Hoppa yfir valmynd
2. júní 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 31/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 31/2021

Miðvikudaginn 2. júní 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

 

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, dags. 18. janúar 2021, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 20. október 2020 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn 19. október 2020. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 20. október 2020, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að hvorki meðferð innan heilbrigðiskerfisins né endurhæfing hafi verið fullreynd. Farið var fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun og var hann veittur með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 18. nóvember 2020.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 19. janúar 2021. Með bréfi, dags. 25. janúar 2021, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 8. febrúar 2021, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi, dags. 15. febrúar 2021. Athugasemdir bárust frá umboðsmanni kæranda 20. febrúar 2021 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi, dags. 25. febrúar 2021. Viðbótargreinargerð barst frá Tryggingastofnun ríkisins með bréfi, dags. 1. mars 2021, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. mars 2021. Athugasemdir bárust frá umboðsmanni kæranda 24. mars 2021 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 25. mars 2021. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi fer fram á að ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja umsókn hans um örorku verði felld úr gildi og að málinu verði vísað til Tryggingastofnunar á ný til mats á örorku kæranda

Málavextir séu þeir að kærandi hafi sótt um örorku 12. mars 2020 eftir langvarandi erfið veikindi sem hafi byrjað í kjölfar alvarlegs [slyss] þegar hann hafi verið X ára gamall. Í slysinu hafi hann beinbrotnað á mörgum stöðum og hafi auk þess fengið mjög þungt höfuðhögg. Með umsókninni hafi kærandi lagt fram læknisvottorð, dags. [10. mars] 2020, og útfylltan spurningalista vegna færniskerðingar. Í spurningalistanum komi fram upplýsingar um slysið og langvarandi veikindi kæranda. Einnig komi fram að hann hafi lítið unnið vegna neyslu nema sem X á tímabilinu 1. febrúar X til 20. desember X en kærandi hafi alfarið hætt í neyslu í desember 2019, sbr. læknisvottorð, dags. 21. ágúst 2020. Kærandi hafi lent aftur í alvarlegu [slysi] X, hann hafi bakbrotnað illa, spangir hafi verið settar í bak hans og við hafi tekið sjúkrahúslega ásamt langri endurhæfingu. Í kjölfar slyssins hafi kærandi verið metinn með 50% varanlega örorku og auk þess með 40% varanlegan líkamlegan miska. Kærandi hafi verið í endurhæfingu á Reykjalundi og hafi farið reglulega til sjúkraþjálfara vegna þessara slysa.

Árið X hafi kærandi lent í fangelsi í C í um X mánuði sem hafi haft gífurleg áhrif á hann andlega, líkamlega og að öllu öðru leyti vegna þeirra áfalla sem hann hafi orðið fyrir í fangelsinu, eins og lýst hafi verið svörum við spurningalista vegna færniskerðingar.

Árið X hafi kærandi lent í alvarlegri líkamsárás og hafi endað á sjúkrahúsi með þrjú brotin rifbein, illa laskað hné og rifinn lærvöðva ásamt miklum yfirborðsáverkum. Eftir þessa fólskulegu árás hafi kærandi verið metinn til 18% varanlegs líkamlegs miska. Botnlangi kæranda hafi sprungið sem hafi kallað á sjúkrahúslegu, hann hafi tvisvar farið í aðgerð vegna kviðslits ásamt ýmsum öðrum líkamlegum og alvarlegum andlegum kvillum eins og fram komi í gögnum málsins.

Umsókn um örorku hafi verið synjað 19. maí 2020 þar sem endurhæfing hafi ekki verið reynd. Kærandi hafi sótt á ný um örorku 21. september 2020 og skilað læknisvottorði og útfylltum spurningalista vegna færniskerðingar, en verið synjað 5. október 2020. Kærandi hafi enn á ný sótt um örorku 19. október 2020 og skilað starfsgetumati, dags. 18. ágúst 2020, sem kærandi hafi talið að hafi fylgt með fyrri umsókn hans frá 21. september 2020.

Í starfsgetumati VIRK, dags. 18. ágúst 2020, segi í niðurstöðu ,,Heilsubrestur til staðar sem veldur óvinnufærni. Starfsendurhæfing hjá Virk er talin óraunhæf. Ekki er talið raunhæft að stefna á þátttöku á almennum vinnumarkaði. Starfsendurhæfing metin óraunhæf vegna alvarlegra geðrænna einkenna sem þarf að greina betur og meðhöndla innan geðheilbrigðiskerfis auk þess að slæmt og versnandi líkamlegt heilsufar hans gefur ekki tilefni til að ætla að hann komist út á vinnumarkaðinn í næstu framtíð.“ Það liggi því fyrir álit VIRK að starfsendurhæfing kæranda sé óraunhæf en Tryggingastofnun hafi samt synjað umsókninni með bréfi, dags 20. október 2020. Í bréfinu hafi ekki verið nefnt læknisvottorð E, dags. 21. ágúst 2020, sem stofnunni hafi átt að hafa borist en þetta vottorð sé mun harðorðara varðandi mögulega starfsendurhæfingu kæranda, en læknirinn telji að kærandi ,,sé það skemmdur eftir sitt lífshlaup að hann eigi ekki eftir að komast inn á vinnumarkað, hefur ekki verið á vinnumarkaði nema stuttan tíma vegna sinnar andfélagslegu hegðunar. Hefur í raun aldrei funkerað a vinnumarkaði, í samskiptum við annað fólk vegna antisocial hegðunar“.

Í umbeðnum rökstuðningi vegna kærðrar ákvörðunar komi fram að stofnunin hafi synjað kæranda um örorkumat á grundvelli engrar endurhæfingar og ónógrar meðferðar innan heilbrigðiskerfisins. Stofnunin hafi byggt mat sitt á því að umsækjandi hafi að því er gögn sýni aldrei reynt endurhæfingu af neinu tagi.

Krafa kæranda sé sú að ákvörðun Tryggingastofnunar verði endurskoðuð og sé krafan meðal annars byggð á því að fyrir liggi nýtt skjal, þ.e. læknisvottorð, dags. 21. ágúst 2020, sem ætti að hafa afgerandi áhrif á ákvörðun stofnunarinnar. Læknisvottorðið staðfesti að engin endurhæfing sé möguleg og einnig sé þar ákveðin greining á starfsgetumati VIRK. Vottorðið ætti sjálfkrafa að þýða að fyrri ákvörðun Tryggingastofnunar verði endurskoðuð. Auk þess verði að telja að stofnunin hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 37. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þar sem kæranda hafi ítrekað ekki verið veittar neinar leiðbeiningar um hvernig hann ætti að sækja um örorkumat. Þetta hafi orðið þess valdandi að kærandi hafi sótt svona oft um örorkumat þar sem honum hafi ekki verið leiðbeint hvaða gögn þyrftu að fylgja með umsókn um örorku til þess að umsóknin gæti öðlast brautargengi. Kærandi hafi meðal annars ítrekað spurt hvort Tryggingastofnun hafi fengið læknisvottorð, dags. 21. ágúst 2020, áður en stofnunin hafi tekið ákvörðun en þar hafi hún ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 38. gr. laga um almannatryggingar og 10. gr stjórnsýslulaga.

Í bréfi Tryggingastofnunar komi fram að synjað hafi verið um örorkumat á grundvelli engrar endurhæfingar og ónógrar meðferðar innan heilbrigðiskerfis. Matið hafi verið byggt á því að kærandi hafi, að því er gögn sýni, aldrei reynt neina endurhæfingu af neinu tagi. Tryggingastofnun hafi birt beina tilvitnun úr starfsgetumati VIRK, dags. 18. ágúst 2020, sem D læknir hafi undirritað þar sem segi: „Starfsendurhæfing metin óraunhæf vegna alvarlegra geðrænna einkenna sem þarf að greina betur og meðhöndla innan geðheilbrigðiskerfis“.

Þarna hafi Tryggingastofnun handvalið orðalag úr starfsgetumati VIRK sem hafi hentað málstað stofnunarinnar í stað þess að láta alla setninguna frá D fylgja með svo hægt væri að sjá raunverulegt samhengi á bak við þessa fullyrðingu en setningin sé svohljóðandi ,,Starfsendurhæfing metin óraunhæf vegna alvarlegra geðrænna einkenna sem þarf að greina betur og meðhöndla innan geðheilbrigðiskerfis auk þess að slæmt og versnandi líkamlegt heilsufar hans gefur ekki tilefni til að ætla að hann komist út á vinnumarkaðinn í næstu framtíð“.

Í þessari tilvitnun komi fram að það sé ekkert tilefni til að ætla að kærandi komist út á vinnumarkað í næstu framtíð vegna slæms og versnandi líkamlegs ástands en auk þess segi í niðurstöðunni að ,,Heilsubrestur til staðar sem veldur óvinnufærni. Starfsendurhæfing hjá Virk er talin óraunhæf. Ekki er talið raunhæft að stefna á þáttöku á almennum vinnumarkaði“.

Liggi því skýrt fyrir í mati VIRK, sem sé grunnforsenda synjunar Tryggingastofnunar á örorkumati kæranda, að það sé ekki talið raunhæft að stefna á þátttöku á almennum vinnumarkaði og starfsendurhæfing hjá VIRK sé talin óraunhæf.

Hvað þurfi Tryggingastofnun meira til að sýnt sé fram á að frekari endurhæfing eða aðgerðir í þeim dúr séu óraunhæfar og augljósa niðurstaðan fyrir kæranda sé sú að fara í örorkumat svo að hann öðlist rétt á ýmsum bótagreiðslum og styrkjum.

Viðkomandi greiðslur og styrkir ákvarðist af mörgum þáttum, en séu bundnar örorkumati hvers og eins og aðstæðum hans. Þess vegna sé mikilvægt fyrir kæranda að gangast undir örorkumat svo að hann fái þau réttindi og styrki sem honum beri svo að hann geti reynt að betrumbæta líf sitt án þess að líða stöðugan skort ásamt stöðugri andlegri og líkamlegri vanlíðan.

Einnig liggi fyrir læknisvottorð E, dags. 21. ágúst 2020, sem Tryggingastofnun hafi átt að vera búin að fá en virðist hafi verið nýtt vottorð í málinu, sbr. upptalningu fyrirliggjandi gagna í rökstuðningi stofnunarinnar, dags. 18. nóvember 2020. Þetta læknisvottorð frá 21. ágúst 2020 ætti sjálfkrafa að þýða að fyrri ákvörðun Tryggingastofnunar verði endurskoðuð.

Í framangreindu læknisvottorði E, dags. 21. ágúst 2020, sé greint frá fimmtán sjúkdómsgreiningum, farið hafi verið farið yfir sjúkrasögu kæranda þar sem meðal annars komi fram mat hans á starfsgetumati VIRK en hans fræðilega mat sé:

,,Sótt um VIRK fyrir hann en var metinn þar af læknum Virk óhæfur til komu á vinnumarkað aftur vegna geðræns vanda. Greindur með áfallastreituröskun, ofsakvíða og depurð, þráhyggju, árátturöskun og einnig kom í ljós víðtæk ranghugmyndakerfi sem hann hefur komið sér upp“.

Þarna komi fram afgerandi mat læknisins á því sem fram komi í starfsgetumati VIRK, sem sé að kærandi hafi verið metinn óhæfur til komu á vinnumarkað aftur sem fari illa gegn einu ástæðu synjunar Tryggingastofnunar um að kærandi fari í örorkumat.

Það liggja því fyrir tvö afgerandi vottorð frá virtum læknum þar sem fram komi að engar líkur séu á starfsendurhæfingu og að öll endurhæfing varðandi kæranda sé fullreynd.

Málflutningur Tryggingastofnunar byggi á 18. gr. laga um almannatryggingar þar sem sett sé fram það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi.

Spyrja verði hvenær umsækjandi teljist hafa gert nóg til að sýna fram á að það sé enginn möguleiki á endurhæfingu. Sérstaklega ef það virðist ekki vera nóg að fá vottorð frá tveimur sérhæfðum læknum sem telji að endurhæfing sé ekki möguleg í hans tilviki. Verði að telja endurhæfingu fullreynda miðað við þau læknisvottorð sem kærandi hafi nú lagt fram og ríki í raun enginn óvissa um það, miðað við mat læknanna. Það sé ljóst að kærandi muni aldrei verða virkur á vinnumarkaði og að það sé algjörlega óraunhæft að búast við að færni hans geti batnað eða aukist. Kærandi sé því ekki tækur til endurhæfingar eins og fram hafi komið í læknisvottorði og starfsgetumati VIRK og þá sé samhljóða niðurstaða tveggja lækna um að það mun ekki breytast og því sé endurhæfing ekki raunhæf í tilviki kæranda.

Ómögulegt sé því fyrir kæranda að fá ráðleggingar hjá sínum læknum varðandi frekari meðferðir eins og Tryggingastofnun fari fram á þar sem afstaða lækna kæranda liggi nú þegar fyrir í starfsgetumati VIRK, en sérstaklega í læknisvottorði E sem hafi verið læknir kæranda frá árinu 2012 þar sem komi skýrt fram að endurhæfing sé fullreynd.

Mál þetta snúist um að kærandi njóti þeirra mannréttinda sem hann eigi rétt á, hann fái viðunandi aðstoð og fái sína örorku viðurkennda.

Þess sé því krafist að ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja kæranda um örorkumat verði felld úr gildi og að málinu verði vísað til stofnunarinnar á ný til mats á örorku kæranda.

Í athugasemdum er bárust úrskurðarnefndinni 20. febrúar 2021 kemur fram að engin efnisleg mótsvör hafi komið fram í greinargerð Tryggingastofnunar og hvergi hafi verið fjallað um læknisvottorð E.

Tryggingastofnun hafi aftur á móti ákveðið að handvelja ákveðið orðalag úr starfsgetumati VIRK sem hafi hentað stofnuninni í stað þess að láta alla setninguna frá D fylgja með sem í raun fari gegn málflutningi stofnunarinnar og svo að úrskurðarnefnd sjái ekki raunverulegt samhengi á bak við þessa fullyrðingu.

Tryggingastofnun hafi í greinargerð sinni viðurkennt að hafa ekki uppfyllt leiðbeiningarskyldu sína samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga og 37. gr. laga um almannatryggingar. Þar komi skýrt fram að kæranda hafi ítrekað ekki verið veittar neinar leiðbeiningar um hvernig hann ætti að sækja um örorkumat. Verði að gera þær kröfur til Tryggingastofnunar að hún sinni lögbundnum skyldum sínum um að leiðbeina aðila sem hafi aldrei farið í gegnum þetta ferli áður og auk þess eigi við mikil andleg og líkamleg vandamál að stríða.

Málflutningur Tryggingastofnunar byggi á 18. gr. laga um almannatryggingar þar sem sett sé fram það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi. Stofnunin verði að gæta meðalhófs við stjórnsýsluákvarðanir sem ekki verði séð að hafi verið gert í tilviki kæranda.

Miðað við fyrirliggjandi læknisvottorð ríki ekki óvissa um að telja verði endurhæfingu fullreynda. Það sé mat læknanna að kærandi muni aldrei verða virkur á vinnumarkaði og að það sé algjörlega óraunhæft að búast við að færni kæranda geti batnað eða aukist. Því sé þess krafist af hálfu kæranda að ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja honum um örorkumat verði felld úr gildi og að málinu verði vísað til Tryggingastofnunar á ný til mats á örorku kæranda.

Í athugasemdum, dags. 23. mars 2021, segir að engin efnisleg mótsvör hafi komið fram hjá Tryggingastofnun varðandi niðurstöður læknisvottorðanna tveggja sem stofnunin hafi sjálf notað sem rökstuðning fyrir ákvörðuninni, en niðurstöður læknanna séu mjög afdráttarlausar um að endurhæfingin sé fullreynd og ekki möguleg. Ómögulegt sé að sjá hvernig Tryggingastofnun geti notað vottorð D til rökstuðnings þegar niðurstaða hans sé svona skýr.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé umsókn um örorkulífeyri.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar.

Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkulífeyri samkvæmt staðli sem byggður sé á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun, sbr. fylgiskjal 1 við reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat. Örorkustyrkur sé greiddur ef örorka umsækjanda sé metin að minnsta kosti 50%, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga um almannatryggingar.

Bætur sem ætlaðar séu bótaþegum sjálfum greiðist ekki ef hlutaðeigandi vanræki að fara að læknisráðum eða neiti að hlíta fyrirmælum um þátttöku í þjálfun eða starfsnámi sem bætt gæti afkomu hans eða búið hann undir nýtt starf, sbr. 51. gr. laganna.

Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Heimilt sé að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verði séð hver starfshæfni einstaklings sem sé á aldrinum 18 til 67 ára verði til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skuli inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum sé að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem teljist fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Heimilt sé að framlengja greiðslutímabil um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður séu fyrir hendi. Tryggingastofnun ríkisins hafi eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt.

Kærandi hafi sótt um örorkulífeyri hjá Tryggingastofnun fjórum sinnum á árinu 2020. Umsókn, dags. 12. mars 2020, hafi ekki verið afgreidd vegna skorts á umbeðnum gögnum, þar með talið læknisvottorði og útfylltum spurningalista vegna færniskerðingar. Umsókn, dags. 17. maí 2020, hafi verið synjað með bréfi, dags. 19. maí 2020, á grundvelli þess að endurhæfing hafi ekki verið reynd en samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi. Umsókn, dags. 17. september 2020, hafi verið synjað með bréfi, dags. 25. september 2020, á grundvelli sömu ástæðna og í bréfi, dags. 19. maí 2020.

Umsókn, dags. 19. október 2020, hafi verið synjað með bréfi, dags. 20. október 2020. Þar hafi verið vísað til bréfs, dags. 25. september 2020, og bent á að ekki hafi komið fram nein ný gögn sem breyti fyrri úrskurði. Tryggingastofnun telji að hvorki meðferð innan heilbrigðiskerfis né endurhæfing sé fullreynd og beri að reyna hvort tveggja. Tryggingastofnun hafi rökstutt ákvörðunina með bréfi, dags. 18. nóvember 2020. Þar segi meðal annars að örorkumati hafi verið synjað á grundvelli engrar endurhæfingar og ónógrar meðferðar innan heilbrigðiskerfis. Jafnframt hafi verið bent á þau úrræði sem felist í reglum um endurhæfingarlífeyri samkvæmt lögum um félagslega aðstoð.

Í læknisvottorði, dags. 21. ágúst 2020, komi fram að kærandi glími við afleiðingar umferðarslysa og ofbeldis af líkamlegum, andlegum og kynferðislegum toga. Hann hafi verið um tíma í neyslu vímuefna en hafi verið án slíks síðan fyrir síðustu áramót 2020. Fram komi að kærandi hafi verið greindur með áfallastreituröskun, ofsakvíða og depurð, þráhyggju- árátturöskun. Hann hafi einnig þróað með sér víðtækt ranghugmyndakerfi. Við læknisskoðun hafi kærandi lýst verkjum í baki, mjöðm og hálsi.

Í svörum við spurningalista vegna færniskerðingar, sem lagður hafi verið fram með umsókn um örorkulífeyri, dags. 17. september 2020, sé skráð að kærandi eigi erfitt með að sitja og að standa upp af stól vegna spengingar og brjóskloss í baki. Af sömu ástæðum eigi hann oft erfitt með beygja sig og krjúpa, standa, ganga á jafnsléttu og ganga upp og niður stiga. Sömu þættir valdi að hans mati erfiðleikum við að teygja sig eftir hlutum og að lyfta og bera. Ítarleg greinargerð hafi fylgt um geðræn vandamál þar sem vitnað sé um andleg veikindi sem hafi fylgt kæranda frá unga aldri, fíkniefnaneyslu, fangelsivistun og ýmis áföll í lífinu.

Kæranda hafi verið vísað í starfsgetumat á vegum VIRK sem hafi farið fram þann 18. ágúst 2020. Vísað hafi verið í mat á raunhæfi starfsendurhæfingar, andlegum, félagslegum og líkamlegum hindrunum til atvinnuþátttöku. Um sé að ræða fjölþættan, samsettan heilsufarsvanda til margra ára. Óskað sé eftir tillögum að áherslum í starfsendurhæfingu, teljist hún raunhæf og tímabær. Læknir meti aðkomu annarra fagaðila að mati.

Ástæður óvinnufærni séu skráðar streituröskun eftir áfall og eftirstöðvar áverka á hálsi og bol. Aðrar sjúkdómsgreiningar sem skipti málin séu þursabit með þjótaki, blandin kvíða- og geðlægðarröskun, áráttu-þráhyggjuröskun og brot á öðrum og ótilgreindum hlutum lendahryggs og mjaðmagrindar. Fram komi að kærandi eigi beiðni um þjónustu vegna þessara þátta.

Niðurstaða starfsgetumats sé sú að heilsubrestur sé til staðar sem valdi óvinnufærni kæranda. Starfsendurhæfing hjá VIRK sé talin óraunhæf og ekki talið raunhæft að stefna á þátttöku á almennum vinnumarkaði. Starfsendurhæfing sé metin óraunhæf vegna alvarlegra geðrænna einkenna sem þurfi að greina betur og meðhöndla innan geðheilbrigðiskerfis, auk þess sem slæmt og versnandi líkamlegt heilsufar kæranda gefi ekki tilefni til að ætla að hann komist út á vinnumarkaðinn í næstu framtíð.

Í bréfi Tryggingastofnunar, dags. 18. nóvember 2020, segi að kærandi hafi aldrei reynt endurhæfingu af neinu tagi. Í starfsgetumati VIRK, dags. 18. ágúst 2020, komi fram það álit D læknis að starfsendurhæfing sé metin óraunhæf vegna alvarlegra geðrænna einkenna sem þurfi að greina betur og meðhöndla innan geðheilbrigðiskerfis.

Í bréfi Tryggingastofnunar hafi verið bent á að meðhöndlun innan geðheilbrigðiskerfis geti verið grundvöllur fyrir greiðslu endurhæfingarlífeyris samkvæmt lögum um félagslega aðstoð ef slík umsókn berist og framvísað sé upplýsingum um að endurhæfing/meðferð sé í gangi. Heimilt sé að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði á meðan ekki verði séð hver starfshæfni einstaklings verði til frambúðar og endurhæfing/meðferð sé í gangi. Þá sé tekið fram að greiðslur endurhæfingarlífeyris séu sambærilegar við greiðslur örorkulífeyris.

Tryggingastofnun minni á í þessu sambandi að bætur, sem ætlaðar séu bótaþegum sjálfum, greiðist ekki ef hlutaðeigandi vanræki að fara að læknisráðum eða neiti að hlíta fyrirmælum um þátttöku í þjálfun eða starfsnámi sem bætt gæti afkomu hans eða búið hann undir nýtt starf, sbr. 51. gr. laga um almannatryggingar og 14. gr. laga um félagslega aðstoð.

Að mati Tryggingastofnunar sé ekki útséð um að finna megi með aðstoð fagaðila viðeigandi úrræði, að teknu tilliti til heilsufars kæranda, sem stuðlað geti að starfshæfni hans. Á grundvelli 7. gr. laga um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði þegar ekki verði séð hver starfshæfni einstaklings sem sé á aldrinum 18 til 67 ára verði til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys.

Það sé ekki hlutverk Tryggingastofnunar að leggja til meðferðar- eða endurhæfingarúrræði heldur sé sú ábyrgð lögð á lækna og aðra fagaðila hverju sinni að koma þeim einstaklingum sem ekki séu settir í örorkumat samkvæmt ákvörðun Tryggingastofnunar í viðeigandi endurhæfingarúrræði sem taki mið af vanda einstaklingsins hverju sinni.

Með vísan til framanritaðs sé það niðurstaða Tryggingastofnunar að sú ákvörðun að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri og vísa þess í stað á endurhæfingarúrræði samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, hafi verið rétt miðað við fyrirliggjandi gögn.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 1. mars 2021, sé vakin athygli á því að í bréfi, dags. 25. september 2020, þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri hafi verið synjað hafi verið vísað til læknisvottorðs, dags. 21. september 2020. Í bréfinu hafi verið rangt farið með dagsetningu umrædds vottorðs en hér sé um að ræða læknisvottorð E, dags. 21. ágúst 2020, sem vísað sé til í athugasemdum kæranda. Í greinargerð Tryggingastofnunar til úrskurðarnefndar, dags. 8. febrúar 2021, hafi þessi mistök því miður verið endurtekin.

Tryggingastofnun hafi því við meðferð þessa máls tekið efnislega afstöðu til þeirra upplýsinga sem fram komi í umræddu vottorði.

Varðandi mat á starfsgetu kæranda vilji Tryggingastofnun ítreka þær ábendingar sem komi fram í greinargerð til úrskurðarnefndar um að meðhöndlun innan geðheilbrigðiskerfisins geti verið grundvöllur fyrir greiðslu endurhæfingarlífeyris samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Hafi meðal annars verið stuðst við ummæli um það efni sem komi fram í greinargerð D læknis. Greinargerð hans staðfesti að töluvert þurfi til að byggja upp og styrkja líkamlegt og andlegt heilbrigði kæranda. Af þeim sökum hafi Tryggingastofnun vísað á endurhæfingarlífeyri sem heimilt sé að greiða í allt að 36 mánuði samhliða þátttöku í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði. 

Um skilyrði fyrir greiðslu endurhæfingarlífeyris sé vísað til reglugerðar nr. 661/2020 um framkvæmd endurhæfingarlífeyris samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Í 5. gr. þeirrar reglugerðar segi að endurhæfingaráætlun skuli taka mið af heilsufarsvanda umsækjanda með það að markmiði að aðstoða umsækjanda við að leita lausna við þeirri færniskerðingu eða heilsubresti sem valdi skertri starfshæfni hans. Leitast skuli við að endurhæfingaráætlun byggi á heildstæðri nálgun með það að markmiði að bæta heilsu og auka starfsorku og starfshæfni.

Samkvæmt 6. gr. skuli endurhæfingaráætlun unnin af heilbrigðismenntuðum fagaðila, svo sem lækni, sjúkraþjálfara, félagsráðgjafa, sálfræðingi, iðjuþjálfara eða hjúkrunarfræðingi í samvinnu við umsækjanda um endurhæfingarlífeyri hverju sinni. Þá sé í 7. gr. tekið fram að umsækjandi og endurhæfingarlífeyrisþegi beri ábyrgð á að stuðla að betri virkni, heilsu og starfshæfni með virkri þátttöku í þeirri meðferð, endurhæfingu og úrræðum sem komi fram í endurhæfingaráætlun.

Að mati Tryggingastofnunar sé ekki útséð um að finna megi með aðstoð fagaðila viðeigandi úrræði, að teknu tilliti til heilsufars kæranda, sem stuðlað geti að starfshæfni hans.

Að því er varði ætlað brot á leiðbeiningarskyldu bendi Tryggingastofnun á að kæranda hafi með bréfi, dags. 13. mars 2020, vegna umsóknar um örorkulífeyri, verið bent á nauðsyn þess að leggja fram læknisvottorð og útfylltan spurningalista vegna færniskerðingar. Í bréfi, dags. 18. september 2020, sé þessi ábending áréttuð að því er varði framlagningu læknisvottorðs.

Bent sé á að samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar sé það hlutverk Tryggingastofnunar að meta örorku þeirra sem sæki um örorkulífeyri. Í því ákvæði sé tekið fram að heimilt sé að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Það sé með öðrum orðum ekki sjálfgefið að umsókn um örorkulífeyri leiði í öllum tilvikum til örorkumats. Í þessu máli hafi Tryggingastofnun ákveðið á grundvelli framlagðra gagna að rétt væri að beita þessari heimild og beina kæranda í farveg starfsendurhæfingar í stað formlegs örorkumats.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 20. október 2020 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort heimilt sé að synja kæranda um örorkumat samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar á þeim grundvelli að endurhæfing sé ekki fullreynd.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli.

Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. er heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 7. gr. laga nr. nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 1. og 2. mgr. 7. gr. laganna segir:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.“

Meðfylgjandi umsókn kæranda var læknisvottorð E, dags. 21. ágúst 2020. Í vottorðinu koma fram eftirfarandi sjúkdómsgreiningar:

„[Insomnia

Impotence

Testicular hypofunction

Obsessive-compulsive disorder

Personality disorder, unspecified

Lumbago with sciatica

Sequelae of injuries of neck and trunk

Sequelae of fracture of spine

Sequelae of injuries of lower limb

Attention deficit disorder with hyperactivity

Fracture of lumbosacral spine nos

Hypertenison benign

Mjóbaksverkir (Lumbago)

Stress disorder, post traumatic

Disc prolapse, other]“

Um fyrra heilsufar kæranda segir í vottorðinu:

1. [slys] X ára, áverki á mjöm, brot í hæ. mjðamarskál og mörg viðbeinsbort 2. Háorkuumferðarslys X þar sem hann hryggbrotnaði og var spengdur á hrygg. 3. X, réðist [...] á hann með þeim afleyðingum að hæ. quadriceps rifnaði upp og hæ. hné laskaðist mikið og einnig 3 rifbein brotin, en hann var lamin ítrekð með X kylfum í hné og rif.. 5. Kannabis, áfengis og lím sniff byrjaði um X ára aldur, stöðug neysla og upp úr X ára tók við kokain, amfetamín, morfinskyld lyf og LSD, sprautaði sig með opíöðum í æð, hætti neyslu desember 2019, af sjálfsdáðum og hefur haldið sér frá allri neyslu síðan þá. 6. Lenti í fangelsi í C X, var þar beittur miklu [ofbeldi], var ítrekað X af samföngum sínum. Mikil áfallastreita eftir það, eftir að hann var fluttur heim frá C þá var hann settur í um 4 vikur í einangrun á Íslandi, var þetta vegna [brots] sem hann var sakaður um og [...] og því var hann handsamaður í C og settur þar inn.

7. Handtekin og grunaður um fíkniefnalagabort [...], var settur í X mánaða gæsluvarðhald.“

Um núverandi heilsuvanda og færniskerðingu kæranda segir:

„X ára gamall maður sem hefur átt við afleyðingar umferðaslysa að stríða ásamt afleyðinga líkamlegs, andlegs og kynferðisofbeldis að stríða. Leiddist um tíma út í vímuefnavanda vegna þessa. En hefur komið sér út úr því og hefur algjörlega án slíks síðan fyrir síðustu áramót 2020.

Lenti í alvarlegu [slysi] X ára, braut þá mjaðmarskál hæ. megin, rif og viðbein og mikið höfuðhögg, X umferðarsleys, þar sem féllu saman hryggjaliðir og var hann spengdur, X ,alvarleg líkamsárás af hálfu [...], þá 3 rifbein brotin, hæ. quadricep rifin illa og ví. hné illa laskað ásamt mörgum öðrum yfirborðsáverkum.

Var sótt um í VIRK fyrir hann en var metin þar af læknum VIRK óhæfur til komu á vinnumarkað aftur vegna geðrænsvanda. Greindur með áfallastreituröskun, ofsakvíða og depurð, þráhyggju árátturöskun og einnig kom í ljós víðtæk ranghugmyndakerfi sem hann hefur komið sér upp.“

Lýsing læknisskoðunar er svohljóðandi:

„Lýsir verkjum í baki, mjöðm, hálsi.

Geðslag hækkað, form og flæði tals eðlilegt. Er með þróað ranghugmyndakerfi um samsæri óprútnra aðila um globalt samsæri gegn mannkyni. Hefur einkenni persónuleikaröskunar með aðsóknarhugmyndum, hefur líka langa sögu um andfélagslega hegðun og fangelsis vistun sem ýtir undir þá þá greiningu.“

Í vottorðinu kemur fram að kærandi sé óvinnufær og að ekki megi búast við að færni hans aukist. Í frekara áliti á vinnufærni kæranda segir:

„Tel að A sé það skemmdur eftir sitt lífshlaup andlega að hann eigi ekki eftir að komast inn á vinnumarkað, hefur ekki verið á vinnumarkaði nema stuttan tíma í senn vegna sinar andfélagslegu hegðunar, hefur í raun aldrei funkerað á vinnumarkaði í samskiptum við annað fólk vegna antisocial hegðunar“

Einnig liggur fyrir læknisvottorð F, dags. 10. mars 2020, sem lagt var fram með fyrri umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Í vottorðinu er greint frá eftirfarandi sjúkdómsgreiningum:

„[Kvíði

Þunglyndi

Stress disorder, post traumatic

Mental and behavioural disorders due to multiple drugs use and use of other pshychoactive substances

Testicular hypofunction

Hypertensio arterialis HT

Fangelsun og önnur innilokun

Attention deficit hyperactivity disorder

Lumbago acuta in chronica]“

Um heilsuvanda og færniskerðingu nú segir:

„Bjó lengi í G. Heimilislæknir síðan 2010 E.

Mikið hjá geðlæknum í G og glímt við erfiða áfallastreituröskun, áráttuvandamál. Félagsfælni og þunglyndi. Fíknivandi í X ár, sprautfíkill. Örvandi fíkniefni

Framfleytt sér m.a. sem X.

Menntun: engin

Starfsreynsla: mjög stutt atvinnusaga þrátt f að vera X ára

Fjölskylda: á kærustu

[...].

Heimilislæknir E yvar byrjaður þann process að sækja um örorku. Mikill kvíði og félagsfælni. Prufað ýmis lyf en sl mánuði verið á alprazolam. Fengið það í nokkra mánuði og fékk þetta lyf á X. Einnig slæmur í baki.

Innlagnir á geðdeildir: nei. Geðlæknir á Íslandi; nei

Hans færniskerðing og skortur á starfsgetur stafar af andlegum ástæðum og fíknivanda. Hann er einnig með hypogonadisma og háþrýsting. Þarf reglulega í aftappanir. Löng saga um bakverki og fór í aðgerð.

Verður vísað til geðheilbrigðisteymis fangelsisins.

Hef litlar upplýsingar um endurhæfingu sem hann hefur fengið - í samtengingu að sjá nótu frá Reykjalundi frá júní 2019 sem undirritaður hefur ekki aðgang að.“

Í vottorðinu kemur fram að kærandi sé óvinnufær og að ekki megi búast við að færni hans aukist.

Í starfsgetumati VIRK, dags. 18. ágúst 2020, kemur fram að líkamlegir, andlegir og félagslegir þættir hafi mikil áhrif á færni kæranda. Í samantekt og áliti segir:

„X ára gamall maður sem hefur átt við afleiðingar umferðarslysa að stríða ásamt afleiðingum líkamlegs, andlegs og kynferðisofbeldis. Leiddist um tíma út í vímuefnaneyslu vegna þessa. [...] Hefur unnið sem X í gegnum tíðina, en nú hafa verkir í stoðkerfi hamlað honum ásamt andlegri vanlíðan. Þarf aðstoð til að komast yfir skaflinn og til vinnu aftur. [...] Beiðandi læknir telur að með með góðri endurhæfingu eftir þessa miska þá geti hann komist aftur til heilsu og vinnu.

ICF prófíll sýnir hátt útslag bæði á líkamlegum og sálfélagslegum þáttum. Samkvæmt GAD-7 kvíðakvarðanum og PHQ-9 þungyndiskvarðanum er færniskerðing töluverð. Skv. SpA telur hann vinnugetu sína vera litla í dag og litlar líkur á að það breytist á næstu mánuðum.

A er einhleypur og barnlaus, er í húsnæðishrakningum, býr nú hjá X sinni. [...] [...] er hann í góðu sambandi við allt sitt fólk. Hefur aldrei verið í langtíma sambandi sjálfur. Er líkamlega hraustur fram að slysinu árið X. Fór ungur í neyslu og lenti síðar í mjög harðri neyslu. Er fullorðinn greindur með ADHD. Hann hefur lent í fangelsi bæði hér á landi og í C. Var á X en braut það nú í X og á yfir höfði sér langan fangelsisdóm. Er nú á framfærslu sveitarfélags og fær eins hjálp frá foreldrunum. Hann klárar grunnskólann, reyndi sig framhaldsskóla en það gekk ekki og fór hann að vinna ungur, vann mest við [vinnu] þar til hann bakbrotnar árið X. Hefur lítið unnið eftir það, reyndi sig aðeins í fyrra sem aðstoðarmaður X, en bæði kvíði og bakverkir urðu þess valdandi að hann datt aftur úr vinnu. Niðurstaða spurningalista, ICF þátta og Spurningalisti A eru nokkuð samhljómandi með það sem kemur fram í viðtali og skoðun. A með með töluverða neyslusögu, og er með fjölþættan, samsettan heilsufarsvanda til margra ára. Lent í nokkrum slysum, spengdur í baki og langvinnir verkir.

Áráttu- og þráhyggjuröskun, kvíði, þunglyndi, félagsfælni og er hann mjög upptekinn af samsæriskenningum. Hann hefur verið í fangelsi og braut nýleg skilorð og á yfir höfði sér langan fangelsisdóm. Sér undirritaður engin þau úrræði sem Virk hefur úr að spila sem gætu aukið starfsgetu hans nú.

18.08.2020 21:34 - D

Niðurstaða: Heilsubrestur til staðar sem veldur óvinnufærni. Starfsendurhæfing hjá Virk er talin óraunhæf. Ekki er talið raunhæft að stefna á þátttöku á almennum vinnumarkaði.

Starfsendurhæfing metin óraunhæf vegna alvarlegra geðrænna einkenna sem þarf að greina betur og meðhöndla innan geðheilbrigðiskerfis auk þess að slæmt og versnandi líkamlegt heilsufar hans gefur ekkitilefni til að ætla að hann komist út á vinnumarkaðinn í næstu framtíð.“

Í fyrirliggjandi spurningalistum vegna færniskerðingar sem kærandi lagði fram með umsóknum um örorkumat, dags. 17. maí og 17. september 2020, svaraði kærandi spurningum sem snúa að líkamlegri og andlegri færni. Af svörum hans verður ráðið að hann eigi erfitt með ýmsar daglegar athafnir sökum spengingar og brjóskloss. Hvað varðar andlega færni greinir kærandi frá mikilli þráhyggju, árátturöskun, áfalla- og streituröskun ásamt kvíða, þunglyndi og félagsfælni.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar er Tryggingastofnun heimilt að gera það að skilyrði að umsækjandi um örorku gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að ekki hafi verið tímabært að meta örorku þar sem hvorki hafi verið reynd meðferð innan heilbrigðiskerfisins né endurhæfing. Þá var kæranda leiðbeint að fá ráðgjöf hjá læknum um frekari meðferðir.

Fyrir liggur að kærandi býr við ýmis vandamál af andlegum og líkamlegum toga og að kærandi hefur ekki fengið greiddan endurhæfingarlífeyri. Í læknisvottorðum E, dags. 21. ágúst 2020, og F, dags. 10. mars 2020, kemur fram að kærandi sé óvinnufær og að ekki megi búast við að færni aukist. Í vottorði E er sérstaklega tilgreind andfélagsleg hegðun og þess hve skemmdur kærandi sé eftir lífshlaup sitt. Í starfsgetumati VIRK, dags. 18. ágúst 2020, kemur fram að starfsendurhæfing sé óraunhæf vegna alvarlegra geðrænna einkenna sem þurfi að greina betur og meðhöndla innan geðheilbrigðiskerfisins. Einnig kemur þar fram að slæmt og versnandi líkamlegt heilsufars kæranda gefi ekki tilefni til að ætla að hann komist út á vinnumarkaðinn í næstu framtíð. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst af framangreindu að starfsendurhæfing hjá VIRK sé óraunhæf en ekki verður dregin sú ályktun af starfsgetumatinu að ekki sé möguleiki á endurhæfingu á öðrum vettvangi, enda hafi kæranda verið vísað til frekari uppvinnslu innan geðheilbrigðiskerfisins. Þá verður ekki ráðið af eðli veikinda kæranda að endurhæfing geti ekki komið að gagni. Einnig liggur fyrir að kærandi hefur ekki fengið greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun en heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála rétt að láta reyna á endurhæfingu í tilviki kæranda áður en til örorkumats kemur.

Kærandi byggir á því að Tryggingastofnun ríkisins hafi brotið gegn leiðbeiningar- og rannsóknarskyldu sinni með því að hafa ekki rannsakað hvort fyrir lægi læknisvottorð E, dags. 21. ágúst 2020, og leiðbeina honum ekki um hvaða gögn þyrftu að fylgja með umsókn.

Samkvæmt 38. gr. laga um almannatryggingar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, skal Tryggingastofnun sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun um bótarétt er tekin, þar á meðal að öll nauðsynleg gögn og upplýsingar liggi fyrir. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þess. Einnig er kveðið á um leiðbeiningarskyldu Tryggingastofnunar í 37. gr. laga um almannatryggingar, en í 1. mgr. lagagreinarinnar segir:

„Tryggingastofnun ríkisins skal kynna sér aðstæður umsækjenda og greiðsluþega og gera þeim grein fyrir rétti þeirra samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum er stofnunin starfar eftir, reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar. Við meðferð máls skulu staða og réttindi umsækjanda og greiðsluþega skoðuð heildstætt. Stofnunin skal leiðbeina umsækjanda um réttarstöðu hans, þau gögn sem þurfa að fylgja umsókn og um framhald málsins.“

Kæra sú, sem hér er til meðferðar, lýtur einungis að ákvörðun Tryggingastofnunar frá 20. október 2020 og því kemur hugsanlegur skortur á leiðbeiningum við töku fyrri ákvarðana ekki til skoðunar. Fyrir liggur að öll nauðsynleg gögn lágu fyrir við kært örorkumat, þar á meðal læknisvottorð E, dags. 21. ágúst 2020, sem haldið er fram í kæru að hafi ekki legið fyrir. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ekkert bendi til þess að Tryggingastofnun hafi ekki leiðbeint kæranda um réttarstöðu hans, þau gögn sem þurfi að fylgja umsókn og um framhald málsins, sbr. 37. gr. laga um almannatryggingar, eða ekki veitt aðra nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga. Að framangreindu virtu er ekki fallist á að Tryggingastofnun hafi brotið gegn leiðbeiningar- og rannsóknarskyldu sinni í skilningi framangreindra lagaákvæða gagnvart kæranda.

Með vísan til þess, sem rakið hefur verið hér að framan, er staðfest ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 20. október 2020, um að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur, er staðfest.

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta