Fjölbreyttar félagslegar aðgerðir vegna áhrifa af COVID-19
Alls verður ráðist í félagslegar aðgerðir fyrir tæpar 900 milljónir króna til viðbótar við aðgerðir fyrir tæpa 5,7 milljarða króna sem voru boðaðar í vor, en úrræðunum er ætlað að veita mótvægi vegna þeirra áhrifa sem Covid-19 faraldurinn hefur á viðkvæma hópa í samfélaginu. Ráðist verður í margvíslegar aðgerðir fyrir fatlað fólk og börn sem þurfa aukna þjónustu vegna Covid – 19. Þá verður stuðningur við aldraða, innflytjendur og börn í viðkvæmri stöðu efldur verulega. Horft er sérstaklega til aldurshópsins 12-16 ára með áherslu á að ná til þess hóps sem hvað síst sækir reglubundið íþrótta- og tómstundastarf.
Aðrar aðgerðir sem ráðist verður í eru stuðningur við félagasamtök sem styðja við viðkvæma hópa, ásamt því sem að félagasamtök á sviði neytendaverndar og hagsmuna heimilanna verða styrkt til að takast á við afleiðingar Covid-19. Þá verður bætt í aðgerðir fyrir heimilislausa, en víðtækar lokanir í samfélaginu hafa mikil áhrif á jaðarsetta einstaklinga sem ekki hafa yfir að ráða fullnægjandi heimilisaðstöðu. Einnig verða fjölbreytt úrræði í boði fyrir heimilin en þar verður áhersla á leiðbeiningaskyldu ásamt því að bjóða upp á stuðning og ráðgjöf í ýmsu formi.
Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „Við höfum alveg frá upphafi Covid-19 faraldursins lagt mikla áherslu á það að styðja við viðkvæma hópa á þessum skrýtnu tímum. Þessum aðgerðum sem við erum að boða núna er ætlað að veita mótvægi vegna þeirra áhrifa sem faraldurinn hefur á þá hópa sem eru viðkvæmastir í samfélaginu og hjálpa þeim að komast í gegnum erfiðasta hjallann.”