Hoppa yfir valmynd
11. febrúar 2022 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra ávarpaði alþjóðlega ráðstefnu um málefni hafsins

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ávarpaði í dag alþjóðlega ráðstefnu um málefni hafsins sem ber yfirskriftina One Ocean Summit. Ráðstefnan sem fram fer bæði rafrænt og í Brest í Frakklandi er haldin að frumkvæði Frakklands og í samvinnu við Sameinuðu þjóðirnar. Markmið hennar er að auka stuðning á alþjóðavettvangi við aðgerðir til að koma í veg fyrir mengun hafsins og tryggja að málefni hafsins verði hluti af sjálfbærnimarkmiðum SÞ.

Í ávarpi sínu, sem var í leiðtogahluta ráðstefnunnar að viðstöddum Emanuel Macron Frakklandsforseta, lagði forsætisráðherra áherslu á mikilvægi hafsins fyrir Ísland. Mikilvægt væri að berjast gegn plastmengun en Ísland hefði lagt sérstaka áherslu á það í formennskutíð sinni í Norðurskautsráðinu. Loftslagsbreytingar og súrnun sjávar væru sömuleiðis raunverulegt áhyggjuefni og sýndu vel hversu viðkvæm vistkerfin eru.

Forsætisráðherra lýsti stuðningi við gerð samnings SÞ um líffræðilegan fjölbreytileika í hafinu utan lögsögu ríkja en undirstrikaði að hann yrði að grundvallast á Hafréttarsáttmála SÞ og byggja á því góða regluverki sem þegar er til staðar. Ráðherra sagði að ólöglegar fiskveiðar um víða veröld yrði að stöðva og sömuleiðis skaðlegar niðurgreiðslur sem sýnt væri að hefðu neikvæð umhverfisáhrif. Loks hvatti forsætisráðherra til þess að mikilvægi sjávarfangs í grænni umbreytingu matvælaframleiðslu, yrði hluti af yfirlýsingu hafráðstefnu SÞ sem fram fer í Lissabonsíðar á þessu ári.

Ávarp forsætisráðherra

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið Sþ: 14 Líf í vatni

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta