráður eigandi þegar dómur féll í héraðsdómi.
    5. Í umsögninni er bent á að endurupptökubeiðandi hafi verið skráður eigandi bifreiðarinnar þegar hún var haldlögð af lögreglu, en eigendaskipti að henni hafi verið skráð á meðan hún var í vörslum lögreglu. Fyrrverandi kærasta endurupptökubeiðanda hafi verið skráð nýr eigandi bifreiðarinnar en engin skjalleg gögn liggi fyrir um kaupin og af framburði hennar sé ljóst að hún hafi verið grandsöm um haldlagningu bifreiðarinnar vegna brota endurupptökubeiðanda. Þá sé framburður Brynjars Kristenssonar, sem hafi verið skráður eigandi að bifreiðinni með endurupptökubeiðanda á tímabilinu frá 27. september 2013 til 21. nóvember sama ár, á þá leið að endurupptökubeiðandi hafi verið raunverulegur eigandi bifreiðarinnar. Samkvæmt því hafi verið rétt að beina upptökukröfunni að endurupptökubeiðanda þótt hann hafi ekki verið skráður eigandi bifreiðarinnar þegar ákæra var gefin út.
    6. Með vísan til þessa telur ríkissaksóknari að sönnunargögnin hafi ekki verið rangt metin, sbr. c-lið 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Þá séu önnur skilyrði 228. gr. ekki uppfyllt og því beri því að hafna beiðninni.
  5. Athugasemdir endurupptökubeiðanda
    1. Þann 20. febrúar 2019 bárust endurupptökunefnd athugasemdir endurupptökubeiðanda við umsögn ríkissaksóknara. Í athugasemdunum er áréttað að bifreiðin hafi ekki verið skráð eign endurupptökubeiðanda, hvorki er ákæra var gefin út né er dómur gekk í málinu. Skilyrði þess að upptaka nái fram að ganga sé að sá sem sæti upptöku sé eigandi þess ökutækis sem krafist er upptöku á. Í athugasemdunum er áréttað að framburður vitna sé skýr um það að endurupptökubeiðandi hafi aldrei verið eigandi bifreiðarinnar.
    2. Í athugasemdunum er því næst vikið að dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 26. september 2014 í máli nr. S-670/2014 og tekið fram að með dóminum hafi kröfu um upptöku bifreiðar verið hafnað á þeim grundvelli að ákærði væri ekki lengur skráður eigandi hennar, en ákærði hafi hins vegar verið skráður eigandi bifreiðarinnar þegar brot hafi átt sér stað og hald hafi verið lagt á bifreiðina. Ríkissaksóknari hafi ekki áfrýjað dóminum. Telur endurupptökubeiðandi að ákvæði 1. mgr. 107. gr. a. umferðarlaga sé afar íþyngjandi og beri að túlka þröngt. Sé ekki óvarlegt að ætla að upptaka bifreiðarinnar brjóti gegn stjórnarskrárvörðum eignarrétti eiganda bifreiðarinnar.
  6. Niðurstaða
  1. Beiðni endurupptökubeiðanda um endurupptöku héraðsdómsmálsins nr. S-261/2014 er tekin til úrskurðar endurupptökunefndar á grundvelli XXXIV. kafla laga um meðferð sakamála. Í 1. mgr. 228. gr. laganna segir að nú hafi héraðsdómur gengið í sakamáli sem ekki hafi verið áfrýjað og áfrýjunarfrestur sé liðinn og geti þá endurupptökunefnd orðið við beiðni manns, „sem telur sig ranglega sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið“, um að málið verði endurupptekið í héraði ef einhverju þeirra skilyrða, sem nánar eru tilgreind í stafliðum a til d, er fullnægt.
  2. Þau skilyrði sem koma fram í stafliðum a til d eru svohljóðandi:
    1. fram eru komin ný gögn sem ætla má að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk,
    2. ætla má að lögregla, ákærandi, dómari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða háttsemi í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin eru, svo sem ef vitni eða aðrir hafa vísvitandi borið ranglega fyrir dómi eða fölsuð skjöl verið lögð fram og það hefur valdið rangri niðurstöðu málsins,
    3. verulegar líkur eru leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í máli hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess,
    4. verulegir gallar hafa verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.
  3. Heimild endurupptökunefndar til að endurupptaka mál á grundvelli 1. mgr. 228. gr. laganna er sem áður segir bundin við að maður telji sig „ranglega sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið“. Skýra verður ákvæðið þannig að heimilt sé að endurupptaka mál þegar maður telur að refsing hans hafi orðið þyngri en ella og fullnægt er einhverju af þeim skilyrðum sem um ræðir í a - d lið ákvæðisins, sbr. til hliðsjónar endurrit úr gerðabók Hæstaréttar Íslands 8. mars 1982 þar sem rétturinn hafnaði því að gögn sem fylgdu beiðni um endurupptöku hæstaréttarmálsins nr. 221/1980 hefðu breytt refsiákvörðun í því og synjaði beiðni um endurupptöku.
  4. Samkvæmt því sem fram kemur í ökutækjaskrá eignuðust endurupptökubeiðandi og Brynjar Kristensson bifreiðina RV-J86 þann 30. júlí 2013 og voru eigendaskipti að bifreiðinni skráð í ökutækjaskrá 27. september sama ár. Samkvæmt því sem fram kemur í ökutækjaskrá seldu endurupptökubeiðandi og Brynjar Kristensson bifreiðina aftur þann 15. nóvember 2013 og voru eigendaskiptin skráð í ökutækjaskrá 21. sama mánaðar. Samkvæmt því liggur fyrir að endurupptökubeiðandi var skráður eigandi bifreiðarinnar er hann framdi hluta þeirra brota sem hann var sakfelldur fyrir með dómi héraðsdóms. Af dómi héraðsdóms leiðir að það hafi ekki haft nokkra þýðingu í þessu sambandi þótt fyrrnefndur Brynjar hafi jafnframt verið skráður eigandi bifreiðarinnar eða að síðar hafi verið skráð eigendaskipti að bifreiðinni. Samkvæmt því verður ekki fallist á það með endurupptökubeiðanda að verulegar líkur hafi verið leiddar að því að sönnunargögn í máli hans hafi verið rangt metin, sbr. c-lið 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála. Með vísan til þessa verður að hafna beiðni endurupptökubeiðanda.
  5. Þóknun lögmanns endurupptökubeiðanda ákveðst 100.000 kr. auk virðisaukaskatts.

Úrskurðarorð

Beiðni Sævars Arnar Hilmarssonar um endurupptöku héraðsdómsmálsins nr. S-261/2014, sem dæmt var í Héraðsdómi Reykjavíkur 23. maí 2014, er hafnað.

 

Haukur Örn Birgisson formaður

Gizur Bergsteinsson

Hrefna Friðriksdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta